24.04.1959
Neðri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og ég gat um í dag í mínni ræðu, sem að vísu var sagt um hér áðan að hefði bæði verið stutt og léleg og stóð þó þrjú kortér, sem hingað til hefur verið talinn sæmilegur ræðutími, er þetta mál svo rætt og íhugað, að ekki var við því að búast, að mikið nýtt kæmi fram í umr., enda hygg ég, að svo sé, að sjaldan hafi verið haldnar fleiri ræður með jafnlitlu efni eins og gert hefur verið af andstæðingum þessa máls hér í dag. Svo er að vísu að heyra sem þeir kunni því illa, að aðrir hafi ekki talað. Það geta ekki margir talað í einu, og mér hefur heyrzt straumurinn ganga látlaust, og ekki hefði betur þótt fara, ef við hefðum varnað andstæðingunum máls. Það hefur einmitt á þinglegan hátt verið haldið hér uppi umræðum um málið. Það var strax við 1. umr. ýtarlega gerð grein fyrir þessu frv. í útvarpsumræðum, og það var eftirtektarvert, að þá var undan því kvartað af andstæðingum málsins, að útvarpsumræða færi fram, og þótti vera nokkurt fljótræði. Þá var ekki svo, að stuðningsmenn málsins væru að draga sig í skuggann, feimnir við að flytja sitt mál frammi fyrir alþjóð, heldur voru það andstæðingarnir, sem vildu ekki una því, að málið væri reifað, svo að heyrðist inn á hvert heimili.

Það hefur verið vitnað í ummæli manna hér áður fyrr og sagt, að þau kæmu ekki öll heim við það, sem nú er sagt. Það er rétt, að viðhorf manna í þessu hefur breytzt með eðlilegum hætti vegna þeirrar gerbreytingar, sem orðið hefur á byggð landsins. Það var óumflýjanlegt, að þau úrræði, sem gátu dugað, meðan fólksfjöldinn var öðruvísi búsettur á landinu en nú, dugi ekki lengur. En það er svo, að menn hafa skipt um skoðun á skemmri tíma , en 17 árum. Það þarf ekki lengra að fara en einn mánuð aftur í tímann, þegar hv. Framsfl. hélt sitt flokksþing og gerði í málinu ákveðna samþykkt. Við sjáum, að nú, þegar hv. framsóknarmenn koma með sínar till. að þessu sinni, þá brjóta þær í verulegum atriðum gegn því, sem samþykkt var á þeirra flokksþingi, og jafnvel tala þeir sumir nú beinlínis á móti sínum eigin till., eins og hv. þm. V-Húnv., sem fór mjög háðulegum orðum um uppbótarþingmennina, sem að vísu voru samþykktir á sínum tíma af hans flokki, og nú leggja hv. framsóknarmenn til, að uppbótarþingmönnunum sé haldið, þvert ofan í það, sem samþykkt var á þeirra flokksþingi fyrir rúmum mánuði, og þvert ofan í þeirra eigin ræður hér í dag, sem eins og ég vitnaði til þessa hv. þm. að verulegu leyti eyddi sínum tíma í að sanna, þvílíkir skaðræðisgripir uppbótarþingmennirnir væru.

Hv. þm. Mýr. (HS) reyndi að færa rök að því, að ekki mætti skipta Reykjavík niður í einmenningskjördæmi, vegna þess að hann vildi, að héruðin hefðu sína sérstöku þingmenn, og þeim mætti ekki skipta niður. En ég spyr: Hvað var það, sem fólst í tillögum flokksþings Framsóknar um miðjan marz, þegar talað var um, að skipta ætti landinu utan Reykjavíkur og stærstu kaupstaða niður í einmenningskjördæmi? Var þá ekki ætlunin sú, að tvímenningskjördæmunum, sem nú eru, væri skipt niður, eða var ætlunin hin, að þau ættu að missa annan þingmanninn án þess að fá nokkuð í staðinn, eins og raunar hv. 2. þm. Rang. var að víkja að í sinni ræðu? En ekki hafa þeir borið fram till. um það. Nei, þvert á móti ganga þeir nú á móti því, sem á flokksþinginu var ákveðið, og vilja halda hlutfallskosningum í tvímenningskjördæmum, þeim hlutfallskosningum, sem þeir hafa svívirt mest af öllu.

