27.02.1959
Efri deild: 76. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

103. mál, skattar og gjöld til sveitarsjóða

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er ekki mikið fyrirferðar. Efni þess er í 1. gr. og er um það, að sveitarstjórnum, sem þess óska, verði heimilað að fengnu samþykki ráðherra að ákveða, að innheimta skuli með allt að 100% álagi alla skatta og önnur gjöld, sem miðuð eru við gildandi fasteignamat og renna eiga í sveitarsjóð, þó er vatnsskattur undanskilinn.

Í lögum um fasteignamat frá 1945 segir í 1. gr.:

„Allar jarðeignir, lóðir og hús á landinu skal meta til peningaverðs 25. hvert ár. Næsta aðalmat samkv. lögum þessum skal hefja svo tímanlega, að því sé að fullu lokið fyrir 1. jan. 1965. Nú breytist verðgildi peninga að verulegu leyti, á milli þess að aðalmat fer fram og má þá með lögum ákveða breytingu á matsverði allra fasteigna í landinu til samræmis við það.“

Samkvæmt lögum nr. 67 1945 er kaupstöðum og hreppsfélögum heimilt að leggja á og innheimta fasteignaskatt af húsum, húseignum og mannvirkjum og er ákveðið, að skatturinn skuli nema 1% af fasteignamati húsa og 2% af lóðum og lendum, eins og segir í lögunum. Mörg sveitarfélög hafa notað sér þessa heimild og fasteignaskattur verið þó nokkur hluti af árlegum tekjum þeirra. Þar sem upphæð fasteignaskattsins er bundin sem hundraðshluti af fasteignamati, sem ekki er gert ráð fyrir að breytist nema á 25 ára fresti, eins og segir í lögunum frá 1945, gefur auga leið, að þessar skatttekjur sveitarfélaga fylgja ekki árlegum verðbreytingum. Fasteignir hafa undanfarin ár, svo sem allir vita, stöðugt hækkað í verði. Peningaverðgildi hefur breytzt. Tekjuþörf sveitarfélaga sem annarra hefur stöðugt aukizt. En þótt fasteignir innan sveitarfélaganna hafi hækkað í verði, hafa fasteignagjöld af þeim ekki hækkað, þar sem fasteignamatið er óbreytt.

Þessar öru verðhækkanir, eftir að fasteignamatið tók gildi 1945 eða alla leið frá 1942 má segja, ollu því, að mörg sveitarfélög óskuðu eftir, að fasteignaskattar yrðu hækkaðir. Með lögum frá 1952 var komið til móts við þessar óskir sveitarstjórnarmanna með því að heimila að innheimta fasteignagjöld með 400% álagi. Munu mörg sveitarfélög hafa notað sér þessa heimild að nokkru og sum að öllu leyti.

Með lögum nr. 33 1955 var ákveðið, að fara skyldi fram nýtt fasteignamat. Var matið framkvæmt af svokallaðri landsnefnd, sem skipuð var þremur þar til kvöddum mönnum. Þetta fasteignamat hefur nú tekið gildi og hefur verið gefin út bók með matinu og segir svo í formálsorðum, sem henni fylgja:

„Matið er af landsnefndinni hækkað, eins og lögin gera ráð fyrir,“ þ. e. a. s. lögin, sem matið er byggt á, „með ákveðinni hundraðstölu, sem miðuð er við breytilega aðstöðu og breytt verðgildi fasteignanna á því tímabili, sem liðið er frá 1942. Er einkum tekið tillit til þess, hvernig háttað er markaðsaðstöðu og samgöngum. Hækkunin er frá 30 til 400% að öðru leyti en því, að eyðibyggðir og allra afskekktustu byggðarlög eru ekkert hækkuð frá fyrra mati og sum lækkuð.“

Af þessari umsögn, sem fylgir fasteignamatinu nýja, er ljóst, að matið hefur hækkað mismikið á hinum ýmsu stöðum á landinu og er það ekki nema eðlileg afleiðing, eins og matsmennirnir segja, af ýmsum ástæðum, sem eru margvíslegar á hverjum stað. En nú eru fasteignagjöld sveitarfélaga í fyrsta sinn miðuð við hið nýja fasteignamat. Er gjaldið þá miðað við 1% af verði húsa og ½% af lóðum og lendum, án þess að nokkurt álag komi þar á, vegna þess að heimildin um 400% álagið fylgdi eingöngu gamla fasteignamatinu og féll úr gildi, um leið og það nýja var staðfest. Af þessu leiðir, að þau bæjarfélög, sem áður hafa notað 400% heimildina að fullu, en hafa nú ekki fengið fasteignamat sitt hækkað t. d. nema um 200%, verða nú að sætta sig við lægri fasteignagjöld, en áður að óbreyttum lögum.

