20.10.1958
Sameinað þing: 3. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

1. mál, fjárlög 1959

Björn Jónsson:

Herra forseti, heiðruðu tilheyrendur. Ekki fer milli mála, að ýmis mikilvæg mál, sem standa í beinu sambandi við afgreiðslu fjárlaga, eru enn óútkljáð og því er fullvíst, að fjárlagafrv. það, sem hér liggur fyrir, mun taka miklum breytingum, bæði til samræmis við staðreyndir, sem þegar eru ljósar í efnahagsmálunum og aðrar, sem væntanlega munu liggja fyrir, áður en frá frv. verður endanlega gengið. Brýn nauðsyn er einnig á að endurskoða rækilega alla útgjaldahlið frv. með tilliti til sparnaðar í ríkisrekstrinum, ef unnt á að reynast að standa undir þeirri útgjaldaaukningu, sem fyrirsjáanlega er orðin vegna breytts verðlags og kaupgjalds í landinu umfram þá, sem í frv. er reiknað með, ef spyrna á gegn nýrri gjaldheimtu af almenningi, sem aftur hlyti að hleypa af stað hækkuðu vöruverði og kaupgjaldi, nýrri verðbreytingu til hækkunar. Mun ég víkja nánar að þessu síðar.

Sjálft fjárlagafrv. speglar ekki nema hluta af þeim viðfangsefnum, sem Alþingi og ríkisstjórn hljóta að fást við í sambandi við efnahagsmálin. Með l. um útflutningssjóð o. fl. frá s. l. vori var skilið fullkomlega á milli hinnar hefðbundnu fjárlagaafgreiðslu, sem varðar rekstur ríkissjóðs, og þeirra ákvarðana, sem árlega verður að taka vegna atvinnuveganna og ekki eru síður mikilvægar fyrir afkomu þjóðarbúskaparins. Fjárlagafrv. greinir frá ráðstöfun á rösklega 900 millj. kr., en útflutningssjóður mun á líðandi ári ráðstafa um 1.100 millj. kr. Samtals verða þetta um 2 milljarðar kr., en allar þjóðartekjurnar námu á s. l. ári 5–6 milljörðum kr. Það liggur því fyrir, að Alþingi og ríkisstjórn ráðstafi með fjárlögum og lögum um útflutningssjóð, meira en þriðjungi allra þjóðarteknanna og e. t. v. allt að 2/5 hlutum. Hér er því að samanlögðu orðið um að ræða fjármálastjórn á öllu þjóðarbúinu, fjármálastjórn, sem ræður algerum úrslitum um allt efnahagslífið og afkomu hvers manns í landinu. Það fer því að vonum, að allur almenningur láti sig miklu varða, hvernig þessi stjórn fer úr hendi, hvað vel tekst til og hvað miður og hversu úr megi bæta því, sem aflaga fer.

Stefnuyfirlýsing núverandi ríkisstj. frá 24. júlí 1956 hefst á þessum orðum: „Ríkisstjórnin mun taka upp samstarf við samtök verkalýðs og launþega, bænda, útgerðarmanna og annarra framleiðenda til þess að finna sem heppilegasta lausn á vandamálum atvinnuveganna. Markmið þessa samstarfs skal vera að auka framleiðslu landsmanna, tryggja atvinnu og kaupmátt tekna og efla almennar framfarir í landinu.“

Og síðar segir:

Ríkisstj. mun beita sér fyrir að skipuleggja almenna uppbyggingu í landinu, einkum í þeim þremur landsfjórðungum, sem nú eru verst á vegi staddir í atvinnulegum efnum.“

