05.11.1958
Sameinað þing: 7. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í D-deild Alþingistíðinda. (2241)

18. mál, smíði 15 togara

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Þar sem forsrh. hefur ekki haft aðstöðu til þess að mæta á þessum fundi, mun ég veita þær upplýsingar í sambandi við þessa fsp., sem hægt er að veita á þessu stigi málsins.

Það er enn unnið að lánsútvegunum til kaupa á þeim togurum, sem hér er rætt um. Lán hafa því ekki verið tekin. Aðalbankastjóri Seðlabankans hefur m.a. unnið að þessu máli fyrir ríkisstj. hönd, og að undanförnu hefur hann m.a. verið erlendis í þessum erindum. Þannig stendur málið raunverulega varðandi lántöku í sambandi við kaup á þessum skipum, en mér þykir rétt að gera hér nokkru nánari grein fyrir gangi málsins í heild, og mætti það þá liggja nokkru skýrar fyrir mönnum, hvað verið hefur að gerast í þessu máli.

Hv. fyrirspyrjandi vék fyrst að því að ríkisstj. hefði á sinum tíma heitið því, að keyptir skyldu 15 nýir togarar til landsins og þeir staðsettir með sérstöku tilliti til þess að auka á jafnvægi í byggð landsins.

Framhaldið af þessu var svo það, að sett voru lög hér á Alþingi, sem staðfest voru 27. des. 1956, en þar var stjórninni heimilað að festa kaup á 15 stórum togurum og allt að 12 minni togskipum. Það kom fljótlega í ljós við undirbúning þessa máls, að það voru uppi allháværar kröfur um það að sinna fiskiskipakaupum ýmissa smærri byggðarlaga úti á landi, ekki einvörðungu með kaupum á stórum togurum, heldur einnig togurum af milligerð eða af minni stærð. Af því tók málið strax í upphafi þeim breytingum, að lögð var höfuðáherzla á það að kaupa 12 minni togskip, og samningar um þau voru gerðir, og nú er svo komið, að komið er að afhendingu þessara skipa, búið að úthluta þeim til 12 byggðarlaga úti á landi, og fyrsta skipið verður afhent Íslendingum formlega nú 10. nóv. og annað skipið 12. nóv. Nú hefur verið gengið frá formlegu láni í sambandi við kaup á þessum skipum, eða um 50 millj. kr. erlent lán til 12 ára, miðað við 21/2 % vexti, og má því segja, að þessi þáttur málsins hafi verið leystur að fullu, og ég hygg, að að verulegu leyti sé leyst úr því, sem mestur áhugi var þá uppi um, en það var að auka nokkuð við fiskiskipin í ýmsum þeim byggðarlögum úti á landi, sem höllustum fæti stóðu með öflun hráefnis til heimaatvinnu.

Eftir stendur þá sá hlutinn, sem snýr að kaupum á hinum 15 stóru skipum, en ríkisstj. þótti rétt að halda áfram við þá ákvörðun, að slík skip yrðu keypt, enda hefur nú dregizt um alllangan tíma að ganga til þess að endurnýja okkar togaraflota og kaupa hina stærri togara í skarð þeirra, sem jafnan heltast úr lestinni.

Þannig var unnið að því máli, að segja má, að 10 fyrstu mánuðina, eftir að heimild Alþingis var veitt í árslok 1956, var unnið að undirbúningi að framkvæmdum í þessum efnum, og ég held, að það hafi verið unnið að undirbúningi málsins eins og frekast var hægt.

Það þótti nauðsynlegt að leita álits sérfróðra manna um það, af hvaða stærð og gerð þessi skip teldust vera hentugust fyrir Íslendinga, eins og nú háttaði, og í þeim efnum var skipuð sérstök 5 manna nefnd landsþekktra togaraskipstjóra og leitað álits þeirra um stærð þessara skipa og gerð. Þessi nefnd vann að málinu um nokkurn tíma.

