20.04.1959
Sameinað þing: 41. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

1. mál, fjárlög 1959

Frsm. 2. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu fjárlfrv. og skiptist nefndin í þrjá minni hl. um afgreiðslu þess.

Alþb. lítur svo á, að það, sem skilur um það, að sá nefndarminnihluti, sem hér hefur lagt fram sína grg. og flutt sína framsögu og fulltrúi Alþb. gætu staðið saman að tillögunum, sé fyrst og fremst það, að þær tillögur, sem af ríkisstj. hálfu og stuðningsflokka hennar hafa verið bornar fram, eru með þeim hætti, að ekki verður á þær fallizt nema í nokkrum atriðum og ekki í heild.

Í fyrsta lagi — og er það þó máske ekki veigamest — eru tillögurnar ófullnægjandi til þess að brúa það bil í fjárhagsvanda þjóðarinnar, sem fyrir hendi er. Þrátt fyrir samþykkt á öllum þeim till., sem nefndin sameiginlega hefur gert og 1. minni hl. hefur einnig gert, mundi enn verða óleystur verulegur vandi, einkum á því sviði efnahagsmála þjóðarinnar, sem fellur undir útflutningssjóð, en eins og hv. frsm. 1. minni hl. hefur tekið fram, verða þessir tveir sjóðir, ríkissjóður og útflutningssjóður, ekki aðskildir, a. m. k. ekki að fullu og verður við afgreiðslu fjárlaga að taka tillit til þess, hvernig hag útflutningssjóðs sé háttað og hverjar líkur hann hefur til þess að standast þær skuldbindingar, sem honum hafa verið lagðar af stjórnarvaldanna hálfu. Ég mun samt ekki gera það sérstaklega að umræðuefni, að þar eru enn skildar eftir verulegar fjárhæðir, sem ekki hefur verið sýnt fram á, hvernig eigi að afla.

Í öðru lagi eru sumir liðirnir í þeirri endurskoðuðu tekjuáætlun, sem hér hefur verið lögð fyrir, ekki með þeim hætti, að hægt sé að fallast á þá, fyrr en fengnar hafa verið við þá nánari útskýringar. Ég vil þar sérstaklega nefna, að meðal brtt. um áætlaðar tekjur ríkissjóðs eru í einu lagi 30 millj. kr. greiðslur, sem eru tollar af vörum til raforkuframkvæmdanna í landinu, þar af er um það bil helmingurinn þegar gjaldfallinn og liggur sem skuld rafveitnanna við ríkissjóð, og að hálfu eða nálægt því er þetta áætlaður tollur á vörur, sem væntanlega verða fluttar inn síðar á þessu ári. Nú er það vitað mál, að ef ekki verður með einhverjum hætti komið til móts við fjárþörf rafveitnanna, þá verða þær þess ómegnugar með öllu að greiða bæði skuld sina og einnig þá tolla, sem á falla. Ég vil lýsa yfir f. h. Alþb., að við, sem þann flokk skipum, teljum það ekki óeðlilegt, að fjárþörf rafveitnanna verði leyst með láni, sem síðan verði greitt upp, þegar tekjur veitnanna eru orðnar slíkar, að þær geti staðið undir kostnaðinum. En enn sem komið er hefur ekki verið sýnt fram á það, að lán sé fáanlegt með neinum skaplegum kjörum til þessara framkvæmda og þar af leiðandi svífur það alveg í lausu lofti, hvort þessi tekjuáætlun er raunhæf eða ekki. Því er lýst yfir af stuðningsmönnum ríkisstj., Alþfl.- og Sjálfstfl.-mönnum, að það sé ekki meiningin að stöðva framkvæmdirnar, en á meðan ekki er sýnt fram á annað, en að slík tollheimta af þeim mundi stöðva framkvæmdir þeirra, þá er ekki hægt að taka undir liði sem þennan.

Þá vil ég í þriðja lagi taka það fram, að sparnaðartillögur þær, sem lagðar eru fram af Alþfl. og Sjálfstfl., eru á margan hátt með því marki brenndar, að ekki er hægt á þær að fallast. Í fyrsta lagi eru þar lagðar fram tillögur um að spara útgjöld á ýmsum þeim liðum, sem lögbundið er í öðrum lögum, en fjárlögum, að ríkinu sé skylt að greiða. Sparnaðartillögur hv. stjórnarstuðningsflokka við skólabyggingarkostnað, um 5% niðurskurð á öllum fjárveitingum til skólabygginga, eru brot á lögunum um greiðslu skólakostnaðar. Það hefur verið áætlað samkv. þeim lögum, hver skylda ríkissjóðs væri til greiðslna í þessu efni og að skera það niður um 5% er ekkert annað en að láta ríkissjóð svíkjast undan skyldu, sem hann hefur samkv. lögum þessum. Sama máli gegnir um sparnaðartillögu hv. ríkisstjórnarflokka um greiðslu orlofskostnaðar. Framkvæmd orlofsins fer eftir lögum og þó að það sé vissulega rétt, sem hér hefur verið bent á, að verulegur hluti af framkvæmd orlofsgreiðslnanna fer ekki fram eftir þeim reglum, sem settar voru upphaflega um orlof, þá sé ég ekki, að ríkissjóður geti gengið fram fyrir skjöldu um að brjóta þau lög, sem Alþ. hefur sett um þessa framkvæmd og get ekki fallizt á, meðan ekki er einu sinni sýnt lagafrumvarp til breytinga á þessum hlutum, að hægt sé að áætla þetta öðruvísi, en vitað er að kostnaðurinn muni reynast, ef lögunum er framfylgt. Ég álít, að það sé lágmarksskylda þeirrar ríkisstj. og þeirra ríkisstjórnarstuðningsflokka, sem leggja fram tillögur um fjárlög eða breyt. á fjárlagaliðum, sem fara í bága við framkvæmd gildandi laga, að áður en til samþykkta kemur á slíkum liðum, þá hafi viðkomandi aðilar þó a. m. k. sýnt Alþ. framan í frv. um það, með hverjum hætti eigi að breyta þeim lögum, sem geri breytingu á fjárlögum mögulega. Það hefur ekki verið gert í þessu tilfelli og raunar allmörgum fleiri atriðum, sem ég mun nú ekki rekja í einstökum liðum frekar.

Þá vil ég enn nefna það í fjórða lagi við till. stjórnarflokkanna varðandi fjárlög, að því leyti sem ekki er hægt á þær fallast, að sumar þeirra eru með öllu óraunhæfar og út í bláinn. Ég vil þar t. d. nefna að fella með öllu niður greiðslur til skipaeftirlitsins. Sú till. var svo óhugsuð af ríkisstj. hálfu, að þegar hún kom til fjvn., hljóðaði hún upp á það að skera þennan útgjaldalið ríkisins niður um ½ millj. Í frv. var þó ekki gert ráð fyrir, að úr ríkissjóði yrðu veittar til þessa nema 400 þús. kr. rúmar, sem sagt hafði þarna verið unnið að eins flausturslega og hugsazt gat. Nú hefur sá hv. nefndarminnihl., sem ríkisstj. styður, haft vit fyrir ríkisstj. sjálfri og miðað þessa upphæð ekki við hærri tölu. en í fjárlögum stendur og er það allra góðra gjalda vert. En raunhæft verður málið ekki frekar fyrir það, þar sem það liggur fyrir, að búið er að framkvæma áramótaskoðun á næstum öllum flota landsmanna, en hún hefur í för með sér mestan hluta af þeim kostnaði, sem málið snýst um. Hann er þess vegna þegar áfallinn og algerlega óraunhæft að ætla að fella niður fjárveitingu til hans.

Ég get einnig aðeins drepið á það, að í áætlun stjórnarflokkanna er sparnaðartillaga um ½ millj. á alþingiskostnaði. Ekki skal ég fyrir mitt leyti hafa á móti því, að sparaður sé alþingiskostnaður. En á sama tíma sem Alþ. er að ákveða að halda aukaþing á komandi sumri og fjölga þingmönnum verulega á komandi hausti og Alþ. hefur þegar staðið alla þá daga, sem liðnir eru af þessu ári, en það er rétt að verða um þriðjungur ársins, þá sé ég ekki, að þessi liður sé heldur raunhæfur.

Þegar sparnaðartillaga ríkisstj. um ½ millj. kr. niðurskurð á útgjöldum stjórnarráðsins barst, var aðalröksemdin fyrir henni sú, að ráðherrum hefði fækkað. Hér kom til sama handahófið í vinnubrögðum eins og víða annars staðar. Ríkisstj. virtist ekki vera kunnugt um, að lög væru til um það, að ráðherrar missa ekki sín laun daginn sem þeir láta af embætti, þeir hafa sín laun í hálft ár, ýmist að öllu eða að verulegum hluta. Nú eru þess vegna ekki 4 ráðherrar á launum, heldur eru á launum einnig aðrir 4 ráðherrar, hv. fyrrverandi ráðherrar, sem véku úr síðustu ríkisstjórn. Enn fremur er það á allra manna vitorði, að núverandi ráðherrar munu víkja úr ríkisstj., áður en árið er liðið og væntanlega afsala þeir sér ekki sínum launum fyrir það, eða það væru nýjar upplýsingar í málinu, ef það lægi fyrir.