Eins og ástand og horfur voru í atvinnu- og efnahagsmálunum á miðju ári 1956, var slík yfirlýsing um gerbreytta stjórnarstefnu vissulega ekki gefin að ófyrirsynju. Hún var sem töluð úr hjarta hvers þess manns, sem kynnzt hafði af dýrkeyptri raun stjórnarstefnu afturhaldsins og sá, hvert stefndi. Í rúmlega ár, eða frá vordögum 1955, hafði afturhaldið haldið uppi ofsalegri hefndarpólitík á hendur launamönnum. Verkfallið mikla vorið 1955, þegar aðþrengdir verkamenn freistuðu að endurheimta nokkuð af hagfræðilega sannaðri kjaraskerðingu undanfarinna ára, var notað sem gerviástæða til gegndarlausra verðhækkana, sem þrengdu kosti launamanna dag frá degi. Ekkert verðlagseftirlit verndaði þá gegn hóflausri álagningu og okri. Hverju sem tautaði skyldi öllu, sem áunnizt hafði, rænt aftur öðru sinni. Vitandi vits og af vel ráðnum hug var stefnt til styrjaldar við alþýðusamtökin, hvað sem hún kynni að kosta þjóðfélagið. Ekkert var aðhafzt í þá átt að undirbyggja sjálft atvinnulífið og gera það þannig færara um að standa undir lífskjörunum. Fiskiskipastóllinn stóð í stað eða rýrnaði ár frá ári. Aukning varð ekki einu sinni til samsvörunar árlegri fólksfjölgun í landinu. Fiskvinnslustöðvarnar stóðu langtímum ónotaðar, langvarandi og tíðar rekstrarstöðvanir báta- og togaraflotans skertu þjóðartekjurnar um hundruð millj. kr. árlega. Fólksflótti úr sjávarbyggðum Vestur-, Norður- og Austurlands jókst ár frá ári vegna landlægs atvinnuleysis. Tekjur manna á þeim slóðum komust árið 1955 sums staðar niður í 1/3 hluta af launatekjum í Keflavík. Sjómennirnir flúðu unnvörpum af togurum og bátum til óarðbærrar hernaðarvinnu, vegna þess að ekkert var aðhafzt til að bæta kjör þeirra, en í staðinn voru fluttir inn 2.000 Færeyingar og ærnum gjaldeyri varið til launa þeirra. Markaðsmálin voru í fullkomnum ólestri. Svo var komið, þegar íhaldið var rekið frá stjórn þeirra mála á miðju ári 1956, að þau frystihús, sem nokkra verulega starfrækslu höfðu, voru stöðvuð eða um það bil að stöðvast, vegna þess að þau lágu með allar geymslur fullar af fiski, sem íhaldsstjórnin gat ekki selt. Við lá, að síldarvertíð sumarið 1956 stöðvaðist mitt í einni mestu aflahrotu síðari ára, vegna þess að ekki hafði verið séð fyrir nægri fyrirframsölu á framleiðslunni. Síðast, en ekki sízt, sjálfur rekstrargrundvöllur framleiðsluatvinnuveganna var að hruni kominn. Í hefndarþorsta sínum gegn alþýðusamtökunum og verðhækkunarflóði því, sem magnað var eftir ósigur afturhaldsins í verkfallinu 1955, var ekki skirrzt við að herða svo að sjávarútveginum, að í ársbyrjun 1956 var allur vélbátaflotinn stöðvaður í heilan mánuð og togaraflotinn að nokkru leyti. Þegar svo var komið, var að vísu hlaupið til og lagðar á álögur upp á 250 millj. kr., en ekki var þar vitlegar að farið en svo, að þessar álögur fleyttu ekki útgerðinni einu sinni fram yfir kosningahríðina í júnímánuði.

Þótt hér sé stiklað á stóru, gefur þetta nokkra hugmynd um viðskilnað afturhaldsins fyrir rúmlega tveimur árum og þá jafnframt um þau verkefni, sem lágu fyrir núverandi ríkisstj. við aðkomuna sumarið 1956.

En hvernig hefur þá til tekizt fyrir núverandi stjórnarflokkum í þeim efnum, sem hér hefur verið drepið á? Hvernig hafa þeir uppfyllt yfirlýsingar sínar, sem hér hefur verið minnzt á og hvað hefur þeim mistekizt? Ef frá væru skildir örfáir staðir, sem sumir eiga við að búa sérstaklega erfið skilyrði frá náttúrunnar hendi, má nú segja, að hver maður í sjávarþorpum og bæjum landsins hafi næga og stöðuga atvinnu, jafnvel svo, að þar sem áður var landlægt atvinnuleysi mikinn hluta árs, leggja menn nú nótt við dag til þess að afla sér tekna og skapa þjóðfélaginu verðmæti. Allur fólksflótti úr sjávarbyggðum landsins er nú stöðvaður og segir það sína sögu um þá gerbreytingu, sem hér hefur átt sér stað. Hvers konar stöðvanir í framleiðslu með tilheyrandi skaða fyrir þjóðfélagið heyra nú fortíðinni til. Sérhver möguleiki togara, báta og fiskvinnslustöðva til að afla og vinna aflann, sem að landi er dreginn, er nýttur til hins ýtrasta, og hann hrúgast þar ekki upp sem illseljanleg vara.

Það var eitt af fyrstu verkum núv. hæstv. viðskmrh., Lúðvíks Jósefssonar, að hindra stöðvun á rekstri togaraflotans og frystihúsanna með því að afla markaða fyrir þann fisk, sem þá fyllti allar geymslur hraðfrystihúsanna. Þetta var gert með stórfelldum þriggja ára samningi við Sovétríkin. Allt frá þeim tíma hefur svo verið haldið á markaðsmálunum, að viðstöðulausar afskipanir hafa farið fram á allri framleiðslu sjávarafurða, hverju flaki, sem framleiðslumáttur okkar hefur getað unnið. Þessi staðreynd er þeim mun athyglisverðari, sem vitað er, að á sama tíma eiga ýmsar fiskveiðiþjóðir við mikla markaðsörðugleika að stríða og verða jafnvel að draga saman útgerð sína af þeim sökum.

