27.04.1959
Neðri deild: 117. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það frv., sem liggur hér fyrir um breyt. á stjskr. lýðveldisins Íslands frá 17. júní 1944, er ekki stórt að sjá. Hið sama má í raun og veru um grg. þess frv. segja. Þar eru býsna lítil rök færð fram fyrir jafnstóru máli og er nú á ferðinni. En það undarlega skeði við 1. umr. þessa máls, að hv. flm. frv. voru einnig rökþrota, og má það undarlegt heita um jafnskelegga flokksforingja og þessir hv. þm. eru hver hjá sínum flokki og hver á sínu sviði. En í öllu sínu ráðaleysi gripu þessir hv. þm. til þess að breyta kjördæmaskipun landsins á þann veg, að þeir munu ekki sjálfir við una til lengdar, hvað þá landslýðurinn, sem vinnur að því að græða landið og afla fisks úr sjó.

Þegar hæstv. forsrh. tilkynnti landslýð á degi heilags Þorláks í vetur, að ríkisstj. ætlaði sér að koma á því, sem hann kallaði réttlátari skipan um stjórnmál landsins, með því að leggja niður öll núverandi kjördæmi að undanskilinni Reykjavík og taka upp fá og stór kjördæmi, þá fannst mér, eins og raunar mörgum öðrum, jólaboðskapur hæstv. ráðh. vera svartur líkt og það skammdegi, sem þá ríkti. — Það, að 4 hæstv. ráðherrar ásamt 4 hv. þm., eða öllum Alþfl., skyldu ætla sér jafnstóran hlut, var hreint undrunarefni. En skýringin kom nokkru seinna, því að segja má, að „ber sé hver að baki, nema sér bróður eigi“. Og þessi bróðir, sem ætlaði að hjálpa, var hvorki meira né minna, en Sjálfstfl. eða þm. Sjálfstfl. Og það var einmitt sá flokkurinn, sem hafði gefið hvað skýrust fyrirheit um það, að þennan hlut skyldi hann aldrei gera, og vitna ég þar til margumræddra ummæla í þessu efni hjá hv. þm. G-K. (ÓTh). Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þau ummæli hér, vegna þess að flestum landsmönnum eru þau orðin mjög vel kunn. Og mig undrar ekki, þótt hv. þm. G-K. væri rökþrota frammi fyrir alþjóð við 1. umr. þessa máls eftir að hafa snúizt í hring, eins og hann þegar hefur gert. En sá maður, sem skildi sinn flokk og víssi, þegar árið 1942, hvað Sjálfstfl. mundi gera, áður en langir tímar liðu, var hv. 4. þm. Reykv., sem þá var, Sigurður Kristjánsson. Hann skildi undirölduna, sem nú er komin upp á yfirborðið og skellur yfir landslýð af fullum þunga, um leið og sumri er heilsað. En enginn efast um það, að þessi kjördæmabreyting, sem nú skal gera, er spor, sem stigið er í áttina að því að gera landið að einu kjördæmi. Þetta er aðeins eitt skref í þá átt, enda er það þegar yfirlýstur vilji Alþfl. og a.m.k. sumra manna í Alþb. og einnig í Sjálfstfl., því að þá mun hinu fullkomna réttlæti náð að þeirra manna dómi, sem tala um réttlæti milli flokka. En þessir menn forðast jafnframt að tala um jafnrétti á milli fólksins, sem í landinu býr, að það hafi sömu þægindi við að búa, hvar sem það er.

Það virtist mörgum satt að segja hæstv. ríkisstj. snúa hlutunum við, þegar boðskapur ráðherrans var tilkynntur um jólaleytið, því að ýmsum fannst, að mörg önnur viðfangsefni væri nær að fást við, sem ríkisstj. ætti að sýna sinn myndugleik í að leysa, fremur en raun hefur á orðið. Hæstv. ríkisstj. hefur forðazt að gera nokkurn hlut að gagni varðandi fjármál landsins í framtiðinni, en aftur á móti einbeitt sínum verkum að kjördæmamálinu, því að fyrr er ekki að hennar dómi hægt að leysa efnahagsmálin. Það þarf nefnilega að kjósa tvisvar, áður en efnahagsmálin verða leyst. Enn fremur virtist ýmsum, að það þyrfti að vinna í bróðerni að því að leysa þá deilu, sem yfir stendur á milli Breta og Íslendinga út af landhelgisútfærslunni á s.l. vori.

