27.05.1958
Neðri deild: 106. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hér hefur nýlega verið útbýtt brtt. á þskj. 698, fluttri af hv. 8. þm. Reykv. (SvG), og fjallar hún um breytingar á gildandi ákvæðum um greiðslu söluskatts af efni, vinnu og þjónustu, sem látin er í té af iðnaðarmönnum og iðnfyrirtækjum. Ég vil fara fáeinum orðum um fyrri lið till., a-liðinn, þar sem gert er ráð fyrir því, að efnivara, sem iðnaðarmenn og iðnfyrirtæki selja í sambandi við iðn sína, skuli verða undanþegin söluskatti.

Hér er hreyft við efni, sem verið hefur til athugunar hjá ríkisstj. nú um nokkurt skeið. Málavextir eru þeir, að gildandi reglur um innheimtu söluskatts koma misjafnt og óeðlilega niður á iðnfyrirtækjum, sem selja efni og þjónustu hvort í sínu lagi, og á þetta sérstaklega við um ýmis iðnaðarverkstæði, en þau eru söluskattskyld af verðmæti bæði vinnu og efnis. Ef hins vegar vinnukaupandi leggur efnið til, er iðnfyrirtækið aðeins söluskattskylt af þeirri vinnu, sem það hefur látið í té. Þannig geta hliðstæð iðnfyrirtæki hlotið ójafna samkeppnisaðstöðu eftir því, hvort þau selja efnið eða ekki, og hafa verið nokkur brögð að því, að menn hafi hagað viðskiptaháttum sínum með sérstökum hætti með hliðsjón af þessum reglum um söluskattinn, og er það vissulega óheppilegt.

Það hefur aldrei verið meining með þessum ákvæðum, að þau kæmu ekki jafnt niður. Það hefur að sjálfsögðu verið ætlunin, að lagaákvæðin hefðu sama gildi fyrir alla, sem við þau eiga að búa, og röskuðu í engu og gætu í engu raskað eðlilegu jafnrétti í samkeppni aðilanna. Komið hefur í ljós, að svo hefur orðið við framkvæmd málsins, og einmitt þetta efni hefur verið til sérstakrar athugunar hjá ríkisstjórninni undanfarnar vikur. Iðnaðarmálaráðuneytinu hefur borizt málaleitun frá helztu samtökum iðnaðarmanna hér í Reykjavík, þar sem bent er á þá annmarka, sem á framkvæmd málsins eru, og einmitt í framhaldi af þeirri málaleitun hefur málið verið í sérstakri athugun. En málið er flóknara en svo, að það verði leyst á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir. Ef þessi till. yrði samþ., þ.e.a.s. a-liður brtt., að undanþiggja alla efnivöru, sem iðnaðarmenn og iðnfyrirtæki selja í sambandi við iðn sína, þá yrði afleiðingin önnur, en sú að bæta þetta misrétti og miklu meiri, því að þá yrði einnig undanþegin efnivara, sem seld er í beinum framleiðslutengslum við þjónustu, svo sem á sér stað t.d. hjá klæðaverksmiðjum, sem selja tilbúin föt, svo sem á sér stað hjá sælgætisframleiðendum, kexframleiðendum, sápuframleiðendum og mörgum fleiri. Það hljóta allir að sjá, að í framkvæmd er ógerningur að undanþiggja efnið í klæðskerafötunum eða verksmiðjufötunum, undanskilja efnið í sápunni, undanskilja efnið í kexinu, efnið í sælgætinu, en hafa aðra kostnaðarliði framleiðslunnar eftir sem áður söluskattskylda, og það er einmitt þessi erfiðleiki, sem hefur gert það að verkum, að þeim, sem um þetta hafa fjallað í fjmrn. og iðnmrn., hefur sýnzt hér vera mikill vandi á ferðum.

Menn hafa fullkomlega opin augu fyrir því, að það misrétti, sem hefur skapazt milli verkstæðanna, milli hinna einstöku handverksmanna eftir því, hvernig þeir haga viðskiptum sínum, er óeðlilegt og hér þarf að ráða bót á. Undanfarið hefur tími ekki unnizt til að finna á þessu lausn, sem sanngjörn og eðlileg þætti, án þess þó að raska algerlega þeim tekjuöflunargrundvelli, sem þessi löggjöf hvílir á. Ég get sagt það, að þetta mál mun verða athugað í sumar, og ég vona, að á því finnist svo eðlileg og skynsamleg lausn, að hægt verði fyrir næsta þing að leggja fram breyt. á ákvæðunum um söluskatt, sem ráði bót á þessu misrétti.

Um seinni liðinn, b-liðinn, er það að segja, að þar er um að ræða eingöngu fjárhagsatriði, eingöngu spurning um það, hvort rýra eigi þann tekjustofn, sem söluskatturinn er, eða ekki, og þessar efnisathugasemdir, sem ég hef gert, eiga því ekki við um hann. En samþykkt a-liðarins mundi í stað þess vanda, sem hann mundi leysa fyrir verkstæðin, skapa annan vanda jafnmikinn og jafnranglátan fyrir önnur iðnfyrirtæki, og þá er sannarlega ekki vel gert, ef með því að leysa einn vanda er annar skapaður og hann jafnvel enn stærri.