26.01.1959
Neðri deild: 62. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (2361)

Landhelgismál

Lúðvík Jósefsson:

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir það, sem hann hefur hér upplýst um þetta mál. Mér þykir ljóst af því, sem hann hefur hér sagt, að þær fréttir, sem hafa verið birtar í útvarpi og blöðum, séu staðlausar með öllu og í rauninni alveg gripnar úr lausu lofti. Ber þá vitanlega að mótmæla þeim.

Í þessum fréttum greindi útvarpið frá því og stendur í blöðunum, að eftir að þeir hefðu gert með sér samkomulag, skipherra íslenzka skipsins og hinn erlendi flotaforingi, þá birti hinn erlendi flotaforingi það brezka flotanum. Í tilkynningunni frá honum var ýtarlega greint frá samkomulaginu, sem þeir gerðu sín á milli, er sagt. En ef samkomulagið er ekki varðandi það, hvernig íslenzk skip leggja sín veiðarfæri innan 12 mílna landhelginnar og ekki heldur utan 12 mílna landhelginnar, þá er mér alveg hulið, hvaða ýtarlegt samkomulag hefur verið gert. Það er svo mál út af fyrir sig, að það eru ákaflega óviðkunnanleg vinnubrögð, að íslenzki varðskipsstjórinn fari um borð í eitt af þessum herskipum til þess að ræða þar við flotaforingja um þessi mál.

Eins og ég benti á, er vitanlega frá okkar hálfu ekkert annað í þessum málum að gera en það, að við eigum að brýna fyrir okkar mönnum, að þeir haldi alþjóðalög og reglur í þessum efnum, þeir merki sín veiðarfæri á eðlilegan hátt, og síðan verðum við vitanlega að ganga eftir því, að þeir, sem standa að þessum samþykktum, haldi þær, og kæra þá ella. Það er alveg rétt, að það hefur vitanlega oft komið fyrir, að bæði erlendir togarar og innlendir hafa lent í veiðarfærum íslenzkra báta. Og það er alveg sama, hvernig veiðarfærin verða merkt, það verður ekki hægt að koma algerlega í veg fyrir þetta, því að þar sem er um að ræða veiði skipa í náttmyrkri, getur verið mjög erfitt að ætla að fyrirbyggja, að togskip kunni að lenda í veiðarfærum báta. Slíkt hefur æði oft hent, og milli Íslendinga innbyrðis er það svo, að komi það fyrir, að togari lendi í veiðarfærum báta, þá er hann bótaskyldur og mjög algengt, að bátar fái fullar bætur fyrir veiðarfæratjónið, og sama er vitanlega að segja um erlenda togara.

Samkvæmt því, sem hæstv. dómsmrh. hefur hér sagt; liggur fyrir, að það hefur ekkert samkomulag verið gert um það, hvernig íslenzkir bátar leggja sín veiðarfæri, hvorki innan né utan landhelginnar, og vil ég í tilefni af því og þessum fréttum óska eftir því, að frá ríkisstj. hálfu sé þessum fréttum mótmælt sem staðlausum, því að það er sýnilegt, að þá eru þessar fréttir rangar.