16.04.1959
Neðri deild: 109. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Á þskj. 372 höfum við hv. þm. V-Ísf. (EirÞ), hv. 2. landsk. þm. (KGuðj), hv. þm. Siglf. (ÁkJ) og ég flutt brtt. við frv. á þskj. 370, sem nú er til 3. umr. hér í hv. deild. Með brtt. viljum við flm. fella niður ákvæði, sem sett var inn í löggjöfina um tekjuskatt og eignarskatt á s. l. ári um, að „sameignarfélög og samlög, sem hafa það að meginmarkmiði að annast vinnslu eða sölu á framleiðsluvörum félagsmanna“, skuli greiða tekjuskatt og eignarskatt.

Við flm. teljum, að óhætt sé að fullyrða, að hv. alþingismenn hafi ekki gert sér fyllilega grein fyrir þeirri óeðlilegu, stórvægilegu gjaldaaukningu, sem þetta nýja ákvæði í löggjöfinni veldur sölusamtökum, sem annast sölu á íslenzkum afurðum á erlendum markaði. Það getur ekki verið ásetningur hv. alþm. að íþyngja slíkum samtökum með milljóna króna útgjöldum árlega til ríkissjóðs, þegar það er vitað, að sölusamlögin sjálf eru með öllu eignalaus og fjármagn það, sem þau hafa með höndum, er séreign meðlima samtakanna. Og sérstaklega virðist mér þetta stangast á við framkvæmd löggjafans, er hann með l. frá 1936 ákvað, að tvö slík sölusamlög skyldu undanþegin að greiða útsvar, tekjuskatt og eignarskatt. Starf slíkra sölusamtaka er ómetanlegt fyrir þjóðarheildina, hvort sem þau annast sölu eða dreifingu á landbúnaðar- eða sjávarafurðum. Það er því mjög skiljanleg ákvörðun hv. Alþ., er það á árinu 1936 ákvað algera undanþágu til handa mjólkursamsölunni í Reykjavík og Sölusambandi íslenzkra fiskframleiðenda með greiðslu á útsvari, tekjuskatti og eignarskatti.

Þegar það er svo haft í huga, að þessi sölusamlög eru að annast sölu á afurðum fyrir meðlimi sína, afurðum, sem framleiddar eru víðs vegar úti um byggðir landsins og sendar þaðan eða frá framleiðsluhöfn beint til útlanda, virðist óeðlilegt og raunar ósanngjarnt, að af slíkum framleiðsluvörum eigi sölusamlagið, sem af tilviljun einni hefur aðsetur í höfuðstaðnum, að greiða tekjuskatt og eignarskatt. Að sjálfsögðu hafa meðlimir slíkra sölusamtaka greitt tekjuskatt og eignarskatt af framleiðslu þessara afurða, þar sem þeir eiga lögheimili, enda hefur verið álit skattyfirvaldanna hér syðra, að slík sölusamlög ættu ekki að greiða tekjuskatt eða eignarskatt, þar til á s. l. ári, að þau töldu sér skylt að leggja tekjuskatt og eignarskatt á sölusamlögin með hliðsjón af þeirri breytingu, sem gerð var á skattalöggjöfinni á síðasta þingi.

Mér er kunnugt um starfsemi tveggja slíkra sölusamlaga, sem starfað hafa hér í Reykjavík um nokkurt skeið, annað þeirra undanfarin 17 ár, án þess að skattyfirvöldin legðu á þau tekjuskatt og eignarskatt, eða þar til á s. l. ári, að því var gert að greiða 1.158.400 kr. í tekjuskatt og 140.773 kr. í eignarskatt. Í aukaútsvar til Reykjavíkurbæjar hefur þetta sölusamlag greitt smáupphæðir, en á árinu 1957 var útsvarið komið upp í 300 þús. kr. Á árinu 1958 var svo lagt á sölusamlagið 1 millj. kr. útsvar og er þessi gífurlega hækkun á útsvarinu beinlínis byggð á breytingu á löggjöfinni frá í fyrra um tekjuskatt og eignarskatt.

