12.05.1959
Sameinað þing: 49. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (2492)

Almennar stjórnmálaumræður

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Af þeim eldhúsdagsumræðum, sem nú þegar hafa farið fram, er enn einu sinni augljóst, sem landsmenn hafa þrásinnis áður heyrt við slík tækifæri, að það, sem vel hefur tekizt, vilja allir eigna sér, en því, sem miður er talið, er að þessu sinni ekki hent á milli sín. Nei, fulltrúar stóru og ábyrgðarmiklu flokkanna eru nú sammála um, að allt, sem miður hefur farið, sé Alþýðuflokknum að kenna.

Hvað veldur samstöðu þessara aðila nú, sem aldrei annars geta komið sér saman um neitt? A.m.k. varð þessarar samstöðu ekki vart, þegar þjóðin á s.l. hausti vó salt á gjábarmi verðbólgu og dýrtíðar, sem í rann elfa atvinnuleysis og stöðvunar atvinnuveganna. Þá fengu þessir hugum stóru foringjar stóru flokkanna pólitískt aðsvif á gjábarminum, og aðalforingi þjóðmálanna þá, hæstv. fyrrv. forsrh., Hermann Jónasson, hljóp í örvæntingu sinni inn á Alþýðusambandsþing til þess að fá afsökun fyrir því að losna við vandann.

Svo þegar nú hefur tekizt að þoka frá þessu ögnargljúfri, þá koma þessir sömu herrar og segja: Það átti ekki að gera þetta og hitt svona. Ef við hefðum mátt ráða, þá hefðum við gert þetta á annan veg. En þessi annar vegur hefur bara ekki séð dagsins ljós hér á Alþingi. Þeir kunnu ekki önnur ráð.

Jón sterki taldi sér aldrei aflfátt, þótt ekki væri hann glímumaður, og hann þóttist aldrei hafa verið í vanda staddur, eftir að vandinn hafði verið leystur af öðrum.

Í þessari ásökunarhríð andstæðinganna að Alþfl. verður mönnum að minnast fyrri ummæla þessara sömu herra um dauða flokkinn og spyrja þá sem svo, hvernig flokkur í slíku ástandi hefði getað áunnið sér þessa skothríð úr þeirra fylgsnum.

Ekki verður samræmið meira, þegar nú er litið í málgögn þessara sömu aðila. Þar er aftur endurtekinn hinn 20 ára gamli söngur þeirra um, að Alþfl. fái engan mann kjörinn í næstu kosningum, en að ástæðunni, sem til þess margraddaða söngs liggur, og þeim mörgu söngtextum, sem sungnir eru undir þessu sama lagi, skal ég víkja síðar.

Þegar að loknum síðustu alþingiskosningum tók Alþfl. þátt í þeirri tilraun, sem gerð var um myndun vinstri stjórnar. Ástæðan til þessarar þátttöku Alþfl. var fyrst og fremst sú, að þeirri skoðun hafði á stjórnarárum Sjálfstfl. og Framsfl. vaxið fylgi, að gera þyrfti tilraun með slíkt stjórnarsamstarf. Um það, hvernig sú tilraun tókst, hafa þeir, sem kunnugastir eru, þegar fjallað og þess vegna óþarft að rekja þá sögu hér aftur. Framsfl. var í síðustu kosningum samstarfsflokkur Alþfl., en er það ekki nú, og er nú af foringjum fyrrgreinds flokks reynt að gera Alþýðuflokksmenn tortryggilega og auka á úlfúð og sundurlyndi milli hinna almennu kjósenda flokkanna, eins og hv. þm. S-Þ., Karl Kristjánsson, gerði tilraun með hér áður. Þetta er gert í trausti þess, að slíkt moldviðri megi nokkuð skyggja á hinar raunverulegu ástæður, er til þess liggja, að þetta samstarf rofnaði.

Það er rétt að víkja að þessu nokkrum orðum.