Ég vil þó alveg sérstaklega nefna alvarlegt ágreiningsatriði milli mín og þeirra hv. fjvn.manna, sem skipa 1. minni hl., þ. e. a. s. stuðningsmanna ríkisstj. Það er varðandi flugvallagerðirnar. Í fjvn. náðist gott samkomulag um alla aðra liði samgöngumálanna. Það var einnig vitað, þótt ekki kæmi það beinlínis fram á fjárlagafrv., eins og það lá fyrir, að til nýbyggingar þjóðvega var lagt aukið fé á þessu ári frá því, sem var á hinu síðasta. Sama máli gilti um brúargerðirnar. Stafaði þetta af því, að í lögunum um útflutningssjóð, sem samþ. voru á s. l. vori, var ákveðið sérstakt gjald til þessara framkvæmdaliða, veganna og brúargerðanna, af benzínfé, þ. e. a. s. með sérstökum skatti af benzíni, sem inn er flutt. Þessir aðilar, þ. e. a. s. vegagerðin og brúargerðin, höfðu þess vegna fengið verulega hækkun á sínum fjárframlögum, þótt ekki væru á fjárlögum sjálfum. Hafnargerðirnar varð einnig samkomulag um að hækka nokkuð. Ég vil taka það fram, að ég tel þá hækkun of litla. En með því að allir hv. fjvn.-menn sýndu skilning í því atriði og þokuðu til innan þess ramma, sem vitað var að þeir höfðu möguleika til, þá náðist einnig samkomulag um nokkuð aukið fé til hafnargerða. Það er hins vegar alrangt, sem í nál. hv. 1. minni hl. stendur, að einnig sé um aukningu að ræða til flugvallagerðanna. Segir svo — með leyfi hæstv. forseta — á bls. 3 í nál. 1. minni hl.:

„Lagt er til, að fjárveiting til flugvallagerða verði 120 þús. kr. hærri, en í fjárlögum ársins 1958“.

Þetta er rangt. Á fjárlögum ársins 1958 voru veittar til flugvallagerðar 6 millj. 135 þús., en samkv. þeirra till. nú er ráðgert að veita til flugvallagerðanna 8 millj. 120 þús. og er því um að ræða 15 þús. kr. lækkun, á sama tíma sem allir aðrir liðir samgöngumannvirkjagerðar fá hækkanir. Þetta er þeim mun átakanlegra sem flugið er okkar yngsti samgönguliður og hefur þar af leiðandi skemmstan tíma haft til að byggja upp sín mannvirki, enn fremur þegar á það er litið, að flugsamgöngurnar eru orðnar stærsti fólksflutningsaðilinn í landinu og þar að auki, að flugferðirnar eru eini samgönguþátturinn innanlands, sem ríkið greiðir ekki neinn styrk. Það skýtur því mjög skökku við, að hér skuli vera lagt til, að lækkuð séu framlög frá s. l. ári, sem voru þó mjög numin við nögl þá og gerð sé tillaga um að lækka þennan lið frá því. sem hann er í fjárlfrv., um nærri 2 millj. kr.

Þau atriði, sem ég nú hef nefnt, hafa orðið þess valdandi, að ég hef ekki getað haft samstöðu við þá nm., sem standa að 1. minni hl. Engu að síður hefur orðið í fjvn. góð samvinna um afgreiðslu fjöldamargra till., sem þar lágu fyrir og þar hefur einnig komið fram almennur vilji til þess að láta fjárlög ekki hækka svo, að nýja skatta verði að leggja á þjóðina. Og um það er ég hv. 1. minni hl. mjög sammála að, að því beri að vinna.

Þótt alger samstaða hafi ekki náðst í nefndinni nema um nokkra hluti og til klofnings hafi komið um aðra, þá vil ég taka það fram, að um slíkt ber auðvitað ekki fyrst og fremst að sakast við þá fjvn.-menn, sem að 1. minni hl. standa, heldur við þau stjórnarvöld, sem þeir hljóta að miða gerðir sínar við og þeir verða að taka tillit til, hvers ríkisstj. og hennar ráðunautar hafa skuldbundið ríkisvaldið til af sinni hálfu. Þess var því ekki að vænta, að þeir aðilar, sem svara fyrir ríkisstj., sem skuldbundið hefur opinbera sjóði í greiðsluaukningu, sem nemur hundruðum milljóna, gætu haft samstöðu við þá, sem ekki telja sig skuldbundna af ríkisstjórnarinnar loforðum, sem hafa ekki verið lögfest. Samkv. áætlun ráðuneytanna er sú útgjaldaaukning, sem núv. ríkisstj. hefur skuldbundið opinbera sjóði til að inna af hendi á þessu ári, í fyrsta lagi bótagreiðsluaukning útflutningssjóðs vegna nýrra samninga, sem gerðir voru um s. l. áramót við útgerðina í landinu og skuldbinda útflutningssjóð til greiðsluaukningar, sem nemur 82.3 millj. kr. Í öðru lagi hafa stjórnarvöldin um s. l. áramót ákveðið niðurgreiðslur á ýmsum vörutegundum og nema útgjöld hins opinbera af þeim ástæðum 83.3 millj. Í þriðja lagi hefur ríkisstj. enn ákveðið niðurgreiðsluaukningu, sem tók gildi hinn 1. marz s. l. og nema mun í útgjöldum 25.8 millj. kr. Enn fremur hefur síðan verið áætlað, að þær vörur, sem þessar upphaflegu áætlanir voru miðaðar við, muni seljast örar en áður, þannig að af þeim sökum bætist við þessar áætlanir 7.6 millj. kr. og nemi því þessi útgjaldaaukning alls 199 millj. kr. Þótt greiðslur þessar séu úr útflutningssjóði, þá hlýtur meginþungi þeirra samt að falla á ríkissjóð, þar sem ekki er ráðgerð nein stórfelld tekjuaukning til handa útflutningssjóði önnur en ríkisframlög.

Þrátt fyrir það, að þetta eru skuldbindingar, sem á þjóðina hafa verið lagðar af núv. stjórnarvöldum, sem starfa í algerri andstöðu við minn flokk, þá vil ég engu að síður miða fjárlagaafgreiðslu við það, að tekið verði fyllsta tillit til þess, sem þjóðin hefur verið skuldbundin til á lögformlegan hátt og miðast því þær tillögur, sem ég legg hér fram, við það, að fjárlög verði afgreidd greiðsluhallalaus og mun ég síðar víkja nánar að því.

Það hefðu orðið íslenzku þjóðinni harla þungar búsifjar, ef öll sú háa fjárhæð, sem hér hefur verið talin, ætti að leggjast á þjóðarbúið af fullum þunga, annaðhvort sem nýir skattar eða skerðing á opinberri þjónustu við þjóðfélagsþegnana. En svo slæmt er þó ekki í efni. Sú ríkisstj., sem lét af störfum í desembermánuði s. l. og hv. stjórnarstuðningsmenn núv. finna vart næg atyrði um, vann þó með þeim hætti að framleiðslumálum þjóðarinnar, að á daginn hefur komið, að þjóðarframleiðslan hefur stórlega aukizt og tekið beinlínis stökk fram á við á s. l. ári og allur hagur hins íslenzka þjóðarbús er betri og blómlegri af þeim ástæðum. Þannig kemur það í ljós, að ríkissjóður átti verulegan afgang af tekjum sínum um s. l. áramót. Í bráðabirgðauppgjöri fyrir ríkissjóð kemur fram, að tekjuafgangurinn nemi nokkuð á 49. milljón. Raunverulega er þó tekjuafgangurinn miklu meiri, eða á milli 70 og 80 millj., því að áður hafði verið ráðstafað ýmsum lánum frá ríkissjóði, þ. á m. er um það lán að ræða að verulegu leyti, sem ríkisstjórnarflokkarnir nú leggja til að tekið verði inn í fjárlög sem tekjur, en þar á ég við tollana af efnivörum rafvirkjananna.

Enn fremur kemur í ljós, þegar skoðað er uppgjör ríkissjóðs frá s. l. áramótum, að ýmsir tekjuliðir hafa reynzt svo drjúgir, að óhætt er frá fjárlagafrv. að hækka þá verulega í áætlunum um tekjur á yfirstandandi ári. Ég lýsi samþykki mínu og míns flokks við það, að tekjuafgangur ríkissjóðs sé til þess notaður að koma í veg fyrir nýja skatta á þjóðina. Ég lýsi einnig samþykki við þær breytingar, sem gerðar eru á tekjuáætluninni í till. hv. 1. nefndarminnihl., að því undanskildu, að til þess að hægt sé að samþykkja tekjuliðinn um 30 millj. tollagreiðslur af rafvirkjunum, þá verður áður að vera búið að sýna fram á, að þeim sé mögulegt að greiða þetta með láni, þannig að ekki stöðvist framkvæmdir þeirra.

