10.11.1958
Neðri deild: 18. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

40. mál, þingsköp Alþingis

Utanrrh. ( Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Í 16. gr. l. nr.115 frá 1936, um þingsköp Alþ., var svo ákveðið, að sameinað Alþingi skyldi kjósa utanríkismálanefnd, skipaða 7 mönnum, til utanrmn. skyldi vísa utanríkismálum, n. skyldi einnig starfa á milli þinga og skyldi ríkisstj. ávallt bera undir n. utanríkismál, sem fyrir koma á milli þinga.

Þetta ákvæði frá 1936 var framkvæmt þannig um mörg ár, að ríkisstj. hafði um öll utanríkismál, sem einhverju máli skiptu, náið samstarf við utanrmn. Voru málin yfirleitt borin undir n. og rædd þar og hún lét uppi um þau sitt álit, en ríkisstj. var auðvitað hverju sinni í sjálfsvald sett, að hve miklu leyti hún fór eftir þeim skoðunum, sem fram komu í n. Bera fundargerðir utanrmn, það með sér, að þar hafa verið tíðir fundir og utanríkismál yfirleitt rædd þar.

Árið 1951 var sú breyt. gerð á 16. gr. þingskapanna, að kjósa skyldi þrjá menn innan utanrmn. í sérstaka undirnefnd. Þingið skyldi eftir sem áður vísa málum, sem undir utanríkismál heyrðu, til utanrmn. til meðferðar, en utanrmn. skyldi sjálf ekki lengur vera til samstarfs og samráðs við ríkisstj., heldur átti þessi þriggja manna n. að gera það, bæði á þingtíma og utan þingtíma.

Reynslan af þessari breyt. hefur orðið sú, að því er utanrmn. sjálfa varðar, að síðan 1951 hefur n. naumast leyst önnur störf af hendi, en kjósa sér formann og ritara og kjósa þessa þriggja manna undirnefnd. Hafa sjaldan verið haldnir í n. nema tveir fundir á ári. Á öðrum fundinum hafa formaður og ritari verið kosnir, á hinum fundinum hefur undirnefndin verið kosin. Hafi utanrmn. haldið fundi utan þessara tveggja, þá hefur það eingöngu verið til þess að afgreiða till., sem til hennar hefur verið vísað frá hv. sameinuðu Alþingi.

Undirnefndin hefur átt að koma í staðinn fyrir aðalnefndina til samráðs og ráðuneytis fyrir ríkisstj. Ég hef athugað það í utanrrn., hvort nokkur skjöl eða skilríki finnist þar fyrir því, að hve miklu leyti samráð hefur verið haft við þessa þriggja manna undirnefnd, síðan hún var lögtekin og ég hef ekki getað fundið þar nein skilríki fyrir því, að samráð hafi yfirleitt verið haft við þessa þriggja manna nefnd. Þar finnast engar fundargerðir og engin skjöl eða skilríki, sem benda til neins slíks samstarfs. Hygg ég þó, að eitthvert samráð hafi verið við þessa n. haft, en þá aðallega í formi þess, að ráðh. hefur rabbað við þessa nm., þegar honum hefur þótt ástæða til, án þess að haldnir hafi verið formlegir fundir eða nokkrar bókanir eða skilríki finnist fyrir því, að nokkuð hafi þar gerzt.

Þetta er að sjálfsögðu mjög óviðkunnanlegt og óþægilegt fyrirkomulag. Það er nauðsynlegt fyrir ríkisstj. á hverjum tíma að geta haft samráð við utanrmn. um viss utanríkismál og það er nauðsynlegt að geta haft það samráð á sem breiðustum grundvelli, þannig að hægt sé að hafa samstarf og samráð við þingflokkana yfirleitt.

Til þess að ráða bót á þessu er frv. það, sem hér liggur fyrir til umræðu, fram borið og í því skyni, að l. verði færð aftur til sama horfs og þau voru fyrir 1951, þannig að nú beri að hafa samráð við utanrmn. í heild. Þegar breyt. var gerð 1951, var hún rökstudd með því, að ekki væri hægt að sýna kommúnistum þann trúnað að hafa samstarf við þá um viss viðkvæm utanríkismál. Menn gera sér fullkomna grein fyrir hinum alþjóðlega kommúnisma og gera sér alveg fullkomna grein fyrir því, hvaða samstarf er við þá hægt að hafa og hvaða trúnað er hægt að sýna þeim og ef þetta frv. yrði samþykkt, eins og það liggur hér fyrir, þá verður það að sjálfsögðu að vera á mati utanrrh. hverju sinni, hvernig með þann trúnað skuli fara og hann verður að haga sínum málflutningi við utanrmn. með hliðsjón af því, sem hann telur öruggt og heppilegt hverju sinni. Ætti að vera vandalaust að komast út af slíkum hlutum. Hitt er óheppilegt og getur ekki gengið svo til lengur, eins og verið hefur allar götur síðan 1951, að samráð við utanrmn. eða undirnefndina virðist naumast hafa verið til. Þessu frv. er, eins og ég sagði áðan, ætlað að ráða bót á því.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.