Auk þeirra ástæðna, sem þegar hefur verið frá greint um sjálft stjórnarsamstarfið, þá tel ég, að dekur nokkurra foringja Framsfl. við kommúnista í verkalýðshreyfingunni og opinber og beinn stuðningur við þá í einstökum veigamiklum verkalýðsfélögum hafi verið eitt þeirra stærstu áfalla, er þetta samstarf hlaut. Áður en til þessa samstarfs var stofnað, var vitað um náið og gott samstarf einstakra foringja Framsóknar og kommúnista. En því mun ekki almennt hafa verið trúað, að þessi vinátta þeirra leiddi til þess, að foringjar Framsfl. fengjust til þess að vega að Alþýðuflokksmönnum í verkalýðshreyfingunni, sem þeim var þó vel ljóst að hefur verið og er undirstaða flokksins og tilveru hans í þau 43 ár, sem hann hefur starfað í íslenzkum stjórnmálum. Hvernig sem þessi stefna hefur verið ákvörðuð innan Framsfl., þá er það þó víst, að aðalmálgagn flokksins, Tíminn, hvatti fylgismenn flokksins til þess óhæfuverks að styðja kommúnista og veldi þeirra í verkalýðssamtökunum, jafnt í einstökum félögum sem í heildarsamtökunum, gegn Alþýðuflokksmönnum.

Framsóknarmenn, sem víða höfðu allt frá árinu 1948 barizt vel og drengilega við hlið annarra andstæðinga kommúnista, voru nú allt í elnu skyldaðir til þess að verða samherjar þeirra. Svo dýru verði var vináttan milli þessara fáu foringja keypt, og um Alþfl. varðaði þá að sjálfsögðu ekkert. Ég vil nú varpa fram þeirri spurningu til framsóknarmanna úti um land, hvort þessi ráðstöfun hafi verið gerð með þeirra samþykki. Af ágætri fyrri reynslu leyfi ég mér að efast um, að svo hafi verið.

Áður hefur verið gerð grein fyrir sams konar viðskiptum þessara sömu foringja í öðrum málum, meðan á þessu stjórnarsamstarfi stóð. Allt þetta sannar, að sameiginlega var gerð ítrekuð tilraun af þessum aðilum til þess að eyða áhrifum Alþfl., en neyða hann í þess stað inn á fyrir fram gert samkomulag kommúnista og þeirra í forustu framsóknarmanna, er þessari stefnu réðu.

Hefðu framsóknarmenn t.d. setið aðgerðalausir í þessari aðstöðu, ef Alþfl. hefði beitt sér fyrir allra flokka samstöðu til þess að eyða áhrifum framsóknarmanna innan samvinnuhreyfingarinnar? Nei, ég veit, að þeir hefðu ekki þolað slík vinnubrögð af samstarfsflokki. Ekki verður þessi afstaða heldur talin skynsamleg með tilliti til þess að ná samkomulagi um önnur mál innan sjálfs stjórnarliðsins.

Rétt er að viðurkenna það, að Framsfl. átti sem forustuflokkur í fyrrv. hæstv. ríkisstj. nokkuð erfitt, að því er varðar afstöðuna til þessara mála. Það afsakar þó ekki þá afstöðu, sem forustumenn hans hér tóku. Hyggilegra hefði jafnvel verið fyrir þá að láta þessa baráttu samstarfsflokkanna afskiptalausa. En þar mátti undirlægjuháttur nokkurra foringja flokksins við kommúnista sín meira. Kommúnistar höfðu gert háværar kröfur um þennan stuðning og höfðu í hótunum, ef ekki yrði látið að vilja þeirra, og þessir fáu foringjar Framsfl. létu undan.