Hér er því um það að ræða, að það er ekki svo stórt bil, sem upp hefur verið sett í útgjaldaaukningunni, sem brúa þarf, heldur má þar draga frá samtals um 108–110 millj. kr., og verður þá vandinn allur minni, sem raunverulega þarf við að glíma við samningu fjárlfrv. eða afgreiðslu þess.

Um einstakar tillögur, sem samkomulag hefur verið um í nefndinni, hefur hv. frsm. 1. minni hl., svo sem samkomulag varð í nefndinni um, fjallað um, og mun ég ekki gera þær sérstaklega að umræðuefni.

Ég hef gert allmargar brtt. við fjárlfrv. á þeim liðum, þar sem ekki var um samkomulag að ræða. Vil ég þó taka fram, að nokkrar af þeim till. reynast vera samhljóða eða um það bil alveg samhljóða brtt. meiri hl. n. Stendur þannig á því, að tvær tillögur skuli gerðar vera um sama hlut, að í nefndinni var tekin afstaða til lækkunartillagnanna í heild, en ekki rætt til þrautar um hverja einstaka. Það mun því verða af hálfu 1. og 2. minni hl. samstaða um nokkrar þær till., sem fluttar eru á þskj. 393 sem brtt. 1. minni hl.

Ég hef áður getið um það, að með tilteknum fyrirvara get ég lýst stuðningi við 13 fyrstu brtt., sem fjalla um breyt. á áætlun um tekjur ríkissjóðs. Enn fremur vil ég taka fram, að nokkrar till. um lækkun útgjalda var mér kunnugt um að gerðar yrðu og hef þess vegna ekki gert um þau atriði sérstakar tillögur, en vil á sama hátt lýsa við þær stuðningi og er þar um að ræða lækkun á ferðakostnaði á 13. gr. fjárlaga hjá flugmálastjórninni, sem nemur 120 þús. kr. Enn fremur þykir mér sem sýnt hafi verið fram á það með rökum, að hægt sé að fella niður 2 millj. kr. framlag til kaupa á jarðræktarvélum, þar sem lagaskyldu er fullnægt og allverulegt fé liggur þó fyrir til þeirra greiðslna. Enn fremur þótti mér sem sýnt væri fram á, að hægt væri að fella niður ½ millj. kr. framlag til iðnskólans í Reykjavík, þar eð hann á óhafið fé. Hv. frsm. 1. minni hl. gat þess, að sú till. mundi af hálfu 1. minni hl. verða tekin aftur til 3. umr. og athuguð nánar, þar sem nýjar upplýsingar mundu liggja fyrir í því máli. Ég vil að sjálfsögðu taka það fram, bæði um mínar tillögur í heild og þær till. aðrar, sem ég tel mig geta stutt, að um þær gildir að sjálfsögðu allur sá fyrirvari, að komi nýjar upplýsingar fram í málinu, þá er áskilinn réttur til þess að taka þær til endurathugunar.

Varðandi sparnaðartillögu hv. 1. minni hl. um niðurfellingu á 10 millj. kr. framlagi til nýrra raforkuframkvæmda, þá gegnir um hana svipuðu máli og það mál raforkuframkvæmdanna sem ég hef áður rætt, að ég tel á engan hátt óeðlilegt, að það mál sé leyst með lántöku. En til þessa hefur þó ekki verið sýnt fram á það með neinum viðhlítandi skýringum, að slíkt lán með skaplegum kjörum sé fáanlegt og geymi ég mér því að taka afstöðu til þess liðs, enda þótt ég viðurkenni, að mér sé það mjög skapi nærri að leysa þetta mál með lántöku.

Þá hefur hv. 1. nefndarminnihl. lagt til, að ríkisábyrgðir verði lækkaðar úr 30 millj., sem gert er ráð fyrir á frv., niður í 20 millj. kr., þ. e. a. s. hér verði um 10 millj. kr. lækkun að ræða. Ég lýsi samþykki við þessa till. En á hinn bóginn hef ég ekki komið auga á það, hvernig flm. þessarar till. geta gert hvort tveggja í senn, að leggja hér fram till. um það, að ríkissjóður taki á sig að greiða þurrafúalánin öll og án þátttöku viðkomandi skuldareigenda, en þau lán munu nema 16–20 millj. kr., og gera jafnframt og í sama plagginu till. um að lækka framlög ríkisins í þessu tilefni. Mér sýnist, að hér sé um að ræða feluleik, hér eigi ekki að framkvæma það, sem samþykkt er. Það er ekki hægt að gera hvort tveggja í senn, að lækka framlög til eins hlutar og ákveða að borga meira. En það breytir ekki því, að ég lýsi stuðningi við þessa lækkun. Ég get hins vegar ekki fallizt á það, að ríkissjóður taki að sér þessa greiðslu alveg skilyrðislaust. Hér er um það að ræða, að ríkið taki að sér greiðslur fyrir menn, sem sumir hverjir eru stóreignaskattsgreiðendur og margfaldir milljónaeigendur. Mér sýnist líka, að á einum og sama deginum sé það heldur harðleikið hlutverk, sem þeir menn fá, sem kosnir eru hingað á þing af vinnandi fólki í landinu, að fella það á öðrum tímanum, að hinn almenni verkamaður, sem leggur nótt með degi við framleiðslustörfin og vinnur stundum tvo venjulega vinnudaga á einum og sama sólarhringnum til þess að koma verðmætum þjóðarinnar frá því að skemmast, koma fiskaflanum í salt eða frost, skuli ekki fá neina skattaívilnun fyrir það, þótt hann beinlínis af þegnskyldu við þjóðfélagið vinni miklu meira, en hann sjálfur óskar eftir, að hann skuli ekki fá sína vinnu skattlagða sem dagvinna væri og ekki meira. Þetta geta sömu mennirnir fellt á 2. tíma dags, þó að þeir geri um það till. á 4. eða 5. tímanum, eftir að þetta er fallið, að þá skuli milljónerum landsins mörgum hverjum gefnar eftir þær skuldir, sem ríkissjóður hefur gengið í ábyrgð fyrir, stundum svo milljónum skiptir. Þetta er rangsleitni, sem ekki er frambærileg og vil ég fyrir mitt leyti mótmæla henni.

Það hafa verið gerðar till. um það, að með lán þessi yrði farið með sérstökum hætti. Mér er það ósköp vel kunnugt, að lánin eru þess eðlis, að eðlilegt er að krefja þau inn með öðrum hætti, en venjulegar víxilskuldir. Þau hafa skapazt fyrir tjón, sem menn hafa orðið fyrir, þau eru til skamms tíma og þess ekki að vænta, að allur þorri manna geti greitt þau upp, þegar víxlarnir falla í gjalddaga. Það er þess vegna nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess, að hið opinbera lengi lánstímann og komi til móts við þá aðila, sem þess þurfa, með svipuðum hætti og gert hefur verið t. d. í sambandi við óþurrka- og harðindalán bænda og gerð hafði verið af hv. fyrrv. ríkisstj. till. um og ég sé að hv. 3. nefndarminnihl. hefur tekið upp í sínar till. Það tel ég vera eðlilega lausn á þessu máli. En að ríkissjóður taki að sér að gefa hlutaðeigandi mönnum alla upphæðina án tillits til þeirra efnahags, því sé ég ekki að nein rök séu fyrir.

Sumir menn hafa haldið því fram, að með því að ríkið hefur tekið að sér í samningum við útveginn nú um s. l. áramót að greiða iðgjald af þeirri þurrafúatryggingu, sem nú er komin á, þá sé einnig réttmætt að gefa eftir þessar skuldir. Það sé ég ekki að sé réttmætt. Ég veit ekki til þess, þegar tryggingu hefur verið komið á í öðrum greinum, þar sem hún hefur ekki gilt áður, að þá hafi viðkomandi tryggingar eða yfirleitt neinn aðili talið sér skylt að bæta að fullu öll tjón, sem í þeirri grein hafa orðið, áður en tryggingarnar komust á laggirnar. Ég sé heldur ekki, að neinar kröfur sé hægt að gera á ríkissjóð um, að svo sé að farið.

Þá er það einn meginmunurinn á sparnaðartill. hv. stjórnarstuðningsmanna og þeim almennu sparnaðartill., sem ég f. h. Alþb. hef lagt fram í mínum till, hér, að hv. stjórnarstuðningsmenn leggja til, að inn á 19. gr. fjárl. verði tekinn einn líður, sem ákveður, að framlag til nokkurra tiltekinna framkvæmda verði lækkað um 5% og eru þar allar verklegar framkvæmdir teknar að jöfnu og engin tilraun gerð til þess að meta, hvort þær eru bráðnauðsynlegar eða ekki. Að vísu hefur hv. nefndarminnihl. einnig gert till. um sérstakan niðurskurð á nokkrum þeirra, það skal tekið frá, og er það, svo langt sem það nær, góðra gjalda vert. En hinn almenni niðurskurður miðast engu að síður við framkvæmdaliðina, fjárfestingarliðina, alveg án tillits til þess, hversu þarflegir þeir eru.

