30.01.1959
Efri deild: 61. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls var felld brtt., sem við Alþb.-menn í þessari hv. d. fluttum um það, að fjölskyldubætur skyldu koma til hinna lægst launuðu þegna þjóðfélagsins í sambandi við þá launalækkun, sem felst í frv.

Þessi till. var sem sagt felld. Við vildum nú freista þess að fá hv. d. til þess að gera hér nokkra bragarbót og því flytjum við brtt. á þskj. 220, þess efnis, að við 1. málsgr. 1. gr. bætist svofelldur líður:

„Enn fremur skal greiða verðlagsuppbót samkv. vísitölu 185 á allt grunnkaup kvenna samkvæmt samningum stéttarfélaga, þar til fullum jöfnuði er náð við kaup karla, er vinna hliðstæð störf.“

Það má máske segja það um þessa till., að hún skipti ekki öllu máli í sambandi við þetta frv. En þar sem hér er um allsherjar mannréttindamál að ræða, mál sem er jafnmikið áhugamál karla og kvenna og þar sem gerð hefur verið samþykkt hér á hinu háa Alþingi um gildistöku alþjóðasamþykktar um launajafnrétti karla og kvenna, þá þótti okkur ekki úr vegi að bera þessa till. fram nú í sambandi við hina almennu launalækkun. Með því stefnum við að því, að konurnar, sem vinna sams konar störf og karlar, fái nokkra leiðréttingu í stað þess að þurfa að lækka í launum til jafns við aðra.

Þing Alþýðusambands Íslands hefur hvað eftir annað krafizt þessa jafnréttis og nú vill það til, að hér í þessari hv. d. á sæti varaforseti Alþýðusambandsins, hv. 4. þm. Reykv. (EggÞ), og vil ég vænta þess, að hann styðji af einurð þessa till. okkar þremenninganna.

Hún er í fullu samræmi við margyfirlýstan vilja Alþýðusambandsins og verkalýðssamtakanna. Það ætti að vera auðveldara fyrir þennan hv. þm. og aðra að samþykkja þessa till. fyrir þá sök, að samþykkt hennar mun ekki hafa í för með sér neinn aukinn vanda fyrir hæstv. ríkisstj. Samþykkt hennar mundi ekki hagga í neinu útreikningi vísitölu né öðru í sambandi við frv.

Ég vil svo láta útrætt um þessa till., sem hér liggur nú fyrir. En af því að ég hef ekki látið í ljós mínar persónulegu skoðanir á frv. í heild, þá vildi ég að lokum mega fara um það örfáum almennum orðum.

Mér finnst það ekki leyna sér við lestur þessa frv. til laga um niðurfærslu verðlags og launa, að hér hefur ákveðið gamalkunnugt afl stýrt pennanum. Frv. ber með sér ótvírætt svipmót íhaldsins og verður þar ekki um villzt. Laun skulu lækka um minnst 5.4%. Þetta atriði er ljóst, enda óumdeilt. Þetta er lágmarksfórn, sem launþegarnir í landinu eiga að færa, og það er víst, að um leið og þetta frv. hefur verið samþ., verður launalækkunin framkvæmd. Um það þarf enginn að efast.

Um hinn aðalliðinn í frv., niðurfærsluna á verðlaginu, gegnir allt öðru máli. Þar er allt óljósara. Það er gert ráð fyrir lækkun á vöruverði og þjónustu til samræmis við lækkun launakostnaðar. En hvað skyldi verða úr framkvæmd í því efni? Um hana efast ég og margir aðrir. Jafnvel þótt hæstv. ríkisstj. væri öll af vilja gerð, eru ekki minnstu líkur fyrir því, að henni takist í framkvæmdinni að lækka verðlagið að neinu ráði, eins og til er ætlazt. Niðurfærslan á verðlaginu verður því aldrei annað en pappírsgagnið eitt. Launalækkunin nemur a. m. k. 5.4%, en kjaraskerðingin verður langtum meiri og verður hún þeim mun meiri, sem mistökin á niðurfærslu verðlagsins verða stærri.

Það raunhæfa í þessu frv. og það eina raunhæfa er kauplækkun og kjaraskerðing launastéttanna í landinu. Allt annað í því mun reynast hjóm og markleysa, þegar til framkvæmdanna kemur. Það eru launþegarnir einir, sem eiga að bera byrðarnar, færa fórnirnar. Þetta sannar til fullnustu, að íhaldið hefur aftur komizt til valda í landinu.