En það hefur ekki aðeins tekizt að afla markaða fyrir framleiðslu okkar, eins og hún var fyrir tveimur árum. Á þeim tíma hefur framleiðslan og jafnframt sala hennar aukizt meira, en áður eru dæmi til á jafnskömmum tíma. Aflamagn báta og togara, það sem af er þessu ári, er nú 20% meira, en á sama tíma á fyrra ári. Á öllu s. l. ári var framleiðsla mikilvægustu útflutningsvöru okkar, hraðfrysts fisks, 56 þús. tonn, en nú á 9½ mánuði þessa árs er sama framleiðsla orðin 66 þús. tonn, eða 20% meiri, en allt s. l. ár. Má telja víst, að heildarframleiðsla á hraðfrystum fiski verði á þessu ári allt að 80 þús. tonn, sem er langsamlega mesta framleiðsla okkar á einu ári. Til enn frekari samanburðar má minna á, að 1952 nam öll framleiðsla af hraðfrystum fiski 29 þús. tonnum eða miklu minna en við nú seljum til Sovétríkjanna einna. Þessi stórfellda framleiðsluaukning er ekki til komin fyrir neina hendingu eða tilviljun, heldur fyrir markvísar ráðstafanir ríkisstj. til þess að auka fiskiskipastólinn og fiskvinnslustöðvar í landinu og búa hvort tveggja fullkomnum vélum og tækjum.

Það hefur verið horfið frá þeirri hrunstefnu að láta flotann standa í stað og níðast niður. Á árunum 1957 og 1958 verður samanlögð aukning stærri báta samtals yfir 60 skip, að rúmlestatölu um eða yfir 4.000 lestir. Þetta svarar til 20% aukningar á öllum fiskiskipaflotanum á tveimur árum. Nokkur hluti þessarar miklu aukningar er þó ekki enn kominn í gagnið, þ. e. a. s. 12, 250 lesta fiskiskip, en hin fyrstu þeirra munu sigla á miðin í næsta mánuði og síðan hvert af öðru og verða hin mikilvægasta atvinnuleg lyftistöng í 12 sjávarþorpum landsins og jafnframt bæta sínum skerf til aukinnar framleiðslu þjóðarinnar allrar.

Afkastageta fiskvinnslustöðvanna hefur verið aukin meira, en til samræmis við aukningu flotans. Fimm stór hraðfrystihús hafa tekið til starfa, og því nær hvert frystihús á landinu hefur verið endurbætt eða stækkað og samanlagt hafa þau verið búin nýjum vélum og tækjum fyrir tugi millj. kr. Nú þegar vinnuaflsskortur er orðinn eitt helzta vandamál atvinnulífsins, þá skilar þessi nýja vélvæðing fiskvinnslustöðvanna ómetanlegri framleiðsluaukningu og tryggir rekstur flotans að sínu leyti.

Íslenzku fiskiskipin hafa aldrei verið betur útbúin til veiða, en nú. Mikill hluti bátaflotans er búinn fiskileitartækjum af fremstu gerð. Til þessa hefur verið varið miklum fjárhæðum. Nýjar gerðir neta og síldarnóta hafa rutt sér til rúms. Árangur þessa er m. a. orðinn sá, að rökstuddar vonir standa nú til, að sumarsíldveiðin, sem jafnan hefur verið eins konar happdrætti með takmarkaðri vinningsvon, sé að verða árviss atvinnugrein, sem nokkuð örugglega megi reikna með í þjóðarbúskapnum.

Nýjar útflutningsgreinar hafa verið efldar. Ég nefni sem dæmi þess, að nú í ár og á fyrra ári hafa verið flutt út nokkur þús. tonn af frystri síld. Þá hefur fiskileit skipulögð af sjútvmrn. skilað tugum millj. í auknum afla.

Í tíð núv. ríkisstj. hafa kjör sjómanna tvívegis verið stórbætt með hækkuðu fiskverði og launum. Tvennar skattalækkanir til sjómanna hafa verið framkvæmdar, bátasjómönnum tryggð full greiðsla orlofs til jafns við aðrar stéttir og lífeyrissjóður stofnaður fyrir togarasjómenn. Þetta hefur leitt til þess, að sjómannastéttin, sem flúði skipin í tíð Ólafs Thors,og ungir og vaskir menn aðrir una nú betur á sjónum. Í stað 1.000–2.000 Færeyinga, sem áður mönnuðu flotann, eru nú komnir ungir menn og einnig á öll þau skip, sem til þessa hafa bætzt í hópinn. Þetta haggar þó ekki því, að nú verður á allra næstu vikum að gera allstórt átak til að bæta kjör sjómannastéttarinnar, hækka fiskverð til hennar og laun, a. m. k. til samræmis við hækkað verðlag og laun annarra stétta.

