28.01.1959
Neðri deild: 65. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Eins og vænta mátti, hafa þessar útvarpsumræður um frv. hæstv. ríkisstj. til þess að stöðva verðbólguna í landinu verið nokkuð almenns eðlis. Ég gerði þó tæplega ráð fyrir því, að þeir, sem kæmu fram hér í kvöld af hálfu þingmanna, mundu verja svo að segja öllum ræðutíma sínum í að ræða annað mál, sem sé kjördæmamálið, eins og síðasti hv. ræðumaður, 1. þm. S-M., Eysteinn Jónsson, bæði nú í lok þessarar ræðu og í allri fyrri ræðunni, sem hann flutti. Ég vil leyfa mér að gefnu tilefni að gera nokkrar athugasemdir við þau ósannindi og missagnir, sem þessí hv. þm. leyfði sér að hafa um hönd í sambandi við kjördæmamálið og þá breytingu, sem þar er fyrirhuguð.

Ég vil leggja áherzlu á það, að sjálfstæðismenn hafa lagt á það megináherzlu í sambandi við þær till., sem þeir hafa undirbúið í sambandi við kjördæmaskipunina, að sjálf stjórnskipun ríkisins verði að miðast við, að kjölfestan, þ. e. hæfilegt jafnvægi í byggðum landsins, sogist ekki fyrir borð. Þrátt fyrir marga galla hinnar gömlu kjördæmaskipunar er það þó ríkt í eðlisfari Íslendinga, að byggðarlögin hafi sína þingmenn. Samfara jöfnum kosningarrétti einstaklinganna er því mikilvægt að hafa í huga jafnvægi byggðanna og þetta höfum við sjálfstæðismenn gert okkur fullkomlega ljóst. En jafnvægi byggðanna er að sjálfsögðu auðvelt að tryggja, þó að sameinuð séu smærri kjördæmi innan eðlilegra byggðarlaga með samstæða hagsmuni.

Hv. 1. þm. S-M. endaði ræðu sína með því hér áðan, að þessar breytingar, sem fyrirhugaðar væru, hefðu ekki náð fram að ganga, það hefðu áður verið stöðvaðar breytingar á kjördæmaskipun af hálfu framsóknarmanna. Hann hefði ekki átt að minna á þetta. Það skeði í kosningum 1931, að Framsfl. fékk með þeirri kjördæmaskipun, sem hann virðist vilja halda upp á, 21 þm. kosinn af 36 kjördæmakosnum þingmönnum, sem þá átti að kjósa, með 35% af kjósendum landsins, en Sjálfstfl. fékk þá 12 þm., þó að hann hefði 43.8%. Þetta er það réttlæti, sem þessi hv. þm. hefur barizt fyrir í kjördæmamálinu og öðrum málum hér á þingi. Framsóknarmenn ætla sér ævinlega annan hlut, en öðrum mönnum. Framsfl. fékk þarna í þessum kosningum 60% þingmanna á rúmlega þriðjung kjósendanna. En Framsfl. var þá skamma stund höggi feginn og hann kynni að vera það einnig nú, ef hann ætlar að leggja megináherzluna á það að hanga í ranglætinu. Og ég minni á það, að það liðu ekki nema 2 ár, þar til næstu kosningar fóru fram — og hvernig fór það? Framsfl. tapaði þá þriðjungi af öllum þingmönnum sínum.

Það, sem þessi hv. þm., sem talaði hér áðan, og Páll Þorsteinsson, þm. A-Sk., virðast vilja, að ráða skuli í kjördæmaskipuninni, það er það, sem við búum við nú, að Framsfl. fær í síðustu alþingiskosningum 17 þm. kosna með um 13 þús. atkv., þegar Sjálfstfl. fær 19 þm. kosna með yfir 35 þús. atkv. eða nærri þrisvar sinnum stærri kjósendatölu og ætti, ef fullt jafnrétti væri milli kjósenda, rétt hlutfall milli þingmanna og kjósenda, að hafa 46 þm. á móti 17 þm. Framsfl. Mér finnst, að þessir 17 dátar ættu að skammast sín fyrir að sitja hér í þingsölunum í skjóli slíks ranglætis.

