04.02.1959
Sameinað þing: 24. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (2150)

94. mál, Austurvegur

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Á síðasta þingi mun hafa verið samþ. þáltill., sem fól það í sér að fela vegamálastjóra að framkvæma rannsókn á ástandi vegakerfisins í landinu. Skýrsla hans um þessa rannsókn mun nú senn liggja fyrir. Ég vil beina því til hv. n., sem ég hygg að verði hv. fjvn., að kynna sér þessa skýrslu rækilega, áður en afstaða er tekin til þessarar till.

Ég tel mig hafa fregnir af því, að við þessa rannsókn hafi það komið fram, að vissir landshlutar, t.d. Vestfirðir og Austfirðir, séu svo illa á vegi staddir í vegamálum, samanborið við aðra landshluta, að það sé mjög áberandi. Ég tel því fulla nauðsyn á því, að menn sjái þetta yfirlit um vegamálin í landinu í heild, áður en farið er að taka ákvarðanir um stórfelldan fjárstuðning við einstaka vegi, hvar sem þeir kunna að vera.

Ég þarf tæplega að minna á það, hvernig er ástatt um þessi mál á Vestfjörðum. Það er vitað mál, að mikill hluti Norður-Ísafjarðarsýslu og öll Vestur-Ísafjarðarsýsla er í engu sambandi við þjóðvegakerfi landsins, að öll Vestur-Barðastrandarsýsla er aðeins í sambandi við þjóðvegakerfið yfir hásumarið. Það er ekkert óeðlilegt við það, þó að ég og aðrir, sem búa við þetta ástand, vilji sjá skýrslu yfir heildarástand vegakerfisins, áður en menn taka afstöðu um fjárstuðning til einstakra vega.

Ég viðurkenni fyllilega, að það er þörf á Þrengslavegi.

Ég vil að lokum beina því einnig til hv. fjvn., að hún fái tæmandi upplýsingar um það, hvar það er á landinu, sem ríkið borgar allan snjómokstur á vegum, hvar ríkið borgar helminginn og hvar það borgar ekki neitt.

Ég sé, að í grg. fyrir þessari till. er bent á þann sparnað, sem ríkið hefði af því að hraða þessum vegi, og ég efast ekki um, að það er rétt. En þessi sparnaður er fyrst og fremst svona mikill af því, að ríkið borgar allan snjómoksturinn á þessari heiði.

Þessum orðum vildi ég koma áleiðis til hv. fjvn.-manna.