Ég vil vekja athygli á því, að þótt ég sé þeirrar skoðunar, að skera beri niður nokkra framkvæmdaliði, sem beðið geta og gera eigi ráðstafanir til þess með lögum að lækka þá í framtíðinni, þá sé ég ekki, að hér sé staðið að með þeim hætti, að frambærilegt geti talizt. Ég vil aðeins taka tvö dæmi: Til viðhalds þjóðvega er varið ákveðinni upphæð. Allir kannast við það, að okkar vegaviðhald hefur frekar á undanförnum árum verið van en um of, þannig að fyrir þær fjárhæðir, sem vegagerðin hefur haft yfir að ráða, hefur hún aðeins naumlega getað haldið vegakerfinu þannig, að það geti kallazt akfært, en holótt hefur það allavega verið og með alls konar torfærum, meira að segja stundum svo, að valdið hefur ríkissjóði sérstöku tjóni, skaðabótaskyldu tjóni, þar sem ríkissjóður eða vegagerðin hefur orðið að leggja út stórfé til að bæta skemmdir á flutningatækjum og fólki, sem um vegina hefur farið. Ég álít það ekki frambærilegt að leggja vegaviðhaldið íslenzka að jöfnu við suma aðra liði, sem þarna eru teknir á sama hátt.

Ég get t. d. nefnt það, að einhvern tíma fyrir 2–3 árum fékk einn sjóður hjá biskupsembættinu, kirkjubyggingasjóður, lán hjá öðrum sjóði, einnig hjá biskupsembættinu, svokölluðum prestakallasjóði. Á s. l. ári var ríkissjóði flækt inn í það að borga helminginn af þessu láni, og á fjárlagafrv. í ár er gert ráð fyrir því, að hinn parturinn af láninu verði greiddur. Ég hef gert till. um það, að svo verði ekki gert. En hv. 1. minni hl. n. leggur hins vegar til, að þessi greiðsla sé tekin á alveg sama hátt, að vísu skorin niður um 5% eins og vegaviðhaldið og nú geta menn aðeins sett upp dæmið fyrir sér, hvort er nauðsynlegra, að ríkissjóður jafni um á milli tveggja sjóða í sama embættinu og taki tekjur sínar á því að skera það niður um 5%, eða að ákveða, að íslenzkir þjóðvegir skuli vera holóttari, en þeir voru í fyrra og skera niður vegaviðhaldið. Þannig er ruglað saman alveg ósambærilegum hlutum og eitt látið ganga yfir þá alla, án þess að tilraun sé gerð til þess að meta, hverja þýðingu þeir hafa fyrir íslenzku þjóðina. Þeim vinnubrögðum vil ég fyrir mitt leyti mótmæla. Ég vil enn fremur mótmæla því, að eftir að gengið hefur verið á þá framkvæmdaliði, sem ríkið veitir fé til og gerðar hafa verið till. um lækkanir á þeim eftir því, hvort þeir þykja bráðnauðsynlegir eða ekki, þá verði gengið á aðra liði, sem sumir hverjir eru lögbundnir og hreinlega er brot á lögum, eins og t. d. lögunum um greiðslu skólakostnaðar, að lækka, því að skólabyggingarnar eru meðal þess, sem lækka á samkvæmt nítjándu-greinartillögu hv. 1. nefndarminnihluta.

Ég tel, eins og raunar hv. frsm. 1. minni hl. benti á, að eðlilegt sé, að stjórnarvöldin gangi á slíkum tímum nokkuð fram fyrir skjöldu og sýni sparnað í verki og þess vegna hef ég gert till. um það, að í stað þess að skera niður skólabyggingar og minnka vegaviðhald o. s. frv., hluti, sem eru þjóðinni bráðnauðsynlegir, verði stjórnarvöldum þeim, sem stjórna í stjórnarráðinu, í utanríkisþjónustunni, í tolla- og skattainnheimtunni, í dómgæzlunni og í lögreglustjórninni, gert að skyldu að spara sína rekstrarliði alla saman um 5% og ég sé ekki annað, en það væri hægt. Hvort viðkomandi yfirvöld kysu að gera þetta með því að fækka starfsfólki, minnka aukavinnu eða endurskipuleggja vinnubrögðin á einhvern hagkvæmari hátt, það væri þá þeirra mál. En á sama hátt og viðkomandi aðilar leggja til, að verklegar framkvæmdir séu skornar niður um 5% án tillits til þess, hvort þær eru þarfar eða óþarfar, þá sé ég ekki annað, en það sé mjög frambærilegt af hv. Alþingi að taka í taumana og láta ekki gera slíkt, en fá út svipaðan sparnað með því að uppáleggja þessum hv. sömu stjórnarvöldum, sem bundið hafa þjóðinni þá bagga, sem ég hér hef lýst, að sýna einhvern sparnað með því að framkvæma 5% niðurfærslu á útgjöldum þessara aðila.

Þá vil ég taka fram, að ég er fyrir mitt leyti samþykkur því, að fellt verði niður 1.2 millj. kr. framlag til menntaskólabyggingar í Reykjavík. Þessi bygging er óhafin enn þá og liggur allverulegt fé í sjóði til hennar, þannig að það stendur ekki á fjárgreiðslum, að hægt sé að hefjast handa um bygginguna. — Enn fremur tel ég gegna sama máli um byggingu stjórnarráðshúss í Reykjavík, en til þess er á fjárlögum ætluð 1 milljón króna, sem ég tel að megi með góðu móti spara á þessa árs fjárlögum.

Þá vil ég taka fram um stærsta útgjaldaliðinn, sem gerð er till. um, að til útflutningssjóðs verði greiddar 154 millj. kr., eins og gert er ráð fyrir í till. hv. 1. nefndarminnihl., að ég hefði að vísu óskað eftir því, að þær greiðslur yrðu ákveðnar nokkru nánar, það yrðu settir upp gjalddagar fyrir þær, hvenær þær ættu að fara fram, en að svo stöddu hef ég ekki gert till. um það, en lýsi mig samþykkan því, að sú greiðsla fari fram.

Ég hef þá farið nokkrum orðum um till. hv. stjórnarstuðningsmanna og hver ágreiningur er í meginatriðum milli mín og þeirra um afgreiðslu fjárlaganna.

Ég vík þá næst að þeim till., sem ég hef gert til breytinga á fjárlagafrv. og fram eru bornar á þskj. 399. Þar er fyrst um að ræða till. um að áætla tekjur póstsjóðs 800 þús. kr. hærri, en gert er í frv., þannig að póstsjóður komi út sléttur og hallalaus. Það var enginn halli á rekstri póstsjóðs á s. l. ári, og ég sé ekki annað, en það sé hægt að halda áfram rekstrarhallalausri póstþjónustu í landinu og legg því til, að ríkissjóður greiði póstþjónustunni ekki neitt úr sínum sjóði, heldur verði pósturinn rekinn sem hvert annað fyrirtæki, sem verður að bera sig.

Í öðru lagi legg ég til, að gerð sé breyting á áætluðu útsvari bæði Áfengisverzlunar ríkisins og Tóbakseinkasölunnar. Ég lagði snemma á þessu þingi fram frv. til laga um breytingu á þessu, þar sem gert er ráð fyrir, að í stað þess að greiða 5% af hagnaði sínum í útsvar nú verði viðkomandi fyrirtækjum gert að greiða ½% í útsvar. Ég sýndi þá fram á, að það er algerlega óviðeigandi og byggist á engum raunverulegum rökum, að þessi fyrirtæki, sem nú eru í rauninni orðin skattheimtufyrirtæki í langtum ríkara mæli en þau upphaflega voru, greiði næstum eingöngu einu bæjarfélagi á landinu svo fjallháar útsvarsupphæðir, að nemur sem svarar öllum útsvörunum í miðlungsstóru bæjarfélagi á Íslandi. En svo er nú komið málum, og hygg ég þó, að þetta sígi enn á þá hliðina með hækkun á vöruverði hjá einkasölum ríkisins að brátt muni útsvar það, sem þessir aðilar greiða og greiða að langmestu leyti einu einasta bæjarfélagi á landinu, Reykjavíkurbæ, verða hærra, en útsvarsupphæð í nokkrum öðrum bæ utan Reykjavíkur. Ef reikna má með, að allar áætlanir hv. stjórnarvalda standist um tekjur af þessum einkasölum á yfirstandandi ári, þá eru útsvör þeirra komin töluvert yfir 10 millj. kr., og tel ég fásinnu að greiða það með sama hætti og verið hefur. Og í samræmi við það frv., sem ég hef lagt hér fram, legg ég til, að þessar upphæðir verði miðaðar við ½% greiðslu til þeirra sveitarfélaga, þar sem viðkomandi verzlanir reka starfsemi sína. Að vísu verða þetta allmiklu lægri upphæðir í mínum brtt. en þær raunverulega yrðu, þar sem ég hef að sjálfsögðu miðað mínar brtt. við þær tölur, sem nú eru inni í fjárlagafrv., en ekki einhverjar hugsaðar tölur, sem síðar kynnu að koma inn og gildir raunar sama máli um þá till., sem ég hef gert við 19. gr. fjárlaga, þ. e. a. s. sparnaðinn á rekstrarútgjöldum hjá stjórnarráðinu, utanríkisþjónustunni o. s. frv., að í mínum brtt. eru till. að sjálfsögðu miðaðar við þær tölur, sem nú eru í frv., en kynnu að breytast eftir því, sem breytingar kynnu að verða samþykktar á frv.

