05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (2018)

165. mál, útgáfa á blaðagreinum Jóns Sigurðssonar

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Mig langar til á þessu stigi að hreyfa athugasemd frá mér persónulega um þetta mál.

Eins og hv. alþm. muna, var flutt á síðasta þingi till. til þál. um útgáfu allra ritverka Jóns Sigurðssonar. Var til þess ætlazt, að 1. bindi ritsafnsins kæmi út 1961, á 150 ára afmæli hans, og að öll útgáfan skyldi gerð í tilefni þess afmælis. — Till. þessari var vísað til n., og þaðan átti hún ekki afturkvæmt. Skoðanir manna á henni munu hafa reynzt nokkuð skiptar, þegar til kastanna kom, og opinberlega mætti hún einhverri gagnrýni. Síðan hefur málinu ekki verið hreyft mér vitanlega þar til nú, að þessi till. er flutt hér, en hún fjallar um útgáfu á blaðagreinum Jóns Sigurðssonar.

Vafalaust eru allir landsmenn á einu máli um, að Jóns Sigurðssonar beri að minnast á veglegan hátt árið 1961, þegar liðin eru 150 ár frá fæðingu hans. En menn kann að greina á um, hvernig það skuli gert. Útgáfa allra ritverka hans væri vissulega vottur um ræktarsemi, og heilsteyptur minnisvarði væri hún, þótt umdeilanleg hafi reynzt að öðru leyti. En um útgáfu á blaðagreinum Jóns Sigurðssonar gegnir öðru máli, ef líta ber á hana sem minnisvarða. Sú 150 ára minning er rislægri en svo, að við verði unað, og er þar raunar um hreint undanhald að ræða frá því í fyrra.

Ég tel sjálfsagt, að blaðagreinum Jóns Sigurðssonar verði safnað saman og þeim haldið til haga, þannig að íslenzkum fræðimönnum veitist auðveldur aðgangur að þeim. Þær eru ómissandi ævisöguriturum Jóns og öðrum þeim, er ritverk semja um líf hans og störf. Auk þess efast ég ekki um, að meðal blaðagreinanna séu ýmsar, sem erindi eiga fyrir augu almennings, og væri þá athugandi að gefa úrval þeirra út í bókarformi. En hafi það verið álit manna, að útgáfa allra ritverka Jóns Sigurðssonar væri ekki verðugasti minnisvarðinn á 150 ára afmæli hans, þá er blaðagreinaútgáfan það enn síður.

Í grg., sem till. fylgir, er sagt, að menntamálaráð Íslands hafi ráðlagt þá tilhögun, sem í henni felst. Ekki vottar sú ráðlegging mikinn stórhug né mikla hugkvæmni, og hefði mátt búast við einhverju stærra frá stofnun, með svo veglegu heiti.

Það er engu líkara en smekkvísi manna hafi verið eitthvað meiri fyrir 50 árum en nú. 17. júní 1911 var 100 ára afmælis Jóns Sigurðssonar minnzt á þann veg, að stofnaður var Háskóli Íslands. Sá minnisvarði er stórbrotinn og hæfir vel Jóni Sigurðssyni. En hið sama verður ekki sagt um útgáfuhugmynd menntamálaráðs, svo rislág og sviplítil sem hún er. Með stofnun háskólans 1911 voru iðkendum fræða og vísinda á Íslandi tryggð starfsskilyrði um alla framtíð. Betur varð ekki gert við minningu Jóns Sigurðssonar. En með þennan óbrotgjarna minnisvarða í huga virðist mér ekki fjarri lagi að minnast nú, er líður að árinu 1961, annars veigamikils þáttar í menningarlífi þjóðarinnar, listanna. Áður vanhagaði þjóðina um háskóla, og hún fékk hann í minningu hins mætasta sonar, nú skortir hana tilfinnanlega miðstöð listanna, verðug heimkynni listaverkum sínum til handa. Væri það ekki tímabær og verðugur vottur ræktarsemi og virðingar að reisa þau heimkynni af grunni á 150 ára afmæli Jóns Sigurðssonar? Vísindi og listir, skóli og listasafn eru greinar á meiði menningarinnar, en menning þjóðarinnar er og verður bezta trygging fyrir sjálfstæði hennar í framtíðinni, sjálfstæðisins, sem Jón Sigurðsson barðist svo ötullega fyrir.

Ég bið að lokum alla hv. alþm. að hugleiða þessa uppástungu um byggingu listasafns ríkisins í minningu Jóns Sigurðssonar. Hornstein hennar ætti að leggja 17. júní 1961. Fjár til byggingarinnar færi bezt á að afla með frjálsum framlögum almennings, fyrirtækja og sveitarfélaga, en það, sem á vantaði, legði ríkissjóður fram. Verkið mætti hefja fyrir 1961, og því bæri að ljúka á fáum árum. Þessari hugmynd leyfi ég mér að beina til allra hv. alþm., en sérstaklega þó til þeirrar hv. n., sem fær málið nú til athugunar.