05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (2019)

165. mál, útgáfa á blaðagreinum Jóns Sigurðssonar

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég skal einungis halda mér að því að ræða þá till., sem hér liggur frammi, og ég get ekki séð, að nein rök hafi komið á móti henni. Það er vitað mál, að 1911 voru gefin út í minningu 100 ára afmælis Jóns Sigurðssonar bréf hans, sem Þorleifur heitinn Bjarnason menntaskólakennari annaðist um. Það var síðar bætt við öðru bindi, en það þótti mjög merk og góð bók á sínum tíma, og skyggði ekki á útgáfu hennar, þó að jafnframt væri ákveðið, að Háskóli Íslands skyldi stofnsettur sama dag. Það eru tvö alveg ólík atriði, hvort menn vilja gera eitthvað annað og meira eða hvort menn vilja ráðast í þessa tilteknu útgáfu. Á sínum tíma var mikil þörf á því að gefa út bréf Jóns Sigurðssonar. Það var gert af þessu tilefni samkv. þeirri lýsingu, sem samin hefur verið og fylgir í mjög stuttri grg. þessari till. Er enginn vafi á því, að það væri mikill fengur fyrir Íslendinga að fá aðgang að blaðagreinum Jóns Sigurðssonar, sem yfirleitt eru með öllu ókunnar hér á landi, en sýnt er fram á að hafa verið birtar í fjöllesnum blöðum erlendis. Það er því bein skylda við minningu Jóns Sigurðssonar, að þessum greinum sé safnað og þær séu gefnar út, og það fer ákaflega vel á því, að það sé einmitt gert við þetta tiltekna tækifæri. Hvort svo menn vilja gera annað og meira, er allt annað mál og má sízt af öllu verða til þess, að menn leggist á móti þessari tillögu.

Sem betur fer, hafa menn sýnt minningu Jóns Sigurðssonar margfaldan sóma, síðast með því að binda endurreisnardag lýðveldisins 1944 við afmæli Jóns Sigurðssonar, sem öllum þótti mjög vel fara á. Hvort mönnum þykir nú tilefni til þess að gera eitthvað, binda upphaf einhvers þjóðþrifaverks annars við 150 ára minningardaginn, það er samt mál, sem vel getur komið til athugunar og stjórnarvöld munu að sjálfsögðu íhuga, en kemur þessari till. bókstaflega ekki nokkurn skapaðan hlut við.