Ég vil þó geta þess, að í frv. mínu um breytingu á útsvörum ríkisstofnana gerði ég ráð fyrir því, að þetta fé rynni til annarra þarfa, rynni til húsnæðismála eftir sérstökum reglum. Ég vil hins vegar, að úr því fáist skorið á fjárlögum, hvort alþm. eru þessari breytingu andvígir eða ekki og vil taka fram að, að breytingunni samþykktri, mundi koma til þess, að fluttar yrðu hér aðrar brtt., sem varða húsnæðismálaliðinn, því að að sjálfsögðu væri eðlilegt, að útgjöld ríkissjóðs til húsnæðismála yrðu endurskoðuð að þessum till. og þessu frv., sem um hefur verið getið, samþykktu. [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar gert var hlé á fundinum nú fyrir stuttu, var ég rétt byrjaður á að gera grein fyrir þeim brtt., sem ég hef flutt við fjárlagafrv. Ég hafði bent á, að hægt mundi vera að spara þær 800 þús. kr., sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. að lagðar verði póstsjóði til úr ríkissjóði. Ég hafði einnig bent á, að óeðlilega hátt útsvar sé greitt af ríkisstofnunum og með tilliti til frv., sem fyrir liggur um breytingu á því, gert till. um, að útsvar Áfengisverzlunar ríkisins yrði áætlað 5 millj. og 40 þús. kr. lægra, en frv. gerir ráð fyrir og útsvar Tóbakseinkasölunnar verði áætlað 3.6 millj. kr., lægra en gert er ráð fyrir í frv., sem sagt byggt á því, að tekin yrði upp útsvarsgreiðsla þessara stofnana í samræmi við það frv., sem fyrir liggur.

Ég hef áður bent á það, að ekki geti ég fylgt þeim till. hv. stjórnarflokka, sem gera ráð fyrir breytingum, sem fara í bága við lög, þegar ekki hafa verið lagðir fram á Alþingi neinir pappírar, nein frv., hvað þá samþykktir gerðar um, að breytingar skyldu þar á verða. Á hinn bóginn vil ég taka fullt tillit til þess, ef viðkomandi aðilar leggja fram um þetta frv. og sýna fram á, með hverjum hætti þeir hugsa þetta, enda þótt samþykkt þeirra sé ekki lokið; á sama hátt hlýt ég og að fjalla um þær till., sem af minni eða minna skjólstæðinga hálfu eru gerðar.

Þá hef ég gert ráð fyrir því, að niður verði felld ½ millj. kr. kostnaður af „öðrum kostnaði ráðuneytanna.“ Fer sú till. saman við till. þá, sem hv. 1. minni hl. hefur gert, en þar eð ég hafði ekki annað fyrir mér en bréf hæstv. ríkisstj. eða hæstv. fjmrh. um mál þetta, þá lá það ekki fyrir, að þetta yrði tekið allt á þessum lið, og því gerði ég hér till. En ég sé, að hv. samnefndarmenn mínir, þeir sem skipa 1. minni hl., hafa einmitt orðað till. nákvæmlega á sama hátt og ég, svo að þar skiptir ekki máli, hvor till. kemur til atkvæða.

Þá hef ég lagt til í mínum till., að kostnaður af alþjóðaráðstefnum verði færður úr 481 þús. kr., sem gert er ráð fyrir í frv., niður í 331 þús., eða lækkaður um 150 þús.

Þá hef ég gert till., sem miðast við það, að 4 sendiráð yrðu lögð niður: Sendiráðið í Stokkhólmi og sendiráðið í Ósló og starfsemi sú, sem þessi sendiráð nú annast, verði falin sendiráðinu í Kaupmannahöfn og að því miðað að hafa eitt sendiráð á Norðurlöndum. Enn fremur verði lagt niður sendiráðið í London og er það í samræmi við till., sem hér liggur fyrir frá mér og fleiri flokksmönnum mínum og yrði þetta gert í mótmælaskyni við það, að Bretar umgangast okkur nú ekki sem sjálfstæða þjóð og þar af leiðandi ástæðulaust fyrir okkur að halda uppi sendiráði hjá þeim. Að sjálfsögðu er til þess ætlazt, að sendiráð verði tekið upp aftur í Lundúnum, svo fljótt sem eðlilegt samband kæmist á milli ríkjanna, en svo sem allir vita, er það ekki nú og þar af leiðandi óeðlilegt, að við höldum uppi sendiráði í Lundúnaborg. Enn fremur verði lagt niður það sendiráðið, sem í fjárlögum er kallað skrifstofa fastafulltrúa Íslands hjá NATO og OEEC, en það sendiráð er í París og virðist það vera fullkomin ofrausn fyrir ekki stærri né auðugri þjóð, en við erum, að halda uppi tveimur fullkomnum sendiráðum í einni og sömu höfuðborginni, en svo er nú gert í París. Sé ég ekki annað, en hægt væri að fela hinu venjulega sendiráði Íslands í París, sem dýrast er allra sendiráða íslenzkra, að annast þau störf, sem þessari skrifstofu annars eru falin. Engu að síður liggur í augum uppi, að ekki er hægt að strika út allan þann kostnað, sem þessi sendiráð hafa í för með sér, af fjárlagafrv. þessa árs, þar sem nú eru þegar liðnir nær 4 mánuðir af árinu og kostnaður hefur fallið á af þeim sökum og er þess vegna gert ráð fyrir í mínum till., að framlag til þessara sendiráða verði yfirleitt lækkað um helming. Mundi það spara ríkissjóði útgjöld, sem nema 1.51 þús. kr. rúmlega.

Þá er gert ráð fyrir, að lækkaðir verði liðirnir „samningar við erlend ríki“ og „þátttaka í alþjóðaráðstefnum á vegum utanríkisráðuneytisins“, samtals um 5 millj. kr. Þessi kostnaður hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum, ekki einungis af því, að þátttaka Íslands í þessum ráðstefnum fari mjög vaxandi, heldur kemur það líka að sjálfsögðu til af yfirfærslugjaldi, sem ákveðið var á sínum tíma og verður að ætla fyrir því, en að hinu leytinu verður að líta svo á, að þátttaka í þessum ráðstefnum af Íslands hálfu hafi á undanförnum árum verið í algeru hámarki og geti að skaðlausu dregizt nokkuð saman.

Þá er lagt til af minni hálfu, að saman verði dregin fjárveiting til lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli. Þar er starfandi lögregla, svo sem sjá má á fjárlögum og svo sem ríkissjóður hefur með ærnum hætti fundið fyrir á undanförnum árum, því að til þeirrar lögreglu eru ætlaðar yfir hálf fjórða millj.kr. á fjárlagafrv. og verður ekki annað sagt, en mikils þurfi við að vernda þessa þjóð fyrir verndurum sínum, með því að ríkissjóður leggur fram slíkar fjárfúlgur í þessu skyni. Nú vil ég ekki gera lítið úr því, að þessi þjóð sé í mikilli hættu fyrir því varnarliði, sem hún hefur ráðið sér eða forustumenn hennar hafa upp á hana þröngvað, en slíkur fjáraustur sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. virðist vera með öllu hóflaus og legg ég til, að hann verði lækkaður um 1½ millj. kr.

Er þá komið að tillögum þeim, sem fyrir liggja um Skipaútgerð ríkisins.