Það er, eins og ég sagði áðan, meginsjónarmið í till. sjálfstæðismanna í sambandi við kjördæmabreytingu, að nauðsynlegar leiðréttingar á kjördæmaskipuninni fækki ekki þingmönnum strjálbýlisins og hefur heldur þótt rétt að fjölga þingmönnum nokkuð til þess að geta fylgt þessari reglu. Og ég vil alveg sérstaklega taka það fram í sambandi við dreifbýlið, að í till. þeim, sem undirbúnar hafa verið um stærri kjördæmi, er síður en svo, gengið á rétt fólksins í strjálbýlinu. Hitt er sýnu nær, að aðstaða þess batni frá því, sem áður er, a. m. k. í fjölmörgum tilfellum, til þess að hafa áhrif á og samband við þm., sem verða mundu 5 til 6 eða 7 fyrir hvert kjördæmi í stað eins eða tveggja, eins og nú er, því að vitanlega verða þingmenn hinna nýju kjördæma að gæta jafnt hagsmuna sinna kjósenda, hvar sem þeir búa í kjördæminu.

Ég er þeirrar skoðunar, að viðhorf manna sé mjög breytt frá því, sem áður kann að hafa verið, varðandi sambúð og samband sveita og kaupstaða eða strjálbýlis og þéttbýlis. Allar þjóðlífsbreytingar síðustu áratugina stuðla að því. Gerbyltingar í samgöngum og samlífi fólksins innan landshluta og milli landshluta segja til sín. Í dag skilst mönnum í vaxandi mæli, að velferð þjóðarinnar í heild veltur á auknu innbyrðis samræmi í þjóðfélaginu, meira jafnvægi og festu, gagnkvæmum skilningi milli stétta og starfsgreina, minni nágrannakryt, vægari flokkabaráttu og minni hreppapólitík. Það er ólán Framsfl. í þessu máli eins og svo mörgum öðrum, að gengi hans veltur á því að viðhalda ranglætinu.

Páll Þorsteinsson, þm. A-Sk., talaði um það hérna áðan, að það þættu eðlilegar leikreglur, að keppendur stæðu jafnt að vígi, þegar keppnin hefst. Þetta segja mennirnir, sem hafa haldið í ranglátu kjördæmaskipunina, sem ég var að lýsa áðan. En framsóknarmönnum hefur ekki nægt hið herfilega ranglæti og misrétti í núverandi kjördæmaskipun, heldur tók þessi flokkur sér fyrir hendur fyrir síðustu alþingiskosningar að auka enn þá meira á ranglætið. Þá var stofnað til Hræðslubandalagsins. En það er áreiðanlegt, að það er ekkert fremur, en þau herfilegu kosningasvik Framsóknar, sem þá var stofnað til, sem gera það nú óhjákvæmilegt að breyta kjördæmaskipun landsins, svo að útilokuð séu svikin og ranglætið.

Ég skal láta þetta nægja í bili um kjördæmamálið.

Þá vil ég þessu næst víkja að vissum einkennum stjórnmálaþróunarinnar á undanförnum árum í tíð vinstri stjórnarinnar, sem mér finnst öðrum fremur áberandi, en þess eðlis jafnframt, að mönnum ber að festa þau í minni, því að þau eru að mínum dómi mjög til viðvörunar, auk þess sem mál það, sem hér liggur fyrir, er bein afleiðing af viðskilnaði fyrrv. ríkisstj, og ekki sízt viðskilnaði hv. 1. þm. S-M. í sambandi við fjármálastjórn landsins.

Fólkinu hefur ekki á undanförnum árum verið sagt satt. Loforð hafa ekki verið efnd. Svo mikils hefur verið metið að fara með völdin í þjóðfélaginu, að valdhafarnir sjálfir hafa tapað áttunum og verið sjálfum sér sundurþykkir. Það hefur þar af leiðandi skort alla festu í stjórnarframkvæmdir og stjórnarstefnu og af þessu öllu hefur leitt, að allur almenningur hefur í vaxandi mæli átt erfitt með að átta sig á, hvað við mundi taka frá degi til dags, enda oft staðið þannig á, að sjálfir stjórnarherrarnir hafa ekki vitað það, eins og kom hér fram áður, hvort þeir yrðu deginum lengur ráðherrar eða ekki. Slíkt er stórhættuleg þróun lýðræðisþjóðfélagi. Hún veikir ekki aðeins trú almennings á stjórnarforustunni í landinu, heldur stefnir beinlínis að því, að almenningur glati gersamlega trausti á Alþingi og ríkisstj., á stjórnmálaflokkum og hlutverki þeirra í þjóðfélaginu.

