04.03.1959
Sameinað þing: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í D-deild Alþingistíðinda. (2295)

121. mál, innflutningur véla og verkfæra

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Ég vildi leiðrétta þann misskilning, sem komið hefur fram, að með því, sem sé að gerast við samningu þeirrar innflutningsáætlunar, sem ég hef lauslega skýrt frá, sé eitthvað alveg nýtt í sögu Íslendinga, að eiga sér stað. Menn hafa sumir talað þannig, að hér sé eitthvað alveg nýtt og óvenjulegt að gerast. Þetta er auðvitað alger misskilningur. Það hefur verið unnið nú að þessum málum með nákvæmlega sama hætti og mörg undanfarin ár, nákvæmlega sömu vinnubrögð viðhöfð. Í sjálfum vinnubrögðunum er ekkert nýtt. Ég held þó, að óhætt sé að segja, að sú innflutningsáætlun, sem nú er rétt nýgengið frá, sé rækilegar unnin, sé nákvæmar undirbúin, en nokkru sinni áður og fyllri samráð höfð við þá aðila, sem eiga að hafa framkvæmdina með höndum, en nokkurn tíma áður, enda er nú einmitt þessa dagana verið að undirbúa kerfi, sem ég vona að verði til góðra framkvæmda í því skyni að koma í veg fyrir margs konar tafir og truflanir, sem orðið hafa í þessum málum á undanförnum árum og hafa valdið óánægju, — ég segi réttmætri óánægju, bæði meðal innflytjenda og neytenda í landinu. En um það skal ég ekki fjölyrða að þessu sinni, til þess gefst eflaust tilefni hér eða annars staðar innan skamms. Það er því alger misskilningur, að nokkuð sé nýtt í efnismeðferð málsins nú að þessu sinni. Það er heldur ekkert nýtt, að þeir, sem með þessi mál fara, segi, að þeirra tilætlun sé, að gerðri áætlun sé fylgt. A.m.k. ætti það ekki að vera nýtt. Hitt væri sannarlega furðulegt, ef menn gerðu áætlanir eins og innflutningsáætlun beinlínis með það í huga að fylgja þeim ekki. Það væri sannarlega furðulegt. Hitt er svo augljóst mál, svo augljóst, að óþarfi ætti að vera að undirstrika það hér í tveimur eða þremur ræðum, að ef forsendur slíkra áætlana breytast, ef til dæmis afli bregzt gersamlega eða einhverjar aðstæður verða síðar á árinu allt aðrar, en þær eru nú, verður að sjálfsögðu að taka áætlunina til endurskoðunar, enda er beinlínis ráð fyrir því gert í því samkomulagi, sem nú er nýgert við seðlabankann um framkvæmd þessara mála, að áætlunin skuli endurskoðuð við vertíðarlok og síðan aftur á miðju árinu. Að skýra frá þeirri staðreynd, þeim þætti úr samkomulaginu við seðlabankann, er auðvitað nóg sönnun fyrir því, að það hefur aldrei vakað fyrir ríkisstj. að skoða áætlun eins og þessa sem eitthvert náttúrulögmál, sem gersamlega væri ófrávíkjanlegt. Það væri óskynsemi, sem hvarflar ekki að nokkrum okkar. En það vildi ég leggja áherzlu á og endurtaka að síðustu, — og það má gjarnan vera nýtt í málinu, ef menn vilja það, að það er ætlun núv. ríkisstj., að sjálfsögðu að óbreyttum forsendum, að fylgja þessari áætlun eins nákvæmlega og nokkur kostur reynist. Það var það, sem fyrrv. ríkisstj. því miður mistókst, bæði 1957 og 1958. Ég vildi óska, að núv. ríkisstj. mistækist það ekki, að henni tækist að fylgja áætluninni eins og hún hefur verið gerð, og að því mun verða unnið.