25.02.1959
Sameinað þing: 29. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (1918)

17. mál, ríkisábyrgðir

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað þessa till., og eins og fram kemur í nál., er n. sammála um það að meginefni til, að nauðsynlegt sé að reyna að finna sem traustastan grundvöll til að byggja á varðandi ríkisábyrgðir, með það í huga, að þau mál verði í sem föstustu formi og sem mest samræmi í veitingu ríkisábyrgða. Hins vegar voru, eins og segir í nál., nokkuð skiptar skoðanir um það, hvort auðið væri að setja um þetta efni heildarlöggjöf, en menn hins vegar sammála um, að það væri sjálfsagt og rétt að freista þess að gera það, ef ekki reyndust á því við nánari athugun slíkir annmarkar, að það yrði ekki tiltækilegt. Af þessum sökum var samkomulag um að leggja til að breyta till. á þann veg, að í stað þess að í upphaflegu till. var talað um að fela ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um ríkisábyrgðir, er lagt til, að það verði orðað nokkru vægar, þannig að ríkisstj. sé falið að láta athuga, hvort tiltækilegt sé að láta setja raunhæfa löggjöf um þetta efni. Efnislega breytir þetta að sjálfsögðu engu, en er sem sagt nokkru vægar orðað, ef á þessu kynnu að reynast þeir annmarkar, að ekki þætti tiltækilegt að setja um þetta heildarlöggjöf.

Svo sem bent var á, þegar framsöguræða var flutt fyrir till. þessari, eru ríkisábyrgðir orðnar svo stórkostlegur liður í sambandi við ríkisbúskapinn, að það er óhjákvæmilegt að reyna að ganga þannig frá þeim málum, að ekki þurfi til þess að koma, að ríkið verði fyrir þungum búsifjum af þessum sökum. Það mun láta nærri, hygg ég, að ríkisábyrgðir nemi nú 1.000 millj. króna. Í mörgum tilfellum eru ríkisábyrgðir ákveðnar í lögum, þannig að það er í rauninni ekki neitt val um það fyrir fjmrn., hvort veita skuli þær ábyrgðir, sem þannig stendur á um. Svo eru aftur í annan stað ýmsar ábyrgðir veittar með sérstökum lagaákvæðum eða jafnvel þál., og þá verður að sjálfsögðu að meta það hverju sinni, hvaða kröfur skuli gerðar í sambandi við tryggingar og ýmis önnur skilyrði, sem uppfylla þarf til að fá ábyrgðina. Um þessi atriði ætti að mega setja nokkuð almennar reglur, sem við væri að styðjast, og þeir aðilar, sem sæktust eftir ábyrgð, gætu þá einnig fyrir fram vitað, hvaða kvaðir leiddi af slíkri ábyrgð.

Í annan stað er svo að sjálfsögðu hin mesta nauðsyn að reyna að sjá til þess, að ábyrgðargreiðslurnar lendi ekki að lokum á ríkissjóði. Það hefur orðið svo í vaxandi mæli, að ábyrgðirnar hafa fallið á ríkissjóð, og miðað við þær geysilegu upphæðir, sem hér er um að ræða, sem sagt um einn milljarð króna, sem þessar ábyrgðir allar nema, þá er það í rauninni svo, að það er aldrei hægt að vita með neinni vissu, hvort það verður milljónatugnum meira eða minna, sem ríkissjóður verður á hverju ári að greiða af þessum sökum.

Nú er það vitanlega svo, að engin ástæða er til að halda, að ríkisábyrgðir séu greiddar af ríkissjóði, nema það sé fullkomin nauðsyn að gera það. Og það er heldur ekki ástæða til að halda, að aðilar standi ekki í skilum með ríkisábyrgðarlán aðeins til þess að láta ábyrgðirnar falla á ríkissjóðinn, heldur muni þar vera fyrir hendi getuleysi til að greiða umrædd lán. En spurningin er þá aðeins þessi, hvort það sé heppilegt að leysa fjárhagsvandræði þessara aðila með því að greiða þessar skuldbindingar eða hvort það eigi að gerast með öðrum hætti, og ég álít fyrir mitt leyti, að það sé miklu heilbrigðara, ef hægt er að finna grundvöll undir því, að reyna að hlaupa undir bagga t.d. með sveitarfélögum, sem ekki hafa aðstöðu til þess að standa í skilum með ríkisábyrgðarlán, með einhvers konar annarri fyrirgreiðslu, annaðhvort þá með beinni aðstoð ríkisins eftir öðrum leiðum eða með útvegun bráðabirgðalána, ef þetta eru stundarerfiðleikar, sem hér er um ræða, en ekki með því, að það komist upp í fasta venju, að ríkisábyrgðarlán séu látin lenda á ríkissjóði. Það hlýtur að valda mikilli hættu á því, að það dragi úr áhuga annarra aðila, sem raunar standa í skilum með þessi lán, til þess að greiða lánin að sínu leyti, ef þeir sjá, að aðrir staðir hafa þann hátt á að láta þessar skuldbindingar lenda á ríkissjóði. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því, að hér er um erfitt vandamál að ræða, og þessi till. er á engan hátt flutt til ádeilu á einn né neinn í því efni, heldur til þess að benda á þetta vandamál, sem hér er við að stríða. Og ég held, og það er, eins og ég áðan gat um, skoðun fjvn., að málið sé það mikilvægt, að það sé fullkomin ástæða til þess að reyna að kanna til hlítar, hvort hægt sé að koma þessu á traustari grundvöll en nú er. — N. leggur sem sagt til einróma, að till. verði samþykkt þannig orðuð, eins og hún er á þskj. 275.