En varðandi það, að hvert sýslufélag og sveitarfélag, sem er sjálfstæð fjárhagsleg heild, eigi að hafa sinn þm., þá fer því fjarri, að því sé fylgt í tillögum þessara manna nú, þó að hv. þm. Mýr. tali svo sem það séu þeirra tillögur. Það þarf ekki annað en að líta t.d. á það, að ekki er ætlað, að Húsavík fái sérstakan þingmann, ekki Sauðárkrókskaupstaður, ekki Neskaupstaður, svo að ekki sé talað um Bolungavík eða eitt af gömlum, sérstökum sýslufélögum landsins, Austur-Barðastrandarsýslu. Sannleikurinn er sá, að þessar till., sem þeir gera, brjóta í verulegum atriðum á móti þeim meginþáttum, sem þeir vilja þó halda fram. Það er engin heilleg hugsun, sem fram kemur, heldur alger hentistefna, miðuð við það, að Framsfl. haldi óeðlilega mörgum þm. og jafnvel í þeim kjördæmum, sem nú á að bæta við, fái hann enn nýja þingmenn, svo að hlutfallið á milli flokka raskist enn verulega frá því, sem verið hefur.

Þetta eru þau auðsæju sannindi, sem við blasa í málinu. Og ástæðan til þess, að ekki má skipta upp Reykjavík, er engan veginn sú, sem hv. þm. Mýr. nú ber fram, heldur flokkslegir hagsmunir Framsóknar. Þeir óttast, að ef Reykjavík sé skipt upp, þá sé útilokað, að Framsókn fái nokkurn þingmann hér, sem þeir ætla aftur á móti að vinna, ef þingmenn verða hér 12, eins og þeir hafa von um að geta unnið annan þm. á Akureyri, ef þar er hlutfallskosning. Þarna kemur fram, að þeirra tillögur og þeirra rök stangast gersamlega.

Ég vil leggja áherzlu á það, að ef Framsfl. hefði verið fáanlegur til þess að leita samninga um málefnalega lausn þessa máls, þá hefur enginn flokkur haft betra færi á að koma skoðunum sínum fram, en einmitt þessi flokkur. Hann var í mörg ár í samvinnu við okkur sjálfstæðismenn. Við vorum þá ýmsir, sem vildum semja um að skipta landinu í einmenningskjördæmi. Við bárum fram till. um það í stjórnarskrárnefnd. Okkar landsfundur 1953 samþykkti, að heimilt væri að semja hvort heldur um, að landið yrði allt — öllu skipt í einmenningskjördæmi, eða nokkur stór kjördæmi. Framsfl. var þá ekki til viðræðu um lausn málsins á hvorugum grundvellinum.

Síðan var gerð tilraun eða átti að gera tilraun með myndun fyrrv. hæstv. ríkisstj. Þá ætluðu stuðningsflokkar hennar að víkja sjálfstæðismönnum til hliðar í þessu efni eins og öðrum og reyna að ná samningum sin á milli. Við heyrðum skýrslur aðila um þetta í útvarpsumræðunum á dögunum, þar sem bersýnilega kom fram, að þarna strandaði enn sem fyrr á Framsfl., að hann var ófáanlegur til þess að gera nokkra samninga, sem gætu leitt til raunhæfrar lausnar. Hans áhugamál er það eitt að draga málið á langinn, að finna ný og ný úrræði til þess að koma í veg fyrir, að nokkur samþykkt til umbóta sé gerð.

