16.04.1959
Efri deild: 102. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

146. mál, sýsluvegasjóðir

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Út af því, sem hv. 1. þm. Eyf. (BSt) sagði, að hér hefði verið einhver misskilningur í því, hver væri frsm. þessa máls, þá minnist ég þess núna, að hv. form. samgmn. Ed. mun hafa nefnt þetta við mig. En hins vegar hefur enginn fundur í samgmn. Ed. verið haldinn um þetta mál, heldur kom málið fyrir samvinnunefnd samgöngumála, þ.e. sameiginlegan fund nefndanna frá báðum deildum með vegamálastjóra, og á þeim fundi var talið heppilegra, að málið kæmi fyrir þessa hv. d., af því að annríki væri meira í hv. Nd., en í n. þessarar hv. d. hefur enginn fundur verið haldinn um sjálfan flutning þessa máls. Af þessum ástæðum hygg ég, að það sé, að það hefur orðið einhver misskilningur um það, hver væri frsm. málsins.

En ég held, að þetta skipti ekki miklu máli, hver það er, og að nm. geti ekki gefið hér meiri skýringar, en eru í grg. frv., því að samvn. samgm. hraðaði því að flytja málið inn í þingið, svo að hv. þm. gætu athugað það. Upplýsingarnar, sem lágu fyrir okkur, eru þær sömu og nú liggja fyrir í grg., og er alveg eins á færi hvers þm., að kynna sér það eins og það var á færi okkar í n. að gera það á tveimur skyndifundum.

Það er einmitt í þeim tilgangi gert að hafa þetta með þessum hætti að hindra ekki málið, af því að það er nauðsynlegt, að það gangi fram. Aftur á móti hefði það tafið flutning þess nokkuð, ef við hefðum farið að ræða það sérstaklega nánar í samgmn. Ed., áður en það var flutt. Við töldum þennan kostinn alveg elns góðan, að allar upplýsingarnar í málinu, sem hægt var að fá frá vegamálastjóra, lægju nú fyrir öllum hv. dm., eins og þær lágu fyrir n. Og ég held, að það sé ekki hægt að saka n. um neina vanrækslu í þessum vinnubrögðum. Við erum aðeins að greiða fyrir því, að hver þm. geti sett sig inn í málið eins fljótt og við getum það sjálfir, með því að leggja þetta svona fram.

Ég efast um, að ég geti gefið hv. 1. þm. Eyf. frekari skýringar á þessu máli. En ástæðan til þess, að málið er flutt, er þessi, sem ég sagði áðan, að með nýja fasteignamatinu raskast svo mjög grundvöllurinn fyrir skiptingu ríkisframlagsins til sýsluvegasjóðanna, að það er alveg óviðunandi. Auk þess mundi, ef ekkert væri að gert, ríkisframlagið hækka um hér um bil helming.

Eins og menn sjá hér í grg., þá segir, með leyfi hæstv. forseta: „Á fskj. í eru einnig reiknaðar út tekjur sýsluvegasjóðanna miðað við það, að hámarksálag á fasteignir lækki úr 12 og 6o/oo í 6 og 3o/oo.“ M.ö.o.: það er lækkaður stiginn um helming vegna hækkunar á fasteignamatinu. En þó að þetta sé gert, þá bætir það ekki úr ósamræminu, heldur eykur það. Þess vegna eru ákvæðin í síðustu mgr. 1. gr. frv.: „Vegamálastjóri annast skiptingu á framlagi ríkissjóðs samkv. 1. mgr., og skal við skiptinguna aðallega miðað við lengd sýsluvega í hverri sýslu, en jafnframt skal þó höfð hliðsjón af, hve mikill hluti veganna er lagður, ruddur eða ekki akfær og með hve háum hundraðshluta sýsluvegasjóðsgjald er innheimt.“ Hér er alveg ný regla um skiptinguna á þessu sýsluvegasjóðsgjaldi, og það verður að koma ný regla, um leið og fasteignamatið hækkar annars vegar og ef á að lækka ákvæðið um skiptinguna hins vegar, þ.e.a.s. úr 12 og 6%0 niður í 6 og 3%0.

Ég held, að það verði ekki með sanngirni krafizt af samgmn. frekari upplýsinga á þessu stigi, af því að málið er lagt þannig fyrir, að það eru prentuð öll gögn með því, sem n. hafði, áður en hún gat sjálf kynnt sér málið frekar. Og það er eingöngu gert í þeim tilgangi, að hv. þm. d. fái að sjá þetta sem allra fyrst, af því að síðan þarf að hraða málinu.