Ég segi, að þessi afstaða flokksforingja Framsfl. hafi ekki verið skynsamleg með tilliti til samkomulags um önnur mál í stjórnarsamstarfinu. Reynslan af þessari stefnu liggur nú einnig fyrir. Af þessu sífellda dekri urðu kommúnistar eins og þrjózkufullir unglingar, sem neita að gera nema það, sem þeim gott eitt þykir, hvað sem staðreyndirnar annars segja.

Hörð og óvægin deila stóð um margra mánaða skeið milli hæstv. fyrrv. fjmrh. og hæstv. fyrrv. viðskmrh. um það, hvað raunverulega þyrfti af fé til þess að leysa vanda efnahagsmálanna, og Alþingi sat auðum höndum þangað til í júníbyrjun s.l. ár. Þessi deila ráðherranna mun einnig verða, þegar yfir söguna er litið, einn af veigameiri þáttum þess, að upp úr samstarfinu slitnaði.

Í veðreiðakeppni kemur það stundum fyrir, að ekki er veðjað á réttan hest. Þessu samstarfi lauk svo með því, að nú saka framsóknarmenn kommúnista um að hafa klofið stjórnina og öfugt. Klögumálin í þeim herbúðum ganga alveg á víxl.

Hvar sem Alþýðuflokksmenn hafa látið til sín heyra um lausn efnahagsmála, hafa þeir skýrt og skorinort lýst því yfir, að þeir teldu, að baráttan gegn vaxandi verðbólgu og dýrtíð ætti að sitja í fyrirrúmi við afgreiðslu slíkra mála. Þessa skoðun okkar höfum við rökstutt með þeim augljósu staðreyndum, að hin óhugnanlega verðbólguþróun og sífellt aukin dýrtið kæmi verst niður á þeim, sem minnst hafa launin og mest öryggisleysið. En undanlátssemin við þennan þjóðarvoða á undanförnum árum hefur sífellt fært alþýðustéttum landsins auknar hættur þessara meinsemda og beina kjararýrnun.

Þegar minnihlutastjórn Alþfl. hófst handa um lausn þessara mála við valdatöku sína í desemberlok s.l., þá var ljóst, að lengur mátti ekki ganga fram hjá þeim staðreyndum, er við blöstu um hinn öra vöxt framfærsluvísitölunnar. Rannsókn þessara mála leiddi í ljós, að ef ekkert hefði verið að gert til þess að stöðva þessa óheillaþróun og koma til móts við útflutningsatvinnuvegina, þannig að flotinn færi af stað, sem óvefengjanlega er undirstaða alls annars í þjóðarbúskapnum, þá hefði framfærsluvísitalan verið komin upp í 270 stig 1. nóv. í haust og kaupgreiðsluvísitalan upp í 253 stig, eða hækkað um 25% samkvæmt þágildandi vísitölugrundvelli. Hér er óþarft að eyða tíma til þess að draga upp mynd af því ástandi, sem ríkt hefði í landinu, ef sú þróun hefði verið látin eiga sér stað.

Þannig blöstu staðreyndirnar við, þegar núv. ríkisstj. tók við völdum. Strax þegar færustu sérfræðingar höfðu gert bráðabirgðaathugun þessara mála, eða nánar tiltekið um áramótin, skýrði hæstv. forsrh., Emil Jónsson, þjóðinni skýrt og glögglega frá, hvernig málum væri komið. Eftir þessari ræðu forsrh. var tekið um land allt og sérstaklega rómað, hve hreinskilnislega og áróðurslaust þar var skýrt frá hlutunum, gagnstætt því, sem áður hafði tíðkazt.

Þær efnahagsráðstafanir, sem síðan voru gerðar, voru í aðalatriðum við það miðaðar að velja í hverju atriði þann kostinn, sem skástur var af engum góðum, sem völ var á, og við það miðað, að full atvinna héldist með sem minnst skertum lífskjörum. Það væri alrangt að halda því fram, að í þessum ráðstöfunum hafi ekki falizt kjararýrnun í bili. En ég leyfi mér að fullyrða, að sú kjararýrnun, sem leitt hefði af aðgerðaleysi eða beinni kjósendahræðslu, eins og óneitanlega bólaði á hjá þeim, sem frá vandanum hlupu, hefði verið óbætanlegt tjón fyrir íslenzka alþýðu. Það var ekki heldur á slíku ábyrgðarleysi stætt fyrir þá, sem enn vilja láta telja sig í hópi ábyrgra stjórnmálamanna.

