17.04.1959
Neðri deild: 110. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

115. mál, ríkisreikningar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég þykist nú sjá, að það muni fara á svipaða leið um afgreiðslu þessa ríkisreiknings hér á hv. Alþingi eins og verið hefur á undanförnum árum, sem sé á þá leið, að það verði engar ráðstafanir gerðar í sambandi við afgreiðslu reikningsins til leiðréttingar eða úrbóta á þeim málum, sem reikningurinn fjallar um og yfirskoðunarmenn hafa gert athugasemdir við. Þetta má að vissu leyti telja talsverða vorkunn, þó að svo fari og ég býst við því, að það verði svo enn. Og vorkunnin liggur í því, að á hverju Alþingi, þegar við höfum hér ríkisreikning til meðferðar, þá blasir við annað verra en reikningurinn fjallar um. Það hefur verið svo a. m. k. síðasta áratuginn eða frá 1950 og jafnvel miklu lengur, að við höfum hér á Alþingi alltaf séð frá ári til árs miklu hærri fjárlög, en næstu fjárlög áður og miklu hærri ríkisreikning og meiri eyðslu en var á næsta ári á undan. Og svo er einnig varðandi þann ríkisreikning, sem hér er, að þó að hann sé svartasta plagg þessarar tegundar, sem Alþingi hefur haft til meðferðar, að ég hygg frá fyrstu tíð, þá er þó áreiðanlega von á öðru verra eftir þau áhrif eða eftir það atferli, sem hefur átt sér stað í fjármálastjórn landsins þau tvö ár, sem síðan eru liðin.

Ég skal nú ekki fara langt út í það að ræða þennan reikning og ekki mikið um einstök atriði. Ég geri ráð fyrir, að hv. alþm. hafi lesið athugasemdir okkar yfirskoðunarmannanna og svörin við þeim o. s. frv. En ég ætla að víkja þó að fáeinum atriðum í sambandi við reikninginn í heild og er þá fyrst þess að geta, að á árinu 1956 hafa rekstrargjöld ríkisins orðið 141 millj. kr. hærri, en þau urðu á árinu 1955 og þótti þó flestum vera nokkuð langt komið á því ári. En þar með er sagan ekki öll sögð. Það hefur að vísu orðið heldur minni hækkun eða ekki nema 135 millj. á útgjöldunum samkvæmt sjóðsyfirliti reikningsins á þessu ári, en sagan er þarna engan veginn öll sögð, því að snemma á árinu 1956 var tekið út úr ríkisgjöldunum það, sem áður hefur verið þar, það sem varðar dýrtíðarráðstafanir og annað slíkt og stofnaður um það sérstakur sjóður, sem þá hét framleiðslusjóður, og samkvæmt þeirri áætlun, sem um hann var gerð, þá var hækkunin þar hvorki meira né minna en 137 millj., svo að það má segja, að á árinu 1956 hafi útgjaldahækkunin verið hvorki meira né minna en 262 millj. frá því, sem var á árinu 1955 og verð ég að segja, að það muni vera stærsta stökk upp á við, sem nokkurn tíma hefur verið tekið í útgjöldum okkar ríkis, enda þótt fjáraukalögin séu ekki nema 113 millj. samkvæmt því, sem segir í því frv., sem hér liggur fyrir og er eðlilega réttur útdráttur úr ríkisreikningnum.