Þótt ég efist ekki um það, að ef til vill hv. þm. Alþfl. og hæstv. ríkisstj. hefðu gjarnan viljað vinna að þessum málum, bæði lausn landhelgisdeilunnar og lausn efnahagsmálanna, þá var þess varla að vænta, að samstarfsflokkurinn, þ.e. Sjálfstfl., gæti kúvent svo snögglega frá því að vera óábyrgur flokkur í stjórnarandstöðu, því að hans aðaliðja var í stjórnarandstöðunni að níða allt niður, sem fyrrverandi ríkisstj. beitti sér fyrir, því að þeirri stjórn mátti ómögulega takast að glæða atvinnulífið til lands og sjávar eða veita ljósi og yl um dreifðar byggðir landsins. Sjálfstæðismennirnir unnu að því að eyðileggja þetta allt með kaupskrúfu umfram það, sem þjóðarbúið þoldi. En þó má segja, að út yfir hafi tekið blaðaskrif þeirra og að þau hafi gert þjóðinni meira ógagn, en allt annað, þar sem stefna þeirra í landhelgismálinu var mjög óljós, og gáfu þeir þar með öðrum þjóðum í skyn, að íslenzka þjóðin væri ekki samhent í þessu máli og mætti því bjóða henni sitt af hverju, enda væru það íslenzku kommúnistarnir, sem hefðu knúið þetta fram og upp úr þeim væri ekki mikið leggjandi.

Hafi nokkurn tíma nokkur stjórnmálaflokkur í landinu unnið lýðræðinu ógagn, þá er það Sjálfstfl. með þessum skrifum sínum og að gefa þetta til kynna út á við, vegna þess að Sjálfstfl. hafði áður nokkur völd og ekki sízt í utanríkismálum og því fyrst lengi vel tekinn trúanlegur, þótt nú sé að vísu þannig komið, að flokkurinn sé búinn að glata þessu trausti, er hann hafði áður á því sviði. En eftir að sjálfstæðismenn höfðu túlkað kommúnistana sem landráðamenn á undanförnum árum, lögðust þessir herrar það lágt á jólaföstunni í vetur að biðja þá fyrst endilega að fara í ríkisstj. með sér, en það tókst ekki. Síðan sátu þessir sömu aðilar að samningum við þá í marga mánuði til að fá þessa þjóðhollu Íslendinga til að breyta kjördæmaskipun landsins. Nú voru þessir landráðamenn að áliti hv. 1. þm. Reykv. og fleiri ágætismenn. Já, þeir voru einmitt mennirnir, sem var að treysta til að leggja niður öll gömlu kjördæmin og skapa um leið þann grundvöll, sem þarf til að koma á réttlátari skipan stjórnmála í landinu. En vitaskuld er þessi breyting gerð í og með til að auka flokkaskiptinguna í landinu og þar með færa kommúnista til meiri valda, en verið hefur hingað til.

Það er engum vafa bundið, að þessi kjördæmabreyting leiðir af sér innan fárra ára meiri glundroða í stjórnmálum hér á landi, en nokkru sinni hefur áður þekkzt. Ég tel nauðsynlegt að setja skorður við flokkafjölguninni, og það er nokkurn veginn tryggt með þeirri kjördæmaskipan, sem nú er í landinu, og þeirri, sem við leggjum til, framsóknarmenn. Þar tel ég vert að minna á orð, sem þáv. hv. þm. V-Ísf. mælti árið 1933, með leyfi forseta:

„Það er nauðsynlegt að setja flokkaviðureigninni viss takmörk, og ein af þeim takmörkunum er að láta almenning í smákjördæmunum ráða mestu um það, hverjir skipa þingflokkana. Einmenningskjördæmin eru ein höfuðtrygging þess, að jafnan séu valdir til þingstarfa menn, sem hafa aflað sér trausts og þekkingar á því, sem starfi þeirra viðkemur.“

Þannig mælti þjóðhöfðingi okkar Íslendinga, sem nú er.