Með rökst. dagskránni, sem nú er lögð fram, er m.a. vikið að því, að stjórnarskrárnefnd eigi að taka til athugunar, að kvatt sé saman sérstakt stjórnlagaþing. Um þetta liggur fyrir ákveðin till. frá hinum ágæta talsmanni Framsfl. í þeirri stjórnarskrárnefnd, hv. þm. S-Þ., Karli Kristjánssyni. Hann vildi, að stjórnarskrárnefndin hætti störfum og bæri fram þetta stutta, einfalda frv. um, að stjórnarskrárbreytingin yrði sú ein, að stjórnlagaþing yrði saman kvatt. Því í ósköpunum hefur Framsfl. aldrei á tímabilinu frá 1953 sjálfur borið fram þessa til lögu hér á Alþingi? Af hverju leggur hann ekki nú til, að breyt. sé gerð á þennan veg? Það þarf enga nefnd frekar til þess að athuga það. Ef flokknum er þetta alvara, þá hefur hann það vitanlega í hendi sér að flytja um þetta till.

Á sama veg er það, þegar þessir hv. þingmenn hafa sumir í dag verið að tala um, að það væri verið að svíkjast aftan að kjósendum í þessu máli, við síðustu kosningar hefðu menn ekki verið kosnir til þess að samþykkja slíka stjórnarskrárbreytingu. Eftir landslögum á að rjúfa þing, strax og búið er að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir, ef það nær samþykki, og þá er málið borið undir kjósendur á þann veg, sem stjórnarskrárgjafinn ætlast til, þannig að kjósendur fái færi á að marka sína afstöðu, sitt val á frambjóðendum í sumar með afstöðu til þessa máls og annarra, sem kjósendur þá telja máli skipta. Hitt er svo allt annað, að engir eiga frekar þátt í, að málið er nú borið fram, heldur en einmitt hv. framsóknarmenn, sem beittu sér fyrir Hræðslubandalaginu við síðustu kosningar. Það var alveg ljóst, að það sérstaka bandalag hlaut að leiða til þess, að stjórnarskrármálið allt yrði tekið upp.

Við höfum heyrt í umræðunum, hvernig hv. framsóknarmenn senda nú sínum gömlu bandamönnum tóninn yfir því, að þeir hafi ekki haldið út eins lengi í bandalaginu og framsóknarmenn vildu. En það hefur komið fram glögglega af hálfu Alþfl., m.a. í grein í Alþýðublaðinu — hygg ég — 14. marz s.l., að vitanlega var það útilokað fyrir Alþfl. að eiga lengur þingsetu undir slíku bandalagi, jafnhæpnu og sannast sagt lítt löglegu og Hræðslubandalagið var í framkvæmd, og einmitt sá húsbóndaréttur, sem Framsfl. af þessu tilefni tók sér yfir Alþfl. og átti verulegan þátt í, að upp úr slitnaði á milli þessara flokka, gerði það auðvitað enn sjálfsagðara, að gangskör yrði gerð að stjórnarskrárbreytingu nú, auk þess sem það var ljóst af afstöðu Sjálfstfl. og Alþb. varðandi úthlutun uppbótarsæta í sambandi við Hræðslubandalagið, að þeir hlutu hvor um sig og báðir saman að leggja á það megináherzlu, að slíkt gæti ekki komið fyrir aftur og fundin yrði sú skipan, sem gerði það útilokað, að í sama ævintýrið yrði lagt á ný.

