04.03.1959
Sameinað þing: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (2305)

174. mál, niðurgreiðsla vöruverðs

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er rétt, að niðurgreiðslurnar eru orðnar nokkuð háar. Ég var að skrifa niður það, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, og eftir því sem ég komst næst, munu niðurgreiðslurnar vera 262.1 millj. kr. alls. Og hér er alveg nýtt, sem upp hefur verið tekið, að greiða niður sjúkrasamlagsgjöld 20% eða 13 kr. á mánuði í Reykjavík. Fram að þessu hefur verið venja að greiða aðallega niður landbúnaðarvörur, vegna þess að það hefur verið ódýrast, hefur verið til jafnaðar um 6 millj. kr. stigið, en eins og sagt var hér áðan, þá mun stigið í sjúkrasamlagsgjöldunum vera á 11. millj. (Gripið fram á: Rúmar 11.) Eða um 11 millj. En það er þá næstum því helmingi dýrara, en landbúnaðarvörurnar eða þær vörur, sem áður hafa verið greiddar.

Hvers vegna hefur verið farið inn á það að greiða niður sjúkrasamlagsgjöldin í stað þeirra vara, sem áður hafa verið greiddar niður? Það gæti verið vegna þess, að landbúnaðarvörurnar hefðu verið greiddar það langt niður, að þær eru komnar niður í það verð, sem bændur fá fyrir þær. (PZ: Langt niður fyrir það.) Langt niður fyrir, segir hv. 1. þm. N-M., og þá er rétt að athuga þá fullyrðingu þm., hvort hún er áreiðanlega rétt. Ég tel, að þegar farið sé að greiða landbúnaðarvörurnar langt niður fyrir það, sem bændurnir sjálfir fá fyrir vöruna, þá sé á þá hallað, en ekki fyrr. Ef bændur þurfa að nota dýrari landbúnaðarvörur sjálfir, en neytandinn fær þá er rangt farið að. En þá er rétt vegna fullyrðingar hv. 1. þm. N-M, að athuga, hvað bændur fá fyrir þessar vörur, sem eru greiddar niður, og hvað neytandinn borgar, eftir að þær hafa verið greiddar niður, eins og hér hefur verið lýst:

Hvað fá bændur fyrir mjólk? Við vitum um það, hvert er hið auglýsta verð eftir aðalfundi mjólkurbúanna, og við vitum um það, hvert er verðlagsgrundvallarverðið. En það er fróðlegt að vita, hvað það er, sem bændurnir fá, og það er aðalatriðið fyrir bændur, hvað þeir fá i vasann, en ekki hvað sagt er að þeir fái. Bændur verða að kosta flutning á mjólkinni frá sinu búi til mjólkurstöðvarinnar eða mjólkurbúsins og hann er allmikill. Og það er talið bændum til tekna, sagt, að þeir fái það. Nú skal ég upplýsa, hvað það er, sem bændur fá eða líklegt er að þeir fái.

Það má gera ráð fyrir, að meðalfita í mjólk sé 3.8%, og hver fitueining er greidd á 71 eyri. Það er sama sem kr. 2.698. Eftirstöðvar hafa verið vanalega, a.m.k. hjá Mjólkurbúi Flóamanna, 40 aurar á hvert kg. Þá er það, sem bændurnir fá í sinn vasa, kr. 3.10. En við það bætist svo flutningsgjaldið til búsins, þannig að segja má, að útkoman hjá Mjólkurbúi Flóamanna hafi ekki verið verri, en annars staðar. Og þá er það þetta, að bændur fá kr. 3.10 fyrir lítrann, en flöskumjólkin er seld á kr. 3.15. Það má gera ráð fyrir, að vegna niðurgreiðslnanna aukist sala á neyzlumjólkinni, og það er ekki nema ágætt. — Tíminn er naumur að ræða þetta mál, en það væri æskilegt, að hafa tíma til þess.

Þá er það kjötið, sem er einn aðalþátturinn í niðurgreiðslunni. Hvað fá bændur fyrir kjötið? Hvað borga neytendurnir fyrir kjötið? Bændur eiga að fá samkv. verðgrundvellinum 21 kr., — ég man ekki, hvort það er 21.40 eða svoleiðis, — en hvað borga neytendur eftir niðurgreiðsluna? Þeir borga 23 kr. eða því sem næst, þannig að það er ekki enn komið niður fyrir það, sem bændur fá fyrir vöruna.

Vegna tímaskorts skal ég nú ekki fara nákvæmar út í þetta að þessu sinni. Ég vildi aðeins nota tækifærið til þess að benda á það, að enn er ekki búið að greiða landbúnaðarvörurnar niður fyrir það, sem bændur fá í sinn vasa fyrir þær. Og það má vera þess vegna, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki greitt landbúnaðarvörurnar meira niður að þessu sinni, heldur farið út í sjúkrasamlagsgjöldin, þótt það væri dýrara, að hún hafi haft hugmynd um, að það er varhugavert að greiða landbúnaðarvörurnar niður fyrir það, sem bændur fá fyrir þær.