13.11.1958
Neðri deild: 20. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (2358)

Landhelgismál

Ólafur Thors:

Herra forseti. Út af þessum ummælum hæstv. utanrrh. segi ég: Í guðs almáttugs bænum, reynum ekki að vera að flækja þetta mál með neinum aukaatriðum. Ég skal kenna honum ráðið til að ná í alla þessa spekinga, sem virðast vera þeir einu spekingar, sem stjórnin getur sætt sig við, þ.e.a.s. utanríkismálanefndarmennina. Hann getur kvatt þá menn sér til ráðuneytis, sem eru í stjórnarliðinu, hvort sem þeir eru kallaðir utanríkismálanefndarmenn eða bara menn: Og ég skal sjá um, að sá maður Sjálfstfl., sem er hér á landi og er meðlimur í utanrmn., mæti þar líka. Ég get því miður ekki í bili tryggt, að hinn meðlimur Sjálfstfl. í þessari n. mæti, því að hann er í opinberum erindum erlendis.

Ef við viljum miða jafnbeint á markið og Bretinn ætlaði að miða á okkar skip og menn, þá deilum ekki um smámunina, köllum saman mennina, sem þið viljið tala við. Ég skal sjá um, að mér jafngildur maður a.m.k. komi með mér á þann fund af hendi Sjálfstæðisflokksins, og þá held ég, að við náum þeim tilgangi, sem fyrir okkur vakir, að reyna að miða allir á eitt og hitta.