Það er þess vegna óumdeilanlegt, að Framsfl. getur fyrst og fremst þakkað sjálfum sér, að málið er nú tekið upp með þeim hætti, sem gert er. Hann hefur átt þess allan kost að semja við aðra flokka um málið, ef hann hafði nokkrar raunhæfar till. fram að flytja, og hann gerði þetta Hræðslubandalag, sem hlaut að leiða til þess, að mjög hörðnuðu kröfurnar um, að málið allt yrði tekið upp til heildarendurskoðunar, sem raun ber vitni. Það er út af fyrir sig skiljanlegt, að hv. framsóknarmenn sjái nú eftir á, að þarna hafi verið öðruvísi á málum haldið af þeim, heldur en þeir hefðu óskað. Það er eðlilegt, að þeir uni illa þeirri einangrun, sem þeir eru komnir í. En það er þeirra eigin framkoma og frammistaða, sem þar er öllu valdandi. Þeir eru enn í dag óviðmælandi um nokkra raunhæfa lausn á vandamálinu. Í stað þess að reyna að draga úr þeim misfellum, sem allir viðurkenna nú orðið að á kosningafyrirkomulaginu séu, þá gera þeir aldrei neinar till. um neitt annað en það, sem á að skjóta fleyg í málið, koma í veg fyrir, að það nái samþykki. Það er þess vegna engin furða, þó að þess hafi mjög gætt á þeirra fundum, síðast nú á fundi, sem hv. þm. S-Þ. (KK) hélt á Laugum um páskaleytið, að gagnrýni komi fram frá jafnvel þeirra eigin fylgismönnum um það, að þessi neikvæða afstaða flokksins, þetta nart og nagg á móti raunhæfum till., án þess að nokkuð uppbyggilegt væri borið fram í staðinn, það eykur á þeirra vonleysi og einangrun í stað þess að bjarga þeim út úr því feigðarflani, sem þeir hafa lent í.

Því hefur verið haldið fram, að nokkur lítil kjördæmi væru ekki líkleg til þess að fá þingmenn nú eftir þessari nýju skipan. Kjördæmin sameinast og hin gamla skipting á þá ekki lengur við. En það voru mjög góð dæmi og upplýsandi, sem hv. þm. V-Húnv. (SkG) tók hér áðan, þegar hann vitnaði í tvö kjördæmi, Vestur-Skaftafellssýslu og Norður-Þingeyjarsýslu. Við höfum hér í deildinni á bak við mig hv. 2. þm. Rang. (SvbH), sem einmitt hefur verið þm. Vestur-Skaftfellinga. Hann hefur flutzt á milli kjördæma í sínu nágrenni, og dettur nokkrum í hug, ef hann á annað borð vill vera í kjöri, að hans flokkur neiti honum um það að vera í kjöri áfram, annar eins þingskörungur og hefðarmaður og hann er? Og dettur nokkrum í hug, að hann mundi þá ekki áfram láta sér jafnannt um sína fæðingarsveit, Vestur-Skaftafellssýslu, eins og hann gerði, meðan hann var þeirra þm., og eins og hann hefur gert með atkvæði sínu, síðan hann varð þm. Rangæinga? Vitanlega mundi þessi þm. verða nákvæmlega jafngóður fulltrúi þessara héraða og hann hefur verið. Og kemur nokkrum manni til hugar, að á væntanlegum lista í Norðurlandskjördæmi eysta mundi Framsfl. láta mann eins og Gísla Guðmundsson vera svo neðarlega, að hann væri ekki víss um kosningu? Það gera sér allir ljóst, að sá maður, sem er einn af helztu foringjum framsóknarmanna, jafnvel svo vitur, að þeir líkja honum sjálfir við Njál hinn vitra á Bergþórshvoli, slíkur höfuðskörungur mundi ekki verða látinn sitja heima einungis vegna þess, að hann sé úr fámennu byggðarlagi. Nei, það er maðurinn sjálfur, það er frambjóðandinn, sem með sínu ágæti veldur því, að hann er auðvitað sjálfsagður í öruggt sæti á lista hjá sínum flokki eftir sem áður.

Í kjördæmi hv. þm. V-Húnv, er ekki sérlega fjölmennt. En illa trúi ég því, þó að hann jafnist ekki á við þá tvo þingskörunga, sem ég hef vitnað í hér, að honum verði launuð svo dygg þjónusta, að Framsfl. láti hann ekki áfram vera á lista.