Skipaútgerð ríkisins hefur lengi verið mjög umdeild hér á Alþingi. Það hygg ég þó, að ekki greini menn svo mjög á um það, að fyrirtæki þetta hafi nauðsynlegu og óhjákvæmilegu hlutverki að gegna í okkar þjóðlífi og mundi mörgum þrengjast fyrir dyrum, ef starfsemi hennar yrði lögð niður, svo sem þó hafa heyrzt raddir um á þingi. Það er rétt, sem hv. frsm. 1. minni hl. gat hér um í sinni framsöguræðu, að Skipaútgerð ríkisins notaði ekki á s. l. ári og þurfti ekki að nota allt það fé, sem henni var ætlað á fjárlögum. Hún komst af með um það bil 12 millj., en hafði á fjárlögum fjárveitingu upp á nálega 16 millj. kr. Það er því augsýnilegt, að hægt er að lækka nokkuð framlagið til Skipaútgerðar ríkisins án þess að draga úr rekstri hennar á nokkurn hátt. Nú er ekki því að neita, að meðan ekki eru gerðar ráðstafanir til þess að umskipuleggja fyrirtækið á neinn hátt, þá mun rekstrarkostnaður þess ekki fara minnkandi á yfirstandandi ári frá því, sem var. Skipaútgerðin var nokkurn veginn eins heppin og hún getur orðið á s. l. ári, þannig að ekkert af skipum hennar þurfti að fara í neina stórviðgerð og reksturinn gekk tiltölulega truflanalítið, ef frá er skilið verkfall, sem á hana skall svo sem aðra útgerðaraðila á s. 1. sumri og truflaði nokkuð rekstur hennar. Á hinn bóginn er vitað, að Skipaútgerð ríkisins mun bætast nýtt skip á yfirstandandi ári og er með öllu óvitað um það, hvernig það kemur til með að standa undir sér. En óvarlegt þykir mér að áætla, að Skipaútgerð ríkisins muni ekki þurfa á þessu ári á að halda sömu upphæð og í fyrra og þó trúlega fremur einni millj. kr. meira fé og þess vegna hef ég lagt til, að framlag hennar verði lækkað úr 16 millj. í 13 millj., eða um 3 millj.

Ég vil ekki fallast á það, að hyggileg sé sú ráðstöfun, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú gert, að taka skipin úr tryggingu á þeirri forsendu, að iðgjaldagreiðslur skipaútgerðarinnar hafi löngum að undanförnu verið hærri, en tjónbætur þær, sem hún hefur fengið frá tryggingafélögum. Til þess að vit væri í þeim ráðstöfunum, sem hér um ræðir, þyrfti skipaútgerðin sjálf að leggja í eigin tryggingasjóð nokkurt fé, því að það geta allir sett upp fyrir sér, að ef um eitthvert tjón verður að ræða á skipum hennar, allsendis ótryggt og ekki ætlað fyrir neinum greiðslum fyrirtækisins sjálfs í eigin tryggingasjóð, þá lendir fyrirtækið í hreinum vandræðum, hvenær sem einhver teljandi óhöpp koma upp á hjá einhverju skipa þess. Hugsum okkur það, að eitthvert skip hennar strandaði eða laskaðist verulega og þyrfti viðgerð upp á nokkrar milljónir. Þá væri til einskis aðila að hlaupa nema ríkissjóðs sjálfs að greiða það og mætti þá segja mér, að nokkur dráttur yrði á því að bæta það tjón eða lagfæra þær skemmdir, sem orðið hefðu, ef ekki væri neinn sjóður til að grípa til í þeim efnum og yrði útgerðin að hefja sérstaka samninga við ríkissjóð í hverju einu slíku tilfelli.

Ég get því ekki fallizt á það, að unnt sé að lækka framlög til Skipaútgerðar ríkisins á þessum grundvelli. Hitt þætti mér ekki óhyggilegt, með þá reynslu, sem skipaútgerðin hefur að baki í sambandi við sín tryggingamál, að tekinn yrði upp sá háttur, að fyrirtæki þetta greiddi iðgjöld sín í eigin tryggingasjóð og skapaði sér þannig nokkurn tryggingasjóð, sem mætt gæti þeim áföllum, sem hún kynni að verða fyrir. Ég hef þess vegna í mínum till. ekki gert áætlun, sem miðast við það, að tryggingagreiðslur af skipunum verði felldar niður.

Ég hef fyrr í ræðu minni gert að umtalsefni till. hv. stjórnarflokka um niðurfellingu á framlagi til Skipaskoðunar ríkisins. Ég tel það óraunhæft. En með tilliti til þess, að hér liggur fyrir Alþingi frv., sem gefur rn., ef samþ. verður, möguleika til þess að gefa út nýja reglugerð um gjaldskrá skipaskoðunarinnar, er líklegt, að hægt sé að spara eitthvað, en hreint ekki fram yfir helming og raunar ekki helming af útgjöldum ríkissjóðs til handa skipaskoðuninni á þessu ári og því hef ég gert till. um það, að skipaskoðunin fái fjárveitingu úr ríkissjóði á þessu ári í samræmi við þetta.

Þá kem ég að þeim lið, sem ég hef einnig fyrr í minni tölu gert að nokkru umræðuefni, en það er lokagreiðsla ríkissjóðs til prestakallasjóðs af láni, sem kirkjubyggingasjóður fékk í hinum fyrrnefnda sjóðnum. Framlag þetta er með öllu óskuldbundið af ríkissjóði og honum að einu og öllu leyti óviðkomandi. Þetta er þess vegna ekki annað, en hækkun á framlagi til kirkjubyggingasjóðs í raun og veru og sé ég ekki, að hækkun á framlagi til kirkjubygginga eigi mikinn rétt á sér, á sama tíma sem lagt er til, að hætt sé að fara að lögum um greiðslu á skólabyggingum og öðrum viðlíka nauðsynlegum hlutum. Ég held þvert á móti, að þegar gera á ráðstafanir til þess að spara þjóðinni útgjöld vegna of hraðra byggingarframkvæmda, þá sé ekki síður hér, en sums staðar annars staðar, þar sem lækkun er lögð til, ástæða til þess að fara gætilega í fjárveitingar úr ríkissjóði.

Varðandi byggingar í Skálholti hef ég lagt til, að framlög úr ríkissjóði í því skyni verði felld niður. Það er, svo sem allir vita, um margra ára skeið búið að veita ríflegt fé úr ríkissjóði til bygginga í Skálholti, bygginga, sem enginn veit, til hvers eiga að vera og stjórnarvöld landsins eru fyrir þessi margendurteknu framlög úr ríkissjóði orðin beinlínis til athlægis hjá allri þjóðinni. Hví skyldu íslenzk stjórnarvöld ausa peningum út í fyrirtæki, sem enginn veit, hvort nokkurn tíma verða notuð til nokkurs hlutar, á meðan verið er að skera niður framlög til almannaþarfa jafngreinilega og sumra þeirra, sem ég hér hef nefnt að undanförnu. Ég tel þess vegna sæmst, að liðurinn falli niður.

Við 16. gr. fjárlfrv., atvinnumálagreinina, hef ég gert nokkrar brtt. Er þar fyrst um að ræða, að um nokkurra ára skeið hafa verið ræktaðir hér einhvers konar sýningarreitir, sem mér skilst nú að heldur fáir landsmenn hafi haft nokkurt veður af, nema helzt þeir, sem lesa fjárlög. Það hefur árlega að undanförnu verið veitt til þessa ½ millj. kr., en eins og ég hef áður tekið fram, þá leyfi ég mér að efast mjög um gagnið af þessum framkvæmdum, enda hef ég heyrt ýmsa bændur halda því fram, að hér væri engin önnur starfsemi á ferðum, en það, sem hver bóndi gæti gert hjá sjálfum sér, ef hann teldi þess þörf. Ég tel þess vegna, að atvinnuvegum landsins sé enginn háski búinn, þó að þetta framlag sé fellt niður og hef gert till. um, að með niðurfellingu framlags til þessa verði ríkinu spöruð ½ millj. kr. í útgjöldum.

Kostnaður við útrýmingu refa og minka hefur aukizt mjög á undanförnum árum. Á fjárl. s. l. árs var ætlað til þessa 1½ millj. kr. og er það vissulega töluverður herkostnaður fyrir ekki stærri þjóð, en nú bætist í fjárlfrv. 1 millj. við þetta, þannig að í fjárlfrv. er gert ráð fyrir, að þessi herkostnaður fari upp í 2½ millj. Með tilliti til þess, að uppi er nokkur grunur um, að fjárgreiðslur ríkissjóðs á þessum lið renni ekki óskiptar til baráttu gegn meindýrunum, heldur að einhverju leyti til að rækta upp refskap í mannskepnunni, þá þykir engin ástæða til að hækka þetta framlag og legg ég til, að það haldist óbreytt frá s. l. ári og verði l½ millj., eins og þar er gert ráð fyrir, en ekki 2½ millj., eins og gert er ráð fyrir í fjárlfrv.

Varðandi 17. gr. fjárl. hef ég gert till. um það, að framlag ríkisins til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga verði fært úr 3 millj., sem það þar er áætlað, niður í 700 þús. kr. Hef ég ekki getað séð af lögum um jöfnunarsjóðinn, að ríkissjóður hafi beina skyldu til þess að greiða til hans meira en 700 þús. kr. árlega og legg til, að það verði gert, en að þær 2 millj. og 300 þús., sem ætlaðar höfðu verið í þessu skyni umfram þetta, verði sparaðar ríkissjóði.

