09.05.1959
Efri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

135. mál, ítala

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Það er náttúrlega ekki nýtt, að menn hafa talað um það sín á milli, að þessi maður ætti margan fénað í sínum högum og hann gengi mjög á öðrum o.s.frv. Þetta hefur verið svo öldum saman, og hefur verið reynt að gera við því á ýmsa vegu. Benedikt Halldórsson lét 1651 ganga dóm í Skagafirðinum um það að takmarka hross, Skúli Magnússon gerði það h.u.b. 100 árum seinna, og þó fjölgaði hrossunum alltaf upp yfir það, sem ákveðið var, og fór allt í vandræði.

Núna á seinni árum hefur maður heyrt ákaflega mikið talað um það af mörgum, að það væri ofsett í landið og þyrfti á einhvern hátt að gera ráðstafanir til þess, að það verði ekki örtröð á því, eins og menn halda að geti orðið, ef ekkert er að gert.

Vegna þessa flutti þm. V-Húnv. á sínum tíma frv. til l. um ítölu, og það eru þau, sem hér liggur fyrir að breyta. Því er þetta frv. um ítölu, sem komið er hingað frá Nd., í raun og veru breyting á lögum, sem sett voru á Alþingi á sínum tíma og þm. V-Húnv. beitti sér fyrir.

Þau hafa þó ekki verið framkvæmd, þó að nokkuð langt sé síðan þau voru sett, og þegar kom að því, að átti að fara að framkvæma þau á s.l. sumri, þegar Hvammshreppur í Vestur-Skaftafellssýslu hafði beðizt þess, að þessi lög yrðu framkvæmd hjá sér og tekin ítala, sem kallað er, þ.e. að ákveða af sérstökum matsmönnum, eins og tilfært er í lögunum, hvernig þetta eigi að metast, — þeir skyldu meta, hve margar skepnur mættu vera á hverri jörð og í afréttinni í heild í hreppnum, til þess að hún væri ekki ofsetin og þó fullsetin, eins og það er orðað í lögunum, þá kom í ljós, að lögin voru með annmörkum, sem gerðu það að verkum, að það var ekki hægt að framkvæma þau. Það var komið svo langt, að það var búið að skipa menn til að meta ítöluna, og þeir voru byrjaðir að athuga sinn gang, þá rákust þeir á tvö ákvæði, sem vantaði mjög tilfinnanlega inn í lögin, eins og þau voru, til þess að hægt væri að framkvæma ítöluna.

Nú eru menn ákaflega skiptir um þessa ítölu í heild. Sumir, kannske hvað helzt þeir, sem vilja hafa sem flest um sig og kannske sérstakt gagn af annarra landi, þeir kæra sig ekkert um, að slíkt komi fram. Aðrir vilja fá það til þess að reyna að láta ganga sem jafnast og réttast yfir, eftir því sem landsþröng verður á þessum eða hinum staðnum. En þegar þetta var komið í óefni hjá Búnaðarfélagi Íslands, þá fékk Búnaðarfélag Íslands þá Halldór Pálsson annars vegar og Ásgeir L. Jónsson hins vegar til að semja uppkast að breytingum við lögin, sem til voru um ítölu, og þeir settust að seinni partinn í fyrrasumar eða í haust til að gera þetta. Þau eru frá 1943, ítölulögin, sem nú gilda, a.m.k. þangað til þessi eru komin fram. Og þeir gerðu þetta, og þetta er það lagauppkast, sem þeir sömdu og lögðu fyrir búnaðarþing, sem setti í það undirnefnd og athugaði það rækilega og sendi það svo Alþingi. Landbn. neðri deildar, en í henni er form, einn af þeim, sem eiga setu á búnaðarþingi, flutti það inn í Alþingi.

