16.04.1959
Neðri deild: 109. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil nú ekki gera sérstaklega að umtalsefni spurninguna sjálfa um skattinn, sem hérna liggur fyrir. En mér finnst, að í sambandi við það mál og þær deilur, sem uppi eru um þetta, hljóti alveg óhjákvæmilega að koma fram spurningin um alla aðstöðu þessara stóru samsteypna, sem eru að skapast í okkar þjóðfélagi, í okkar löggjöf og það snertir í þessu tilfelli skattinn, en það snertir líka margt fleira. Ég held, að það sé alveg óhjákvæmilegt, að það dragist ekki lengur, að það sé sett alveg skýr og ákveðin löggjöf um starfsemi þessara samtaka, sem hafa verið að rísa upp og eru að verða sífellt tíðari og voldugri hjá okkar þjóð, eins og samlög, hvers konar sambönd á þessu sviði og annað slíkt. Eins mikið og allur nútímarekstur eðlilega hlýtur að hneigjast í það horf, sem er praktískt og að öllu leyti mjög hagkvæmt og eðlilegt, að það verða alltaf stærri og stærri heildir, sem hafa með sölu eða rekstur að gera, þá held ég, að það geti ekki gengið, að svo og svo mikið af slíkum fyrirtækjum og slíkum samsteypum sé í raun og veru utan við öll lög.

Hér hefur verið komið inn á að ræða um t. d. atkvæðisrétt í svona samsteypum. Það eru til ákveðin lög um eitt slíkt samlag, það eru þau gömlu lög um Sölusamband ísl. fiskframleiðenda. Það eru alveg ákveðin fyrirmæli um það sérstaka samband. En það er líka eiginlega eina sambandið, sem eru ákveðin lög til um, a. m. k. lög um, sem er þá hlýtt út í æsar. Hins vegar viðvíkjandi bæði Sambandi ísl. samvinnufélaga og samlögunum, hinum ýmsu, hvort það heitir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Samlag skreiðarframleiðenda eða hvað sem þau annars heita, þá er ekki allt algerlega fyrir mælt í lögum eða að öllu leyti farið eftir lögum að mínu áliti um, hvernig er um þessi stóru samlög. Í samvinnufélögunum er þetta ótvírætt, en t. d. í hlutföllunum á milli samvinnufélaga og Sambands ísl. samvinnufélaga er það svo, ef ég man rétt, síðan 1938, að réttur samvinnufélaga til að senda fulltrúa á aðalfund SÍS fer ekki eingöngu eftir tölu félaganna, atkvæðisréttur einstaklinga er ekki einn lagður þar lengur til grundvallar, heldur um leið eftir viðskiptaveltunni, sem að mínu áliti hefur alltaf takmarkað það jafnrétti, sem á að vera í sambandi samvinnufélaga og er að mínu áliti ekki í algeru samræmi við grundvallar-„prinsip“ samvinnustefnunnar. Í hinum einstöku samlögum og ýmsum samböndum, sem mynduð hafa verið, er þetta allt saman á reiki. Stundum eru það þá fyrirtækin sjálf, hvert einstakt fyrirtæki um sig, sem hafa atkvæðisrétt, stundum máske velta þessara fyrirtækja, og ég býst við, að það sé engin algild regla, sem um þetta gildir. Ég tel þetta alveg ófært. Og þetta kemur til með að valda í sífellu deilum í sambandi við skatta og annað slíkt, — en ekki bara í sambandi við skatta, það er að mínu áliti að rísa þarna upp vald í okkar þjóðfélagi, sem við förum bráðum ekkert að ráða við, ef það verður ekki sett löggjöf um það.

