18.11.1958
Efri deild: 22. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (1395)

43. mál, póstlög

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Ég flutti á síðasta þingi frv. sama efnis og það, sem nú er til umræðu, og þarf því ekki að halda langa framsöguræðu. Frv. fjallar um ofur litla lagfæringu á póstlögum, þess efnis, að allir viðtakendur póstsendinga, en ekki aðeins nokkur hluti þeirra, fái umráðarétt á þeim notuðu frímerkjum, sem á sendingum eru. Til annars og meira, er ekki mælzt.

Mér hefur borizt það til eyrna, að lagabreyt., sem hér er farið fram á, samrýmist ekki alþjóðapóstsamningum, og væru það óneitanlega þung rök gegn breytingunni. Ég hef leitað að slíku ákvæði í alþjóðapóstsamningum og gert það gaumgæfilega, en ekkert getað fundið. Ég hlýt því að svo stöddu að staðhæfa, að hér sé hallað réttu máli og að ekkert þvílíkt ákvæði finnist í þeim samningum.

Póststjórnin selur þessi notuðu frímerki, sem um er deilt, en póstmannasjóður nýtur ágóðans. Póstmannasjóður var áður styrktar- og sjúkrasjóður, en siðar breyttist hlutverk hans, eftir að sjúkra- og slysatryggingar komust á. Nú mun hann vera eins konar utanfarasjóður póstmanna og þá fyrst og fremst þeirra, sem búa í Reykjavík. Ekki veit ég til, að aðrar starfsstéttir hafi samsvarandi sjóði, og mundi þó mörgum þykja búhnykkur að slíku. Þótt svo færi, að hætt yrði að taka þessi notuðu frímerki af viðtakendum póstsendinga, er ég viss um, að póstmenn mundu finna aðra leið til fjáröflunar sjóði sínum, svo að ferðalög þeirra þyrftu ekki af þeim sökum að falla niður.

Eins og ég tók fram í fyrra, er það að mínu áliti óviðurkvæmilegt og fyrir neðan virðingu póststjórnarinnar að eigna sér þessi notuðu frímerki og selja þau háu verði. Það er jafn-óviðeigandi, hvort sem þau eru seld í eins konar happdrætti, eins og nú er, eða á uppboðum, eins og til orða hefur komið.

Það er einnig undir virðingu póststjórnarinnar að selja þessi frímerki vildarmönnum einum, eins og einhvern tíma var staðhæft í blöðum. Nýlega spurðist ég fyrir um það í pósthúsinu í Reykjavík, hvort ég fengi keypt þar slík notuð merki eða hvort ég fengi nafn mitt skráð sem væntanlegur kaupandi. Var báðum spurningum mínum svarað afdráttarlaust neitandi. Þar komu bersýnilega ekki allir til greina. E.t.v. kunna frímerkjakaupmenn þessu fyrirkomulagi vel. Um það veit ég ekki. En hitt er víst, að almenningi og þá sérstaklega hinum smáu frímerkjasöfnurum er það mjög í óhag.

Enn er eitt í sambandi við þetta mál. Þessi verðmætu, notuðu frímerki virðast í stórum stíl vera flutt úr landi, en ekki veit ég, hvað um þann gjaldeyri verður, sem fyrir þau fæst. Afleiðing þessa er hörgull á vissum tegundum íslenzkra frímerkja hér á landi, þótt auðvelt sé að kaupa þau erlendis gegn beinhörðum gjaldeyri viðkomandi lands. Væri ekki sæmra að leyfa smáu söfnurunum að njóta sinna frímerkja án íhlutunar póststjórnarinnar og án milligöngu innlendra og erlendra kaupmanna?

Herra forseti. Ég orðlengi þetta ekki frekar nú, en legg til, að frv. verði vísað til hv. samgmn., sem hafði sama mál til athugunar á síðasta þingi. Vænti ég þess, að hv. n. sjái sér fært að skila áliti innan skamms, enda veit ég, að hún hefur í fórum sínum gögn frá því í fyrra varðandi þetta mál.