Út yfir tekur þó, þegar hv. framsóknarmenn koma hér og tala um flokksvald og láta eins og það eigi nú að fara að magna eitthvert flokksvald, sem sé verið að troða upp á almenning, og hv. þm. V-Húnv. talaði mikið um hræsni í öðru sambandi. Það þarf ekki að viðhafa það orð í þessu sambandi, það er of gegnsætt, við hvað er átt, þegar einmitt Framsfl. er að býsnast yfir flokksvaldi annarra í sömu umræðunum og þeir eru að hæla sér af því að hafa lánað Alþfl. síðast mörg þúsund kjósendur. Hvenær hefur flokksvald í allri sinni nekt komið jafnóhikað og ljóst fram sem einmitt í síðustu kosningum, þegar Framsfl. tókst að lána Alþfl. verulegan hluta af sínu fylgi? Og Hermann Jónasson hefur beinlínis hælt sér af því, að það hafi ekki verið framsóknarmenn, sem brugðust þá, — nei, það voru aðrir, sem brugðust, og það voru Alþýðuflokkskjósendurnir. Hermann segir, að þeir hafi ekki skilað sér eins vel og framsóknarmennirnir gerðu. Þáð var vegna þess, að Alþfl. hafði ekki þennan sama ráðstöfunarrétt á sínu fylgi og Framsókn. Flokksviðjar Framsóknar eru svo miklar, að slíks eru engin dæmi fyrr eða síðar í stjórnmálasögu Íslands.

Við könnumst öll við ummæli þáverandi hv. forsrh., Hermanns Jónassonar, sem fór norður til Hólmavíkur og hældi sér af því þar, að það væri búið að gera verulegar ráðstafanir til þess að víkja helmingi þjóðarinnar til hliðar, þeim, sem ekki voru í þáverandi stjórnarflokkum. Við könnumst líka ósköp vel við, hvernig að var farið, sérstaklega á þingunum 1934–37, þegar þingsköpum var breytt til þess að gera flokkavaldið á Alþingi enn harðara og þegar þeirri reglu var staðfastlega fylgt undir forustu þáverandi hv. fjmrh., núverandi 1. þm. S-M. (EystJ), að kjördæmi, sem höfðu verið svo djörf að senda andstæðinga Framsfl. á þing, voru yfirleitt afskorin því að fá fé til nauðsynlegra framkvæmda í sínum byggðarlögum.

Hér er fyrst og fremst og eingöngu um að ræða, hvort Framsfl. eigi að haldast uppi að misnota sér úrelta skipan með þeim hætti, sem hann hefur gert að undanförnu. Það er alveg víst, að yfirgnæfandi meiri hluti landsfólksins beinlínis krefst þess, að á þessu verði gerð breyting, að þó að því fari fjarri, að menn vilji til fulls jafna hið staðarlega misrétti, sem á sér stað varðandi kjör þingmanna, því að engum kemur til hugar, að Reykjavík eigi að fá neitt líkt því þann þingmannafjölda, sem henni ber eftir mannfjölda hér, þá er ekki þar ofan á hægt að bæta því, að kosningafyrirkomulagið sé með tvennum gersamlega ólíkum hætti í landinu, þar sem Framsfl. hefur meiri hluta og þar sem hann hefur minni hluta. En það er þetta, sem nú orðið er eina deiluefnið í þessu máli.

Að tala um það, að það eigi að svipta héruðin sínum fulltrúum og slíta sambandið á milli kjósenda og þm., — það vita allir, að þetta fær ekki með neinu móti staðizt. Það er nú orðið fljótlegra, að fara um þessi nýju svokölluðu stóru kjördæmi, heldur en var t.d. að fara um Norður-Þingeyjarsýslu eina fyrir 30 árum, þannig að það tekur minni tíma og er hægara fyrir þm. nú að ferðast um allt héraðið frá Eyjafirði austur á Langanes heldur en þá var að fara frá Langanesi í Kelduhverfi.

