05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (1974)

96. mál, birting skýrslna um fjárfestingu

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég vil til að byrja með þakka hv. allshn. fyrir jákvæða afstöðu, sem hún hefur tekið til þeirrar till., sem ég flutti, því að ég gat ekki skilið álit n. öðruvísi og orð frsm. en að n. mælti með því, að till. yrði samþ. Einn nm. skrifaði að vísu undir með fyrirvara, en ekki hefur komið fram, að um alvarlegan ágreining sé þar að ræða, enda hefði mér líka verið óskiljanlegt með öllu, ef hv. allshn. hefði tekið aðra afstöðu til svo meinlausrar till. sem hér er um að ræða.

Eins og hv. þm. er kunnugt, fara nú í hönd tvennar kosningar til Alþingis. Við báðar þessar kosningar, sér í lagi þó hinar síðari, má telja víst, að efnahagsmálin verði mjög ofarlega á baugi. Kjósendur eiga þá kröfu á hendur þeim stjórnmálaflokkum, sem fram bjóða við þessar kosningar, að þeir skýri fyrir kjósendum stefnu sína í efnahagsmálum og hverju þeir megi eiga von á frá þeirra hendi í þeim málum, ef þeir komi á næsta kjörtímabili til að sitja við stjórnvölinn.

En til þess að um ákveðnar till. sé að ræða í ákveðnum málum, en ekki það, að stefnan sé sett fram í almennum, loðnum slagorðum, sem túlka má á svo marga vegu sem verkast vill, sem því miður er nú kannske allt of mikið af, — ef um ákveðnar till. á að vera að ræða, þá verða þær að byggjast á upplýsingum um staðreyndir um efnahagsmál, og það er einmitt með tilliti til þess, að þessar upplýsingar verði sem fyllstar um þau atriði, sem máli skipta, sem þessi till. var á sínum tíma flutt af mér.

Hvað sem menn að öðru leyti meina um fjárfestingarmálin, þá er enginn ágreiningur um það, að þau eru einn mikilvægasti þáttur efnahagsmálanna og þess vegna þýðingarmikið, ef raunhæfar umr. eiga að eiga sér stað um efnahagsmálin fyrir kosningar, að sem fyllstar upplýsingar séu birtar einmitt um þessi mál. og var það ástæðan fyrir því, að þessi till. var flutt.

Það var að vísu svo að skilja hjá hv. þm. V-Húnv. (SkG), sem hér talaði áðan, að óþarfi væri að birta slíkar skýrslur, vegna þess að nægar upplýsingar væru þegar fyrir hendi. Það er að vísu rétt, að í tímariti Framkvæmdabanka Íslands hefur nýlega birzt allýtarleg skýrsla um þá fjárfestingu, sem hafi átt sér stað á síðustu 2–3 árum, – ég man ekki, hvort hún nær eitthvað lengra aftur í tímann, en það skiptir ekki höfuðmáli, — í hverju þessi fjárfesting sé fólgin, í þágu hvaða atvinnuvega hún sé, að hve miklu leyti í húsabyggingum, að hve miklu leyti í verksmiðjum o.s.frv. Það er allt gott og blessað að hafa þessar upplýsingar, en þær eru að mínu áliti ófullnægjandi. Ef meta á það, að hve miklu leyti fjárfestingin á þátt í verðbólgunni, þá er ekki nóg að hafa upplýsingar um heildarfjárfestinguna og hvernig hún skiptist á atvinnugreinar og þess háttar, heldur skiptir þar einmitt höfuðmáll að fá upplýsingar um það, hvernig fjár sé aflað til fjárfestingarinnar, því að af því út af fyrir sig leiðir ekki verðbólgu, þó að mikil fjárfesting eigi sér stað, eða því, hvort hún er meiri eða minni. Það, sem veldur verðbólgunni, er hins vegar það, ef fjárins til þessarar starfsemi er ekki aflað með heilbrigðum hætti, og það eru einmitt þær upplýsingar, að því leyti sem þær væru til, sem ég lagði áherzlu á að fá og var megintilgangur minnar till.

Hv. þm. V-Húnv., sem hér talaði áðan, taldi að vísu, að óyfirstíganlegir örðugleikar mundu vera á því að fá upplýsingar um þetta atriði. Mér er fyllilega ljóst, að þeir eru nokkrir. En í fyrsta lagi má á það benda, að frá fyrri árum eru fyrir hendi nokkrar upplýsingar einmitt um þetta atriði. Þær hafa líka birzt í tímariti Framkvæmdabankans, en þær ná ekki nema til ársins 1953 eða e.t.v. 1954 í lengsta lagi, en þar er einmitt nákvæm og sundurliðuð skýrsla um það, hvernig fjár hafi verið aflað til fjárfestingar á þessum árum, að hve miklu leyti ríkið hafi með skattaálögum lagt fram þetta fé, hve mikið hafi verið lánað af bönkunum o.s.frv.

Hv. þm. V-Húnv. hélt því fram, að það væri ekki hægt að segja um það, að hve miklu leyti útlán bankanna væru verðbólgumyndandi eða ekki. Ég tel, að á þessu séu ekki óyfirstíganlegir örðugleikar, enda er mér kunnugt um það, að þegar eru fyrir hendi áætlanir um einstakar opinberar stórframkvæmdir hvað þetta atriði snertir. Þær áætlanir hafa að vísu ekki verið birtar, og niðurstaða þeirra mun vera leyndarmál, enda mun ég ekki frá því skýra hér. En þeir hafa einmitt gert um þetta áætlun hvað snertir vissar opinberar stórframkvæmdir, hvernig fjár hafi verið aflað til þeirra og að hve miklu leyti — einmitt eins og þessir hagfræðingar orða það — um verðbólgumyndandi fjáröflun til þessara framkvæmda hafi verið að ræða. Ég tel nauðsynlegt, ekki eingöngu varðandi þá fjárfestingu, sem þar er um að ræða, heldur líka aðra fjárfestingu, að þetta komi sem skýrast fram.

Annars get ég ekki varizt því eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. V-Húnv. hér, að mér finnst enn þá eima nokkuð eftir hjá honum af þeim hugsunarhætti, sem ríkjandi var í tíð hæstv. fyrrv. ríkisstj., nefnilega þeim, að ekki væri óhætt að birta almenningi þær upplýsingar, sem safnað væri um efnahagsmál, heldur bæri að halda því leyndu, vegna þess að hætta væri á því, að slíkar upplýsingar kynnu að hafa óheppileg áhrif. Það er þessi hugsunarháttur, sem ég álít að beri að bannfæra. Og ég treysti því fullkomlega, ef þessi till. mín verður samþ., að hæstv. núv. ríkisstj. muni gera sitt til þess, að henni verði framfylgt, eftir því sem kostur er á. Mér er vissulega fyllilega ljóst, að fullkomlega nákvæmar og réttar upplýsingar um þau atriði, sem hér er um að ræða, verður sjálfsagt ekki kostur á að fá, en það er þó betra að mínu áliti að fá þær upplýsingar, sem fyrir hendi eru, heldur en alls engar.