Nú er það svo, að það er ýmislegt í þessum lögum, sem maður hefur ekki enn þá neina reynslu um, hvernig það gengur. Þau eru ný, það er verið að biðja um fyrstu ítöluna núna, og okkur, sem í landbn. stöndum og unnum, kom saman um það, að í raun og veru þyrfti helzt af öllu að fást reynsla á þetta og meira um þetta vitað en við núna vitum, og kom mjög til tals að fresta aðalmálinu og lofa því að liggja. En þá sáum við, að þau ákvæði, sem helzt strandar á, að hægt sé að framkvæma matið núna í Hvammshreppnum og annars staðar, þar sem kynni að verða beðið um það, þau þurfa að koma inn, og það þarf að fást svolítil reynsla á þessu öllu, og þess vegna vorum við fjórir, sem vorum saman á fundinum seinast, því að einn nefndarmaður var þá ekki á honum, sammála um að leggja til við d., að frv. yrði samþykkt með ofur litlum breytingum. Og breytingarnar, sem við leggjum til, eru þá þessar fyrst og fremst, að bætt sé aftan við 1. gr. frv. ákvæði um það, að þar megi þó ekkert gera, sem komi í bága við sauðfjárveikivarnirnar.

Önnur brtt. er við 14. gr. Þar virðist hafa gleymzt að setja „stjórn Búnaðarfélags Íslands“, því að það er í samræmi við það, sem búið er að gera í öðrum greinum áður í frv. Þar sem í lögum frá 1943 var ákveðið, að sandgræðslustjóri skyldi koma til og segja um, hvort væri hætt við ofbeit í þessu landi eða ekki, þá er nú þessu breytt til og stjórn Búnaðarfélagsins sett í staðinn fyrir sandgræðslustjóra nema í einni grein, þar hefur orðið „sandgræðslustjóri“ staðið eftir, og það má nánast taka þessa brtt. sem leiðréttingu í samræmi við það, sem búið er að gera annars staðar í frv.

Þá er sett inn ný grein á eftir 14. gr. um það, að þessi lög skuli endurskoðast ekki seinna en 1963. Þá er gengið út frá því, að það sé þá búið að reyna þau svo, að það séu búnir að koma fram aðalannmarkarnir á þeim í framkvæmd og a.m.k. alltaf í umræðum manna á milli, svo að það liggi fyrir miklu ljósar, en núna, hverju helzt þarf að breyta, til þess að lögin nái betur tilgangi sínum.

Það síðasta á þessu þskj. er ekki annað en það, við 17. gr., að þar er rétt til vísað í lög, sem þurftu að falla úr gildi, og látin eiga sig önnur lög, sem var búið að nema úr gildi áður og þurfti þess vegna ekki aftur að taka upp.

Eins og þið heyrið, þá mæli ég með frv. og við gerum það a.m.k. allir þessir fjórir, sem vorum þarna, við gerum það allir saman með því ákveðna fororði, að lögin verði endurskoðuð mjög fljótt, eða strax og það fæst úr því skorið, hverju þarf að breyta meiru, en gert er í þessum lögum. Ég get búizt við, að það komi margt þar upp á, sem menn hafa ekki áttað sig á. Gildir það sérstaklega um kaupstaðina, en hvernig ítala skuli þar gerð, er alveg óleyst með þessu frumvarpi.

Annars skal ég geta þess, hvað það er, þetta tvennt, sem gerir það að verkum í gömlu lögunum, að ekki er hægt að framkvæma lögin. Annað er það, að eins og lögin eru núna frá 1943, þá er ekkert ákveðið um það, hvernig eigi að meta ítölu í landinu, þar sem komið hefur verið til byggð, sem engan hlut á í sameiginlegu afréttarlandi. Við getum tekið Hvammshreppinn sjálfan sem dæmi, sem núna óskar eftir ítölu. Og af hverju óskar Hvammshreppurinn eftir ítölu? Ja, meðfram kannske af því, að þar eru misstór lönd. — Já, við skulum taka bæði dæmin frá Hvammshreppi, úr því að við erum með hann og hann hefur beðið um hana. Þar hefur komið upp þorp, sem heitir Vík í Mýrdal. Þetta þorp er byggt á landi tveggja jarða, Norðurvíkur og Suðurvíkur, þessara tveggja jarða. Ábúendurnir þar hafa verið góðir drengir og velviljaðir, og þeir hafa lofað Pétri, að hann mætti byggja og fá sér þarna 200 metra lóð eða eitthvað undir hús, sem hann vildi byggja þar, og svo hafa þeir leyft öðrum, einhverjum Jóni, að hann mætti byggja þarna, fá lóð þar undir hús. Hins vegar hafa ekki verið gerðir neinir samningar, en þeir hafa átt að borga kannske eitthvað og kannske ekkert, margir ekkert og sumir 10 kr. eða 5 kr. eða eitthvað lítið fyrir þessar lóðir. Svo setjast þeir þarna að. Svo langar þá til að hafa garð, fá leyfi til að hafa garð, þar sem engum er mein að því, og þeir borga ekkert fyrir hann, og svo fara þeir að rækta þarna túnblett, og svo, áður en nokkur veit af, þá eru þeir búnir að fá þarna 20–30 hesta blett kannske, kannske á lóðinni, sem þeir fengu upprunalega, og kannske á engri lóð, sem þeir hafa fengið, heldur bara ræktað það út, í sandinn og enginn amazt við. Hvaða rétt eiga nú þessir menn til beitilands fyrir fénaðinn, bæði í landi jarðarinnar, sem lofaði þeim að byggja hús þarna handa sjálfum sér að búa í, og í afréttinni, sem er sameiginleg fyrir allar jarðirnar í hreppnum? Áður en hægt væri að meta ítölu á jarðirnar, þá var náttúrlega alveg nauðsynlegt að fá úr því skorið, hvaða réttur þessu fylgi, þessum húsum í Víkinni.

