14.04.1959
Neðri deild: 107. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

135. mál, ítala

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Landbn. hefur yfirfarið þetta frv. allrækilega, borið það saman við gildandi lög og einnig athugað þær tillögur, sem búnaðarþing gerði og voru teknar upp í þetta frv. Loks hefur hún kallað á sinn fund ráðunauta Búnaðarfélags Íslands, sem undirbjuggu breytinguna, og að því búnu lagði n. til, að frv. yrði samþykkt með þeim breytingum, sem hér liggja fyrir. En þessar breytingar eru í raun og veru engar eða varla teljandi efnisbreytingar.

Það er þá fyrst og fremst skilgreining á því, svo að ekki verði um villzt, hverjir hafi atkvæðisrétt í þessu máli, sem vantaði í ákvæði frv., eins og það liggur fyrir.

Í öðru lagi leggur n. til, að bæjarfélögum sé hér bætt við, vegna þess að það er kunnugra en frá þurfi að segja, að ýmis bæjarfélög geta komið þarna mjög til greina, eiga þarna aðliggjandi lönd og jafnvel afréttarstykki, svo að þau hljóta einnig að verða aðilar þessa máls, þegar til ítölu kemur.

Að öðru leyti eru í raun og veru ekki breytingar, því að ég tel það ekki breytingar, a.m.k. ekki efnisbreytingar, þó að orðið „sveitarstjórn“ komi í staðinn fyrir „hreppsnefnd“, og annað þess háttar.

N. mælir mjög eindregið með því, að þetta frv. verði samþykkt, og eins og tekið var fram við 1. umr., þá eru núgildandi lög þannig, þau eru fyrir rás tímans og margvíslegar breytingar, sem orðið hafa, þannig, að þau í raun og veru eru ekki framkvæmanleg, eins og þau eru. Þess vegna er aðkallandi, að þessi breyting, sem hér er gert ráð fyrir, sé gerð, svo að lögin geti komið til framkvæmda.