26.01.1959
Neðri deild: 62. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Vegna þeirra ummæla, sem fallið hafa í þessum umr., þykir mér rétt að ítreka það, sem kom fram af minni hálfu í umr. um stöðvunarfrv. hæstv. ríkisstj., að réttara hefði verið að mínu áliti og okkar sjálfstæðismanna, að allt þetta vandamál hefði verið leyst samtímis, að samið hefði verið við útgerðina, tekjuöflun ákveðin og afgr. fjárl. allt í einu eða um svipað leyti, þannig að alþm. og allir aðilar hefðu getað tekið afstöðu til málsins í heild, en ekki í smábitum, eins og nú er óhjákvæmilegt að gert verði.

Ég drap á það þá, að þetta kynni að hafa leitt til þess, að eitthvað hefði frestazt, að flotinn hefði lagt úr höfn eftir áramótin og ég skildi, að hæstv. ríkisstj. hefði valið þann kost að koma flotanum sem fyrst á veiðar, þó að þessir annmarkar fylgdu.

Sannleikurinn er sá, að hæstv. ríkisstj. hafði einfaldlega ekki ráðrúm til þess, ef ekki átti að verða töluverður dráttur á því, að flotinn gæti farið á veiðar, að hafa þann hátt á, sem ég nú gerði grein fyrir að æskilegastur hefði verið. Það var afleiðing þess, hversu hæstv. ríkisstj. tók við völdum seint á árinu, að hún hefur einfaldlega ekki komizt til þess að afgr. málið með öðrum hætti, en gert hefur verið.

Hún varð að snúa sér að því fyrst að koma flotanum af stað, síðan að semja sitt stöðvunarfrv., leggja þetta frv. fram og þar næst er ætlunin, að því er mér hefur skilizt, að snúa sér að afgreiðslu fjárlaga.

Það má segja, eins og ég hef bent á, að annar háttur hefði verið æskilegri. En ég tel, að hæstv. ríkisstj. sé engan veginn aðfinningarverð fyrir að hafa haft þennan hátt á vegna þess, hvílíkt neyðarástand ríkti, þegar hún tók við völdum og hversu snöggar ákvarðanir og skjótar framkvæmdir þurftu að verða, til þess að ekki stöfuðu vandræði af.

Mér er ljóst, að þessu eru ýmsir annmarkar samfara. Ég drap á þá í umr. um daginn og skal ekki ítreka þá nú. En mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar hv. 2. þm. S-M. (LJós) vítir nú hæstv. ríkisstj. fyrir þetta og telur það með einhverjum ósköpum, að hún skuli fara svona að. Það var einmitt sami hátturinn, sem fyrrv. hæstv. ríkisstj., sú sem þessi hv. þm. var sjútvmrh. í, sami hátturinn, sem hafður var á af hennar hálfu á s. l. ári. Þá voru útgerðarmönnum gefin tiltekin fyrirheit um áramótin, en það var ekki fyrr en í maílok, sem hæstv. ríkisstj. kom sér saman um ráðstafanir til þess að efna þau fyrirheit.

Það væri að vísu gott, ef hv. þm. hefði lært af reynslunni. Hann talaði um, að nú mundi skapast mikill halli og verða vandræði, þegar á árið liði, úr því að þessi háttur væri á hafður. Já, hann talar þarna af reynslu. Loforðin, sem gefin voru fyrir áramót eða um áramótin 1957–1958, voru ekki efnd fyrr, en með bjargráðalögfestingunni í maílok 1958 og nú erum við að finna afleiðingarnar af þeim ósköpum, sem þá voru lögfest, að í stað þess, að verðbólgan hefur frá 1946 þangað til nú á ári vaxið um 10% að meðaltali, þá er afleiðing þessara bjargráða, efnda hæstv. fyrrv. sjútvmrh. og félaga hans á loforðunum til útgerðarmanna fyrir liðlega ári, áhrif þeirra eru þau, að verðbólgan vex a. m. k. um 20–30% og sennilega meira árlega að dómi þess sérfræðings, sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. aðallega byggði ráðstafanir sínar á, að svo miklu leyti sem þær horfðu í skynsamlega átt, þótt hún yfirgæfi hans till., þegar til úrslita kom, þannig að allt varð botnlaust að lokum.

Það er því sízt að ófyrirsynju, að hv. þm. talar um, að þessi háttur kunni að hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér, og einmitt með vitundina um þá hættu hefðum við sjálfstæðismenn kosið, að allt annar háttur hefði verið á hafður, sem því miður var ekki hægt að koma við nú.