Hér er orðin sú meginbreyting á, að það er óumflýjanlegt, að það hafi mikil áhrif á skipum landsmálanna. Einmitt fólkið sjálft hefur með sívaxandi samtökum sín á milli verið að leita eftir stærri heildum til þess að koma áhugamálum sínum fram, af því að sundrungin hefur verið því fjötur um fót, af því að þær miklu framkvæmdir, sem nú orðið þarf að gera, til þess að lífvænlegt verði úti um byggðir landsins, eru hverju einu litlu héraði ofvaxnar. Það tjáir ekki til lengdar að ætla að leysa öll vandamál byggðanna t.d. með öðru eins fálmi og hv. 1. þm. S-M. réð að gert var með Grímsárvirkjuninni í Suður-Múlasýslu. Þarna þurfti vitanlega stærra átak, samtök alls Austurlands, en ekki eingöngu þröng hreppasjónarmið í Suður-Múlasýslu. Þannig er með nýtízku vegi, með rafmagn og annað. Jafnvel með skólabyggingar er það orðið svo, að það er nánast ómögulegt fyrir lítil sýslufélög, sbr. t.d. Vestur-Ísafjarðarsýslu, að standa undir skóla að sínum hluta eins og héraðsskólanum að Núpi. Laugarvatnsskóli er skóli byggða á Suðurlandi, en ekki Árnessýslu einnar. Það fer meira og meira í það horf, að heimavistarskólar, jafnvel barna, eru byggðir fyrir heil héruð, en ekki einstaka hreppa, héruð, sem er algerlega út í bláinn að binda við gamla sýsluskiptingu, heldur verður að fara eftir því, hvað nú hentar.

Við skulum taka kaupfélögin, sem þessir hv. þm. telja sig vera mikla forsvarsmenn fyrir. Þær verzlanir og viðskiptahéruð eru á engan veginn tengd hinni gömlu sýsluskiptingu, heldur fer þetta eftir því, sem bezt á við, samgöngum og byggðum nú í dag. Í gamla daga var staður eins og Borðeyri viðskiptamiðstöð fyrir ekki aðeins Strandir, mikinn hluta Húnavatnssýslu og Dali, heldur líka stóran hluta af Borgarfirði. Nú orðið er Borðeyri orðin gersamlega úrelt sem verzlunarstaður og hefur ekki nein svipuð viðskipti sem var um það bil, sem núverandi kjördæmaskipun fyrst var lögleidd hér á landi. Það eru komnir nýir þjóðfélagshættir, sem krefjast þess, að litið sé á málin frá hærra sjónarhól og samtök séu mannfleiri og sterkari en þau geta verið, ef halda á sér við þau gömlu takmörk, sem konungarnir settu, þegar þeir voru að reyna að finna út, hvernig helzt væri hægt að pína skatt undan nöglum fátæks almúga á Íslandi.

Varðandi málflutninginn að öðru leyti, sem við höfum hér þurft að hlusta á í dag, þá hefur að vísu komið hér sitthvað merkilegt fram. Það er t.d. alveg vist, að ræða hv. þm. V-Ísf. verður talin mjög merkilegt plagg í þingsögunni. Það verður vitnað til hennar lengi sem eins skringilegasta málflutnings, sem nokkru sinni hefur heyrzt á Alþingi Íslendinga. Jafnvel þó að ég væri að lesa dagblað um leið, þá heyrði ég svo mikið af henni, að það er víst, að hún mun verða í minnum höfð af fleirum en mér. En þó að við sleppum nú því, þá heyrðum við núna eftir kvöldmatinn hv. þm. V-Húnv. (SkG) tala um það, að við hefðum sýnt bróðurhöndina með því að lækka um 10 millj. framlögin til raforkuveitnanna. Hvað er hið sanna í þessu? Það liggur fyrir, að það á ekki að minnka þessar framkvæmdir sem einum eyri nemur. Það eina, sem þarna var gert, var, að til frambúðarframkvæmda var ákveðið að taka lán, en borga ekki allt af sköttum, sem menn hafa ærna nú þegar, ekki sízt vegna hins hrapallega fráskilnaðar, þegar hv. 1. þm. S-M. skildi við ríkissjóðinn. Með sinni frammistöðu í fjárstjórn gerði hann óumflýjanlegt, að reynt væri að breyta til og taka upp aðra stjórnarhætti. Hér er um að ræða framkvæmdir, sem fullkominn vilji og ásetningur er um, að halda eigi áfram af fullum krafti, og talið er öruggt, að hægt sé að fá lán til að greiða kostnaðinn, sem þessu nemur. Svo er — af hálfu mannanna, sem hafa átt mestan þátt í þeim skyssum, sem í þessum efnum hafa verið gerðar, sbr. Grímsárvirkjunina og annað fleira — talað um þetta sem fjandskaparmál. Á fundi, þar sem ég var staddur í dag, var lögð fram grg. um það, að hægt væri að spara á raforkuáætluninni sem svarar 110–120 millj. kr. og þó koma almenningi að meira gagni og betra, en ráðgert hafði verið af þeim smásmuglegu stjórnendum, sem hér réðu málum áður.