Ég lít á, eins og frv. núna gerir, að rétturinn fylgi jörðinni. Þó að einhver maður hafi leyft manni að byggja hús í einhverju landi, þá gefi hann ekki þeim manni, nema þá það sé sérstakur samningur um það gerður, rétt í veiði eða rétt til sameiginlegs upprekstrarlands í afrétt o.s.frv. Það voru allt ákvæði, sem fylgdu jörðinni áður. Hann hefur ekkert af þeim látið frá sér, hann hefur bara leigt þennan ákveðna blett til að byggja á honum hús.

Þetta var annað, sem þurfti úr að skera og er gert með frv., eins og það er núna. Hitt, sem þurfti beinlínis að breyta, eins og það var hugsað í fyrra frv., var tekið fram, að ítalan skyldi metin eftir fasteignamati jarðanna, og þegar svo var til orða tekið, þá var auðvitað talað um síðasta fasteignamat. Nú er það svo, að síðan fasteignamat hefur farið fram, — við skulum segja, að það hafi verið eitthvert samræmi í þeim reglum, sem farið hefur verið eftir, og þó hefur það nú ekki verið mikið, — en matið hefur breytzt eftir því, sem ræktaða landið á jörðinni hefur aukizt.

Ég tek í Mýrdalnum ósköp litla jörð, sem að fornu mati, 1861, hefur verið metin, ég man ekki hvað, en mjög lítið eða nokkur hundruð, enda mjög landlítil. Nú hefur mikið til allt landið verið ræktað og rekinn þar búskapur í nokkuð stórum stíl og fasteignamatið orðið hátt. Önnur jörð í þessum hrepp líka, sem hefur kannske stækkað túnið um einn tuttugasta á við það, sem litla jörðin hefur gert, á jafnframt beitiland, sem er margfalt á við land hinnar, sem ekkert er orðið. Ef við ættum að fara að meta ítölu milli þessara jarða núna, þá yrði jörðin með mikla túninu nýja látin hafa miklu meira en hin, þótt hún eigi ekkert beitiland. Þess vegna er nauðsynlegt, þegar á að fara að meta ítölu jarða, að þá sé ekki tekið nema sem minnst tillit til umbóta, sem gerðar hafa verið á jörðunum, nema, eins og segir í frv., að því leyti, að það sé tekið tillit til þess, þegar beitt er á ræktað land. Þá hefur komið þar meiri kúarækt, og þá er tekið tillit til þess.

Það er eiginlega ekki hægt að framkvæma ítöluna eftir gildandi lögum, fyrr en búið er að samþykkja þessi lög, og það er sem sagt von mín og okkar fjögurra, sem vorum á fundi landbn., að með því að samþykkja þetta núna, þá muni fást á næstu árum mikilsverðar upplýsingar um það, hvernig enn þurfi að breyta lögunum til þess að ná sem bezt þeirri skipun á beitirétti jarðanna, sem við öll viljum ná. Ég vona þess vegna, að menn geti orðið okkur sammála um það að láta þetta fara fram með þessum breytingum, því að við megum ekki standa í vegi fyrir því, að það sé hægt að framkvæma ítöluna, með því að lofa ekki að breyta lögunum, eins og Nd. hefur gert. Þó vil ég nú svolítið breyta frv.