Í frv. er ekki farið fram á, að aðrir en launamenn færi fórnir. Það örlar ekki á því, að bankarnir, milliliðirnir og framleiðendurnir eigi að taka á sig byrðar, er nemi minnst 5.4%. Þeim er gersamlega gleymt, þegar verið er að skírskota til fórnarlundarinnar. Ef þetta sver sig ekki í ætt gamla íhaldsins, þá er ég illa svikinn. Það er ein undantekning frá þessu, svo að mér sé kunnugt um. Hæstv. ríkisstj. hefur farið til þeirra aðila, sem hafa yfirstjórn á heildsölu og smásölu í landinu. Hún hefur ekki farið til þessara aðila með lagaboði eins og til launþeganna, heldur kemur hún til þessara aðila krjúpandi á hnjánum og mælist til þess, að þeir gefi nokkuð eftir, færi nokkrar fórnir og fórnin, sem farið er fram á að þessir aðilar færi, er ekki stór. Mér reiknast til, að það svari til 1.8%. Þessir aðilar bregðast stórmannlega við og heita þessu. En hér er ekki beitt valdboði, hér er farin samningaleiðin í mótsetningu við aðfarirnar gegn launþegunum.

En söngurinn frá fyrri árum er hafinn á ný, þessi: Þjóðin verður að færa fórnir. — Hver man ekki eftir þeim söng frá tímum fyrri íhaldsstjórna?

Af grg. frv. er einna helzt svo að sjá sem tilgangurinn með því sé að stöðva verðbólguna, en ekkert mun þó reynast fjær sanni. Að vísu má það takast að fá ýmsa til að trúa þessu í bili, en augu þeirra munu opnast, áður en margir mánuðir eru liðnir. Reynslan mun sýna það fljótlega, að sá einn er tilgangurinn með þessu frv. að flytja fjármagnið til í þjóðfélaginu. Það á að færa fjármagnið frá launafólkinu til viðskipta- og atvinnurekstrar. Tilgangurinn er sá einn að skerða hlutdeild almennings í þjóðartekjunum.

Einn af kunnustu hagfræðingum hérlendis hefur komizt svo að orði, að það væri hættulegur misskilningur, ef menn kæmust á þá skoðun, að afnám vísitöluuppbóta á laun eða kaupbinding væri allra meina bót. Þær aðgerðir einar mundu fljótlega reynast koma að litlu haldi. Þetta segir hagfræðingurinn, sem íhaldið vitnar oft í og er það vissulega rétt.

Nei, þetta frv., sem hér liggur fyrir, á ekkert skylt við skynsamlegar ráðstafanir til verðbólgustöðvunar. Þess hlutverk er að taka frá launastéttunum og gefa eignastéttunum.

Alþb. hefur, eins og kunnugt er, beitt sér og beitir sér enn gegn verðbólgunni og það leggur áherzlu á stöðvun hennar. En jafnákveðið berst það á móti kjaraskerðingu láglaunafólks. Með frv. er ekki stefnt að lausn verðbólguvandans, heldur einblínt á kjaraskerðinguna og því er ekki að undra, þótt við Alþb.-menn séum óánægðir með það.

Vinstri stjórnin lagði á sínum tíma áherzlu á það í starfi sínu, að framleiðslan í landinu væri aukin, vöruútflutningurinn aukinn og þar með fengnar auknar gjaldeyristekjur. Það er farsæl leið út úr ógöngunum, en tekur að sjálfsögðu sinn tíma. Fjárfestingarmálin þarf að taka til rækilegrar endurskoðunar hið allra fyrsta. Úr heildarfjárfestingu þarf að draga, og fjármagninu verður að beina betur, en gert er nú að þeim framkvæmdum, sem mestum hagnaði skila í þjóðarbúið. En ef byrðar skulu lagðar á einhverja, þá skulu þeir bera, sem breiðust hafa bökin, en ekki lagðar eingöngu á láglaunafólkið, sem rétt hefur til hnífs og skeiðar.

Annars er ég ekki trúaður á þennan gamla söng um fórnir. Ráðherrar íhaldsins kyrjuðu hann oft í útvarpinu hér fyrr á árum. Það var þá hjáróma söngur og svo mun enn vera. Fjárhagsafkoma þjóðarinnar var með ágætum á síðasta ári. Eyðslan er að vísu mikil, en úr henni má draga með skynsamlegri fjárfestingu án þess að rýra kjör hins vinnandi manns. Þegar efnahagsráðstafanir eru gerðar, þýðir ekki að leita til fræðimanna um leiðir, fræði segja ekkert til um þær. Það eru stjórnmálamennirnir, sem gera þær ráðstafanir og ákveða, hverjir skuli byrðarnar bera. Ráði íhaldsmenn í þessu þjóðfélagi, verða þær lagðar á almenning einvörðungu, en ráði þeir ekki, verður þeim dreift á þjóðina, eftir því sem bökin eru til að bera þær.