Þetta eru nokkur atriði, sem sýna ljóslega stórfellda efnahagslega ávinninga, sem náðst hafa síðustu tvö árin í fullu samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna frá 1956, atriði, sem varða miklu um sjálfan grundvöllinn, sem heilbrigt efnahagslíf og framfarir verða að byggjast á.

Framleiðslan hefur verið aukin meira, en áður eru dæmi til á jafnstuttum tíma og fullnægjandi markaðir tryggðir fyrir allar framleiðsluvörur. Hvert atvinnutæki hefur verið knúið til ýtrustu afkasta og stórfelld atvinnuuppbygging verið framkvæmd víðs vegar um landið. Fólksflóttinn til Suðurnesja hefur verið stöðvaður. Nýjar framleiðslugreinar hafa verið efldar, útgerðinni verið tryggður fullnægjandi rekstrargrundvöllur. Kjör sjómanna hafa verið bætt, svo að unnt hefur verið að manna allan flotann, Íslendingum. Í stuttu máli, tekjur þjóðarinnar af framleiðslu hafa aldrei verið meir, en nú. Við höfum aldrei staðið nær því marki, að hver hönd gæti haft nýtilegt verk að vinna. Gjaldeyrissala hefur aldrei verið meiri og sparifé aldrei meira. Á fyrstu sjö mánuðum ársins 1957 varð innstæðuaukning í bönkum og sparisjóðum samtals 141 millj. kr., en á sama tíma í ár var innstæðuaukningin 310 millj. kr. eða meira en helmingi meiri. Að slíkt skuli gerast þrátt fyrir dvínandi trú á sparnað, sannar aðeins eitt, að atvinnutekjur hafa almennt vaxið gífurlega.

Eru þetta nú merki þess, að allt sé að fara í kaldakol, að afkoma almennings og þjóðarinnar sé á fallandi fæti, eins og síðasti ræðumaður vildi vera láta? Skyldi þetta benda til þess, „að ríkisstj. hafi reynzt vinnandi stéttum versti böðull og þeim mun meiri, sem lengra hefur liðið,“ eins og lesa mátti nú í vikunni í ritstjórnargrein annars aðalmálgagns stjórnarandstöðunnar?

Ofar öllum öðrum efnahagslegum ávinningum, sem náðst hafa, rís landhelgismálið, sem nú er að nálgast fullnaðarsigur. Landhelgismálið er okkar stærsta efnahagsmál í nútíð og framtíð. Fullnaðarsigur í því leggur hinn eina hugsanlega trausta grundvöll að tilveru þjóðarinnar sem efnalega og menningarlega sjálfstæðrar heildar. Án sigurs í landhelgismálinu verður allt annað í efnahagsmálunum, hversu vel sem þar er að unnið, að ösku og hjómi.

Ég hef hér rætt sumt af því, sem bezt hefur farið úr hendi núverandi ríkisstjórnar og flokka hennar varðandi efnahagsmálin. En ekki væri rétt að draga fjöður yfir það, sem miður hefur farið í þeim efnum. Sú staðreynd er öllum ljós, að það hefur ekki tekizt að tryggja stöðugt verðlag í landinu, heldur hafa orðið stórfelldar verðbreytingar til hækkunar á öllu vöruverði, þjónustu og kaupgjaldi. Þegar ríkisstj. var mynduð eða örskömmu síðar gerði hún með fullu samþykki og í fullu samráði við verkalýðshreyfinguna djarfmannlegt átak til þess að stöðva dýrtíðarflóðið, sem hatursaðgerðir íhaldsins eftir verkfallið 1955 höfðu hleypt af stað. Verðfestingarlögin, sem stöðvuðu allar verðhækkanir um 6 mánaða skeið, voru sett. Á Alþýðusambandsþingi í nóv. 1956 mótaði verkalýðshreyfingin stefnu sína í efnahagsmálunum og lagði þar höfuðáherzlu á stöðvun verðbólgunnar, uppbyggingu atvinnulífsins og óskertan kaupmátt launa. Við efnahagsaðgerðirnar, sem nauðsynlegt reyndist að gera í desember þá um haustið með setningu laga um útflutningssjóð, var í veigamestu atriðum tekið fullt tillit til alþýðusamtakanna og vilja þeirra. Þessar aðgerðir voru að vísu ekki með öllu sársaukalausar fyrir launafólk, en þær tryggðu framleiðsluatvinnuvegunum starfsgrundvöll, án þess að stofnað væri til nýrrar verðbólguþróunar eða stórfelldra verðhækkana á almennum neyzluvörum. Lækkun verzlunarálagningar var ákveðin, komið á ströngu verðlagseftirliti, lagður stóreignaskattur á þá, sem ríflegastan verðbólgugróða höfðu hrifsað til sín og ýmsar aðrar ráðstafanir gerðar jafnhliða tekjuöflun til atvinnulífsins, sem voru til hagsbóta vinnustéttunum.

