12.02.1959
Efri deild: 68. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

106. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það er aðeins ein spurning, sem mig langar til að leggja fyrir hv. frsm. Það er varðandi setninguna í 1. gr.: „Þegar svo stendur á, að sjóðfélagi verður sökum heilsubrests að láta af stöðu sinni, en tekur þá eða síðar við léttara og lægra launuðu starfi, má reikna eftirlaun hans af því starfinu, sem hærra var launað“. Mig langar til þess að spyrja um það í sambandi við þetta, hvort n. hefði rætt eða athugað iðgjaldagreiðslu í slíkum tilfellum? Ef maður fer að vinna aftur og fær lægri laun, þá getur hann átt rétt á því að fá eftirlaun samkv. þeim hærri launum, er hann áður hafði. En er þá gert ráð fyrir því, að þessi maður, eftir að hann kemst á lægri launin, borgi iðgjald samkv. lægri laununum, eða verður hann að borga þau samkv. hærri laununum til þess að fá eftirlaun í samræmi við þau? Þetta er kannske ekki stórt atriði, en getur þó skipt nokkru máli fyrir þann, sem greiða á, hvort hann á að greiða prósentvís miðað við hærri launin, sem hann hafði áður, eða lægri launin, sem hann hefur síðar.