Síðan var skipuð 3 manna nefnd sérfróðra manna um skipabyggingar. Þar var tilnefndur sem form. skipaskoðunarstjóri, Hjálmar Bárðarson, og með honum voru í nefndinni Erlingur Þorkelsson vélfræðingur, sá sem hefur haft mest með að gera smíði allra þeirra stóru togara, sem Íslendingar hafa keypt nú eftir stríðið, og þriðji maðurinn í nefndinni var svo einn af þekktustu togaraskipstjórum landsins, Sæmundur Auðunsson.

Þessari þriggja manna nefnd var falið það verk að útbúa nákvæmlega útboðslýsingu af skipunum, svo að hægt væri að leita tilboða hjá öllum helztu og þekktustu skipabyggingarstöðvum, sem við höfum skipt við, og þá auðvitað að sjálfsögðu stuðzt við það meginálit, sem fyrir lá frá togaraskipstjóranefndinni, um það, hvað mundi vera hagstæðast fyrir okkur um stærð og gerð skipanna í aðalatriðum.

Þessi nefnd sendi svo f.h. ríkisstj. út tilboð til 16 skipasmíðastöðva 28. júní 1957, og í októbermánuði 1957 höfðu borizt föst tilboð frá 9 þekktum skipasmíða- eða togarasmíðastöðvum.

Frá þessu var m.a. skýrt hér í aðalatriðum á Alþingi, þegar fsp. um sama efni og þessi fsp. er var hér til umræðu í nóvembermánuði 1957, og þá var það upplýst, að fram að þessum tíma hefði verið unnið að öllum undirbúningi að framkvæmdum í málinu og ekki talið fært að hafa þar á öllu meiri hraða, en verið hafði.

En þá var um það spurt hér, hvort ríkisstj. hefði ekki þegar tekið lán til þessara togarakaupa eða hvort hún hefði tryggt sér lán til framkvæmdanna.

Það var þá upplýst, að stjórnin hefði ekki talið tök á því að útvega lán fyrir kaupunum nema í beinu samhengi við það, hvar skipin yrðu smíðuð, og að reynt yrði að fá þær stöðvar, sem líklegastar væru með hentugan afgreiðslutíma og sanngjarnt verð á skipunum, til þess að beita sér fyrir því, að við fengjum nauðsynleg lán til framkvæmdanna í heimalandi sínu, þegar það lægi raunverulega fyrir, að hvaða skipasmíðastöðvum við helzt vildum hallast.

Það hafði fram að þessum tíma nokkuð verið athugað, hvaða lánsmöguleikar væru fyrir hendi, og í nóvembermánuði 1957 var það einnig upplýst hér, að fyrir lægju hjá ríkisstj. nokkur tilboð um lán til þessara framkvæmda. Að vísu væri það svo að, að dómi stjórnarinnar væru þessi lánstilboð ekki nægilega góð og hún mundi því vilja vinna að því áfram að fá hagstæðari lán. En treystandi á það, sem þegar lægi fyrir í málinu, hefði hún nú tekið ákvörðun um að senda út samninganefnd til þess að semja um byggingu skipanna, þó að endanlega hefði ekki verið gengið frá lánum, en með þá lánsmöguleika í huga, sem þá lágu fyrir. Á þessu tímabili höfðu borizt tvö lánstilboð frá Bretlandi, eitt frá Belgíu og tvö frá Vestur-Þýzkalandi.

Framhaldið varð svo það, að snemma á árinu 1958, eða skömmu eftir að þetta hafði verið rætt hér á Alþ., var togarakaupanefnd, sem skipuð hafði verið af ríkisstj., send út til þess að festa kaup á a.m.k. 8 af þessum skipum nú þegar og tryggja á þann hátt afgreiðslu þeirra eins fljótt fyrir Íslendinga og tök væru á, þó að áfram stæðu að fullu skuldbindingar stjórnarinnar um það að kaupa samtals 15 skip.