Þessar ráðstafanir dugðu ekki, andstætt því sem menn höfðu ætlað og vonað, til þess að halda atvinnulífinu í fullum gangi nema í rösklega eitt ár, en þá var augljóst, að til nýrra aðgerða þyrfti að grípa. Höfuðorsakirnar til þessa voru án alls vafa annars vegar ófyrirsjáanlegur aflabrestur, sem varð þess valdandi, að útflutningur minnkaði þrátt fyrir fulla nýtingu allra framleiðslutækja og hins vegar óhagstæð skipting innflutnings milli fjárfestingarvara og neyzluvarnings, að viðbættum þeim árangri, sem stjórnarandstaðan, íhaldið, óneitanlega náði í því að rífa niður það, sem upp hafði verið byggt.

Þegar núgildandi lög um útflutningssjóð á s. l. vori voru sett, gegndi nokkru öðru máli um afstöðu verkalýðshreyfingarinnar, en til hinna fyrri aðgerða núverandi ríkisstj. í efnahagsmálunum. Að vísu hefur því mjög verið haldið á lofti, að mikill ágreiningur hafi verið um afstöðu samtakanna, bæði innan 19 manna nefndarinnar og annars staðar, en það er ekki rétt nema að litlu leyti. Þær tillögur, sem þar komu fram í málinu, bera þess ljósan vott, að ágreiningur var ekki um grundvallaratriði. Allir voru sammála því, að með þessum ráðstöfunum væri í veigamiklum atriðum horfið frá þeirri verðstöðvunarstefnu, sem þing Alþýðusambands Íslands hafði mótað og fylgt hafði verið í meginatriðum af ríkisstj. í hartnær tvö ár, með þeim mikilsverða árangri, að verðsveiflur urðu mjög litlar það tímabil og mun minni verðhækkanir, en í flestum eða öllum grannlöndum okkar. Alþýðusamtökin óttuðust einnig, að þegar til reyndarinnar kæmi stæðust útreikningar hagfræðinga ríkisstjórnarinnar ekki og verðhækkanir yrðu meiri og stórtækari, en þeir sögðu til um. Á hinn bóginn varð ekki augum lokað fyrir því, að nýrra aðgerða var þörf, til þess að atvinnulífið gæti haldizt í fullu fjöri, og þegar mál stóðu þannig að lokum, að engir pólitískir möguleikar voru á að knýja fram aðgerðir í fullu samræmi við vilja alþýðusamtakanna, varð niðurstaðan sú, að Alþb. féllst á þá millileið, sem farin var. Rétt er og að muna það, að á sama tíma og efnahagsaðgerðirnar voru á döfinni voru stjórnarflokkarnir að ráða til hlunns því máli, sem meta varð öllu ofar, landhelgismálinu. Úrslitum þess á örlagastund hefði verið í voða stefnt, ef til friðslita hefði dregið út af efnahagsaðgerðunum.

Nú er ljóst, svo að ekki verður um villzt, að aðvörunarorð alþýðusamtakanna og Alþb. voru ekki að ófyrirsynju. Geysilegar verðhækkanir hafa orðið, sem aftur hafa leitt af sér nauðvörn kauphækkana. Framleiðslukostnaður útflutningsframleiðslunnar vex hröðum skrefum, sem fyrr eða síðar leiðir til þess, að nýjar millifærslur til hennar verða óhjákvæmilegar. Eignaskipting í þjóðfélaginu raskast á óheilbrigðan og skaðlegan hátt, tilhneiging skapast til óhóflegrar fjárfestingar, en sparnaðarviðleitni minnkar að sama skapi. Þjóðfélagslegar umbætur, m. a. þær, sem beztar hafa verið gerðar í tíð núv. ríkisstj., svo sem stofnun húsnæðismálasjóðs og lífeyrissjóðs og atvinnuleysistryggingarnar eru settar í stórfellda hættu, því að hvers virði verða slíkar sjóðmyndanir, ef raunverulegt verðgildi þeirra vex lítið eða ekkert, þrátt fyrir stöðuga greiðslu iðgjalda af almenningsfé? Með slíkri þróun breytist eðli þessara mikilvægu félagslegu umbóta úr því að verða trygging fyrir betri lífskjörum í skattheimtu á almenning, en braskarar og skuldakóngar hirða ávinninginn.

