05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (1944)

166. mál, landhelgismál

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég hefði talið betur fara á því, að hv. form. utanrmn. (GíslG) hefði einn rætt við þessa umr. og gert grein fyrir þeirri till., sem hér liggur fyrir. Eftir því sem ég heyrði hans mál, þá var ræða hans ágæt og engu við að bæta né nokkrar athugasemdir við að gera. Mér virtist hann leysa sitt verk svo vel af hendi sem bezt yrði á kosið.

Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls, en úr því að umr. eru hér byrjaðar, þá vil ég aðeins, að það komi fram, að þessi till. er vitanlega öll ein heild. Hún er flutt sem ein heild og hugsuð sem ein heild. Og það getur auðvitað hver sem hana les talið í henni eitt atriði öðru meira virði, en það er mat þess, sem les og skilur fyrir sig. Till., eins og hún er flutt, er flutt að mjög vel athuguðu máli, og ég legg áherzlu á það, sem raunar kom mjög glögglega fram hjá hv. form. utanrmn., að till. er ein heild og verður að skoðast sem slík og hvert atriði í samhengi við annað, og af hálfu n. liggur ekkert fyrir um, að eitt atriði sé öðru veigameira í till. En till. hvílir á þeim grunni, að Alþingi noti þau tækifæri, sem nú hafa nógsamlega gefizt, til þess að láta ofbeldismenn vita, að ofbeldið sé ekki líklegt til þess, að við hverfum frá okkar rétti, heldur, ef það megnar nokkuð, þá muni það ýta undir okkur og herða í baráttunni fyrir því, að við stöndum á þeim rétti, sem við teljum að nú þegar sé búinn að fá viðurkenningu, og höldum áfram að berjast fyrir þeim hagsmunum okkar, sem við teljum að við að vísu eigum rétt fyrir, en enn hafa ekki fundið næga viðurkenningu, — að við látum ofbeldið ekki verka til undanhalds, heldur til hvatningar í baráttunni fyrir réttum málstað.