Ef menn hafa auga fyrir því, að stórt þarf að líta á hluti og leysa hvern vanda eftir því, sem hentar bezt, en ekki eftir þeim sjónarmiðum, sem hér hafa ríkt of lengi, þá er hægt að gera meira fyrir miklu minna fé, eins og mun gleggst sannast í sambandi við raforkuáætlunina, og það verður mjög að víta þann málflutning, þegar hv. þm. V-Húnv. kemur og ásakar okkur um það, að verið sé að hætta við framkvæmdir, sem tryggt er að fé fæst til að gerðar séu, eins og áætlað hefur verið.

hv. þm. framsóknarmanna, sem talaði málefnalega hér í dag um þetta, eins og hans var von og vísa, hv. þm. A-Sk. (PÞ), hélt hér fróðlega ræðu, sem sitthvað mátti græða á, þó að það skipti ekki miklu máli í þessu sambandi, og það var ljóst, að hann hafði reynt að setja sig inn í þetta mál og vildi um það tala út frá rökum, en ekki tómum hégiljum. En þó var það mjög áberandi í hans ræðu, að hann skaut sér alveg undan að minnast á höfuðatriði málsins, svo að nokkru gagni væri, hvernig stendur á þeim mun, sem þessir hv. þm. vilja gera á kosningaaðferðinni í þéttbýlinu og þar, sem þeir sjálfir telja sig hafa mestar líkur til meiri hl.

Hv. 5. landsk. þm., Benedikt Gröndal, gat um það í sinni ræðu áðan, að skýring hv. þm. á kosningaaðferðinni í Vestur-Þýzkalandi, sem hv. þm. A-Sk. vildi telja sambærilega við það, sem hér er, sú skýring fær alls ekki staðizt, vegna þess að þar kjósa allir landsmenn með sams konar hætti, en hér er hátturinn sá, að í Reykjavík er þannig farið að, að meiri hl. nýtur allt annars og miklu minni réttar, en hann nýtur nokkurs staðar annars á landinu og heldur en þessir hv. þm. vilja, að áfram verði. Og það er síður en svo, að það sé nokkur nýjung, að á þetta sé bent, að sams konar kosningaaðferð eigi og þurfi að vera hvarvetna á landinu. Í öllum þeim afskiptum, sem ég hef haft af þessu máli, hef ég bent á þetta sem eitt af höfuðatriðunum, sem ekki mætti með nokkru móti fram hjá ganga, enda sjá það allir, þegar þeir skoða málið, að það er ekki vit í öðru, en að hafa sams konar aðferð á öllu landinu. Eins og fram kemur í nál. okkar og ég gat um í dag, má endalaust deila um það fræðilega séð, hvort heppilegri séu meirihlutakosningar eða hlutfallskosningar, en önnur hvor reglan verður að gilda á öllu landinu.

Ég sé það, að hv. þm. V-Húnv. hlær og hristir sitt lokkafagra höfuð. Nú, það er ekki nein nýjung, að honum gangi erfitt að sannfærast um hið rétta. Það er það, sem við höfum séð hér undanfarna áratugi á Alþingi, og það væri merkilegt, ef hann breytti til hér allt í einu í kvöld.

