05.11.1958
Sameinað þing: 7. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í D-deild Alþingistíðinda. (2245)

18. mál, smíði 15 togara

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Hv þm. N-Ísf. kom hér með munnlegar fyrirspurnir, sem ég skal reyna að svara.

Hann spurði um það, hvert mundi verða verð þessara 250 smálesta skipa, sem keypt hafa verið og nú eru að koma til landsins. Verð hvers skips mun verða mjög nærri því að vera um 4 millj. kr., en við það bætist svo að sjálfsögðu 55% yfirfærslugjaldið, á þann hluta kaupverðsins, sem ekki hafði áður verið yfirfærður, er löggjöfin frá því í maí s.1. var samþykkt. Þetta er kaupverð skipanna, og það hefur nálega ekki breytzt neitt frá því að upphaflega var samið um smíði skipanna. (Gripið fram í.) Ja, ef maður reiknar yfirfærslugjaldið á þann hátt, sem ég hygg að muni koma út, en það er ekki gott að segja um það á þessu stigi, á meðan skipin hafa ekki verið gerð upp. Þó hygg ég, að með yfirfærslugjaldinu muni verða mjög nærri því, að verð skipanna sé í kringum 5.7 til 5.8 millj. kr., vegna þess að þó nokkuð af verði þeirra hafði verið greitt áður, en yfirfærslugjaldið var samþykkt.

Þá spurði þm. um það, hvort ég teldi, að nýir togarar mundu verða ódýrari nú vegna þess dráttar, sem orðið hefði á því að festa kaup á þeim, eða hvort það mundi vera rétt, að verð á skipum færi lækkandi. Já, það liggur alveg augljóst fyrir, að verð á skipum hefur farið lækkandi í skipasmíðastöðvunum, og þau verðtilboð, sem við höfum fengið fyrir nærri ári, hafa tekið breytingum einmitt með tilliti til almennrar verðlækkunar, sem orðið hefur í skipasmíðum. En ég sé það á málflutningi hv. þm., að hann er fyrst og fremst að tala um það innanlandsverð, sem hver einstaklingur þyrfti að greiða fyrir skipin nú og áður, og þar sem 55% gjaldið er komið til, munu skipin verða fyrir innlenda viðtakendur miklu dýrari, en áður var, þó að skipin fyrir þjóðina, þegar þjóðhagslega er á þau litið, verði nokkru ódýrari, en þau voru fyrir rösku ári.

En það er vitanlega með öllu villandi að ætla að setja það þannig upp, að vegna þess að Alþingi samþykkti efnahagstillögurnar s.l. vor og ákvað þá að innheimta 55% gjald af innfluttum bátum og skipum, þá séu skipin út af fyrir sig að hækka í verði, þjóðhagslega á það litið. Það ber vitanlega að hafa það í huga í sambandi við þá ráðstöfun, að jafnhliða því sem ákveðinn var þessi háttur á að innheimta 55% gjald af innflutningsverði skipanna og hækka skipin í verði til einstakra kaupenda, þá var jafnhliða ákveðið að hækka tekjur skipanna aftur á móti sem þessu nam og fyllilega það. Það verður vitanlega að hafa í huga, að það var verið að ákveða að hækka t.d. tekjur á meðalfiskibát, sem rekinn er aðeins yfir hávetrarvertíðina, — það hefur verið ákveðið að hækka meðaltekjur þessa báts um yfir 200 þús. kr. En það er rétt, það var líka verið að ákveða það að hækka með þessum hætti stofnverð bátanna frá því, sem áður hafði verið.

Þá vildi hv. þm. N-Ísf. túlka málið þannig, að þar sem nú væru liðin nærri tvö ár, frá því að ríkisstj. fékk heimild frá Alþ. til þess að kaupa nýja togara, og enn væri ekki búið að festa kaup á skipunum, þá sýndi það seinagang í öllum undirbúningi málsins. En ég hef áður gert tilraun til að láta hann skilja það, að öllum undirbúningi að kaupunum var lokið í októbermánuði 1957. Það er rétt, að það tók um 10 mánuði að framkvæma þennan nauðsynlega undirbúning. Úr því var öllum undirbúningi verksins lokið og þá skorti í rauninni ekkert annað en það að hafa nægileg lán eða nægilegt fé fyrir hendi til þess að leggja í að gera kaupin. Ég fyrir mitt leyti fylgdist mjög gerla með öllum undirbúningi að málinu og tel að, að því hafi verið unnið eftir því, sem tök voru á, og þykist hafa séð um, að svo væri gert.

Hitt er svo annað mál, að það hefur þannig til tekizt hjá ríkisstj., og getur hver ásakað hana um það sem vill, að síðan öllum nauðsynlegum undirbúningi var lokið í októbermánuði 1957 og þar til nú, einu ári síðar, hefur ekki tekizt að fá lán í þeim löndum, sem menn höfðu aðallega hugsað sér að kaupa skipin í, ekki svo góð lán, að það hafi þótt fært að ganga frá samningum á þeim grundvelli.

Ég vek svo aðeins athygli á því, að þessi hv. þm., sem er kunnur að því að hafa mikinn áhuga fyrir togarakaupum; vék sér alveg undan því að svara þeirri spurningu minni, hvort t.d. hann og hans flokkur mundi vera fylgjandi því, ef það kæmi nú í ljós á næstunni, að við gætum fengið nauðsynleg lán til skipakaupanna t.d. í Vestur-Þýzkalandi, Belgíu eða Englandi, að við ættum þá að taka á sama stað hliðstæð lán til kaupanna og við gerðum í sambandi við kaup á skipunum tólf. Það væri vissulega eðlilegt, að stærsti flokkurinn hér á Alþ. segði til um það, hver hans skoðun er í þeim efnum, ef hann hefur þá nokkurn verulegan áhuga frekar, en einn af forustumönnunum, sem hér talaði í málinu áður, fyrir því, að málinu verði raunverulega hraðað. En kannske eiga þessar upplýsingar eftir að koma fram í málinu hér við frekari umræður.