Vinstri stjórnin boðaði í upphafi varanleg úrræði í efnahagsmálunum. Hún vissi ekki um nein varanleg úrræði, þegar þessi boðskapur var látinn út ganga. Fyrstu viðbrögðin voru 6 vísitölustiga kaupskerðing, sama eðlis eða svipaðs eðlis og nú er lagt til og kommúnistar fordæma í kvöld. Samtímis var því borið við í grg. fyrir fyrstu fjárl. vinstri stjórnarinnar haustið 1956, að ríkisstj. hefði þá ekki unnizt tími til að marka hina nýju stefnu í efnahagsmálunum. Að ári liðnu, haustið 1957, var nýja stefnan ekki enn fundin og þá var borið við, að ríkisstj. hefði ekki haft tækifæri til að hafa samráð við þm. stjórnarflokkanna. Svo var beðið eftir úrræðum fram að jólum, en engin úrræði og enn var beðið fram að páskum, fram fyrir páska og loks í lok maí s. l. komu hin svokölluðu „bjargráð“. En þau voru þá ekki einhlít. Meira var boðað síðar.

Um það átti að bíða samráðs stéttarfélaga eða fyrst og fremst þings Alþýðusambands Íslands. Á meðan magnaðist verðbólgan með ógnarhraða, svo að allir sáu, að efnahagsmálin voru komin í meiri ófæru en nokkru sinni fyrr í tíð þeirrar stjórnar, sem taldi sig myndaða til þess að leysa vandann. Þetta er nú alkunn saga. Lokaorð hennar eru þessi hjá Hermanni Jónassyni, fyrrv. forsrh., þegar hann tilkynnti Alþ. ríkisstj. hans hefði gefizt upp:

„Ný verðbólgualda er skollin yfir. Í ríkisstj. er ekki samstaða um nein úrræði í þessum málum, sem að mínum dómi geti stöðvað hina háskalegu verðbólguþróun, sem verður óviðráðanleg, ef ekki næst samkomulag um raunhæfar ráðstafanir.“

Þetta má segja að sé í fullu samræmi við það, sem þáverandi forseti Sþ., núverandi hæstv. forsrh., sagði, er Eysteinn Jónsson lagði fram þriðju og síðustu fjárlög vinstri stjórnarinnar í haust. Þá sagði Emil Jónsson: „Öllum landsmönnum er nú ljóst orðið, að sú þróun, sem átt hefur sér stað að undanförnu og fjárl. eru á vissan hátt spegilmynd af, er í hæsta máta óheillavænleg og leiðir til hreinnar glötunar, ef ekki tekst á einhvern hátt að stöðva hana.“

Ég skal nefna annað sýnishorn af staðfestuleysi fyrrv. hæstv. ríkisstj. Samþykkt var að krefjast þess, að varnarliðið færi tafarlaust úr landi. Þetta var sett efst á stefnuskrá fyrrv. stjórnar við hliðina á varanlegum úrræðum í efnahagsmálunum. Í þessu máli eru öllum landsmönnum líka ljósar efndirnar. Strax haustið 1956 var málinu skotið á frest. Um sama leyti var samið um nokkurra millj. dollara lán frá ríkisstj. Bandaríkjanna. Nú hefur allt þinglið kommúnista haft geð í sér til þess, eftir að þeir eru komnir úr ríkisstj., að bera fram hér þáltill. um það, að Alþingi álykti að efna ályktun sina um brottför hersins frá 28. marz 1956, — rétt eftir að þeir eru skriðnir úr ráðherrastólunum. En 29. marz s. l. lýsti Alþýðublaðið því, hversu skeleggir þessir menn hefðu verið, meðan þeir voru í ríkisstj., í þessu máli. Þá stóð í Alþýðublaðinu: „Þeir (kommúnistar) tefla að vísu peðunum fram og hafa hátt, en ekki er vitað til, að ráðherrar þeirra hafi í eitt einasta skipti nefnt varnarmálin innan ríkisstj., siðan hún var mynduð. Þeir virðast ekki telja það þess virði. Þvert á móti lýstu ráðherrar þeirra yfir á Alþingi, að þeir væru samþykkir frestun á samningum um dvöl varnarliðsins í des. 1956 í nokkra mánuði, en síðan ekki söguna meir. Þm. kommúnista virðist vera miklu meiri alvara í málinu.“