Þetta mál hefur mikið verið rætt undanfarin ár og þó aldrei meira en í vetur. Það hefur verið þaulhugsað af öllum, sem á annað borð láta stjórnmál til sín taka, og það er enginn vafl á því, að nú eru menn að lokum komnir að þeirri lausn, sem ekki tekur neinn rétt af neinum og allra sízt af fólkinu í strjálbýlinu, þess aðstaða verður sterkari í stað þess að vera veikari. Ef hér er á einhvern hallað, þá er sannast bezt að segja, að þá er það fólkið í þéttbýlinu hér í Reykjavík og nágrenni Reykjavíkur. Það er ómótmælanlegt, að það á að hafa mun minni rétt en aðrir. Það væri þess vegna skiljanlegt, að héðan kæmi andstaða gegn þessu frv., vegna þess að menn krefðust algers jafnræðis, því að við skulum ekki halda, að Íslendingar séu svo sundurgreindir, að fólkið verði lakari Íslendingar eða menningu okkar og framtíð hættulegri, þó að það flytjist til Reykjavíkur og búi hér, heldur en þótt það búi úti í strjálbýlinu. Ég halla ekki á strjálbýlið og geri ekki lítið úr þess hlut, þó að ég segi, að hér þarf hver að styðja annan. Strjálbýlinu vegnar þá bezt, ef fólkinu í þéttbýlinu vegnar vel, og okkur hér vegnar ekki vel, nema því aðeins að blómleg byggð geti þroskazt úti um allt Ísland, og einmitt í skilningi þessa vilja menn hér sætta sig við að njóta að þessu leyti minni réttar, ef þó sú leiðrétting fæst, sem ráðgerð er, og ef sams konar kosningaaðferð er látin gilda um allt land, þannig að engum einum flokki sé ívilnað á kostnað allra annarra, eins og nú er gert.

Í mjög skynsamlegri grein, sem ungur búfræðingur austur á Stokkseyri birti ekki alls fyrir löngu, er vikið að því, að auðvitað hljóti valdið yfir málefnum þjóðarinnar að færast þangað og vera þar, sem fólksfjöldinn er mestur. Ef svo er gengið á hlut fjöldans, að hann telji sér algerlega misboðið, að sig eigi að setja til hliðar eða víkja til hliðar á þann veg, sem fyrrv. hæstv. forsrh., Hermann Jónasson, vildi gera við helming landsfólksins, þá er ósköp hætt við því, eins og kemur fram í þessari grein, að Alþingi Íslendinga hætti að vera úrslitaaðilinn í íslenzkum stjórnmálum, að þá verði það einhverjir aðrir aðilar, félagasamtök, sem hrifsi til sín það vald, sem löggjafarþinginu einu ber. Og við skulum ekki dylja okkur þess, að einmitt á hinum síðustu árum hefur ískyggilega sótt í þessa átt, að einhverjir aðrir aðilar hafa viljað taka til sín það vald, þau úrslitaráð yfir málefnum þjóðarinnar, sem Alþingi eitt á að hafa. Þetta hefur m. a. komið af því, að allir verða að játa, að Alþingi nú er og hefur ekki verið rétt mynd af þjóðarviljanum. Myndin hefur stórlega verið skekkt, ekki fyrst og fremst strjálbýlinu til hags, heldur fyrst og fremst tilteknum ævintýramönnum í hópi íslenzkra stjórnmálamanna, sem hafa stjórnað Framsfl. til hags. Og það er þessi skekking myndarinnar af þjóðarviljanum, sem hefur átt ríkan þátt í því, að Alþingi hefur verið og er enn í bráðri hættu um að missa úr höndum sér þau ráð yfir íslenzkum þjóðmálum, sem það verður að hafa og því ber að hafa, ef lýðræði á að vera hér í heiðri haft. Og það er ef til vill ekki sízt vegna þess, að með þessari breytingu verður hlutur Alþingis réttur með því að gera það á ný að réttri og sannri mynd þjóðarviljans, sem það er þjóðarnauðsyn, að þetta frv. nái samþykki.