Nú er það svo, að flestar eða nálega allar athugasemdir okkar yfirskoðunarmannanna, bæði þær, sem sameiginlegar eru og þær, sem ég bætti við, sem stafaði nokkuð af því, að ég veiktist, áður en við gengum frá athugasemdunum og ég áskildi mér rétt til að taka meira til athugunar, sem við vorum ekki búnir að ganga frá, þegar ég lagðist, þó að það væri ekki nema nokkra daga, sem ég var forfallaður, — en meginhlutinn af okkar athugasemdum er í tvennum skilningi. Í fyrsta lagi er bent á þær gífurlegu umframgreiðslur, sem orðið hafa frá ákvörðun fjárlaga þess árs og í öðru lagi sýnt fram á tölulega það, sem er sívaxandi í starfsemi ríkisins og stofnunum þess, sem er óinnheimtar skuldir í árslok og er eitt gleggsta merki um óreiðu í fjármálastjórn, hvar sem það kemur fyrir. Og þó að það sé kannske stærsta málið á þessu sviði, sem hv. frsm. fjhn., Skúli Guðmundsson, vék að og snýr að Tryggingastofnun ríkisins, sem á útistandandi í lok þessa árs óinnheimtar tekjur og lausaskuldir, hvorki meira né minna en 45 millj. kr., þá er svo að segja hvar sem drepið er niður hendi hjá stofnunum ríkisins og starfsgreinum, að það er sívaxandi eða hefur verið fram að árslokum 1956 og sjálfsagt hefur það ekki batnað síðan, að útistandandi óinnheimtar tekjur eru hingað og þangað og í milljónatali.

Nú skal ég út af þessu varðandi Tryggingastofnunina segja það, að þetta er náttúrlega hrein vandræðaútkoma, að það eru mörg sveitarfélög, sjúkrasamlög og hinir og þessir, sem eiga ógreiddar háar upphæðir. Aðrir hafa staðið í skilum og verða að gera það, þeir sem eru færir til þess. En mér virðist að, að því er snertir þessa stofnun, þá gefi þetta hugmynd um það, að starfsemin á þessu sviði sé komin að því leyti úr böndunum, að það sé búið að ákveða það há útgjöld til þessarar stofnunar, að landsfólkið sé ekki fært um að greiða þær upphæðir, sem krafið er um.

Varðandi hitt atriðið, sem hv. frsm. fjhn. vék að og alveg réttilega varðandi það, að kostnaður við menntamál hækkaði á þessu eina ári um nærri 29 millj. kr. frá því, sem var árið áður, mikið af því stafar náttúrlega af breyttum launalögum, en með svona áframhaldi eins og er á því sviði, þá ætti það að vera nokkurn veginn augljóst fyrir hv. alþm., að þessi sívaxandi kostnaður, svo að skiptir milljónatugum, við þessa starfsemi getur ekki haldið áfram í það endalausa, ef okkur á ekki að reka alveg í strand, og svo er um margt fleira.

Nú er það svo, að vegna þess að við vitum, að þrátt fyrir öll þessi útgjöld, bæði nauðsynleg og ónauðsynleg, að því er ég tel, sem eru á þessum ríkisreikningi, þá vitum við það allir hér á Alþingi, að útgjöldin hafa hækkað stórlega, frá því að þessi reikningur er gerður upp og það, sem eru gleggstu sannanirnar um það framferði, sem átt hefur sér stað á fjármálasviðinu, er það, sem ég hef nokkrum sinnum áður nefnt, að frá því í desemberbyrjun 1956 og fram að því, sem fyrrv. ríkisstj. hætti störfum, þá munu hafa verið hækkaðir tollar og skattar á þjóðinni frá því, sem áður var, um nálega 1.200 millj. kr. og samtímis tekin lán erlendis á 7. hundrað millj. kr. Það er þess vegna í sjálfu sér ekki kannske svo undarlegt, þó að hv. fjhn. eða aðrir alþm., — og raunar get ég sagt það fyrir sjálfan mig líka, — hiki við það að fara að gera stórar ráðstafanir í sambandi við tveggja ára gamlan reikning, þegar vitað er, hvernig stjórnarfarið hefur verið síðan. Og þannig hefur þetta raunar oftar gengið, þó að það hafi aldrei verið í jafnstórum stíl og á þessum síðustu þremur árum.

