04.03.1959
Sameinað þing: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í D-deild Alþingistíðinda. (2310)

175. mál, réttindi vélstjóra

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Eins og hv. þm. N-Þ. tók fram, eru í 1. nr. 47 1958, um breyt. á l. um atvinnu við siglingar, bráðabirgðaákvæði, sem mæla svo fyrir, að ríkisstj. skuli láta endurskoða lagaákvæði um menntun og réttindi vélstjóra, og hefur hann nú borið fram fsp. um það, hvað þessari endurskoðun liði.

Um fyrra atriðið, þ.e. um menntun vélstjóra, er það að segja, að á árinu 1956, hinn 7. maí, skipaði þáv. menntmrh., Bjarni Benediktsson, 3 manna nefnd til þess að endurskoða lög og reglugerðir um vélstjórakennslu á Íslandi. Í n. voru skipaðir þeir Þórður Runólfsson öryggismálastjóri, sem jafnframt var formaður n., Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri og Davíð Ólafsson fiskimálastjóri. Síðar tók Þorsteinn Loftsson vélfræðiráðunautur við starfi Davíðs Ólafssonar í n. í fjarveru hans.

Þessi n. skilaði áliti 21. marz 1958. Hún varð ekki sammála, og komu tvö frv. frá n. til rn. Að frv. meiri hl. stóðu þeir Þórður Runólfsson og Steingrímur Jónsson, en Þorsteinn Loftsson að frv. minni hl. Menntmrn. sendi þessi frv. til umsagnar Vélstjórafélagi Íslands, Mótorvélstjórafélagi Íslands og skólastjóra vélskólans í Reykjavík. Svör frá öllum þessum aðilum höfðu borizt á s.l. sumri. Samgmrn. fer með réttindamál vélstjóranna og nú að undanförnu hafa menntmrn. og samgmrn. starfað að nánari athugun á fram komnum till. og umsögnum, og er frv. um þessi efni í undirbúningi og mun væntanlega verða lagt fram hér á Alþingi á næstunni.

Ég játa, að afgreiðsla þessa máls hefur orðið tafsöm og tafsamari, en ég fyrir mitt leyti hefði kosið. En bezt er að segja hverja sögu eins og hún gengur. Það, sem töfinni veldur, er, að grundvallarágreiningur er milli nokkurra þeirra aðila, sem um málið hafa fjallað, og þeirra manna, sem telja sig framkvæmd málsins miklu skipta, um það, hvernig haga skuli kennslu vélstjóranna í grundvallaratriðum. Þessi ágreiningur má þó auðvitað ekki verða þess valdandi, að málið dragist úr hömlu, frekar en orðið er, og hafa nú verið gerðar ráðstafanir til þess, að samstarfi ráðuneytanna að samningu frv. um vélstjóramenntunina ljúki alveg á næstunni og frv. um þetta verði síðan lagt fyrir Alþingi til meðferðar.

Um hitt atriði fsp., þ.e. um réttindi vélstjóranna, get ég tekið það fram fyrir hönd samgmrn., sem fer með þau mál, að það mun láta semja frv. til l. um breyt. á l. um atvinnu við siglingar, að því er að réttindum vélstjóra lýtur, þegar ný lög hafa verið sett um menntun vélstjóranna. Samning frv. um réttindamálið verður að bíða, þangað til Alþingi hefur sett nýja löggjöf um menntunarmálið. Það er skoðun samgmrn., að það sé ekki tímabært að leggja fram till. í réttindamálinu, fyrr en endanleg ákvörðun hefur verið tekin um, hvernig menntun vélstjóranna skuli verða hagað í framtíðinni. — Með þessu vona ég að fsp. sé svarað.