10.11.1958
Neðri deild: 18. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

40. mál, þingsköp Alþingis

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hygg, að það sé mikill misskilningur hjá hv. þm. G-K., að hægt sé að finna nokkur ákvæði um það í þingsköpunum, að skylda beri til að kjósa þessa þriggja manna undirnefnd á fyrsta fundi utanrmn. Það segir eingöngu í þingsköpunum, að þessa nefnd beri að kjósa, en hins vegar segir ekkert um það, hvenær það skuli gert. Þetta ákvæði verður ekki skoðað á annan veg en þann, að nefndina skuli kjósa það tímanlega, að hún sé til, þegar ríkisstj. eða utanrrh. óskar eftir að hafa samstarf við hana. Þau ein tímatakmörk virðast vera eðlileg og sjálfsögð, enda gefa lögin ekki tilefni til að ætla annað. Hitt er greinilegt, að það segir í lögunum, að ávallt skuli hafa samstarf við þessa undirnefnd, en eins og ég sagði áðan, þá virðist það hafa verið regla, síðan nefndin var sett 1951, að það hefur ekki verið haft samstarf eða samráð við hana. Það finnast engin gögn fyrir því í utanrrn., og það virðast engar fundargerðir vera til, enda ekki fundir haldnir í nefndinni. Ég gat mér þess til áðan, að utanríkisráðherrar mundu einhvern tíma sennilega hafa spjallað við einstaka nefndarmenn, þegar þeim hefur þótt tilefni til, og ég hygg, að það sé rétt til getið. En viðskipti ríkisstj. undanfarinna ára við þessa undirnefnd hafa áreiðanlega ekki verið með þeim hætti, sem l. gera ráð fyrir og tel ég, að miklu sé hreinlegra og eðlilegra að afnema n. algerlega og hafa samráð við utanrmn. í heild.

Hv. þm. G-K. sagði, að það hefði verið erfitt að fá þessa nefnd kosna, vegna þess að, ef hún hefði verið kosin með eðlilegum hætti, þá hefðu kommúnistar fengið fulltrúa í nefndina og við Alþýðuflokksmenn hefðum viljað koma í veg fyrir það. Það er misskilningur hjá þessum hv. þm., ef nefndin hefði verið kosin með venjulegum hætti, að kommúnistar hefðu fengið þar nokkurn fulltrúa. Í nefndina hefði farið einn sjálfstæðismaður og tveir framsóknarmenn. Flokkaskiptingin er nú þannig í utanrmn. og þetta hefur þess vegna ekki verið neitt sérstakt atriði í þessu sambandi.

Það er líka misskilningur hjá þessum hv. þm., að ég með því að flytja þetta frv. sé að gefa kommúnistum einhverja traustsyfirlýsingu í sambandi vió utanríkismál. Frv. segir ekkert um þá hluti, hvorki til né frá. Ég er eingöngu að óska eftir því, að utanrmn. sé gerð starfhæf, þannig að það sé hægt að hafa eðlilegt samstarf við hana. Það verður síðan að vera á mati þess utanrrh., sem er á hverjum tíma, með hverjum hætti hann notar þetta ákvæði og með hverjum hætti hann skiptir við utanrmn., enda þótt hann haldi þær reglur, sem í lögunum eru settar, að hafa samráð og samstarf. En af minni hálfu felst engin yfirlýsing að því er varðar traust eða vantraust á kommúnista í sambandi við þessa hluti.