Ég hef áður fjallað um till. mína varðandi 19. gr. fjárl., þar sem lagt er til, að kostnaður, eins og hann er áætlaður í fjárlfrv., við ráðuneytin, við utanríkisþjónustuna, við dómgæzluna, lögreglustjórnina og innheimtukerfi tolla og skatta, verði færður niður um 5%, og mundu við það sparast rúmlega 6 millj. kr. Það er hin almenna brtt. til sparnaðar, sem ég f. h. Alþb. legg hér fram og hv. alþm. hljóta að verða að gera upp við sig við afgreiðslu fjárl., hvort ekki sé fullt eins tiltækileg og ráðleg og sú almenna brtt., sem hv. 1. minni hl. gerir, þ. e. að skornir verði niður allir framkvæmdaliðir fjárlfrv., að höfnum, vegum og brúm undanskildum, því að þess er skylt að geta, að ekki er ætlazt til þess í till. hv. 1. minni hl., að niðurskurður verklegra framkvæmda nái til þeirra atriða.

Við 20. gr. fjárl., þ. e. a. s. eignabreytingar ríkisins, hef ég gert brtt., sem fer í þá átt, að ríkissjóður leggi ekki landssímanum til neitt fé sérstaklega til þess að auka eignir landssímans. Landssíminn hefur sjálfur nokkuð yfir 9 millj. kr. í áætlaðan rekstrarafgang, en hann ráðgerir hins vegar að byggja upp sitt kerfi, fyrir allmiklu meira fé, en hann hefur af tekjum sínum. Landssíminn er þegar orðinn mjög auðugt fyrirtæki og rekstur hans allur virðist standa með miklum blóma. Þegar hart er í ári hjá ríkinu og spara verður fjölmarga hluti, þá sýnist mér sem ekki væri óeðlilegt að láta landssímann standa undir sínum framkvæmdum sjálfan líkt og mörg önnur fyrirtæki, þannig að hann yrði að miða sína framkvæmdaáætlun við það að nota sínar tekjur og sinn tekjuafgang til uppbyggingar. Og ef nauðsynlegt er að hafa uppbyggingu hans og eignaaukningu hraðari en svo, að hagnaðurinn hrökkvi fyrir því, þá sýnist mér að fyrir fyrirtæki, sem stendur með svo miklum blóma sem landssíminn, ætti að vera tiltölulega auðvelt að framkvæma nokkuð af þeim framkvæmdum, sem hann telur nauðsynlegar, með lántöku. Ég hef því reiknað með því, að landssíminn haldi sinni áætlun óskertri og ég efast ekki um það, að svo framarlega sem ríkisstj. væri því hlynnt og legði inn orð með þessari ríkisstofnun hjá lánastofnunum þjóðarinnar, þá væri ekki óhægara að ná út láni fyrir landssímann heldur en fyrir t. d. raforkuframkvæmdirnar, því að mjög mikill munur er vissulega á greiðslumöguleikum þessara tveggja stofnana hin næstu ár, þannig að landssíminn er miklum mun álitlegri lántakandi að því leyti, sem sýna má með auðveldum hætti fram á það, að hann geti vel staðið undir smávægilegum lánum. Ég legg því til, að niður verði fellt hið raunverulega framlag ríkissjóðs til landssímans, en það er á fjárl. áætlað 2 millj. 780 þús. kr.

Er þá komið að flugvöllunum. Ég hef áður vikið að þeim. Ég tel það vera einn leiðinlegasta blettinn á hugmyndum hv. stuðningsmanna ríkisstj, í þeirra tillögum að leggja til lækkun á flugvallagerðinni. Það er öllum kunnugt, sem fylgjast með í samgöngumálum þjóðarinnar, að á nokkrum stöðum eru flugsamgöngurnar mjög óhjákvæmilegar og ég vil nefna t. d. það dæmi, sem flestir þm. munu vita, að til þessa hefur flugsamgöngum við Vestfirði verið haldið uppi á sjóflugvélum. Það er aðeins til ein nothæf sjóflugvél í eigu þess félags, sem annast hér allar innanlandssamgöngur og hún er mjög úr sér gengin og fyrirsjáanlegt, að brátt hlýtur að koma að því, að félagið leggi niður allt sjóflug. Þá er ekki annað fyrir hendi, en að annaðhvort verður þarna skarð í samgöngukerfinu eða hitt, að það verður að vinda bráðan bug að því að gera nothæfan flugvöll á Vestfjörðum og er nú enda byrjað á allmikilli framkvæmd á Ísafirði í þessu skyni. Ég vil einnig benda á það, að allir þeir staðir, sem eru utan hins eiginlega þjóðvegakerfis, þurfa öðrum fremur á fluginu að halda. Ég hef áður í tillögum, bæði einn og í félagi við aðra þm., lagt til, að fjárveitingum til flugvallagerðar verði hagað með þeim hætti, að mest áherzla verði lögð á flugvallagerðina á þeim stöðum, sem ekki eru tengdir þjóðvegakerfinu eða mjög lauslega tengdir því, þannig að samband þeirra við það sé óstöðugt, þannig að þeir hafi máske ekki möguleika á að komast inn á vegasambandið nema um hásumartímann. Með tilliti til þessa hef ég gert tillögu um það, að sú upphæð, sem til flugvallanna er ætluð í fjárlfrv., 8 millj. kr., verði til þess notuð og hún ekki skorin niður að neinu. Með því að ekki hefur verið venja og er enn ekki gert í fjárlfrv, að sundurliða fjárframlög til einstakra framkvæmda af þessu tagi, þá hef ég gert tillögur um það, að sundurliðunin verði einmitt eftir þeirri meginreglu, að aðalframlögin verði til Vestfjarðaflugvallarins, þ. e. a. s. Ísafjarðarflugvallar og Vestmannaeyjaflugvallar, en þar stendur svo á, að langmestur hlutinn af farþegaflutningunum, enda stór hluti af vöruflutningunum fer einnig um flugbrautina, sem þar var tekin í notkun 1947, fyrir 12 árum. Þeirri framkvæmd hefur hins vegar ekki verið haldið fram með meiri hraða en svo, að enn er þar aðeins um eina flugbraut að ræða með nálægt 1.000 metra nothæfri lengd til lendingar og flugtaks. Nú á síðustu árum hefur þessi braut verið nokkuð lengd, en sú lenging er ófullkomin, mjórri en aðalbrautin og verður óhjákvæmilega að breikka hana nokkuð. Enn fremur er á þessum 12 ára gamla flugvelli ekki enn þá búið að koma upp neinum rafljósum, þannig að völlurinn, svo ófullkominn sem hann er, vegna þess að hann er aðeins ein braut, notast ekki, eftir að rökkva tekur, þannig að oftsinnis verður flug að falla niður á þessari þýðingarmiklu flugleið, vegna þess að engin lendingarljós eru við flugbrautina og virðist óhjákvæmilegt, að þeim verði komið þar á hið fyrsta.

Þá má einnig benda á, að það er algerlega óeðlilegt að láta svo lengi dragast sem hér hefur skeð, að gerð sé flugbraut þvert á þá, sem er, eða til einhverra gagnstæðra átta, þannig að ekki sé óflugfært til slíks staðar, þó að golan sé af einhverri annarri átt en þeirri, sem flugbrautin stefnir í. En það er algengt, að dögum saman verður flug að falla niður í bezta veðri á þessari áætlunarleið, vegna þess að flugbrautin er aðeins ein. Ég hef með tilliti til þessa lagt til, að hæstu fjárveitingarnar og jafnháar verði til Ísafjarðarflugvallar og Vestmannaeyjaflugvallar, 1½ millj. til hvors.

Þá hef ég eftir upplýsingum flugráðs í mínum skiptingartillögum um þetta tekið tillit til þess, að í Reykjavík er þegar hafin mikil og óhjákvæmileg framkvæmd, sem er bygging á flugturni, sem í er í rauninni hluti af flugöryggisþjónustunni, þannig að flugumferðarstjórnin í Reykjavík býr, eins og nú er, við óhóflega þröngan og lélegan húsakost og munu allir viðurkenna, að nauðsyn sé þar á að bæta um. Hef ég lagt til, að 120 þús. kr. verði lagðar til þess mannvirkis.

Á Akureyri eru sömuleiðis í smíðum mörg flugmannvirki. Þar er verið að setja upp öryggistæki við flugvöllinn og er því lagt til, að sá flugvöllur fái 800 þús. kr., sem er nokkru hærra en sú till., sem flugráð hefur gert um þann flugvöll.

Enn fremur er lagt til, að Norðfjarðarflugvöllur, sem er í byggingu, en Norðfjörður er einn þeirra staða, sem eru í mjög ófullkomnu sambandi við vegakerfi landsins, — að til þeirrar flugvallargerðar verði lögð nokkru hærri fjárupphæð, en meiri hl. flugráðs hefur gert till. um, eða 800 þús. kr.

Aðrir flugvellir, sem tilgreindir eru hér í mínum sundurliðunartill. á flugvallafé, eru með svipaðar fjárveitingar og flugráð eða meiri hl. flugráðs hefur lagt til.

