27.02.1959
Efri deild: 76. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

103. mál, skattar og gjöld til sveitarsjóða

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála, að staðfesting á hinu nýja fasteignamati, sem gekk í gildi 1. maí 1957 og reikna ber fasteignagjöld eftir til sveitarsjóða á þessu ári, raskar nokkuð þeim tekjustofni sveitarfélaganna, þannig að sums staðar geta þessi gjöld hækkað allverulega,og á það við um þau sveitarfélög, sem ekki notuðu sér fyrri heimild frá 1952 um að innheimta þessi gjöld með allt að 400% álagi, til fullnustu, en hafa nú fengið möt fasteigna innan sinna lögsagnarumdæma hækkuð um allt að 400%. Þetta á t. d. við um Reykjavík, sem ekki innheimti gjöldin nema með 200% álagi, eða þreföldum, en fær nú möt á öllum fasteignum og þar með þær grunnupphæðir, sem gjöldin eru reiknuð út frá, hækkuð um 400%. Án þess að nokkur ný heimildarákvæði komi til, getur því Reykjavíkurbær hækkað fasteignagjöld sín um 662/3% og hefur þegar notfært sér þá heimild til fullnustu nú í vetur. Verði hins vegar samþ. óbreytt það frv., sem hér liggur fyrir, er leið opnuð fyrir Reykjavíkurbæ til þess að hækka þessi gjöld um 2331/3%, eða rúmlega þrefalda þau. Reykjavík mun vera gleggsta dæmið um þá hækkun, sem í fyrsta lagi leiðir beint af hinu nýja mati og þá gífurlegu hækkun fasteignagjaldanna, sem leiða kann þar til viðbótar af þeirri nýju hækkunarheimild, sem hér er fyrirhuguð og skil ég það vel, að hv. 1. landsk. þm. vilji gjalda fullan varhug við svo rúmri heimild til handa bæjarstjórn Reykjavíkur, að hugsazt geti, að hún fái þessa gjaldheimtu meira, en þrefaldaða frá því, sem verið hefur á undanförnum árum.

Nú hefur hæstv. félmrh. að vísu lýst því yfir við 1. umr. málsins, að ekki sé hugmyndin að leyfa almennt hækkanir frá því, sem verið hefur, þótt þetta frv. verði samþykkt. Efa ég ekki, að hann hafi góðan vilja á að sporna gegn slíku. En harla lítil trygging þykir mér í því, að hann hafi lengi aðstöðu til að standa þar á verði. Ef því á annað borð er réttmætt að takmarka þessa gjaldheimtu bæjarfélaganna af fasteignum með lögum, hefði það að sjálfsögðu verið rökrétt að setja þær takmarkanir inn í þetta frv., sem látið er í veðri vaka að beita eigi með ráðherravaldi.

Á hinu leytinu eru svo þau sveitarfélög, sem notfærðu sér að mestu eða jafnvel öllu heimildina frá 1952 um fimmföldun fasteignagjalda, en hafa nú ekki fengið möt hækkuð nema þrefalt til fjórfalt eða jafnvel minna við það, sem áður var. Hjá þessum sveitarfélögum er að sjálfsögðu um nokkra gjaldalækkun að ræða, og er frv. rökstutt með hliðsjón af tekjumissi þessara sveitarfélaga. Er ekki fyrir það að synja, að þetta eru nokkur rök. En séð frá sjónarmiði þeirra, sem gjöldin þurfa að greiða, verður því heldur ekki neitað, að í þessum sveitarfélögum hafa húseigendur borið um nokkurt skeið þyngri gjöld, en almennt hefur gerzt í landinu og því ekki með öllu ósanngjarnt, að nokkuð sé á þeim létt nú um sinn, a. m. k. ef telja á fasteignamatið á nokkru viti byggt.