Mig langar til að tíunda svolítið meira. Það var lofað samráði við svokallaðar vinnustéttir. Það reyndist fals og blekkingar og aldrei var þetta ljósara, en á Alþýðusambandsþingi í haust, þegar var leynt till. stjórnarfl., sem þó er nú upplýst að lágu fyrir í efnahagsmálunum. Það var lofað vinnufriði í landinu, en uppskorið vinnudeilur og verkföll. Það var lofað 15 stórum togurum, — efndir voru engar. Það var lofað leiðréttingu á kosningalöggjöf og kjördæmaskipun, — það var svikið. Það var lofað nýju skipulagi á útflutningsverzluninni, — reyndist eintómur hégómi. Það var lofað stórauknu fjármagni til íbúðabygginga. Þeir lánasjóðir eru tómir og liggur við, að fjöldi manna missi hálfgerðar íbúðir vegna svikanna, að því er Eysteinn Jónsson hefur upplýst hér við 1. umr, þessa máls. Það var lofað endurskoðun bankalöggjafarinnar, sem reyndist eintóm sýndarmennska, utan þess að 13 stjórnarliðum var komið fyrir í nýjum og gömlum stöðum bankastjóra og bankaráðsmanna.

Ég segi ekki, að fyrrv. hæstv. ríkisstj. hafi verið mislagðar hendur á öllum sviðum, en ég hef drepið á, hversu henni mistókst hrapallega, þar sem mest lá við. Eins er þetta á fjölmörgum öðrum sviðum efnahags- og fjármála, sem blandazt hafa inn í þessar umr.

Og þá langar mig til að koma nokkuð að lántökunum, erlendu lántökunum, sem 1. þm. S-M., Eysteinn Jónsson, gerði hér að umræðuefni.

Hann er sí og æ við meðferð þessa máls að inna núverandi hæstv. ríkisstj. eftir því, hvort hún ætli eða ætli ekki að taka eitthvert 5 eða 6 millj. dollara lán, sem fyrrv. ríkisstj. hafi verið með á prjónunum, áður en hún gafst upp. Enginn hefur hælzt um meir, vegna hinna erlendu lána fyrrv. ríkisstj,. en Eysteinn Jónsson. Samt er þetta e. t. v. skammarlegasti og um leið vafasamasti þáttur stjórnarferils vinstri stjórnarinnar, að vera sí og æ betlandi um lánsfé hjá meðlimaríkjum Atlantshafsbandalagsins eftir það, sem á undan var gengið, fyrst og fremst hjá Bandaríkjunum, einnig hjá Þýzkalandi og loks hjá öllum Atlantshafsríkjunum sameiginlega, þegar beðið var um samskotalánið. Vafalaust hefur þetta allt átt að forða vinstri stjórninni frá því að þurfa að þiggja lán frá Rússum, en þó endaði líka með lántöku þar, 50 millj. kr. á s. l. ári.

Erlend skuldasöfnun hefur verið geigvænleg undanfarin ár. Á tveggja og hálfs árs valdaferli vinstri stjórnarinnar hafa verið tekin erlend lán á sjöunda hundrað millj. kr. Árlegar greiðslur, vextir og afborganir af erlendum lánum, borið saman við gjaldeyristekjurnar, eru 2.6% í árslok 1955, en 7.5% í árslok 1958. Erlenda skuldabyrðin hefur þannig nærri þrefaldazt á þessu tímabili fyrir þjóðarheildina.