Hv. þm. Snæf. sagði áðan, að þessi samtök væru eignarlaus. Ég veit nú ekki, hvort það stenzt alveg, að þessi samtök séu öllsömun eignarlaus. Það eru vafalaust ýmis þeirra þannig, sem eru það hrein sölusamlög, að þau skipta öllu upp. En mér þætti vænt um að fá upplýsingar um, t. d. viðvíkjandi Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, að hve miklu leyti þau fyrirtæki t. d., sem annast sölu fyrir það samband, við skulum segja í Bandaríkjunum, eru eign Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna eða hvort það eru fyrirtæki, sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur myndað, eða hvort þar er um að ræða hlutafélög, sem einstakir menn úr þessum samtökum hafa myndað, eða hvort ákveðið fé af óskiptri eign eða óskiptu umráðafé samtakanna er fest í slíkum fyrirtækjum, — eða til dæmis, ef komið er upp fyrirtækjum til þess að vinna fiskinn á sérstakan hátt erlendis, hverra eign slíkt sé, hvort það sé eign svona samtaka eða hvort það sé eign einstaklinga úr þessum samtökum eða sérstakra hlutafélaga. Og ég er hræddur um, að jafnvel þótt þessi stóru samlög og slík samtök ættu að heita eignarlaus, þá eru þau með sinni miklu veltu orðin slíkt vald í þjóðfélaginu, að alveg án tillits til þess, hvort þau teljast engar eignir eiga eða hvort þau eiga einhverjar eignir, jafnvel þó að þær séu litlar, þá er þetta orðið slíkt eignarvald, slíkt umráðavald, að það þarf að setja sérstaka löggjöf viðvíkjandi þessu.

Hlutafélagalöggjöfin er ákaflega nákvæm löggjöf. Samvinnulöggjöfin er allnákvæm löggjöf líka. En meira að segja hvað báðar þessar löggjafir snertir, þá er ég hræddur um, að það sé orðið svo með þeirri efnahagsþróun, sem orðið hefur í landinu, að það sé oft teflt á tæpasta vaðið um, að þau fyrirbrigði, sem eiga sér stað, falli að öllu leyti inn í ramma þessara löggjafa. Svo að ég taki fleiri dæmi, en viðvíkjandi samlögunum: Hvaða afstaða eða við skulum segja eignarréttur Sambands ísl. samvinnufélaga er á verksmiðjunum og hinu og þessu, á einstökum búðum, sem reknar eru af sambandinu, en ekki af neinu samvinnufélagi? Þetta skapar allt saman vandamál og afstöðu, sem ekki er fyllilega gert ráð fyrir í löggjöfinni, hvorki um hlutafélögin né samvinnufélögin, eins og hún var upphaflega sett.

En það, sem ég álít þó alveg sérstaklega varasamt í sambandi við samlögin er, að í skjóli þess, að þetta eigi að heita samtök útgerðarmanna og þau eru upphaflega mynduð sem ákaflega eðlileg samtök, fyrst og fremst samstarf um sölu, þá sýnist mér, að með þeim kröfum, sem ýmsir af forráðamönnum þessara samtaka eru farnir að setja fram upp á síðkastið, a. m. k. ef einhverjum dettur í hug að framfylgja þeim kröfum, þá verði að fara að sníða þessum samtökum stakk og hann allþröngan, ef við eigum að vita, hvar við höfum þau.

Ég hef rekið augun í það, að svo virðist sem ýmsir aðilar, sem standa fremst í þessum samtökum, ætli sér þá dul vegna þess, hve vinsæl þessi samtök eru og hve miklu hlutverki þau hafa að gegna í okkar þjóðfélagi, að þau geti raunverulega gert kröfu til hvers sem vera skal í slíku sambandi. Einn af þeim mönnum, sem forustu hafa t. d. í Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, Einar Sigurðsson, sem er áreiðanlega einn af þeim mönnum, sem hafa notið alveg sérstaklega mikilla lána frá hálfu bankanna í landinu og vafalaust ekki tapað á þeirri verðbólgu, sem orðið hefur, enda talinn allauðugur maður þrátt fyrir sínar skuldir, — hann setur í greinunum, sem hann skrifar í Morgunblaðið, venjulega á hverjum sunnudegi, þá setur hann fram sunnudaginn 22. marz í grein sinni „Úr verinu“ eftirfarandi kröfu, með leyfi hæstv. forseta, — hann talar um, að það sé nauðsynlegt, að dregið sé úr ríkisrekstrinum, þar sem mikið fé sé bundið af hálfu hins opinbera, og segir svo orðrétt:

