14.04.1959
Efri deild: 101. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (2512)

118. mál, veitingasala, gistihúshald

Frsm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er flutt samtímis frv. því, sem mælt var fyrir hér til 2. umr. í hv. þd. í gær, um verzlunarskrár, firmu og prókúruumboð, og vísar flm. frv. til grg. þess frv. Það er sama um þetta frv. að segja og um hið fyrra var sagt hér við 2. umr. í gær, að eina breytingin, sem um ræðir og þetta frv. felur í sér á gildandi lögum, er, að veitingastaðir og gistihús hafi að dómi skrásetjara þau nöfn á fyrirtækjum sínum, sem samrýmist íslenzku málkerfi, en sami fyrirvarinn hafður á um úrskurð á ágreiningsatriðum í þessu efni, að skjóta má þeim til nefndar þeirrar, er starfar samkvæmt lögum nr. 33 frá 1953.

Allshn. hefur yfirfarið þetta frv., eins og á þskj. 364 segir, og mælir með samþykkt þess. Ég tel ekki á því þörf á þessu stigi að hafa frekari framsögu fyrir málinu, en ítreka það, að nefndin er sammála um að mæla með framgangi málsins.