Mér er nær að halda, að það frv., sem hér er til umræðu, sé miðað við það að auka á misrétti fólks, um leið og það jafnar á milli flokka, sem kallað er. Stjórnskipan landsins á að tryggja öllum þegnum þjóðfélagsins jafnrétti, en verði þetta frv. að lögum, eykst misræmið á milli landshlutanna frá því, sem nú er, því að sennilegt er, að þeir flokkar, sem þá hafa mestu ráðin, sjái ekki langt út yfir Faxaflóann, enda verður þá meiri hluti þingmanna úr Reykjavík og nánasta nágrenni. Það mun því knýja fólk til að hverfa frá gróandi jörð og aflasælum fiskimiðum úti á landi til Reykjanesskagans.

Bændastéttin er fámenn, það er satt, en hún hefur jafnan verið kjarni og kraftur í lífi og starfi íslenzku þjóðarinnar. Hún mun því ekki kasta sér í faðm óvinveittra stjórnmálaflokka og biðja þá um neinar ölmusur, heldur mun hún á öðrum vettvangi leita samstarfs við þá, sem vilja halda í heiðri réttindum og skyldum við þá, sem eru útverðir yztu nesja og innstu dala þessa lands. Þetta fólk mun takast í hendur og minna á tilverurétt sinn, ef það fær ekki að njóta ljóssins og ylsins frá afli fossanna án tillits til þess, hvar það er staðsett í landinu, og án tillits til þess, hverrar stjórnmálaskoðunar það er.

Um leið og einstaka kjördæmi eru lögð niður og önnur stærri mynduð, fara fámennustu héruðin verst út úr því, þar sem litlar líkur eru til, að þau hafi neina kunnuga fulltrúa á löggjafarþingi. Það leiðir því af sjálfu sér, að þau verða afskipt með fjármagn og því hættara við að fara í auðn, en ella.

Vert er að hafa í huga, að íslenzku þjóðinni hefur fjölgað mjög ört hin síðari ár, og það er siðferðileg skylda okkar að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir, svo að nægjanleg atvinna haldist og allir njóti gæða landsins, jafnframt því sem við tryggjum notkun alls landsins og fiskimiðanna umhverfis það. Því skiptir ekki höfuðmáli íbúatala einstakra kjördæma eða einstakra landshluta, heldur hitt, að afnot landsins séu örugg og að þeim búið á skynsamlegan hátt. Ég hef aldrei heyrt, þó að talað sé um, að kjósendur í fámennum kjördæmum hafi meiri rétt, með sínu atkvæði, en í fjölmennari kjördæmum, að það fólk hafi flutt búferlum af þeim ástæðum til að öðlast þessi miklu réttindi, t.d. frá Reykjavík og við skulum segja vestur í Dali eða eitthvað annað til þess að öðlast þessi miklu réttindi. Ég hef aldrei heyrt talað um, að það hafi álitið, að fólki þar vegnaði miklu betur, á allan hátt, vegna sinnar séraðstöðu um kosningarrétt. En ég veit aftur á móti og þekki mýmörg dæmi þess, að hið gagnstæða hefur skeð og það í mjög stórum stíl á undanförnum áratugum. Fólkið hefur farið frá þessum miklu réttindum, sem menn sjá ofsjónum yfir, til fjölmennari staðanna, þar sem atkvæði þess eru talin vega minna á vogarskálinni í Alþingi en hinna, sem eru frá dreifðu byggðunum. Það gefur líka auga leið, að fjölmennari staðirnir hafa margfalda möguleika á við fámenn byggðarlög á margvíslegan hátt og geta því sameinazt um alls konar lífsþægindi, sem hinir eru á allan hátt algerlega útilokaðir frá. Og verði kosningarréttur manna alls staðar jafn hér á landi, þá veldur það byltingu í lifnaðarháttum þjóðarinnar.

Sú var tíðin, að þm. Sjálfstfl, viðurkenndu rétt dreifbýlisins, og vil ég — með leyfi forseta — minna á ummæli Jóns heitins Þorlákssonar, er hann mælti árið 1931:

„Landshagir eru svo víða hér á landi, að sum kjördæmi hljóta að verða miklu fjölmennari en önnur, og mér finnst mannfleiri kjördæmin ekki hafa yfir neinu að kvarta.

Ég álít rétt að tryggja það, að fámennari, fjarlægari og afskekktari landshlutar séu ekki sviptir réttinum til að senda sína sérstöku fulltrúa á Alþingi, því að þeir þurfa að eiga þar hver sinn fulltrúa til að tala máli sínu á þingi sérstaklega.“

Nei, sjálfstæðismenn mega gjarnan hugleiða sín fyrri ummæli um kjördæmaskipan landsins, og það veit ég, að hinn almenni borgari gerir, hvar í flokki sem hann stendur, áður en hann gengur að kosningaborðinu í vor.

Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma heyrt þær skoðanir úti í einmenningskjördæmunum, að fólk, sem tilheyrði ekki sömu stjórnmálaskoðun og þm. viðkomandi kjördæmis, héldi því fram, að það hefði alls engan þm. Þessar skoðanir eru því algerlega út í hött. Vitanlega hefur fólkið þm., þótt hann sé annarrar skoðunar í stjórnmálum. l;g tel víst, að t.d. þm. A-Húnv. sé talinn það alveg eins af þeim Húnvetningum, sem kjósa hann ekki, eins og af hinum Húnvetningunum, sem ljá honum fylgi sitt. Hið sama má segja um þm. N-Þ. og yfirleitt alla þm. Fólkið skoðar þá sem sína þm. án tillits til þess, hvort þeir eru sömu skoðunar í stjórnmálum eða ekki, enda er það vitað mál, að flestir stjórnmálaflokkar landsins eða ég hygg allir núverandi stjórnmálaflokkar, að kannske undanskildum einum, sem til eru í þessu landi, hafa málsvara sinnar skoðunar á Alþingi. Og þótt þessir málsvarar af ýmsum ástæðum og þeim eðlilegum skiptist á milli einstakra héraða og flokka, þá er aldrei hægt að fyrirbyggja slíkt. Og það verður aldrei gert, — það verður aldrei fyrirbyggt, á meðan skoðanafrelsi ríkir í landinu. Og sú stjórnskipan, sem tryggir skoðanafrelsi og heldur uppi lýðræði, skal í heiðri höfð.

Það er rangt með farið, eins og fram hefur komið í umr. um þetta mál, að sveitafólk skoði kaupstaðabúa sem sína verstu fjandmenn. Slíkt er herfileg vitleysa. Ég minnist þess ekki, að ég hafi nokkurn tíma orðið þeirrar skoðunar var, innan samtaka bændanna, og þau samtök eru á allan hátt byggð upp af bændunum sjálfum, þ.e.a.s. þau eru byggð neðan frá, en ekki fyrirskipuð ofan frá, þar sem hreppabúnaðarfélög landsins mynda grundvöllinn að búnaðarsamböndunum, sem eru tengiliður á milli búnaðarfélaga hreppanna og Búnaðarfélags Íslands annars vegar og Stéttarsambands bænda hins vegar, en sem kunnugt er, þá eru þessar tvær stofnanir höfuðvígi landbúnaðarins. Ég minnist þess ekki, að þar hafi gætt þeirrar skoðunar, að sveitabúar væru neitt sérstaklega svarnir fjandmenn Reykjavíkur, og væri sú skoðun rétt, þá hefði hún ábyggilega einhvern tíma komið fram á slíkum samkomum sem þessum.

Í þessu sambandi er rétt að minnast þess, að þótt í flestum tilfellum sé hægt að viðhafa hlutfallskosningu til búnaðarþings, hafa öll þau búnaðarsambönd, sem eiga tök á því, horfið frá þeirri skipan hin síðari ár. Innan bændastéttarinnar einnar til að fjalla um sameiginleg málefni bændanna og þá ekki sízt þau, sem snúa að löggjafarvaldinu, getur þetta kosningafyrirkomulag átt sinn rétt, því að þar getur aldrei orðið nein deila um framboð, þar hljóta bændur sjálfir að vera alltaf í framboði og ekki nein deila um það á milli stétta, og þar er einnig í öllum tilfellum um sérstakar fjárhagsheildir að ræða. En einu kjördæmin, sem kusu á þennan hátt til búnaðarþings s.l. ár, voru Búnaðarsamband Suðurlands og Búnaðarsamband Eyjafjarðar, og þar er í báðum tilfellum um sérstaka fjárhagsheild að ræða og því ekkert við það að athuga.