Íslenzk alþýða hefur oft lýst því yfir, að hún vill leggja fram skerf sinn í baráttunni við dýrtíð og verðbólgu, og hún hefur vissulega gert það. Þess vegna hefur hún viljað eira þessum ráðstöfunum þrátt fyrir háværan og neikvæðan andróður úr hópi kommúnista, sem fyrir fram voru ákveðnir í að vera á móti hverjum þeim ráðstöfunum, sem þeirra eigin ráðherrar eiga ekki aðild að. Nú hét vísitölueftirgjöf launafólksins kauprán á máli kommúnista. En þegar þeir sjálfir stóðu að hliðstæðum ráðstöfunum í ágúst 1956, þá hétu þær ráðstafanir á þeirra máli allt að því kauphækkun. Ósjálfrátt kom mönnum í hug, þegar nafnaskipti Þjóðviljans á setuliðsvinnunni breyttust allt í einu úr landráðavinnu í landvarnarvinnu, þegar Bandaríkin höfðu gert eins konar samherjasamning við félaga Stalin á styrjaldarárunum. Þetta heitir nú að kunna að hafa fataskipti.

Hvað sem foringjar kommúnista segja um þessi mál nú, þá vita þeir ofur vel, að verkalýðshreyfingin vill vera ábyrgur aðili í þjóðfélaginu og meiri hluti hennar fyrirlítur þeirra hávaða og ævintýramennsku, sem er til þess eins fallin að rýra álit og virðingu samtakanna utan þeirra og innan. Það er því hraustlega spýtt, þegar hv. 1. landsk., Alfreð Gíslason, telur sig hafa efni á því, eins og í umræðunum hér í gær, að hrópa frýjunarorð til Alþýðuflokksfólks úr rammgirtu svartholi kommúnista eftir að hafa brugðizt því trausti, sem þetta fólk setti á hann.

Kjördæmamálið, eitt mesta hagsmunamál vinnandi fólks um land allt, sem upp hefur komið undanfarin ár, hefur nú loks verið afgreitt á Alþingi fyrir samstöðu og stuðning þriggja stjórnmálaflokka, þ.e. allra nema Framsfl., sem var málinu andvígur. Ég leyfi mér að telja þetta mál meðal þeirra stærstu áfanga, sem barátta verkalýðssamtakanna og Alþfl. hefur náð allt frá stofnun þeirra samtaka, en síðan hefur lausn þessara mála ávallt verið þar á dagskrá.

Það, sem mest hefur á skort, til þess að samtakamáttur verkalýðssamtakanna fengi að njóta sín á öðrum sviðum, en þeim félagslegu er, hve kraftarnir hafa verið dreifðir um landið. Með gildistöku hinnar nýju kjördæmaskipunar gefast ný tækifæri til þess að endurskipuleggja alþýðusamtökin með hliðsjón af hinum breyttu aðstæðum, en þessi endurskipulagning, sem miðar til meiri og stærri heilda, er alþýðusamtökunum nú mest nauðsyn sjálfum vegna mjög breyttra aðstæðna og atvinnuhátta í landinu. Hendur, sem hafa ekki náð saman, munu við þessa breyttu staðhætti geta hönd í hönd stórum bætt aðstöðu alþýðusamtakanna.