En hér við er jafnframt að athuga, að þeir einstöku aðilar, sem skulda erlendu lánin, verða eftir gengislækkunina með niðurfærslugjaldinu að borga þær skuldir og vexti með 55% álagi, og stærstu skuldararnir eru ríkið sjálft og opinberir aðilar. Þannig eru t. d. umsamin föst erlend lán í árslok 1957 samtals 867 millj. kr., reiknað á jafnvirðisgengi, þ. e. einn Bandaríkjadollar kr. 16.28, en verða með 55% yfirfærslugjaldinu, sem lögboðið var í maí 1958, 1.343 millj. kr. Bent hefur verið á, að erlendu lánunum hafi verið varið til þarflegra framkvæmda, eins og sementsverksmiðju, raforkuframkvæmda, ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs. Eysteinn Jónsson var hér áðan að tala um, að menn hefðu talið þetta eftir. Það er mesti misskilningur. Til allra þessara framkvæmda var varið álíka miklu fé í tíð stjórnar Ólafs Thors á árunum 1953–56 þrátt fyrir sáralitlar erlendar lántökur eða samtals á þeim tíma um 130 millj. kr. Þetta var hægt vegna hinnar öru sparifjármyndunar þá, sem nam í heild um 700 millj. kr. á 4 árum. En vegna hinnar geigvænlegu gjaldeyrisstöðu undanfarið hefðu ekki aðeins umræddar framkvæmdir farið varhluta af fé, ef erlendu lánin hefðu ekki fengizt, heldur hefði vinstri stjórnina gersamlega rekið upp á sker að halda þjóðarbúskapnum gangandi. Það hefði skort gjaldeyri til almennra neyzluvörukaupa landsmanna, ríkissjóður hefði misst hundruð millj. kr. tekjur vegna hinna geysihækkuðu tolla á innfluttu vörunum fyrir hinn erlenda gjaldeyri frá lánunum og útflutningssjóður á sama hátt hefði misst hundruð milljóna í yfirfærslugjald á gjaldeyrinum, eftir að það kom til. Það er því beinlínis rétt, að vinstri stjórnin sællar minningar hafi dregið fram lífið og lifað á erlendri skuldasöfnun, enda heyrðu menn, hvað Eysteinn Jónsson sagði hér áðan, þegar var verið að tala um greiðsluafganginn og menn voru að býsnast yfir því, að þinginu hefði ekki verið gerð grein fyrir því o. s. frv., þá segir þessi hv. þm.: Ja, þetta var bara ein af mörgum afleiðingum af erlendu lántökunum. Annars hefði ég engan greiðsluafgang haft. — Hann hefur sannarlega lifað á því að safna skuldum erlendis, þessi hv. þm. og hæstv. fyrrv. fjmrh.

Ég vil svo loksins víkja að einu máli, sem hér hefur ekki komið til umræðu í sambandi við þetta og það er sá ljóður á þessum lánum til aðila eins og ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs, að báðir þessir sjóðir veita sín lán til bænda og útgerðarmanna og sjómanna í íslenzkri mynt og er því þessum sjóðum voði vís, ef ekki er að gert nógu snemma, ef ný yfirfærslugjöld á erlendan gjaldeyri væru á lögð eins og í tíð vinstri stjórnarinnar eða svipuð gengislækkun og þá átti sér stað.

Fiskveiðasjóður verður að afskrifa 6 millj. kr. um síðustu áramót vegna 55% yfirfærslugjaldsins, sem lagt var á á s. l. ári, sem er gengistap á erlendum lánum, sem tekin voru áður, en þetta gengislækkunargjald var á lagt með bjargráðunum. Hann á nú að mestu óráðstafað lánsfé frá seinni hluta s. l. árs, en það er vissulega nýtt vandamál, hvernig með á að fara. Mér er tjáð, að ræktunarsjóður skuldi í erlendum lánum um 80 millj. kr. og hafi það allt nú þegar verið endurlánað í íslenzkri mynt án nokkurrar gengisbreytingartryggingar og líklega er nærri helmingurinn eða nálægt helmingur erlendar skuldir, áður en 55% yfirfærslugjaldið var á lagt og ef svo er, þá er ræktunarsjóðurinn nú þegar orðinn fyrir yfir 20 millj. kr. gengistapi þess vegna. Vextir hækka svo einnig að sama skapi. Aðstaðan er því geigvænleg.

