09.02.1959
Neðri deild: 73. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

101. mál, selja jörðina Bjarnastaði í Unadal

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Við þm. Skagf. flytjum hér á þskj. 236 þetta litla frv., en það er um það, að ríkisstj. sé heimilt að selja Hofshreppi í Skagafjarðarsýslu eyðijörðina Bjarnastaði í Unadal fyrir það verð, sem dómkvaddir menn meta. í grg. er þess getið, að hreppsnefnd Hofshrepps hafi óskað eftir því við okkur þm. Skagafjarðarkjördæmis, að við flyttum frv. um þetta efni, og þarf í raun og veru litlu við þetta að bæta. Við þingmennirnir teljum, að það sé algerlega rétt og sjálfsagt, að Hofshreppur fái eignarhald á þessari eyðijörð. Hún hefur verið í eyði frá því 1948, eins og fram kemur í bréfi hreppsnefndarinnar, og það eru ekki líkur til þess, að hún verði tekin í byggð fyrst um sinn. Þetta er dalur, sem liggur upp í fjöllin beint upp af Hofsós, og fyrst verður í öllu falli að koma þar á miklu betra vegasambandi, en enn er orðið, áður en jarðirnar þar uppi í dalnum byggist að nýju. Og í öðru lagi, , þótt svo væri, að þess væri ekki mjög langt að bíða, að hægt væri að byggja þessa jörð að nýju, þá er engum aðila betur til þess trúandi ,en hreppsnefnd Hofshrepps að sjá um slíkt, og hefur hún vitanlega áhuga á því, að svo geti orðið. Þannig er háttað þarna, að tvær jarðir í nágrenni, litlu neðar, geta haft nokkrar nytjar jarðarinnar. Það er tún þar frá eldri tíð, sem þær geta fengið nokkurn heyskap frá. En hreppsnefnd Hofshrepps þarf nauðsynlega að hafa umráð á slíku og geta miðlað því innan hreppsins.

Þess skal getið, að jörð þessi er í opinberri eign. Hún er í eign jarðakaupasjóðs ríkisins, en við flm. frv. erum sammála hreppsnefnd Hofshrepps um, að það sé eðlilegast, að umráð jarðarinnar fari nú í hendur hreppsnefndarinnar í Hofshreppi, hún hafi umráð yfir henni. Og ég veit það vel af náinni kynningu við hreppsnefndina, að hún er mjög ákveðin í því, að strax og ástæður leyfa, verði reynt að koma upp byggð á þessari jörð, sem var í fyrri tíð og það ekki fyrir mjög löngu talin tiltölulega góð jörð, en er nú komin út úr byggðinni vegna vöntunar á vegasambandi og öðrum slíkum hlutum.

Ég vildi því leyfa mér að óska þess, að hv. Nd. vildi fallast á þær röksemdir, sem við þm. Skagf. færum í þessu máli, og vildi samþykkja það, að frv. þetta yrði samþykkt. Ég vil svo leyfa mér að óska þess að, að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. landbn.