05.03.1959
Efri deild: 79. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Mér finnst hlýða að fara nokkrum orðum um málið almennt, sérstaklega vegna þess, hve fáir voru við í fyrradag, þegar við, ég og hv. 2. þm. Árn., ræddum um málið.

Ég vil nú leyfa mér að minna fyrst á það, að 1946 var rætt um það hér á Alþingi að setja útflutningsgjald á sjávarafurðir, og varð það að lögum 1947. Það frv. var flutt í neðri deild af sjútvn. eftir beiðni þáv. sjútvmrh., Jóhanns Jósefssonar. Þá var lagt visst prósent á allar útfluttar sjávarafurðir, og því var varið til ýmissa fyrirtækja, sem sjávarútveginum við kom og 1/8 hluti af því var látinn ganga til að byggja hús yfir Fiskifélagið og starfsemi þess, en það átti þá milli 20 og 30 ára gamalt hús, sem var að verða of lítið.

Þetta gjald var síðan hækkað, bæði 1948 og 1957, smáhækkað og alltaf hluta af því varið til þessa húss. Enginn mælti þá á móti þessu. Enginn þm. mælti eitt orð um, að það væri óréttlátt að taka gjald af öllum útfluttum sjávarafurðum og verja því til að byggja við hús félagsins, enda þótt það væri ekki nema á milli 20 og 30 ára gamalt. Nú hefur þetta hús risið af grunni og risið af grunni sem framtíðarhús, því að til tíu ára eru tvær og hálf hæð í húsinu leigð — með tíu ára samningi. En fyrir það sama, af því að það hefur leigt það út til svona langs tíma fyrir ákveðið gjald, Fiskifélagið, þá hefur það fengið í gegnum þá leigu bæði fé til þess að standa undir viðhaldi hússins og gera því sjálfu miklu ódýrara að búa í því.

Nú er alveg á nákvæmlega sama hátt farið fram á það af bændanna hálfu að fá að leggja á sig gjöld, sem tekin séu alveg á sama hátt og þetta gjald af seldum landbúnaðarvörum, ekki bara útfluttum, heldur seldum landbúnaðarvörum, — það er sá munur, það er rétt: Fiskifélagið hefur fengið prósentur af útfluttum sjávarafurðum, en hér er ætlazt til, að það sé greitt af öllum seldum landbúnaðarvörum og það er ætlazt til, að það sé ½%, eða ekki eins hátt og núna er lagt í húsíð til

Fiskifélagsins af útfluttum sjávarafurðum. Munurinn er líka sá, að þegar var ákveðið á Alþingi á sínum tíma að leggja svona til hússins handa Fiskifélaginu, þá lá ekki fyrir neitt um, að sjávarútvegurinn bæði um það. Það var bara sjútvmrh., sem flutti frv. og mun hafa stuðzt við almennt álit þeirra manna, sem að sjávarútveginum störfuðu, án þess að nokkuð sérstakt lægi fyrir um, að það væri þörf á því.

Núna aftur á móti liggur fyrir í fyrsta lagi, að meðan Fiskifélagshúsið var ekki nema 20–30 ára gamalt, þegar það þurfti að byggjast upp, eða réttara sagt byggja við það, því að það stendur enn og er notað, — en nú er Búnaðarfélagshúsið nærri sextugt, ekki alveg sextugt, þegar talað var um að byggja það upp. Og meðan starfsemi Fiskifélagsins var öll í húsi þess, þegar ákveðið var að láta það hafa fé til að byggja það upp eða við það, þá er starfsemi Búnaðarfélagsins núna í leiguhúsnæði á þrem stöðum úti um bæ fyrir utan Búnaðarfélagshúsið. Það er búið að vaxa meira frá sínu gamla húsi, Búnaðarfélagið, heldur en Fiskifélagið, þegar enginn mælti á móti þörf þess til að fá fé til að byggja hús sitt upp.