Eitt er það, sem ég vil sérstaklega víkja að í þessu sambandi, og það er athugasemd, sem við gerðum og mun vera 38. athugasemdin. Hún fjallar um það, að við yfirskoðunarmenn finnum að því, að það skuli ekki fylgja ríkisreikningnum reikningur útflutningssjóðs. Útflutningssjóður var stofnaður undir árslokin 1956 upp úr framleiðslusjóði og það er komið svo, að þessi útflutningssjóður er til muna stærri stofnun eða honum eru ætlaðar meiri tekjur og meiri útgjöld, en sjálfum ríkissjóðnum. Og það vita náttúrlega allir, að þetta er ríkisstofnun, þessi sjóður, því að það er ekkert annað, en að það er tekinn hluti af þeirri starfsemi, sem ríkið hefur áður haft og settur undir útflutningssjóð. Þess vegna tel ég það alveg skilyrðislaust og um það vorum við sammála, yfirskoðunarmenn, að reikningar þessa sjóðs eiga auðvitað að fylgja ríkisreikningi á hverjum tíma, því að annars er mjög örðugt að sjá, hvernig hagurinn er í þessum stóru fjármálastofnunum. Svarið, sem við fengum frá fjmrn., var á þá leið, að það væri talið svo, að þetta væri ríkissjóði óviðkomandi og það er mjög undarlegt svar og engan veginn á það fallizt af okkur yfirskoðunarmönnum, svo að við leggjum til, að þetta sé til athugunar framvegis og vitanlega er það eitt af þeim mörgu framkvæmdaratriðum, sem kemur til athugunar hjá hverri ríkisstj., hvort sem það er ný stjórn eða sú, sem áður hefur verið.

Annars vil ég benda á það í þessu sambandi, eins og hv. þm. geta séð, ef þeir lesa athugasemdirnar og svörin, að það eru ákaflega fá af þessum svörum, sem beinlínis eru frá fjmrn., heldur er því hingað og þangað vísað til forstjóra ríkisstofnananna og starfsgreinanna og svo koma frá þeim skýringar og afsakanir og bollaleggingar um það, hvers vegna hafi þurft að eyða þessu og hinu svona miklu og sumir skrifa um þetta langar ritgerðir. Út af þessu er í sjálfu sér kannske ekki mikið hægt að segja. En það er eitt meginatriði þó, sem ég hef áður lagt áherzlu á í sambandi við ríkisreikninga og meðferð fjármála og hér kemur greinilega fram í öllum þessum svörum, að það er eins og enginn þessara manna láti sér detta í hug, að þeir þurfi neitt að taka tillit til þess, hvernig fjárlögin voru, sem þeir áttu að starfa eftir, þeim sé heimilt að gera þetta og hitt, sem þeir telja nauðsynlegt, ráða nýja starfsmenn og stofna til margvíslegrar eyðslu, enda þótt þetta sé ekki á fjárlögum. Ég hef alltaf litið svo á og sú skoðun er algerlega óbreytt, að þessum mönnum sé skylt, bæði ríkisstjórninni og þeim, sem með ríkisstarfræksluna fara, að fara eftir fjárlögum, að svo miklu leyti sem það er mögulegt og ekki er búið að lögbinda í öðrum lögum að eyða meira, en fjárlögin segja til um. Sums staðar má kannske með nokkrum rétti segja, að útkoman sýni það, að fjárlögin hafi verið illa undirbúin. En það er þá út af fyrir sig það afbrigði, sem fjmrh. og fjvn. á hverjum tíma á nokkuð mikla sök á og eitt atriði stórt í sambandi við þennan reikning er þar nokkuð greinilegt og það er varðandi launalögin nýju, sem voru samþykkt í desembermánuði 1955, en fjárlögin voru ekki afgreidd fyrr en í byrjun febr. 195, og hefði þess vegna eðlilega átt að taka inn hækkanirnar. En það er tekin inn nokkur upphæð, 23.5 millj. kr., vegna hækkunar launalaganna, en það mun engan veginn hafa hrokkið til fyrir þeirri hækkun, sem þau höfðu í för með sér.

Að öðru leyti skal ég ekki, nema tilefni gefist til, fjölyrða um þetta. Ég geri ráð fyrir því og tel það eðlilegt, að reikningurinn verði samþykktur, eins og venjulegt er, því að það er svo langt um liðið, að það er ekki hægt annað og þess vegna kannske þýðingarlítið að vera að þræta mikið um það, sem svo langt er um liðið, vegna þess, eins og ég sagði áðan, að annað verra blasir við í hugum manna. En ég vildi nú samt segja þessi fáu orð til skýringar á þeirri afstöðu, sem við yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna höfum alltaf fyrir augunum árlega í sambandi við þessi stóru mál.