Það kann að vísu að vera, að unnt sé um takmarkaðan tíma að halda uppi óskertum lífskjörum almennings þrátt fyrir vaxandi verðbólgu, ef svo vel er haldið á atvinnumálunum sem gert hefur verið nú um skeið. En það gerist þá með þeim hætti, að verkalýðssamtökin knýja fram stöðugar launahækkanir í kjölfar verðhækkana, síðan kemur ríkisvaldið til skjalanna og ákveður nýja gjaldheimtu til atvinnuveganna og svo koll af kolli, en niðurstaðan verður sú, að hinar efnahagslegu umturnanir verða æ tíðari með hinum alvarlegustu afleiðingum fyrir þjóðfélagið. Þessa öfugþróun verður að stöðva og það verður að vera sameiginlegt verkefni Alþingis, ríkisstjórnar og verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi að vinna það verk og það verður að hefjast án tafar. Á þessari stundu liggur fyrir, að kaupgreiðsluvísitala er orðin 198 stig eða 15 stigum hærri, en reiknað er með í fjárlfrv. og ljóst er, að einhver hækkun því til viðbótar á eftir að koma fram. Að fjárlfrv. óbreyttu að öðru leyti er því auðsætt, að allháa upphæð skortir á tekjuhlið þess til þess að standast útgjöld af þessum sökum. Síðan koma aukin útgjöld útflutningssjóðs, sem að vísu má reikna með að náist að nokkru með aukinni framleiðslu og þar af leiðandi vaxandi innflutningi. Enn liggja engin fullnægjandi gögn fyrir um hina auknu fjárþörf útflutningssjóðs, en fullvíst má þó telja, að hún reynist óhjákvæmileg að öðru óbreyttu.

Hvernig á að mæta þessum vanda, án þess að efnt sé til enn meiri almennra verðhækkana, en orðnar eru eða orðnar verða um næstu áramót? Þessu til svars liggur hendi næst að athuga, hvort öll þau útgjöld, sem hér er um að ræða, samtals yfir 2.000 millj. kr., séu með öllu óhjákvæmileg og hvort það megi ekki draga saman seglin, svo að um muni. Það ber hiklaust að svara þeirri spurningu játandi. Það er unnt að spara margra tuga milljóna útgjöld, miðað við það fjárlfrv., sem hér liggur fyrir, bæði á rekstrarútgjöldum ríkisbáknsins og einnig á fjárfestingarliðum. Það nálgast hreina fásinnu, að ríkið sjálft hlaupi í kapp við framleiðsluatvinnugreinarnar um vinnuafl, sem skortur er á í landinu, til þess að halda uppi framkvæmdum, sem enga sérstaka nauð liða og snerta ekkert sjálft athafnalífið. Það er alkunna, að fjárfesting á Íslandi spennir efnahagsþol þjóðarinnar til hins ýtrasta. Um 1/3 hluti allra þjóðarteknanna eða meira er festur í framkvæmdum. Meðan ekki hefur tekizt að auka enn meira, en orðið er framleiðslu og þjóðartekjur, svo að þær geti hvort tveggja í senn staðið undir viðlíka fjárfestingu og nú á sér stað og jafnframt lagt grundvöll að batnandi lífskjörum, þá verður að takmarka hana, eins og frekast er unnt, við þær framkvæmdir, sem mestum arði skila í þjóðarbúið. En það er mikill misbrestur á, að svo sé.

Fjárfesting þjóðarinnar er að allt of miklu leyti handahófskennd, gerð án heildaryfirsýnar og mótuð af hreppapólitík og stundum er hún beinlínis þjóðhagslega skaðleg. Mýmörg dæmi mætti nefna þessu til sönnunar, smá og stór. Hér í höfuðborginni eru t. d. þrjár risaspítalabyggingar í smíðum samtímis og hafa verið um áraskeið. Hver fyrir sig kostar tugmillj, kr., og allar standa þær hálfkaraðar vegna fjárskorts og koma því engum að gagni. Hliðstæður þessa má finna á mörgum sviðum í hafnamálum, vegamálum og víðar, þar sem hálfkaraðar framkvæmdir standa eins og háðsmerki á skynsamlegri og þjóðnýtri uppbyggingu, meðan þjóðþrifaframkvæmdir, sem gætu skilað tugum eða hundruðum millj. í þjóðarbúið, verða út undan.

Í leikmannsaugum verður það að teljast léleg hagfræði að nota ekki nú þegar fáanlegt erlent lánsfé til kaupa á togurum, t. d. þeim 15, sem ákveðið var í stjórnarsáttmálanum að kaupa, þar sem margsannað er, að engin atvinnutæki komast nálægt því að skapa þjóðfélaginu, jafnmikil verðmæti, miðað við verð og vinnuaflsþörf. Það er staðreynd, að hverjir þrír togarasjómenn draga að landi aflamagn, sem unnið og útflutt gefur eina millj. kr. í gjaldeyri á ári, miðað við skráð gengi. Á sama tíma og úr hömlu dregst að ráðast í togarakaup, eru í uppsiglingu verksmiðjubyggingar fyrir allt að 100 millj. kr. eða meira, sem m. a. er ætlað að framleiða til útflutnings osta, sem gefa kr. 4.50 í gjaldeyri á hvert kg eða minna, en jafnþyngd í hraðfrystum fiski og þar á líka að framleiða smjör, sem gefur kr. 7.50 fyrir sömu þyngdareiningu, eða um 1/10 af innanlandsverði. Hvor framkvæmdin mundi nú samræmast betur þjóðarhagsmunum?