En ég treysti því fastlega, að hæstv. ríkisstj. láti ekki dragast fram í maí, eins og hennar fyrirrennari gerði, að efna sín loforð og standa við þau fyrirheit, sem gefin hafa verið og hún skilji þá ekki allt eftir botnlaust eins og hennar fyrirrennari gerði, heldur treysti ég því, að strax og meðferð stöðvunarfrv. er lokið, þá verði farið í að semja fjárl., ljúka samþykkt þeirra á allra næstu vikum. Og þó að enn sé ekki komið samkomulag á milli flokka um afgreiðslu þeirra, einfaldlega og fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að ekki hefur unnizt tími til þess að snúa sér að meðferð þeirra sökum þeirra miklu anna, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið í varðandi þá málaafgreiðslu, sem hún hefur þurft að annast á fáum vikum, en að réttu lagi hefði þurft mánaða undirbúning til, treysti ég því, að þá komist á samkomulag milli meiri hl. þings um miklu skaplegri meðferð þeirra mála, en hingað til hefur verið.

Þetta verður að sýna sig, hvernig til tekst. Um það skal ég engu spá. En þeir, sem hér hafa verið með aðfinningar af þessum efnum, ættu sízt að hafa haft þær í frammi til þess að rifja upp og minna landslýðinn enn á þann hörmungarviðskilnað, sem þeir höfðu á þessum málum.

Um einstaka liði þessa frv. skal ég ekki fjölyrða. Þeir verða að sjálfsögðu athugaðir nánar í n. Hv. 2. þm. S-M. vildi halda því fram, að útgerðarmenn hefðu fengið of mikið. Í öðru orðinu sagði hann þó, að vel mætti vera, að ekki hefði verið hægt að ná betri samningum, en hér er gert. Ég verð að segja, að með þessu ómerkti hann gersamlega allar sínar aðfinningar. Ég vil benda á, að þessir samningar eru nú gerðir af sömu sérfræðingum og unnið hafa að málum undanfarin ár. Eina breytingin, sem orðin er, er sú, að nú hefur hæstv. forsrh. fyrst og fremst fylgzt með þessum samningum, Emil Jónsson, í stað hæstv. fyrrv. sjútvmrh., Lúðvíks Jósefssonar. Ég veit ekki um neinn mann á Íslandi, sem hefur hælt sjálfum sér af því, að hann hafi veitt útgerðarmönnum, betri fyrirgreiðslu og meiri, en hæstv. fyrrv. sjútvmrh.

Eina breytingin er þá sú frá því, sem verið hefur, að í stað þess, að nú var ekki þessi maður við, sem að eigin sögn var ætíð reiðubúinn til þess að rétta eina gjöfina eftir aðra að útgerðarmönnum, nú er hann farinn frá og annar tekinn við. Mér sýnist það sízt benda til þess, að líklegt sé, að útgerðarmenn hafi nú fengið óhóflega mikið. Þetta þarf auðvitað að rannsaka og verður sjálfsagt skoðað ofan í kjölinn.

En að gefnu þessu tilefni frá hv. 2. þm. S-M. um það, hve útvegurinn hafi haft góða afkomu á s. l. ári, vil ég spyrja hæstv. sjútvmrh. núverandi að því, hvort það sé rétt, að a. m. k. tveir togarar hafi nýlega lent í stórkostlegum vanskilum, annar þeirra liggi ónotaður í höfn á Austurlandi og togari úr nágrannakaupstað þar sé svo illa staddur, — og ég hygg, að hv. 2. þm. S-M. sé þar engan veginn sérstaklega ókunnugur, — hann sé svo illa staddur, að ríkissjóður hafi hans vegna nýlega orðið að greiða 800 þús. kr. Ef þetta er rétt, þá bendir það sízt af öllu til þess, að útvegurinn hafi verið ákaflega vel staddur á s. l. ári. Eða hefur þessum fyrirtækjum tveimur verið svo sérstaklega illa stjórnað, að ríkisstj. þurfi þar að taka í taumana og gera sérstakar ráðstafanir?

En það er ekki nóg, að þessu sé svarað. Ég vil eindregið skora á hæstv. ríkisstj. að gera Alþingi grein fyrir fjárreiðum þessara fyrirtækja og annarra slíkra, þannig að alþm. fái betri skil á þeim stórkostlegu fjárhæðum, sem þarna virðast vera að ganga í súginn.

Að lokum vil ég segja það, að þessar umr. með mati á því, hvort eigi að borga nokkrum aurum meira eða minna með hverju fiskkílói og annað slíkt, sýna betur, en flest annað réttmæti þess, sem ég lagði áherzlu á í umr. á dögunum, að allt þetta kerfi er búið að ganga sér til húðar, að Alþingi Íslendinga er sízt af öllu hæfur vettvangur til þess að annast ákvarðanir þessara mála, enda er það svo, að það er ekki Alþingi sjálft, sem þeim ræður, nú frekar en áður. Það er ríkisstj., sem um þetta semur, í stað þess að þetta sé ákveðið eftir eðlilegum lögmálum viðskiptalífsins, sem er ein brýnasta nauðsyn að verði á ný tekin til heiðurs og gildis á Íslandi.