Þar að auki er Búnaðarfélagshúsið búið að vera lengi á döfinni. Um svipað leyti og byrjað var á að leggja fé í Fiskifélagshúsið, var byrjað að ræða um að byggja Búnaðarfélagshúsið. Þá var öllum búnaðarfélögum landsins skrifað og skýrt frá þessari hugmynd og spurt um, hvort bændur vildu leggja fé í það. Því var yfirleitt tekið prýðilega vel af miklum meiri hluta búnaðarfélaganna, — ekki þó alveg öllum, — og þau töldu sig mörg vera fús til þess að gera það. En mörg af þeim sögðu: Þar sem málið er ekki komið lengra áleiðis, en bara er farið að tala um það, þá viljum við ekki gefa nein ákveðin loforð um að leggja fram hlutafé eða samskotafé, en það hvort tveggja var orðað í því bréfi, sem þeim var þá skrifað. Það mun hafa verið 1946.

Nú lenti í ýmiss konar vafstri, eins og gengur, þegar á að fara í framkvæmdir. Þarna varð að gera teikningar, það þurfti að fást lóð. Ríkissjóður gaf lóð, hún þótti of lítil, og skipulag bæjarins vildi helzt ekki láta byggja þar. Og endirinn á því öllu saman, sem tók nokkur ár, varð sá, að Búnaðarfélagið fékk lóð við Hagatorg, en þar er aftur á móti ætlazt til þess eftir skipulagi bæjarins að komi stórhýsi. Það er ætlazt til, að það verði eitt glæsilegasta torg bæjarins með stórhýsum í kring. Það var víst hugmyndin reyndar kannske, að það verði álitið glæsilegra torg hérna, þar sem við stöndum, ef það yrði úr, sem hugsað er, að ráðhúsið verði byggt út í tjörnina og öll hús frá því og að Austurvelli fjarlægð og sett stórt og mikið torg hér, sem ég veit ekki, hvort verður nokkurn tíma af, þó að það sé hugsað af sumum. Það er kannske hugsað, að það torg verði enn þá glæsilegra en Hagatorg, en annars er það ætlað fyrir mikið athafnasvæði, og eiga að vera við Hagatorg stórhýsi allt í kring.

Nokkru áður en þetta var, var búnaðarfélögunum skrifað aftur um málið. Það mun hafa verið árið 1951. Þá var búnaðarfélögum landsins öllum skrifað aftur um málið og heyrðar þeirra undirtektir og þá lofuðu mörg að leggja fram fé, þegar að því kæmi, að þyrfti að byggja húsið. Og alls staðar voru undirtektirnar góðar. Það liggur þess vegna alveg hreint fyrir, að þá, á þeim árum, þegar var verið að skrifa búnaðarfélögunum um þetta, þá voru þau yfirleitt með því, að það hús væri byggt, og sum af þeim lofuðu fjárframlögum í það, þegar að því kæmi, en öðrum þótti ekki tímabært að taka neinar slíkar ákvarðanir.

Nú er horfið að því í staðinn fyrir að fara samskotaleiðina til búnaðarfélaganna, sem reyndar var nú nokkuð upplagt að fara að einhverju leyti eftir þær undirtektir, sem þau höfðu gefið, — þá er horfið að því ráði að fara sömu leið og hafði verið farin með Fiskifélagshúsið, heimila, að lagt væri gjald á bændur, jafnt á þá, eftir því, hve mikla vöru þeir hefðu að selja, ½% af seldum vörum þeirra, til þess að fá fé til húsbyggingarinnar, og áætlað, að það þyrfti þó ekki að vera lengur, en fjögur ár.

Um þetta var flutt frv. í fyrra, sem þá varð ekki útrætt og dagaði uppi í Nd. Áður en það frv. var flutt, hafði búnaðarþingið, en á því sitja bændur kosnir af búnaðarsamböndunum, — þá hafði það tekið málið fyrir og talið þessa leið langheppilegasta og mælt ákveðið með því, að svona lög yrðu sett. Tveir menn á því voru þó á móti því af 25, sem þar eiga sæti. Kosið var síðan til búnaðarþings árið eftir, og það er ekki að sjá, að þeir bændur, sem voru með því að leggja þetta gjald á bændurna, hafi á nokkurn hátt misst atkvæðafylgi við það. Í einu kjördæminu, Austur-Húnavatnssýslu, kom það mjög greinilega fram, þar sem annars vegar var Hafsteinn Pétursson í framboði, sem var einn ákveðinn fylgismaður þess, að þetta gjald væri lagt á bændur og húsinu komið upp, og hins vegar Halldór Jónsson, sem var ákveðinn á móti því, — og sigraði Hafsteinn með miklum meiri hluta, hér um bil tvöföldu atkvæðamagni á við það, sem Halldór fékk. Bændurnir þar sögðu því alveg ótvírætt til um það. Annars staðar mun það ekki hafa borið neitt verulega á góma og kannske ekki haft nein áhrif á kosninguna. Vera má, að svo hafi líka verið í Austur-Húnavatnssýslunni, þó að öllum væri kunn afstaða þessara tveggja manna til málsins þar, þegar kosið var.

