04.03.1959
Sameinað þing: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í D-deild Alþingistíðinda. (2289)

121. mál, innflutningur véla og verkfæra

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru nú aðeins fáein orð, enda takmarkaður tími við þessar umr. En ég get ekki stillt mig um að minnast hér á það, sem mér skildist vera stefnuyfirlýsing hæstv. viðskmrh. fyrir hönd stj. og þá væntanlega stjórnarflokkanna um það, hvernig haga eigi innflutningi á þessu ári. Það er a.m.k. full ástæða til að spyrja, hvort það er stefna stjórnarflokkanna beggja, sem kom fram í yfirlýsingu hæstv. ráðh. um það, hvernig haga skyldi innflutningnum. En stefnuyfirlýsing hans var ákaflega glögg. Hann sagði, að það yrði að flytja inn hátollavörur fyrir tiltekna fjárhæð, sem hann að vísu ekki nefndi. Síðan yrðu aðrar vörur að víkja fyrir því. En fasti punkturinn er sá, að hátollavörurnar verða að koma inn í landið. M.ö.o.: meginstefnan í innflutningsmálunum er yfirlýst sú, að það skuli ekki flytja vörur inn til landsins eftir því, hversu nauðsynlegar þær eru fyrir landsmenn eða fyrir þjóðarbúið, heldur fyrst og fremst með tilliti til þess, hvort þær gefa háa tolla í útflutningssjóðinn og til ríkissjóðs. Þessi stefna hefur aldrei verið framkvæmd fyrr, því að þótt gerðar hafi verið áætlanir um, hversu miklu ýmsir vöruflokkar gætu numið, hafa ekki verið gerðar um það neinar bindandi áætlanir fyrir fram, og ég fyrir mitt leyti hef t.d. ætíð varað við því að reikna með hátollainnflutningi upp á 225 millj. kr., enda hefur reynslan orðið sú, að s.l. ár gat þessi innflutningur ekki orðið, eins og hæstv. ráðh. sagði, nema 179 millj. kr.

Það er þessi meginstefna, sem hæstv. ráðh. lýsti yfir, væntanlega fyrir hönd stjórnarflokkanna beggja, — og það kemur skýrt fram, ef Sjálfstfl. hefur aðra stefnu, og þá væntanlega um það, hvernig hann ætlar að knýja stjórnina til þess að breyta um stefnu, — það var út af þessari stefnuyfirlýsingu hæstv. ráðh., sem ég kvaddi mér hljóðs, og til þess að mótmæla þessu sjónarmiði, til þess að mótmæla því, að innflutningsmálunum sé stýrt á þennan hátt, að fyrst sé tekin frá, hver veit hvað há fjárhæð, til þess að hægt sé að fá tolla í útflutningssjóð og ríkissjóð, og síðan verði annað að víkja, hversu nauðsynlegt sem það er.

Það er nú þegar alveg augljóst af þessum fáu orðum, sem um þetta mál hafa verið sögð hér í dag, að landbúnaðartæki verða að víkja í mjög verulegum mæli fyrir þessari nýju stefnu, eins og kom fram í því, sem hv. 1. þm. Rang. sagði hér og hv. þm. Dal., þó að hv. 1. þm. Rang. væri í leiðinni að reyna að breiða yfir það, því að það er auðvitað augljóst, að þær tölur, sem hér hafa verið nefndar, hrökkva ekki til að svara eftirspurninni eftir þessum tækjum, og niðurstaðan verður þá sú, að þessu verður fórnað á altari þessarar stefnu, sem hæstv. ráðh. lýsti og væntanlega er stefna stjórnarflokkanna í þessu máli. Hér er um að ræða einn undirstöðuþáttinn í þjóðarbúskapnum og eitt undirstöðuatriði þess, hvernig á að áætla tekjur ríkissjóðs og útflutningssjóðs. Það hefur sem sagt greinilega komið fram hjá hæstv. ráðh., að þetta á að vera meginsjónarmiðið, að nauðsynlegri vörur eigi að víkja eins og þarf, til þess að hægt sé að flytja inn hátollavörur fyrir einhverja tiltekna fjárhæð.