14.04.1959
Efri deild: 101. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

118. mál, veitingasala, gistihúshald

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef líka skrifað undir þetta nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari er eins og um málið, sem við vorum með í gær, ekki byggður á því, að ég sé á móti þessu frv., heldur byggður á því, hvernig málið er látið bera að.

Það var lagt fram í Nd. snemma á þinginu mál nr. 34, sem var undirbúið af hæstv. ríkisstj. með milliþinganefnd, og það er um gistihúsahald og veitingasölu. Með þessu frv., 34. máli, er lögum um gistihúsahald og veitingasölu, sem frv. það, sem hér liggur fyrir sem 118. mál, er brtt. við, alveg gerbreytt. Það eru tekin upp í það frv., nr. 34, mörg alveg ný ákvæði og margt fleira. Þetta frv. kom hingað til d. og fór hér í n. 12. febr. og hefur legið þar síðan. Nú er ég ekki hrifinn af því frv. Ég álít, að það þurfi að breyta því ákaflega mikið, ef það á að samþykkjast, og að það geti verið réttast að láta það liggja óafgreitt. En meðan það er enn á ferðinni í þinginu, þá kemur annað frv. Það er sett í aðra nefnd, og þá fæst ekki einu sinni tækifæri til að koma þeim saman, þó að maður vildi. Og þegar það kemur hingað í d., þá er það líka sett í aðra n. en það frv. er í, sem í er aðalbreytingin á lögum um veitingasölu og gistihúsahald. Þetta nær ekki neinni átt, að mínum dómi, og náttúrlega væri í sjálfu sér réttast að láta þetta frv., sem nú liggur fyrir, bíða, þangað til séð væri, hvað gert væri við hitt. Nú er það búið að liggja svo lengi í n. og virðist hafa svo lítinn byr, þ. á m. hjá mér sjálfum, að ég get verið með því að afgreiða þetta mál, eins og hér er lagt til af n. allri, óbreytt, en vildi þó jafnframt taka alveg ákveðið fram og biðja samgmn., sem hefur mál nr. 34, sem er frv. til l. um veitingasölu og gistihúsahald, að taka þetta inn í það, þó að við samþykkjum það í dag eða næstu dagana sem lög, mál 118, sem breytir bara 3. gr. frv. gamla, — samþykkjum það núna í fullu trausti þess, að samgmn. taki þetta frv. inn í hitt, ef það heldur áfram eða á að ná fram að ganga, svo að það komi ekki tvenn lög á sama þinginu um breyt. á gömlu lögunum. Og þar að auki mundi nú þetta verða fellt úr gildi, ef hitt yrði samþykkt, því að síðasta greinin í frv. nr. 34 nemur gömlu lögin úr gildi, sem þetta frv. nr. 118 er brtt. við. Þess vegna greiði ég atkv. með þessu frv. í fullu trausti þess, að ef frv. á þskj. 34 verður samþykkt, þá sjái samgmn. um að taka þetta inn í það.