Nú er spurningin, hvort þetta Alþingi og við hér í þessari hv. d. viljum vera með því að samþykkja þetta frv. Við í meiri hl. leggjum það til. Stéttarsambandsfundur bænda, sem haldinn var í sumar í Bifröst, hafði málið til meðferðar, enda er ætlazt til, að bústaðurinn sé fyrir bæði þessi félög, Stéttarsambandið, sem er sá vettvangur, sem bændurnir sækja sín baráttumál í gegnum, og Búnaðarfélagið, sem er það faglega samband bændanna í búnaðinum. Og stéttarsambandsþingið, sem á sitja 2 menn úr hverju sýslufélagi og þar að auki einn frá Vestmannaeyjum, 47 menn alls, og það var alveg setið, — það samþykkti með 39:8 atkv. að mæla með því, að lögin væru samþykkt. Þannig liggur það fyrir alveg ótvírætt í fyrsta lagi, að meðan talað var um málið dálítið óákveðið og verið að leita fyrir sér, hvort bændur vildu með samskotum leggja í það fé, annaðhvort sem beint framlag eða sem hlutafé, þá var mikill meiri hl. búnaðarfélaganna í landinu, mjög mikill meiri hl. búnaðarfélaganna í landinu með því, að byggt væri, og sum lofuðu þátttöku í kostnaðinum. Eftir að horfið var frá þessu ráði og horfið að hinu ráðinu, að reyna að innheimta það hlutfallslega jafnt hjá öllum bændum eftir því, hve miklar afurðir þeir hefðu að selja, þá liggur fyrir, að samtök bændanna, bæði þau faglegu gegnum búnaðarþingið og þau beint félagslegu gegnum stéttarsambandsþingið, eru með því að miklum meiri hl. Hins vegar er náttúrlega ekki vafi á því, að einhverjir bændur eru á móti því. Það er ekki vafi á því. Það er nákvæmlega sama og þegar við erum að leita álits í verkalýðsfélögunum. Þó að t. d. alþýðusambandsþingið, sem við ættum að skoða sem sambandsþing verkalýðsfélaganna í landinu yfirleitt, sé með einhverju og ákveðið með einhverju, þá er náttúrlega ekki víst, að einstök verkalýðsfélög séu með því og því síður víst, að einstakir menn séu með því, sem yfirstjórn þess gerir eða samþykkir. Eins getur verið hér. En ég verð að halda því fram alveg ákveðið, að þegar yfirþing eða stofnun margra félagssamtaka er með einhverju, þá verði að skoða það sem vilja samtakanna yfirleitt, a. m. k. mikils meiri hluta þeirra. Ég vil halda því ákveðið fram. Og ég held, að það sé ekki hægt annað en að gera það.

