27.01.1959
Efri deild: 54. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

57. mál, aðstoð við vangefið fólk

Frsm. ( Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Lög um aðstoð við vangefið fólk voru samþykkt á síðasta þingi og samkv. þeim skal næstu 5 árin greiða 10 aura gjald af hverri flösku gosdrykkja og öls, sem framleitt er í landinu. Fé það, sem þannig fæst, skal renna í sérstakan styrktarsjóð vangefinna og vera í vörzlu félmrn. Þessi lög tóku gildi 1. nóv. s.l. Samkv. 4. gr. laganna skal fé því, sem þannig aflast, varið til að reisa stofnanir fyrir vangefið fólk. Þetta er skilið þannig, að ekki megi veita úr sjóðnum fé til endurbóta eða stækkunar á stofnunum, sem þegar eru teknar til starfa. Þetta hefur þeim, sem að þessum málum helzt vinna, þótt galli og óskað nokkurrar rýmkunar á réttinum til að veita úr sjóðnum. Í því tilefni er það frv., sem hér liggur fyrir, flutt. en það er stjfrv. Eina breytingin, sem í því felst frá gildandi lögum, er sú, að í stað orðanna „reisa stofnanir“ í 4. gr. laganna komi „reisa og endurbæta stofnanir“. Stjórn Styrktarfélags vangefinna hefur óskað þessarar breytingar.

Heilbr.- og félmn. hefur rætt frv. og ekki séð ástæðu til annars, en mæla með því óbreyttu. En persónulega skal ég játa, að ég er ekki sérlega hrifinn af þessari breytingu. Tel ég varhugavert að drepa á dreif því fé, sem hér um ræðir. Það var í upphafi hugsað sem hrein viðbót við fjárframlög ríkisins til þessara þarfa, en ekki koma í staðinn fyrir þau. Nú skal ekki aðeins reisa fyrir það nýjar stofnanir, heldur líka endurbæta gamlar. Næst gæti maður vænzt tillögu um að verja fénu einnig til rekstrar stofnana, þannig að loks verði ekkert eftir til þeirra nýbygginga, sem þjóðfélagið mjög vanhagar um. En ég vil þó ekki gera ágreining út af þessu, enda hafa þeir, sem næst vandamálinu standa, eindregið óskað þessarar breytingar.