„Má þar nefna sem dæmi, að selja mætti að skaðlausu samtökum útgerðarmanna fiskiðjuver ríkisins, síldarverksmiðjur ríkisins, tunnuverksmiðjur ríkisins og fleiri hliðstæð fyrirtæki, hætta að láta sveitarfélögin hvíla með ofurþunga af óarðbærum og illa reknum fyrirtækjum á ríkissjóði, og þannig mætti lengi halda áfram.“

Þarna er sem sé sett fram sú krafa af hálfu eins af leiðandi mönnum í þessum samtökum, að ýmis helztu fyrirtæki ríkisins, sem ríkið hefur verið að byggja upp á undanförnum 30 árum, séu seld þessum samtökum útgerðarmanna. (Gripið fram í.) Ja, hvaða samtökum? Eru þetta ekki höfuðsamtök útgerðarmannanna? Það skyldi nú vera, að Fiskiðjuver ríkisins væri ekki eitt af því, sem hann minnist á að ætti að selja t. d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna? (Gripið fram í: Þetta er nú bara skoðanafrelsi.) Já, en það er skoðanafrelsi, sem einn af frambjóðendum Sjálfstfl. leyfir sér og þá verður að taka það sem hann tali þar fyrir munn Sjálfstfl. og birti í aðalmálgagni þess flokks og að því er virðist talað fyrir hönd þeirra samlaga, sem við hér erum að ræða um. Og þarna er m. a. verið að ræða um, að það ætti helzt, eftir því sem manni skilst, að selja t. d. svo og svo mikið af togurum bæjarútgerðanna í landinu, sem eru meira eða minna háðar ríkinu, til þessara manna til rekstrar. Ég býst ekki við, að forráðamenn þessara samtaka setji fram svona kröfur án þess að hugsa sér eitthvað með því. Og ég býst við, með þeirri stefnu, sem uppi hefur verið og oft verið flutt hér fram um að efla einkareksturinn og losa menn við ríkisafskiptin og allt annað slíkt, eins og það er nú kallað, að þá sé þetta einn liður í „prógramminu“, og þá vil ég spyrja: Hvaða samtök eru það, sem á að selja þetta, og hvaða aðstöðu hafa þessi samtök í þjóðfélaginu? Á að taka úr eigu ríkisins svo og svo mikil fyrirtæki og selja þessum samtökum? Nú upplýsti hv. þm. Snæf., að þessi samtök væru eignarlaus. Ég þykist svo sem vita, með hvaða móti eigi þá að selja þessum samtökum. Ég þykist vita, að náttúrlega eigi að lána svona samtökum úr bönkunum og þannig eigi þessi samtök að geta keypt eignirnar af ríkinu. Og kannske á svo, þegar búið er að selja þessum samtökum þessar eignir ríkisins eða bæjarfélaganna, að fella gengið á eftir, eins og líka er krafa þessa fulltrúa þessara samtaka og þá fer það náttúrlega að vera nokkuð góður „bisness“, svo að maður noti þetta algenga orð, fyrir þessi samtök útgerðarmanna að hafa keypt þessi fyrirtæki ríkis og bæjarfélaga með lánum frá hálfu ríkisbankanna og síðan sé gengið fellt á eftir. Ég verð að segja, að þó að ég vilji vera fullkomlega vinsamlegur þessum samtökum, þá vil ég sjá, hvaða afstöðu þessi samtök hafa í þjóðfélaginu, hvaða réttarstöðu og annað slíkt, áður en ég fyrir mitt leyti geng inn á að fella niður þeirra skattskyldu. Það er fjarri mér að vilja beita þau nokkru misrétti, en ég vil vera viss um þeirra lagalegu afstöðu í þjóðfélaginu, ekki sízt þegar svona kröfur eru farnar að berast í nafni þessara samtaka. Mér mundi ekki þykja það neitt glæsilegt, að svo og svo miklu af öllum þeim eignum, sem hafa verið undanfarið með því sérstaka þjóðarbúskaparfyrirkomulagi, sem verið hefur hér á okkar landi, þeim eignum, sem verið hafa í eigu bæjarfélaga og ríkisfélaga, væri komið í hendur þessara samtaka, sem í raun og veru enginn vissi, hver á, og enginn „faktískt“ réði við og alveg óvíst um allar þeirra skattskyldur og raunverulega um allt þeirra vald, því að meira að segja atkvæðisréttindi og annað slíkt held ég þau hafi sjálf sett sér með sínum eigin reglugerðum. Það er ekki sett af hálfu ríkisins nema bara viðvíkjandi Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda.