Við Alþýðuflokksmenn töldum, eins og tekið hefur verið fram hér í umræðunum áður, að hlutur þriggja kjördæma væri þó ekki að fullu réttur. Þessi kjördæmi voru Reykjavík, Norðausturland og Suðvesturlandskjördæmi. Það fékkst hins vegar ekki fram. En málið er samkomulagsmál þriggja flokka og svo mikil bót frá ríkjandi ástandi, að við töldum þrátt fyrir þessa annmarka ekki rétt að láta það valda friðslitum um málið, enda er sú meginstefna, sem hér er tekin, áratuga baráttumál Alþýðuflokksins.

Framsóknarmenn, sem eru einu andstæðingar málsins, hafa mjög skorað á menn að hrista af sér öll flokksbönd. En á sama tíma má heyra um allt land hringla í Framsóknarhandjárnunum alþekktu.

Alþýðuflokksfólk og stuðningsmenn Alþýðuflokksins um land allt! Í þeirri kosningahríð, sem nú fer í hönd, mun, eins og ég sagði áðan, söngurinn um, að nú skuli Alþfl. drepinn, vera sunginn af andstæðingum okkar. Við höfum á undanförnum tveim áratugum heyrt þennan söng, og okkur þarf af þeim ástæðum ekki að bregða. En þess skulum við gæta, að nú mun þessi þríraddaði söngur kyrjaður hærra, en nokkru sinni fyrr, af því að andstæðingunum er sérstök þörf á að fela eigin málefnanekt og uppgjöf við lausn vandamálanna. Er þó skylt að viðurkenna það, sem rétt er um lausn þeirra mála, sem afgreidd hafa verið í tíð þessarar ríkisstj., að til annarra flokka hefur orðið að leita um fylgi við einstök mál eða málaflokka. Sá stuðningur hefur ýmist verið beinn eða óbeinn. Flokkar og einstakir þingmenn hafa greitt atkvæði með málum stjórnarinnar eða setið hjá. Afgreiðsla málanna hefur því ekki getað orðið nákvæmlega eftir vilja Alþfl., þó að þau hafi verið framkvæmd undir hans forustu. Það er þessi jákvæða og ábyrga forusta Alþfl., sem truflar nú mest skapsmuni andstæðinganna og framkallar öll þeirra gífuryrði í hans garð. Þá horfa höfuðandstæðingar kjördæmamálsins, framsóknarmenn og þeir úr liði kommúnista, sem tregastir voru til fylgis við málið, vonaraugum til þeirra möguleika að endurnýja fyrri vináttu með því að stöðva kjördæmamálið eftir næstu kosningar. Þennan draum sinn hyggjast þeir helzt gera að veruleika með því að ryðja Alþfl. af þingi. Af þessu er ljóst, þrátt fyrir afgreiðslu kjördæmamálsins nú og ótta fyrrnefnds liðs við næstu kosningar, að endanlegt samþykki málsins að næstu kosningum loknum er undir því komið, að allir Alþýðuflokksmenn og velunnarar jafnaðarstefnunnar, hvar sem er á landinu, þjappi sér saman í eina órofa heild um málefni flokksins og hefjist nú þegar starfsamra handa.

Það hefur oft áður verið að okkur sótt, og undirróðursmönnum hefur á stundum tekizt að komast inn í okkar raðir. Slíkir menn eru nú ekki finnanlegir í okkar hópi. Þeir, sem þar voru, hafa sjálfir afklætt sig og villa nú engum sýn. Málefnin verða hér eftir sem hingað til, leiðarljós Alþfl., eins í þeirri baráttu, sem í hönd fer. Það leiðarljós dofnar ekki, meðan skýr hugsun almennings og raunsætt mat fólksins á staðreyndum fær að njóta sín. En til þess að svo megi verða, má enginn skerast úr leik. Það er of seint að hafa talið sig geta gert betur daginn eftir kosningar. Fram til baráttu fyrir auknu lýðræði og frelsi og til fulltingis þeim, sem á erfiðleikastundum þora að standa að lausn vandamálanna! Það verður bezt gert með eflingu Alþýðuflokksins. — Góða nótt.