Það er fullvíst, að það er unnt að mæta a. m. k. að mjög verulegu leyti aukinni fjárþörf atvinnuveganna og ríkissjóðs með takmörkun á fjárfestingu og skynsamlegri heildarstjórn á þeim málum öllum. En á slíkri heildarstjórn, þar sem unnið er eftir fyrir fram gerðum áætlunum, er nú ríkari þörf, en nokkru sinni fyrr. Það er líka unnt að spara tugi millj. á sjálfum ríkisrekstrinum. Ýmsar greiðslur úr útflutningssjóði sæta almennri gagnrýni og lítill vafi er á, að þar mætti einnig draga saman útgjöld á sumum sviðum, án þess að atvinnulífið í heild biði tjón af. Þungbærar vaxtagreiðslur mætti lækka stórlega jafnhliða gagngerðum ráðstöfunum til verðstöðvunar.

Vextir eru nú 1/3 hluti alls byggingarkostnaðar í landinu og einn allra stærsti útgjaldaliður framleiðsluatvinnuveganna. Háir vextir og okur eru fylgifiskar verðbólgu. Takist að stöðva hana, skapast jafnframt grundvöllur til vaxtalækkunar, sem létt gæti stórlega rekstur atvinnuveganna.

Allt of mikið af afkastagetu þjóðarinnar er bundið í verzlun og öðrum þjóðfélagslega óarðbærum störfum. Því ber að breyta, m. a. með því, að ríkið sjálft taki í sínar hendur mikilvægar greinar verzlunarinnar, svo sem olíusölu o. fl., og tryggi þannig atvinnuvegunum sannvirði rekstrarvara og hindri hóflausa fjárfestingu og sóun vinnuafls. Það eru slíkar leiðir, sem verður að fara jafnframt áframhaldandi atvinnuuppbyggingu, ef vinna á bug á þeim vanda, sem nú steðjar að þjóðinni efnalega og unnt á að reynast að stöðva dýrtíðarskrúfuna.

Verkalýðshreyfingin hefur hér úrslita hlutverki að gegna. Það hefur frá öndverðu verið stefna hennar að sporna við aukinni dýrtíð og meta meira verðgildi launa, en krónutölu. Í því sambandi er rétt að minna á, að a. m. k. síðan 1946, þegar raunveruleg lífskjör almennings voru einna hæst, sem þau hafa orðið, hefur verkalýðshreyfingin aldrei gert kaupkröfur nema sem beinar og rökréttar gagnráðstafanir gegn verðhækkunum. Þessi staðreynd er nú viðurkennd af öllum málsmetandi hagfræðingum, líka þeim, sem ekki verða sakaðir um að teljast málsvarar alþýðusamtakanna. Ósannindaþvæla íhaldsmanna, sem lapin er í nær hvert sinn, sem þeir stíga í ræðustól og tala um efnahagsmál, um að alþýðusamtökin eigi sök á verðbólgunni, er dautt og ómerkt fleipur, mælt gegn betri vitund þess, sem finnur, að hann er sjálfur hinn seki.

Saga íhaldsins, þótt ekki sé lengra rakin en frá árinu 1947, er samfelld saga um baráttu þess fyrir vaxandi dýrtíð og árásum á lífskjör almennings. 1947 stóðu þeir fyrir því að lögbinda skerðingu á vísitölugreiðslum um 28 stig og binda hana jafnframt. Samtímis voru skattar og tollar stórhækkaðir og nýir fundnir upp. Á einni nóttu voru launakjör alþýðuheimilanna rýrð um 10%. Á árinu 1950 knúði íhaldið fram gengisfellinguna miklu, sem hækkaði allan erlendan gjaldeyri um 73% og magnaði nýtt dýrtíðarflóð og kjaraskerðingu. Og í ársbyrjun 1956 skellti það enn nýrri öldu yfir aðþrengda landsmenn með hundruð millj. álögum.