Á erlendu lántökunum hvílir því vissulega þungur skuggi, svo að ekki sé meira sagt. Herra forseti. Ég veit, að með vissum rétti geta menn sagt: Það er ekki þessi sorgarsaga, sem nú skiptir öllu máli, heldur hitt: Hvað á nú að taka til bjargar út úr öngþveitinu? En hitt er jafnrétt, að á lærdómi þeim, sem nú hefur fengizt, þótt dýrkeyptur sé, verður nú að byggja. Ég verð að mestu leyti að láta mér nægja að vitna til ræðu hv. 1. þm. Reykv., Bjarna Benediktssonar, um afstöðu okkar sjálfstæðismanna til málanna nú. Í sem stytztu máli er okkar afstaða þessi:

Sjálfstæðismenn héldu uppi málefnalegri og öruggri gagnrýni í stjórnarandstöðunni, svo sem þeim bar skylda til.

Eysteinn Jónsson sagði áðan, að sjálfstæðismenn mundu finna það, að fólkinu mundi ekki líka stjórnarandstaðan hjá þeim og hvernig þeir hefðu komið fram. Sem betur fer, liggur fyrir nokkurt sönnunargagn um þetta, því að fyrir afstöðu sína í stjórnarandstöðunni hafa sjálfstæðismenn þegar fengið vitnisburð kjósendanna í þessu landi í sveitarstjórnarkosningum, sem fram fóru fyrir ári, en þá hlutu þeir meira en helming allra greiddra atkv. á öllu landinu, þar sem þá var kosið.

Í þriðja lagi lögðu sjálfstæðismenn í efnahagsmálunum fram sínar till. strax og aðstæður leyfðu og við fyrsta tækifæri. Eysteinn Jónsson sagði, að sjálfstæðismenn hefðu gefizt upp við að móta stefnuna í efnahagsmálunum. Að heyra nú, að þessi hv. þm. skuli tala um það, að menn gefist upp við að móta stefnu í efnahagsmálunum! Getur nokkur neitað því, að auðvitað bar ríkisstj., fyrrv. hæstv. ríkisstj., að hafa frumkvæði um till. í efnahagsmálunum og það voru ekki aðeins sjálfstæðismenn og Sjálfstfl., sem biðu og biðu eftir till., heldur beið öll þjóðin í 2 ár eftir hinum lofuðu úrræðum, — varanlegum úrræðum ríkisstj., sem svo áttu að heita, í efnahagsmálunum. Og þegar þau loksins komu eftir 2 ár, þá vantaði botninn í þau, eins og viðurkennt er af forsvarsmönnum fyrrv. hæstv. ríkisstj., enda sprakk stj. af þeim sökum, er yfir lauk.

Í fjórða lagi gerði Sjálfstfl. fyrir áramótin tilraun til stjórnarmyndunar með tveim frumskilyrðum, sem greint hefur verið frá, að tafarlaust yrðu gerðar ráðstafanir til að stöðva verðbólguna og lögfest yrði á þessu þingi sú breyting á kjördæmaskipuninni, að tryggt sé, að Alþingi verði skipað í slíku samræmi við þjóðarviljann, að festa í þjóðmálum geti náðst. Eftir að þessi tilraun mistókst, ákvað Sjálfstfl. að styðja minnihlutastjórn Alþfl. með þeim hætti að verja hana vantrausti, meðan hún freistaði þess að stöðva verðbólguna og gegn því, að Sjálfstfl. og Alþfl. flyttu á þingi nú stjórnarskrárbreytingu um kjördæmaskipunina og að þing væri rofið og kosningar yrðu í vor.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, um niðurfærslu verðlags og launa, boðar stöðvun verðbólgunnar. Við styðjum ríkisstj. því heils hugar í því, að það nái fram að ganga. Kommúnistar ákalla nú verkalýðinn og aðra launþega og segja: Sjá, það á að taka launþegana þrælatökum. — Þeirra forskrift er þessi: Það er hægt að ráða fram úr vandanum, án þess að nokkur þurfi að finna fyrir því.

