23.10.1958
Efri deild: 8. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

3. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Um þetta mál þarf raunverulega enga framsögu, því að það er gamall kunningi hér í hv. deild og í Alþ. Frv. er aðeins um það að framlengja lög, sem að vísu hafa verið sett til bráðabirgða um eitt ár í senn, en frv. er alveg shlj. þeim lögum, sem um þetta efni gilda fyrir þetta ár, að öðru leyti en því, að því er ætlað að gilda fyrir árið 1959 í stað 1958, sem er í gildandi lögum. Annars stafar þessi lagasetning frá árinu 1954 og hefur verið framlengd síðan ár eftir ár. Starf fjhn. að þessu máli var því einungis það að bera frv. saman við gildandi lög og var frv. alveg shlj. þeim að öðru leyti, en ártalinu. N. varð sammála um það að mæla með frv., eins og það liggur fyrir, en einn hv. nm., Jóhann Jósefsson, þm. Vestm., var ekki mættur á fundinum og undirskrifar því ekki nál., en í stað hans var mættur hv. þm. N-Ísf., Sigurður Bjarnason, og skrifar því undir álitið, en hv. 6. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, sem á sæti í n., var ekki heldur mættur og er hér ekki undirskrifaður á nál. Það er till. n., að þetta frv. verði samþ. óbreytt.