En svo ljót sem sú saga er öll, þótt hér verði ekki nánar rakin, væri þó synd að segja, að hlutur íhaldsins hefði batnað, eftir að það hrökklaðist úr sjálfri landsstjórninni. Þegar verðfestingarlögin voru sett í ágúst 1956, æpti íhaldið sín verstu ókvæðisorð að ríkisstj. Mennirnir, sem höfðu ákveðið að binda kaupgjaldið og fella gengið þegar að kosningum loknum, urðu æfir, þegar þeir fengu ekki lengur fullt frelsi til þess að spenna upp vöruverðið. Þegar ríkisstj. kom á ströngu verðlagseftirliti til að vernda kaupmátt launa, ætlaði íhaldið að ærast. Þegar heildsöluálagning var lækkuð, umturnaðist Morgunblaðið og allt þess lið. Þegar verðbólgugróðamönnum var gert með stóreignaskattinum að endurgreiða nokkuð af feng sínum, hlaut sú ráðstöfun fullkomna fordæmingu. Þar var komið við sjálft íhaldshjartað. Þannig hefur öll viðleitni íhaldsins, síðan það kom í stjórnarandstöðu, beinzt að því að auka dýrtíðina og eyðileggja allar aðgerðir til að stemma stigu við henni, en lélegustu tegundir loddarabragða hafa verið notaðar til að villa um fyrir almenningi. Þegar álagningin var lækkuð, heimtuðu íhaldsmenn hærri álagningu, en sögðust jafnframt vera málsvarar lægra vöruverðs. Við afgreiðslu fjárl. heimta þeir meiri framlög til flestra framkvæmda, en eru jafnframt á móti allri tekjuöflun til að standa straum af þeim sömu framkvæmdum. Þegar ráðstafanir eru gerðar til að tryggja rekstur atvinnuveganna, krefjast þeir ætíð margfalt meiri uppbóta, en þörf er á, en eru jafnframt á móti því, að fjár sé aflað til að standa undir þeim. Þessi skrípaleikur á að dylja hina raunverulegu stefnu íhaldsins, stefnu kaupbindingar, vísitöluskerðingar, gengislækkunar og verðbólgu.

Íhaldið veit sem er, að það eru skjólstæðingar þess, auðmenn og braskarar, sem hagnast á dýrtíðarskrúfunni. Þess vegna hefur það beitt sér af oddi og egg gegn allri viðleitni til að stöðva hana. Íhaldið veit, að verkalýðshreyfingin er það eina afl, sem líklegt er til þess að geta knúið fram þær breytingar á þjóðarbúskapnum, sem tryggja stöðvun verðbólgu, efnahagslegar framfarir og bætt lífskjör. Þess vegna beinir það nú stormsveitum sínum að verkalýðshreyfingunni. Þess vegna hefur auðmannastéttin beitt peningavaldi sínu, mannafla og bifreiðum í kosningunum til Alþýðusambandsþingsins undanfarna daga í þeim tilgangi að brjóta niður styrk samtakanna innan frá.

Sú ráðagerð má ekki takast. Fram undan bíða verkalýðshreyfingarinnar örlagarík verkefni, sem hún getur ekki leyst, nema henni takist að skapa fullkomna einingu í eigin röðum. Á Alþýðusambandsþinginu, sem kemur saman að tæpum mánuði liðnum, verða allir fulltrúar vinnandi Íslendinga að muna, að þeir eru forustumenn stéttar, en ekki flokka. Þeir verða að móta þar skýra og ótvíræða afstöðu alþýðusamtakanna í efnahagsmálunum og sanna stjórnmálaflokkunum, ríkisstj. og Alþ. og allri þjóðinni, að frá þeirri stefnu verður ekki vikið. Alþýðusamtökin verða að slá skjaldborg um þá stórfelldu efnahagslegu ávinninga, atvinnuuppbygginguna, framleiðsluaukninguna, viturlega meðferð markaðsmálanna, útrýmingu atvinnuleysis og útfærslu fiskveiðilögsögunnar, sem unnizt hafa í samstarfi við ríkisstj, á s. l. tveimur árum. En þau verða jafnframt að krefjast þess svo kröftuglega, að ekki verði undan vikizt, að verðþenslan verði stöðvuð og stöðugt verðlag tryggt í landinu, ekki að þeirri leið, að laun verkafólks verði skert með kaupbindingu eða vísitöluskerðingu, heldur með því að taka upp stefnu sparnaðar í öllum opinberum rekstri, með því að miða fjárfestingu við efnahagsþol þjóðarinnar og framkvæma aðrar nauðsynlegar aðgerðir í efnahagslífinu, jafnvel þótt þær hafi einhvern sársauka í för með sér fyrir vissa aðila í þjóðfélaginu.

ríkisstj., sem nú er við völd í landinu, fékk þau fyrir frumkvæði og fylgi alþýðunnar, sem batt við hana miklar vonir og veitti henni traust til mikilla afreka. Á fjölmörgum sviðum hefur þessi ríkisstj. reynzt traustsins verð og unnið ómetanlegt starf. Á öðrum sviðum hefur skort á, að nægilegt tillit væri tekið til verkalýðsstéttarinnar og hagsmuna hennar. Þetta verður að breytast, ef vel að fara. Verkalýðshreyfingin getur verið sterkasta þjóðfélagsaflið í þessu landi. Nú eins og áður æskir hún einskis fremur, en að beita því mikla afli í samstarfi við ríkisvaldið til þess að skapa vinnandi stéttum landsins bætt lífskjör, en hún kaupir heldur ekki friðinn því verði að fórna hagsmunum umbjóðenda sinna í einu eða neinu.