29.04.1959
Sameinað þing: 44. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

1. mál, fjárlög 1959

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu mjög mikil nauðsyn á að koma upp sjómannastofu í Vestmannaeyjum. Þeir aðilar, sem hafa haft hús í smíðum og ætlað fyrir sjómannaheimili að nokkru, hafa fengið allverulega styrki frá ríkinu, en ekki komið sjómannastofunni upp enn sem komið er. Fjvn. hefur haft erindi varðandi mál þetta til afgreiðslu, ekki getað fengið upplýst, hver ætlar að reka þessa sjómannastofu, ekki getað fengið upplýst, hve mikið fé vantar til þess að koma henni á fót og ekki heldur getað fengið upplýst, hve mikið fé er þegar farið í þessa byggingu. En af persónulegum kynnum mínum af þessu máli þykir mér harla ólíklegt, að þessi 60 þús. kr. ábyrgð, þótt veitt yrði, mundi geta stuðlað að því, að lokið yrði við bygginguna. Ég hef hins vegar flutt brtt. við hafnalög, þar sem ég legg til, að sjómannastofur verði framlagsskyldar úr ríkissjóði á sama hátt og önnur hafnarmannvirki og verbúðir og tel það líklegri aðferð til þess að afgreiða þetta mál. Því greiði ég ekki atkvæði.