Þess er og rétt að minnast í þessu sambandi, að búnaðarþing er eingöngu ráðgefandi um allt, er að löggjafarstarfsemi lýtur, nema sín eigin félagsmál. En á Alþingi fer eingöngu fram löggjafarstarfsemi, og til þessa hefur hún verið talin ráða meiru um heill og hag þjóðarinnar, en ráðgefandi félagsstofnanir einstakra stétta, svo að hér gegnir því allt öðru máli og því ólíku saman að jafna. En sú hætta vofir yfir, þegar hlutfallskosningar verða teknar upp í stórum kjördæmum, að bændur hafi lítil áhrif á gang mála á Alþingi og löggjafarstarfsemin miðist um of á þann veg, sem bændastéttinni verður miður heppilegur. En með einmenningskjördæmafyrirkomulaginu mun að sjálfsögðu einnig tryggt í framtíðinni, eins og hingað til hefur verið, að það verði alltaf nokkrir bændur á Alþingi, og geta þeir því haft nokkuð að segja um gang sinna mála þar. Þegar kjördæmin stækka, verða bændur alls staðar í minni hluta og ráða mjög litlu um framboð og því mikil hætta á því, að þeir hverfi algerlega af þingi. En það að útiloka heilar stéttir frá þingsetu er mjög alvarlegt og hættulegt mál í lýðræðisríki. Ég álít það t.d. vera mjög bagalegt fyrir verkamenn í þessu landi að eiga ekki nema aðeins tvo fulltrúa hér innan þessara veggja, sem eru verkamenn, og þá báða frá sama stjórnmálaflokki. Þó að Alþfl. og á víssan hátt Sjálfstfl. líka, telji sig málsvara verkamanna, mættu þessir flokkar gjarnan hugleiða það og sýna það í því að lofa verkamönnum að sitja á þingi, en hafa ekki eingöngu embættismenn, eins og Alþfl. hefur nú. Að sjálfsögðu má ýmislegt gott segja um embættismenn og einnig lögfræðinga, en þeir mega ekki útiloka atvinnustéttirnar frá því að hafa sína fulltrúa hér á Alþingi, því að þeir vita manna bezt, hvar skórinn kreppir að innan síns verkahrings.

Sú kjördæmaskipan, sem upp skal taka nú, bætir ekki um í þessum efnum, nema síður sé. Um leið og kjördæmin stækka, er verksvið þm. orðið það mikið, ef hann ætlar að fylgjast með í sínu kjördæmi, að hann þarf til þess því sem næst allan tímann á milli þingstarfa. Það líður því ekki á löngu, þar til þm. verða að komast á árslaun, og þá sér maður framhaldandi sparnað á því sviði hjá hæstv. ríkisstjórn.

Það kann að vera gott að hugsa um jafnrétti á milli flokka, en ef það jafnrétti gengur út yfir jafnrétti þess fólks, sem landið byggir, þá er of langt gengið. Ég fullyrði, að þessi kjördæmabreyting er gerð til þess að losna við þrýsting fólksins úti á landsbyggðinni í hinum strjálbýlli landshlutum, meina því að leita réttar síns með því að halda áfram tengslum sínum við Alþingi með sínum sérstöku fulltrúum fyrir afmörkuð svæði, eins og flest kjördæmi landsins eru nú, þar sem þau eru annaðhvort eitt sýslufélag eða bæjarfélag, að vísu með misjafnlega marga þm. En það er mikils virði að hafa kjördæmin eina fjárhagsheild, eins og lagt er til hjá okkur framsóknarmönnum, og vil ég aftur vitna til hins mæta forseta Íslands, er hann sagði um þessi mál árið 1933, með leyfi forseta:

„Sýsluskiptingin hefur þróazt um þúsund ár, og það skal sterk rök til að raska þeim grundvelli, ef hægt er að finna aðra leið til jöfnunar á kosningarrétti manna. en að raska svo fornum grundvelli. Þessi héruð, sýslufélögin og bæjarfélögin, eru sjálfstæðar fjárhagseiningar og menningareiningar, sem orðnar eru samvanar til starfs. Og það verða ekki búin til með lögum önnur héruð, sem betur séu til þess fallin að vera kjördæmi.“

Það hefur ekki neitt skeð í þjóðlífi okkar Íslendinga, sem hefur raskað þessum ummælum, þau eru jafngild í dag og þau voru fyrir rúmum aldarfjórðungi.