Frá sjónarmiði bæjarfélaganna er hins vegar engan veginn að ræða um svo gífurlegan og tilfinnanlegan tekjumissi, þar sem á annað borð er um hann að ræða, sem látið er í veðri vaka. Ég held, að þessi tekjulækkun, þar sem hún á annað borð er nokkur, geti varla orðið meiri en sem svarar 2–3 eða í hæsta lagi 4% af heildartekjum sveitarsjóðanna, og væri áreiðanlega víða hægt að spara tilsvarandi upphæðir, ef góður vilji væri fyrir hendi. Er það óneitanlega hlálegt, að á sama tíma og hæstv. ríkisstj. hefur æskt þess af öllum bæjarstjórnum landsins, að þær minnkuðu gjaldheimtu eftir föngum, en litla sem enga áheyrn fengið fyrir þeim frómu óskum, þá skuli þessi sama ríkisstj. bera fram frv., sem opnar þeim leiðir í mörgum tilfellum til aukinnar gjaldheimtu.

Í þessu frv. er miklu lengra gengið, en að tryggja sveitarfélögunum jafnháar tekjur af fasteignum og áður var, svo sem ég hef bent á. Nú er það auðvitað matsatriði, hve mikil afskipti ríkisvaldið á að hafa af gjaldheimtu sveitarfélaganna. Er vafalaust unnt að færa að því nokkur rök, að réttmætt sé, að sveitarstjórnir hafi þar allrúmar hendur og standi síðan ábyrgar gagnvart kjósendum sinum um sínar gerðir í þeim efnum. En þegar svo stendur á sem nú, að ríkisvaldið hefur með lagaboði rýrt allar tekjur launamanna um 10%, þá er áreiðanlega ekki rétta augnablikið til að þyngja að mun nefskatta, sem lagðir eru á að miklu leyti án tillits til efnahags viðkomandi manna.

Það er mikið vafamál, að sú launalækkun, sem nú nýlega hefur verið lögfest hér á hæstv. Alþ., komi annars staðar öllu harðar niður, en á því launafólki, sem staðið hefur í þeim stórræðum að koma þaki yfir höfuð sér og sinna. Margur maðurinn, sem nú hefur fengið laun sín lækkuð um 1/10 hluta, mun nú og á næstu tímum eiga í meiri erfiðleikum, en nokkru sinni áður, með að halda eign slnni og híbýlum, ef það reynist honum þá á annað borð mögulegt.

Ég tel það fullkomna óhæfu að lögbjóða hækkun á gjöldum þeirra manna, sem nú eiga margir hverjir í hvað mestum örðugleikum vegna kaupráns hæstv. ríkisstj., og ég tel einnig óhæfu að stuðla að hækkaðri húsaleigu almennings, á sama tíma og laun eru lækkuð með valdboði og tek undir allar röksemdir hv. 1. landsk. þm. um það efni. Ég get því ekki fylgt þessu frv., eins og það liggur fyrir. Hins vegar hef ég leyft mér að flytja brtt. þess efnis, að íbúðarhúsnæði verði undanskilið hækkunarheimild frv. og mun greiða málinu í heild atkv., ef hún nær fram að ganga. Ég tel, að allt öðru máli gegni um aðra fasteignaeigendur, en eigendur íbúðarhúsnæðis hvað þessi gjöld snertir og að full sanngirni mæli með því, að þeir greiði hærri gjöld til sveitarfélaganna af fasteignum sínum. Í fyrsta lagi kemur sú gjaldheimta vægilegar niður á almenningi og í öðru lagi er í mörgum tilfellum um að ræða fyrirtæki, sem greiða óeðlilega lág gjöld til sveitarsjóðanna, miðað við veitta þjónustu. Og í sumum tilfellum er um að ræða fyrirtæki, svo sem samvinnufélögin o. fl., sem njóta sérstöðu og jafnvel algerrar undanþágu frá greiðslu útsvara til sveitarsjóða. Ég tel ástæðulaust og óréttmætt að takmarka frekar en þetta frv. gerir ráð fyrir gjaldheimtu af fasteigeignum þessara. aðila. Samkv. brtt.minni hl. er að nokkru gengið til móts við kröfur þeirra sveitarstjórna, sem talið er að bornar séu sérstaklega fyrir brjósti með flutningi þessa frv., en jafnframt gætt hagsmuna þeirra, sem gert er að greiða fasteignagjöld af minnstri getu og vafasamastri sanngirni.

Ég vænti stuðnings hv. þdm. við þessa brtt., en lýsi því jafnframt yfir, að ég geri samþykkt hennar að skilyrði fyrir fylgi mínu við frv.