Það er rétt að íhuga um grundvöll þann, sem ríkissjóður og Reykjavíkurbær telja sig hafa til að skattleggja sölusamlög framleiðenda, eins og dæmi það sýnir, er ég hef hér nefnt. Sölusamlag það, sem ég hef hér rætt um, er með öllu eignalaust, þar sem tekjueftirstöðvum þess við hver áramót er skipt upp á milli meðlimanna eftir viðskiptaveitu þeirra við samlagið. Tekjueftirstöðvar sölusamlagsins um hver áramót, sem skattyfirvöldin leggja nú tekju- og eignarskatt á og niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkurbæjar margfaldar útsvarsálögur sínar á, eru fjárhæð, sem hinum mörgu meðlimum sölusamlagsins hefur í raun og veru verið vangreidd fyrir útflutningsafurðirnar. Það hefur sem sé verið viðtekin regla hjá stjórnum slíkra sölusamlaga að áætla útborgunarverð afurðanna til meðlimanna með fyllstu varúð og ef allt gengur með eðlilegum hætti um sölu afurðanna, mega meðlimirnir vænta þess að fá nokkra aukagreiðslu fram yfir hið upphaflega ákveðna útborgunarverð í lok hvers reikningsárs. Það má og benda á, að þessar tekjueftirstöðvar, sem árlega er skipt upp til meðlima sölusamlagsins, verði þeir að telja fram sem tekjur á skattframtölum sínum og greiða af upphæðinni bæði útsvar og tekjuskatt á þeim stað, þar sem þeir hafa atvinnurekstur sinn.

Eftir breytinguna, sem gerð var á löggjöfinni um tekjuskatt og eignarskatt á s. l. ári og beinlínis kveður á um, að sölusamlög, sem annast vinnslu eða sölu á framleiðsluvörum félagsmanna, eigi að greiða tekjuskatt og eignarskatt, er tvísköttun á útflutningsafurðunum beinlínis lögfest, jafnfráleit og slík framkvæmd virðist þó vera. Fjögur hraðfrystihús í Vestmannaeyjum verða á þennan hátt að greiða hér í Reykjavík yfir 500 þús. kr. í útsvar, tekjuskatt og eignarskatt, eða það er hlutdeild þessara frystihúsa í þeim sköttum, sem lagðir eru á sölusamlag það í Reykjavík, sem þau eru meðlimir í og hafa falið að selja útflutningsvörur sínar á erlenda markaði. Sama má segja um ýmsa aðra atvinnurekendur úti um land, á Akureyri, Siglufirði, Ísafirði, Hafnarfirði, Norðfirði, Akranesi og víðar, að þeir verða allir að greiða hlutdeild í sköttum þeim, sem lagðir eru á sölusamlag þeirra í Reykjavík og gildir þar hið sama, þó að í hlut eigi vinnslustöðvar, sem bæjarfélög á hinum ýmsu stöðum standa að. Slík tvísköttun er óeðlileg og ranglát, ekki sízt þegar í hlut eiga þeir atvinnurekendur, sem hafa með höndum útflutning og sölu afurða aðalatvinnuvega þjóðarinnar og flestir eiga við erfiðleika að etja í atvinnurekstri sínum.

Ég endurtek það álit mitt, að hv. alþm. hafa ekki gert ráð fyrir, að með breytingum þeim, sem samþykktar voru á tekjuskatts- og eignarskattslöggjöfinni á s. l. ári, væri beinlínis verið að íþyngja atvinnurekstri landsmanna á óeðlilegan hátt. Þá er rétt að hafa í huga, að lög Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna eru að mestu samin í samræmi við samvinnulög, bæði hvað það snertir, að hver meðlimur innan samtakanna, hvort sem hann framleiðir árlega 5.000 kassa eða 200.000 þús. kassa fiskflaka, fer aðeins með eitt atkv. á félagsfundum. Og sama er að segja um tekjueftirstöðvar í árslok, að þeim er skipt í séreignarsjóði félagsmanna í hlutfalli við framleiðslu þeirra á árinu.

Hér eru farnar troðnar götur samvinnufélaganna og virðist því mikið mæla með því, að slík samlög og sölufélög lúti sömu meðferð af löggjafans hálfu og samvinnufélögin með undanþágu á greiðslu tekjuskatts og eignarskatts, sbr. 4 málsgr. 8. gr. laga frá 1954, um tekjuskatt og eignarskatt. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Kaupfélög, pöntunarfélög og önnur samvinnufélög mega draga frá tekjum sínum það, sem þau greiða félagsmönnum í árslok eða færa þeim til séreignar í stofnsjóði, samkv. lögum frá 1921, nú lög frá 1937, í hlutfalli við vörukaup þeirra á árinu og enn fremur vexti af stofnsjóði og telst það eigi til skattskyldra tekna hjá félaginu.“ Enn segir: „Á sama hátt mega slík félög, sem aðeins vinna úr eða selja afurðir félagsmanna, draga frá það, sem þau þannig úthluta félagsmönnum sínum í hlutfalli við framlög þeirra af afurðum. Upphæðir þær, sem þannig er úthlutað, teljast fram til skatts sem tekjur hinna einstöku félagsmanna.“