Áðan sagði hv. 2. þm. S-M., Lúðvík Jósefsson: Því ekki að taka tugi millj. kr. af bönkum, olíufélögum og heildsölum, en hlífa almenningi? — Ja, því gerði þessi hv. þm. þetta ekki, meðan hann var í ráðherrastól ásamt með félaga Hannibal og báðir voru ekkí svo sjaldan kallaðir olíumálaráðh. og réðu mestu um þessi mál? Nei, þá var ekki verið að hlífa alþýðunni.

Ég leyfi mér að segja, að það er með öllu óverjandi að reyna stöðugt að blekkja fólkið, enda mun það ekki láta blekkjast. Kommúnistum er ekki of gott að reyna enn að telja mönnum trú um, að enginn hafi fundið til undan meira en 1.000 millj. kr. nýjum álögum á allan almenning í landinu, sem þeir stóðu fyrir í tíð fyrrverandi ríkisstj. Þeir beittu sér ekki aðeins fyrir launaskerðingu í tíð vinstri stjórnarinnar, heldur stöðugri launalækkun, sem sjálfkrafa leiddi af hinni geigvænlegu og vaxandi dýrtíð, þar sem kaupmáttur launanna þvarr jafnt og þétt og þ. á m. vegna gengislækkunarinnar með 55% yfirfærslugjaldinu á nær allar erlendar yfirfærslur.

Innlegg Framsfl. hér í kvöld við afgreiðslu þessa máls er að stíga í vænginn við bændurna, vilja hækka strax verð á vörum þeirra, þegar allt annað á að lækka. Til umræddrar hækkunar eiga bændur rétt, en ekki fyrr en næsta haust. Hins vegar hafa þeir nú fyrst fyrir tilstilli sjálfstæðismanna, enga sérstaka baráttu frá framsóknarmönnum, fengið því til leiðar komið, að verðlag á vörum þeirra er leiðrétt ársfjórðungslega til samræmis við launabreytingar annarra landsmanna. Það er gamla sagan: Framsókn rankar við sér með yfirskinsbændadekri, þegar hillir undir kosningar.

Eysteinn Jónsson sagði áðan: Framsfl. tók upp baráttu fyrir því, að verðlagsgrundvöllurinn verði leiðréttur ársfjórðungslega. — Ja, af hverju tók hann ekki upp þessa baráttu fyrr en nú? Af hverju tók hann hana ekki upp, meðan hann var í stjórn og gat ráðið málunum?

Við sjálfstæðismenn styðjum heils hugar málstað bænda til jafns við aðrar stéttir og gleðjumst jafnframt yfir því að geta tryggt þeim betri aðstöðu, en meðan Framsókn réð. Bændur hafa ekki í þessu sambandi misst neitt, sem framsóknarmenn höfðu tryggt þeim, meðan þeir réðu og menn taki eftir því, svo að ég noti orð Eysteins Jónssonar: Þá gerðu framsóknarráðherrarnir ekkert til, að bændur fengju þessa umræddu verðhækkun, sem þeir nú hafa talað um. Það verða menn líka að muna.

Loks vitna ég til yfirlýsingar hæstv. forsrh. um það, að ef þessi sérstaka hækkun hefði nú átt að koma fram, væri þessu frv. í heild beinlínis stefnt í voða. Á það verður að fallast og að því vilja sjálfstæðismenn ekki stuðla, og mér er nær að ætla, að slík verði einnig afstaða bænda yfirleitt.

Herra forseti og hv. hlustendur. Nú eru fram undan mikil tímamót í íslenzkum stjórnmálum. Það er rétt, að reyna mun á þroska og skilning almennings og mönnum er ætlað, að færa fórnir fyrst í stað. En verið er að leggja grundvöll að tvennu: Í fyrsta lagi efnahagslegu jafnvægi í þjóðarbúskapnum, sem framtíðar velferð almennings veltur á að takast megi, í öðru lagi stjórnskipulegu réttlæti, sem er forsenda þess, að festa í þjóðmálum geti náðst. Eru ekki margir orðnir þreyttir á því að hjakka í gamla farinu og hverjir mundu ekki vilja vera með í nýrri sókn að nýjum markmiðum í íslenzku stjórnmálabaráttunni og íslenzkri þjóðlífsþróun? Góða nótt.