Ég óttast það tvennt í því að sameina margar sýslur ásamt bæjarfélögum í kjördæmi, elns og nú skal gera, að hlutaðeigandi þm., þótt margir séu, bogni fyrir meirihlutavaldinu í sínu kjördæmi, fyrir hinum þéttbyggðari svæðum, svo að hin strjálbýlli verði mjög afskipt með allt, er að opinberum málum lýtur og meðferð lagasetningar á Alþingi. Tengslin rofna, þm. leggja lóðin þar, sem mestur aflinn er, þ.e. í þéttbýlinu. En hinn alkunni og mikli þjóðmálaskörungur, hv. 1. þm. Reykv. (BBen), segir í ræðu, sem birt var í Mbl. 24. jan. 1953, um þá þýðingu, sem hin persónulegu tengsl hafa fyrir kjördæmin, með leyfi forseta: „Þvert á móti mundi skipting Reykjavíkur t.d. í 16 eða 17 kjördæmi hafa í för með sér miklu nánara samband þm. og kjósenda, en verið hefur. Þm. mundi miklu betur en nú vita, hvað kjósendum hans liði, og eiga þess kost að greiða fyrir mörgum áhugamálum þeirra og veita einstaklingum sams konar fyrirgreiðslu og þm. utan af landi verða að veita sínum kjósendum. Þetta yrði aukin vinna og umstang fyrir þm., en ég þori að fullyrða, að að því yrði mikill vinningur fyrir kjósendur.“

Þetta stendur óhaggað enn. Það stendur óhaggað fyrir þá kjósendur landsbyggðarinnar, sem hafa sína sérstöku fulltrúa. Og hvers vegna á nú að rjúfa þessi tengsl? Eru þau of mikil? Hvað er það, sem koma skal? Er það framhald á stefnuskrá þeirra þingflokka, sem standa að kjördæmabreytingunni, á því að rýra fjármagn árlega um tugi millj. kr. til þeirra staða, sem búa við lökust skilyrði á landinu? Er þetta jafnréttið, sem koma skal? Er það rétt, og höfum við efni á því að kasta á glæ verðmætum, sem búið er að koma upp víðs vegar á landinu og velta mikla björg í bú landsmanna og munu einnig geta gert í framtíðinni, ef þeim er sómi sýndur? Við Íslendingar unnum frelsi og jafnrétti. Þess vegna eigum við að vinna að því að skapa réttlæti í ríki okkar. Ég tel, að miði í gagnstæða átt með þeirri kjördæmaskipun, sem nú skal upp taka, því að hún eykur misrétti á milli landsmanna, en jafnar ekki misrétti.

Ég vil taka það fram til að fyrirbyggja allan misskilning, að fjöldi bænda og það ekki síður innan Framsfl. en annarra flokka kann vel að meta þýðingu þess að hafa myndarlega höfuðborg, eins og Reykjavík t.d. er. Og ég veit einnig, að hinir ágætu borgarbúar skilja það mætavel, að húsfreyjan í sveitinni nýtur fyrst jafnréttis við starfssystur sínar í bæjunum, þegar hún hefur fengið þann aflgjafa, sem rafmagnið er, og þau þægindi, sem því fylgja. Þess vegna á ég erfitt með að skilja það, hvers vegna kvartað er á þeim vettvangi, þar sem þægindin eru þegar fyrir hendi, og talað um óréttlæti af hálfu hinna, sem skortir þægindi. Ég trúi því ekki, að hinn almenni kjósandi, sem gengur hér um steinlagðar götur borgarinnar og ekur í fínum bílum, fer í leikhús og nýtur alls konar skemmtana og félagslífs og hefur auk þess reglubundinn vinnutíma, ætli sér eða vilji taka rétt af þeim, sem búa við frumstæð skilyrði og eiga afkomu sína undir sól og regni víðs vegar um landið. Nei, það mun sýna sig, að í vor sameinast fólk til sjávar og sveita um það að halda rétti sínum, því að þessi kjördæmabreyting með fá og stór kjördæmi er runnin undan rifjum valdhafanna, sem hafa einræðiskennd Hitlers í brjósti, en hugsa ekki um jafnrétti fólksins, sem í landinu býr. Valdhafar Sjálfstfl. hafa varpað fyrir borð sínum skoðunum um nauðsyn og rétt einmenningskjördæmanna, en með öldum hafsins berast þær skoðanir til fólksins við strendur landsins og þaðan til bóndans í dalnum. Þetta fólk skilur þann boðskap, sem er á ferðinni, og mun við kosningarnar í vor minnast hinnar gömlu og sígildu lífsreglu: Haltu fast því, sem þú hefur, svo að enginn taki frá þér þína kórónu.