Við meðferð þessa máls hafði heilbr.- og félmn. með höndum bréf frá bæjarstjórum Akureyrarkaupstaðar, Húsavíkur, Ísafjarðar og Siglufjarðar. Bréf þessi höfðu verið send félmrn., og var í öllum borin fram eindregin ósk um, að lögfest yrði slík heimild sem í frv. þessu felst, enda segir í athugasemdum við frv. á þskj. 240, að frv. þetta sé flutt samkvæmt eindregnum óskum nokkurra sveitarstjórna. Ég vil leyfa mér til frekari skýringar, aðeins að vitna í bréf bæjarstjórans á Akureyri, sem félmrn. hafði borizt. Í þessu bréfi segir m. a.:

„Afleiðing þess, að lögin nr. 29 frá 1952, um 400% álagsheimild, falla úr gildi í árslok 1958 og að fasteignamatið er jafnframt ekki hækkað frá eldra mati nema um 220%,“ — þetta á við fasteignamatið á Akureyri, „er að sjálfsögðu stórfelld skerðing þessa tekjustofns eða lækkun fasteignatekna, sem miðaðar eru við fasteignamat, um 36% í krónutölu. Telja verður, að ætlun löggjafans hafi ekki verið, að nýja fasteignamatið yrði þess valdandi, að fasteignatekjur sveitarfélaganna minnkuðu í krónutali, heldur héldust líkt og áður var. Þessi 36% lækkun,“ segir enn í bréfinu, „mundi þýða fyrir Akureyrarbæ tekjulækkun á árinu 1959, er næmi 600–700 þús. kr., og má bæjarsjóður alls ekki við þeirri tekjuskerðingu. Af þeim ástæðum, sem að framan eru greindar, samþykkti bæjarstjórn Akureyrar einróma á fundi sínum 2. des. s. l. eftirfarandi:

„Bæjarstjórn Akureyrar skorar á félmrn. og ríkisstj. að hlutast til um, að nú þegar verði borið fram á Alþingi frv. til laga um heimild fyrir sveitarstjórnir til að innheimta með allt að 100% álagi fasteignaskatta til sveitarsjóða, til þess að komið verði í veg fyrir lækkun fasteignatekna þeirra sveitarfélaga, er notuðu að fullu heimild laga nr. 29 1952, sem nú hafa verið úr gildi numin.“

Þetta er það, sem bæjarstjórn Akureyrar hefur að segja og leggja til þessa máls og það sama kemur fram í bréfum hinna bæjarstjóranna, sem ég minntist hér á áðan og legið hafa fyrir.

Heilbr.- og félmn. hefur rætt þetta mál á tveimur fundum, sent það Sambandi ísl. sveitarfélaga og Húseigendafélagi Reykjavíkur til umsagnar. Svör hafa borizt frá þessum aðilum báðum. Leggur Samband ísl. sveitarfélaga til, að frv. sé samþykkt, eins og það liggur fyrir, en Húseigendafélag Reykjavíkur leggur til, að það verði fellt.

Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins, en meiri hl. leggur til, að frv. verði samþykkt óbreytt.

Það verður að líta svo á, að tilgangurinn með setningu nýrra laga um hækkað fasteignamats hafi ekki verið sá, að gjöld þau til sveitarsjóða, sem við það eru miðuð, lækkuðu stórlega frá því, sem áður var. Það mun heldur hafa verið ofarlega í hugum manna sú hætta, að þau mundu hækka og ef til vill hækka mikið við hækkað fasteignamat. En til þess að koma í veg fyrir það var sett ákvæði í lög nr. 33 1955, lögin, sem fasteignamatið nýja byggist á, að fasteignaskattar skuli ekki hækka almennt fyrir hið nýja, hækkaða fasteignamat. Meiri hl. heilbr.- og félmn. lítur því svo á, að samþykkja beri frv. þetta. Þótt sveitarstjórnir noti þessa heimild, mun það vera svo í flestum tilfellum, að fasteignagjöldin hækka ekki frá því, sem áður var, — ég segi í flestum tilfellum, það geta verið undantekningar á þessu, — miðað við, að sömu sveitarfélög hafi notað 400% álagningarheimildina að fullu áður, miðað við gamla matið. Í annan stað má benda á, að óheimilt er sveitarstjórnum að nota þessa heimild, þótt samþykkt yrði, nema leyfi ráðherra komi til í hvert sinn.