Langstærsta framleiðsluvara landsmanna til sölu á erlendum mörkuðum er frysti fiskurinn, og eykst sú framleiðsla með hverju ári. Aðallega eru það tvö fyrirtæki, sem annast útflutning þessa mikilvirka atvinnuvegar, en það eru Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Samband ísl. samvinnufélaga. Hér er um mikilvæga þjónustu að ræða hjá þessum félagasamtökum báðum og haga þau sölu afurðanna með líkum hætti og skila meðlimum sínum öllu nettóandvirði þeirra, eins og lög þeirra kveða á um. Ég er þess fullviss, að það er ekki ásetningur hv. alþm. að gera þessum samtökum mishátt undir höfði með því, að annað sölufélagið eigi að vera undanþegið greiðslu tekjuskatts af þessum viðskiptum félagsmanna sinna, en hitt sölufélagið eigi að greiða milljónaskatt til ríkisins árlega af sams konar þjónustu. Það er sannfæring mín og hv. meðflm. minna, að hv. alþm. óski ekki, að slíkt ósamræmi ríki hjá tveimur sölusamlögum, sem veita sams konar þjónustu og eru í aðalatriðum byggð upp með sama hætti og gera meðlimum sínum sömu skil á andvirði þeirra afurða, sem þau annast sölu á fyrir þá.

Eins og ég tók hér fram áðan, telur skattstjórinn í Reykjavík sér ekki fært að leysa Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna undan því að greiða tekjuskatt þann og eignarskatt, sem lagður var á sölumiðstöðina á árinu 1958 og ber fyrir sig breytingu þá, sem gerð var á löggjöfinni um tekjuskatt og eignarskatt á s. l. ári. Úrskurði skattstjórans var áfrýjað til yfirskattanefndar Reykjavíkur, sem hefur fallizt á sjónarmið stjórnar sölumiðstöðvarinnar með því að kveða upp úrskurð um, að bæði tekjuskatturinn og eignarskatturinn, samtals nær 1.3 millj. kr., skuli fellt niður. Gera má ráð fyrir, að skattstjórinn í Reykjavík áfrýi þessum úrskurði yfirskattanefndar til ríkisskattanefndar.

Ég hef rakið þetta skattamál sölufélaga nokkuð náið og talið það nauðsynlegt, til þess að hv. alþm. fái það sanna og rétta að vita í málinu. Ég tel ekki verða hjá því komizt að viðurkenna, að mistök hafa átt sér stað í sambandi við afgreiðslu hins háa Alþingis á breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt á s. l. ári hvað ákvæði um skattgreiðslu sölusamlaga snertir. Þessi mistök tel ég að hv. alþm. eigi að leiðrétta með því að samþykkja brtt. okkar flm. á þskj. 372. Það getur ekki verið ásetningur hv. alþm. að misjafna sölusamtökum hraðfrystihúsaeigenda á þann hátt, sem ég hef leitt í ljós hér í umræðunum að hafi átt sér stað í framkvæmd, sbr. ákvörðun skattstjórans í Reykjavík, með að úrskurða, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eigi að greiða nær 1.3 millj. kr. í tekjuskatt og eignarskatt, vitandi það, að meðlimir sölumiðstöðvarinnar hafa greitt bæði tekjuskatt og eignarskatt af sömu framleiðsluvörum, hver í sinni heimabyggð.

Ég get ekki fallizt á málflutning hv. þm. V-Húnv., að hér sé um ágreiningsmál að ræða innan þessarar hv. d., eins og kom fram hjá honum í umr. s. l. föstudag, er skattamálin voru hér til 2. umr. Ég tel, að hér sé um augljóst réttlætismál að ræða, sem ekki geti orkað tvímælis, að hv. alþm, séu á einu máli um að beri að afgreiða á þessu þingi með því að samþykkja brtt. okkar flm. á þskj. 372. Ég tel óþarft að fara fleiri orðum um þetta réttlætismál, en vænti góðra undirtekta hv. alþm, um afgreiðslu þess.