Ef til vill kynnu nú sumir ekkert að harma það, þó að svona fyrirtæki gleyptu það, sem ríki og bæjarfélög hafa. En það eru bara kannske fleiri, sem eru í hættu, meira að segja sjálfur einstaklingseignarrétturinn gæti verið í hættu fyrir svona samsteypu. Ég er hræddur um, að það hafi komið fyrir, að fulltrúar svona samlaga hafi komið til — svo að ég noti líka algeng orð — einstakra duglegra og framtakssamra atvinnurekenda, sem hafa af miklum dugnaði brotizt áfram í þjóðfélaginu og komið upp þörfum og góðum fyrirtækjum, svo að notuð séu nú alveg orð Sjálfstfl. og sagt við þessa eigendur slíkra fyrirtækja, sem hafa rekið þó sín fyrirtæki vel: Viljið þið ekki selja mér ykkar fyrirtæki? Ef þið ekki seljið mér ykkar fyrirtæki, þá set ég upp annað fyrirtæki, sem gerir þetta sama, jafnvel þó að það væri miklu dýrara og ég get séð um, hvað verður keypt. — Það er vald, sem liggur í svona samtökum, og eitt þjóðfélag þarf að sjá um, að svona vald sé ekki misnotað. Það eru sem sé til samtök í þjóðfélaginu, einmitt svona samlög, sem kölluð eru samlög útgerðarmanna og ég skal ekki sverja fyrir, að það séu líka til sambönd jafnvel samvinnufélaga, sem kunna að nota slíkt. En hver sem það er, hver sem svona aðstöðu notar og jafnvel þó að þau séu saman um það, þótt samlög útgerðarmanna og Samband ísl. samvinnufélaga stæðu saman um svona hlut, þá er þetta hlutur, sem þjóðfélagið verður að gera svo vel að athuga og varðveita þann einstaka borgara. (Gripið fram í: Eru dæmi þess?) Ég er hræddur um það, meira að segja, að þeir hafi staðið saman, svo andstæðir sem þeir oft þykjast vera. Ég segi þetta ekki vegna þess, að til allrar hamingju eru ekki mikil brögð að þessu. En þessar tilhneigingar eru til og þess vegna held ég, að við verðum að fara varlega í að ákveða, hvernig við búum að þessum félögum. Þar með á ég við, að áður en við tryggjum þeim það, sem við kannske yrðum hræddir um að yrði hálfgert skattfrelsi, eins og við erum nú stundum hálfhræddir um út af þessum fyrirtækjum, þá verðum við að búa almennilega að þessu með löggjöf, svo að við vitum alveg, hvar við höfum þessi samtök.