Þá hef ég gert tillögur um það, að nokkrir fjárfestingarliðir á 20. gr. verði lækkaðir, yfirleitt um helming og þó nokkru meira, þeir sem hafa hæstu fjárhæðirnar. Það er mín skoðun, að afnema ætti lög um embættismannabústaði. Ég sé ekki annað, en ríkið geri álíka vel við sína starfsmenn og aðrir atvinnurekendur og beri þeim því að standa undir sínum húsnæðiskostnaði sjálfir, eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins. Ég viðurkenni að vísu, að þar sem íbúðir eru sérstaklega bundnar við starfsemina sjálfa, eins og t. d. er í sambandi við heimavistarskóla og annað þess háttar, sé óhjákvæmilegt, að skólastjóraíbúð eða starfsmannaíbúð fylgi viðkomandi stofnunum. En ég sé ekki, að nauðsynlegt sé, að ríkið byggi yfir alla presta landsins, alla sýslumenn landsins, alla dýralækna landsins o. s. frv. Allir þessir aðilar fá fullborgaða sína þjónustu og hafa ekki undan neinu að kvarta í þeim efnum fram yfir annað fólk í þessu landi. Þessi lög eru hins vegar í gildi og nokkrar framkvæmdir af þessu tagi, embættismannabústaðir, eru í byggingu og er því óhjákvæmilegt að veita til þeirra nokkurt fé á þessu ári og hef ég yfirleitt miðað mínar till. við það, að fjárhæðir til þessa verði lækkaðar um helming.

Tvær lögreglustöðvar eru með ríkisframlag á fjárlagafrv. Það er lögreglustöðin í Reykjavík, sem búið er að veita til allmikið fé á undanförnum árum, bygging ekki hafin og lögreglustöð á Keflavíkurflugvelli. Ég legg til, að báðar þessar fjárhæðir verði teknar út úr frv. og ríkisútgjöldin lækkuð sem þeim nemur, þar eð þjóðfélag okkar á greinilega við margháttaðan vanda að glíma, sem meira kallar að, heldur en þessar framkvæmdir.

Ég vil þá að lokum gera grein fyrir því, hver verður niðurstaðan úr þeim till., sem ég hef hér f. h. Alþb. ýmist lagt fram sjálfur eða lýst stuðningi við.

Þær brtt., sem ég hef hér lagt fram á þskj. 399, gera ráð fyrir niðurfellingu gjalda, sem nema 33 millj. 889 þús. kr. Af till., sem fluttar eru af hv. 1. minni hl., hef ég lýst stuðningi við till., sem nema samtals 15 millj. 360 þús., en þetta gerir samtals 49 millj. 249 þús. Enn fremur hef ég reiknað með, að ef ríkisstj. gerir viðhlítandi grein fyrir því, að eðlileg lán fáist til þess að vega upp á móti 10 millj. kr. niðurfellingu, sem lögð er til af hv. 1. minni hl. til raforkuframkvæmdanna, þá mundum við einnig styðja niðurfellingu á þeim lið, og nema þá þær till., sem við gerum eða föllumst á, um 59 millj. 250 þús.

Að öllum þessum till, samþ., en ekki öðrum, þá telst mér svo til, að greiðslujöfnuður náist á frv. eða aðeins rúmlega það, en hirði hins vegar ekki um að gera það mál alveg nákvæmlega upp, með tilliti til þess, að allmörg erindi bíða enn þá 3. umr., ýmist hækkunarerindi eða erindi til sparnaðar og eru till. þessar miðaðar við það, að Alþb. standi að afgreiðslu fjárl., sem verði greiðsluhallalaus.

Ég hef sýnt fram á það, að till. bæði 1. minni hl. og einnig þær till., sem 2. minni hl., þ. e. a. s. Alþb., hefur hér gert, miði að því að afgr. fjárl. hallalaus. En þótt svo verði gert, þá vil ég vekja athygli á því, að fjármálavandi þjóðarinnar er ekki þar með leystur. Eins og áður er til vitnað, hljóta inn í afgreiðslu fjárl. jafnan að blandast a. m. k. hugleiðingar um vandamál útflutningssjóðs. Í fjárlagatill. stjórnarflokkanna er ráðgert, að í stað þess, að frv. gerir ráð fyrir 20 millj. kr. greiðslu til ríkissjóðs úr útflutningssjóði, verði ríkissjóður, eins og nú er komið, að greiða útflutningssjóði 154 millj. kr. Þetta virðist óhjákvæmilegt. En eins og áður er á bent, vantar útflutningssjóð þrátt fyrir þetta enn mikið fé, sem ég hef ekki séð gerða viðhlítandi grein fyrir, hvernig á að útvega. En með því að fyrir Alþingi liggur lagafrv. um útflutningssjóð sérstaklega, þá skal því hér sleppt að ræða hans mál sérstaklega, að öðru leyti en því, sem hér hefur gert verið.

Til viðbótar fjárhagsvanda útflutningssjóðs bætist svo það, að tekjur ríkissjóðs geta tæplega orðið öllu meiri, en fjárlög áætla, að þeim brtt. samþ., sem hér liggja fyrir frá hv. 1. minni hl. Til þess að komast að mestu eða öllu hjá umframgreiðslum úr ríkissjóði, þarf ráðdeildarsama og varfærna ríkisstj. En þeir, sem fylgzt hafa með frumvarpaflutningi núverandi stjórnar að undanförnu um ný embætti á embætti ofan og ýmislegt óspilunarsamt framferði annað, t. d. loforðum um að taka í heilu lagi á ríkissjóð allar greiðslur þurrafúalána, að maður nú ekki tali um það, sem þm. ráku sig á, þegar þeir settust hér í salinn í dag, nýtt stjórnarfrv. um 33.8 millj. kr. aukin útgjöld, þeir hljóta að hafa heldur litla trú á því, að af núv. ríkisstj. verði fjárgreiðslum ríkissjóðs haldið innan ramma þeirra fjárlaga, sem hér verða væntanlega samþykkt. Af þessum ástæðum fer því fjarri, að fjárhagsvandi íslenzka þjóðarbúsins sé leystur, þótt fjárlög verði afgreidd hallalaus.

Hv. frsm. 1. minni hl., Magnús Jónsson, hv. 2. þm. Eyf., minntist hér lítillega í framsöguræðu sinni á það, að heldur horfði það til óheilla, þegar ábyrgðarlausir lýðskrumarar settu svip sinn á afgreiðslu fjárlaga. Ég man nú að vísu ekki hans orðalag nákvæmlega. Þetta vil ég alveg sérstaklega taka undir með honum. Það horfir vissulega þjóðinni til lítilla heilla, þegar ábyrgðarlausir lýðskrumarar setja svip sinn á afgreiðslu fjárlaga. Hvað er að ske hér? Ég hef bent á það, að á meðan fjárlagaafgreiðsla stendur yfir, þar sem verulegur sparnaður er lagður til og allar líkur benda til að samþykktur verði, þá hamast núverandi ríkisstj. við að leggja hér inn frumvörp, sem hvert á fætur öðru hlaða á ríkissjóð útgjöldum, svo að mér hefur ekki unnizt tími til að telja það saman, hvað mörgum milljónum það kann að nema. Ég vitnaði hér áðan í eitt, sem þingmenn sáu í dag. Enn fremur verður maður þess var, ef maður flettir yfir uppgjöri ríkissjóðs frá s. l. ári, að það er ekki sízt á þeim liðum, sem hæstv. núv. ráðherrar hafa stjórnað að undanförnu, sem umframgreiðslur verða. Þeir mega því mikið hafa breytzt, ef þeir eiga nú að geta talizt líklegir til þess að framkvæma fjármál þjóðarinnar í samræmi við þau fjárlög, sem hér eru í uppsiglingu, því miður.

Þrátt fyrir það, að fyrrv. ríkisstj. skilur við ríkissjóð þannig, að út af flýtur og við fjárlög þannig, að tekjur eru á frv. vanreiknaðar, þannig að nemur a. m. k. 100 millj. samtals, þá sýnist mér, að sú fjárlagaafgreiðsla, sem hér fer fram, sé fyrst og fremst feluleikur, þar sem viðkomandi stjórnarflokkar hafa hugsað sér að reyna að sýna á pappírnum, að þeir hafi leyst fjárhagsvanda þjóðarinnar án þess að leggja á teljandi nýja skatta. Það má vel vera, að fyrsti þáttur í þessari leiksýningu ríkisstj. endist svo, að grandvar áhorfandi haldi, að hér hafi vel tekizt. Því miður býður mér það í grun, að hinir síðari þættir í þessu leikriti eigi eftir að verða öllu sorglegri, en sá fyrsti, því að það er mín skoðun, að hér setji svip á afgreiðslu fjárlaga ábyrgðarlausir lýðskrumarar, sem betur væri að gætu átt frí frá þeirri starfsemi að villa um fyrir þjóðinni.