Það verður að segja það eins og er, að þær vonir, sem voru tengdar við þau lánstilboð, sem fyrir lágu, hafa brugðizt að verulegu leyti, og komu til þess eflaust nokkuð sérstakar ástæður. Það kom sem sé mjög greinilega fram fljótlega, þegar á átti að herða, að viðhorf allt í Bretlandi gerbreyttist með tilliti til þeirra átaka, sem þá voru í aðsigi og þegar orðin varðandi okkar landhelgismál, og fór það í rauninni ekkert dult, að með ákvörðun okkar í landhelgismálinu hefðu allir möguleikar okkar til lána í Bretlandi farið út um þúfur.

En áfram hefur svo verið unnið að því að fá slík lágmarkslán, sem stjórnin hefur talið að óhjákvæmilegt væri að hafa til þess að byggja kaupsamning á, og nú um skeið hafa þau mál aðallega verið í höndum aðalbankastjóra seðlabankans, sem hefur farið nokkrar ferðir út og m.a. að undanförnu unnið að því að fá endanleg úrslit í því, hvort hægt væri að fá slík lán til þessara kaupa sem talið er að séu algert lágmark fyrir okkur, til þess að vogandi sé að gera kaupsamning.

Á þessu stigi vil ég ekki segja neitt um, hvort það reynist svo um þau lánstilboð, sem okkur höfðu borizt og sum hver hafa brugðizt, hvort þau í Vestur-Þýzkalandi reynast verða nægjanleg til þess, að fært þyki að semja þar um smíði skipanna, en væntanlega fæst úr því skorið mjög bráðlega.

Það þarf svo í rauninni enginn að vera hissa á því, þegar það er haft í huga, sem við höfum mátt heyra síðustu mánuðina í sambandi við landhelgismáladeilu okkar, þó að það geri vart við sig í ýmsum efnum varðandi viðskipti okkar við þær þjóðir, sem við eigum þar einkum í deilu við, og það er staðreynd, sem við stöndum frammi fyrir, að í sumum þessara landa og þá fyrst og fremst í Bretlandi hefur þetta verið tekið upp á þá lund, að það, sem áður hafði verið boðið, er nú aftur tekið, og þeir möguleikar virðast því ekki vera lengur fyrir hendi, og verðum við að sjálfsögðu að sætta okkur við það.

Það mun verða unnið að því eins og kostur er að fá úr því skorið, hvort hægt er að fá nauðsynleg lán til þessara skipakaupa á þeim slóðum, þar sem fyrirhugað hafði verið að fá skipin smíðuð. Reynist ekki fært að fá þessi lán, er vitanlega ekki um annað að ræða, en að leita nýrra fanga í þeim efnum og sjá, hvaða möguleikar gefast þá í öðrum löndum en þeim, sem við höfum leitað til í sambandi við smíði á þessum stóru skipum.

Ég held, að þessi atriði upplýsi í öllum meginatriðum, hvað gerzt hefur í málinu. En nú síðara árið hefur fyrst og fremst staðið á því að fá þau lán, sem álitið hefur verið að kaupin yrðu að byggjast á.

Við áttum þess kost að fá einnig lán fyrir þessum stóru skipum á svipaðan hátt og við fengum fyrir minni skipunum. En það voru miklir örðugleikar á því að ætla að fá hvor tveggja skipin byggð í sömu stöðvum á sama tíma. Auk þess kusum við heldur, á meðan lánsvon var þar, að leita eftir smíðum á skipunum í þeim stöðvum, þar sem við vorum kunnugir fyrir um smíði svona stórra skipa, og því var það reynt til þrautar. En það er mín skoðun, að fáist ekki úr því skorið nú næstu daga, hvaða möguleikar eru fyrir hendi til þess að fá skipin smiðuð þar og nauðsynleg lán þar til smíðanna, þá hljótum við nú, einmitt þegar þessum minni skipum er að verða lokið, að snúa okkur til þeirra aðila, sem við vitum að við mundum geta fengið nauðsynleg lán til skipasmíðanna, hjá, og framkvæma á þann hátt það, sem er aðkallandi nauðsyn fyrir okkar efnahagslíf, að endurnýja okkar stærri togaraflota.