Þetta álít ég, án þess að ég vilja beita þessi samtök nokkru misrétti, því að mér er ákaflega vel ljóst um samlög útgerðarmanna, samtök þeirra um sölu á sínum fiski, hvort það er hraðfrystur fiskur, skreið eða annað slíkt, hvað það er gífurleg framför, hvað það þýðir mikið fyrir jafnt smáa sem stóra innan þeirra að nota kosti samheldninnar, hvað það gerir okkar atvinnuveg og okkar þjóðfélag sterkara gagnvart útlendum aðilum að geta staðið þannig saman, þannig að mér er ákaflega fjarri að vilja beita slík samtök nokkru misrétti, heldur vil þvert á móti reyna að tryggja þeirra aðstöðu, meðan þau halda sér við þetta verkefni. En vandamálið byrjar, þegar þau fara að fara út fyrir þetta verkefni, þegar þau fara að festa svo og svo mikið af sínu fé í öðrum fyrirtækjum, — raunar alveg á sama hátt og það byrjar visst vandamál, t. d. fyrir slíkum fyrirtækjum, sem þó eru eins lögbundin og Samband ísl. samvinnufélaga er, þegar það fyrirtæki fer að eignast við skulum segja vefnaðarvöruverksmiðjur. Þessi fyrirtæki eru mynduð upphaflega á grundvelli þeirrar stefnu, sem fátækir vefarar í Rockdale ruddu braut fyrir til þess að hrinda af sér arðráni og þó getur slíkt stórt fyrirtæki eins og Samband ísl. samvinnufélaga allt í einu staðið frammi fyrir því að standa gagnvart mönnum, sem eru vefarar, mönnum, sem eru verkamenn við vefstóla og jafnvel farið að beita þá arðráni, þannig að þeir verða að fara að berjast kaupbaráttu gagnvart slíkum fyrirtækjum. Við verðum alltaf að gá að því, meira að segja þó að það séu eins góð fyrirtæki og sjálf samvinnufélögin eða þeirra sambönd. (Gripið fram á: Eru þau sérstaklega góð?) Þau eru almennt sérstaklega góð. Meira að segja yfir slíkum fyrirtækjum vofir þessi hætta, svo að þá getum við ímyndað okkur, hvernig muni vera, þegar um fyrirtæki einstaklinga er að ræða, sem fyrst og fremst eru mynduð í gróðaskyni og hafa þess vegna ekki eins góðan tilgang. En jafnvel þó að þau séu mynduð í því skyni að starfa saman og hjálpa sínum meðlimum til þess að selja sína vöru, þá koma líka þessar tilhneigingar upp, að festa fé í svona og svona stórum fyrirtækjum, sölsa undir sig meira og meira. Þess vegna held ég, að við ættum að fara varlega í það í svipinn að ákveða skatt þessara fyrirtækja, því að grunur minn er sá, að ef þessi skilningur, sem nú er og ég skal alls ekki dæma um, til þess er ég ekki svo lögfróður maður, þessi skilningur, sem nú er hjá skattstjóra á afgreiðslu málanna í fyrra, er réttur, þá höfum við þar þó a. m. k. nokkur tök á þessum félögum og á meðan þau tök eru fyrir hendi, held ég, að það mundi flýta fyrir, að löggjöf yrði samin um þetta, þannig að jafnvel þótt þau nú lentu í þessum misrétti eitt ár, t. d. þetta ár, ef það yrði til þess, að flýtt yrði löggjöf um stöðu þessara félaga í þjóðfélaginu, þannig að við vitum alveg, hvar við höfum þau, þá held ég, að það gerði ekkert til, þó að þetta fengi að dankast svona þetta ár. Þess vegna hef ég nú mesta tilhneigingu til þess, a. m. k. meðan ég verð ekki sannfærður um hið gagnstæða, að láta við svo búið standa, sem nú er og samþykkja ekki að sinni þá till., sem hv. þm. Snæf. og hans félagar flytja. Ég skal ekkert fullyrða um, hvort þessum félögum er gert misrétti með því, en ég held, að meðan þetta ástand er, sem nú virðist vera, þá mundi það flýta fyrir því, að löggjöf væri sett um þetta. Hins vegar er ég hræddur um, ef þessi till. væri samþykkt, að þá gæti það máske dregizt, máske dregizt nokkuð lengi. Og ég hef slæma reynslu af því, að það dragist nokkuð lengi að setja löggjöf um fyrirtæki, þar sem eignarrétturinn er ekki alveg ákveðinn á fyrirtækjunum. Ég er farinn að sjá framan í það nú þegar viðvíkjandi áburðarverksmiðju, sem ég held fram að ríkið eigi, að það eru nú komin tíu ár, frá því að ég lagði hér til á Alþingi, að það væri gengið almennilega frá þeim hlut, þannig að það væri skýrt, að ríkið ætti hana og mér sýnist nú vera komið svo, að það fari að kosta ríkið yfir 20 millj. kr. að hafa beðið allan þennan tíma með að taka ákvarðanir um, hvernig lögin raunverulega bæri að skilja. Ég held þess vegna, að það væri bezt fyrir okkur að flýta því að setja löggjöf um þessi mál, jafnvel þó að við kynnum að valda þessum fyrirtækjum — og jafnvel kannske ekki af neinum illvilja — nokkrum erfiðleikum með það eitt ár. Ég vildi þó heldur athuga með það að borga þeim það til baka á eftir, en sleppa því tækifæri, sem við kannske hefðum til þess að knýja fram, að það væri sett alveg ótvíræð löggjöf um stöðu þessara samtaka í þjóðfélaginu.