Einn nefndarmaðurinn, 2. þm. Árn., vill samþykkja frv. um eins árs skeið, til þess að hægt sé að koma byggingunni áfram, en mér skilst, að hann vilji svo reyna að fá í millitíðinni álit búnaðarfélaganna, — honum nægi ekki þetta, sem fyrir liggur um heildarsamtökin, stjórn heildarsamtakanna, bæði þeirra faglegu og eins þeirra sérhagsmunalegu, heldur vilji hann fá álit hvers einstaklings. Allir bændur landsins eru í búnaðarfélagi, en honum er ekki nóg að vita álit þeirra, hann vill vita vilja hvers bónda. Þetta er alveg nýtt. Það hefur aldrei komið fyrir áður í þingsögunni, að það hafi verið spurt um það, hvort einstakir gjaldendur að þessu eða hinu gjaldi, sem Alþingi hefur samþykkt að leggja á menn, væru með því. Það dettur engum í hug að spyrja um það, þegar lagt er útflutningsgjald á sjávarútvegsvörurnar. Það er ekki imprað á því af nokkrum manni og það mælti enginn í móti því 1946. Það var flutt af sjútvn. í Nd., þar hafði Jóhann Hafstein framsögu og urðu ósköp stuttar umræður og var samþ. með samhljóða atkvæðum. Hingað í deildina kom það svo og var flutt hér af núv. ráðherra, Guðmundi Í. Guðmundssyni, sem hafði framsögu í því, og voru því allir samþykkir hér í deildinni líka. Ég benti á, að það ætti að vera dálítill annar háttur þá á þessu máli, en á búnaðarmálasjóðnum, sem þá var líka til meðferðar á þessu sama þingi, þar sem ýmsir sjálfstæðismenn vildu setja hann undir stjórn, sem bændurnir réðu ekki yfir, heldur ríkisstj., — en að öðru leyti var ég með málinu og aðrir, sem hér töluðu. Og það varð að lögum.

Og núna veit ég ekki betur en 2. þm. Árn. flytji frv. um að leggja 5 kr. gjald á alla menn í landinu, til þess að mynda, — ja, annar meðflutningsmaður að því vildi kalla það sparisjóð, — ég kallaði það banka um daginn, — til þess að geta lánað hreppsfélögunum, ef þau gætu ekki fengið lán í bönkunum, sem fyrir eru í landinu. Og ég hef ekki heyrt nokkurn mann minnast á, að það ætti að bera það undir almenning, hvort þeir vildu borga þetta gjald eða ekki, ekki hið minnsta. Og þar er þó ekki verið að tala um gjald til fjögurra ára. Það er náttúrlega ekki hátt. Sveitafólkið núna er ekki nema kringum 29 þús. í landinu, svo að 5 kr. á mannsbarn þar eru ekki há upphæð á ári, samanborið við það, sem hér er um að ræða, því að hér er — miðað við, hvað það var 1957 — um að ræða 1 millj. og 600 þús. kr. á ári. Það var það fyrir árið 1957. Hvað þetta muni verða fyrir árið 1958, veit ég ekki. Það verður sjálfsagt eitthvað hærra og þó ekki mikið, — jú, eitthvað hærra, því að mjólkin hefur vaxið og kjötþunginn var meiri í haust, sem stafar að nokkru leyti af því, að sauðfénu var aftur fækkað vegna minni heyja.

Ég hef ekki heyrt neinn mann minnast á það, og ég hef aldrei heyrt minnzt á það hér í Alþingi, að t. d., — ja, ég man ekki, hvað það eru mörg skattafrv., sem við erum búnir að framlengja, — það hefur engum manni dottið í hug að fara að spyrja þá, sem eiga að borga skattana, hvort þeir væru með því eða ekki, — ekki nokkrum lifandi manni dottið það í hug. En þegar þetta mál kemur fram, þá dettur mönnum það í hug, og þó er það skattur, sem lagður er á, ekki til ríkisins beint og þó reyndar óbeint til ríkisins — en ekki til ríkisins beint, því að það á að renna til húss, sem Bændasamtökin eigi á eftir, enda þeir einir, sem í það fórna. En óbeint er það fyrir ríkið samt sem áður, því að mikill hluti, ákaflega mikill hluti af þessum stofnunum báðum, Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandinu, er vinna, sem Alþingi eða ríkisstj. yrði að láta gera, ef þessi félög væru ekki, t. d. útreikningur allra jarðabótanna og mæling á þeim, sem Alþingi hefur lagt á Búnaðarfélagið að gera, t. d. að hafa umsjón með eyðingu refa og minka, sem Alþingi hefur lagt á Búnaðarfélagið að gera, t. d. að mæta á öllum búfjársýningum, sem Alþingi hefur lagt fyrir Búnaðarfélagið að gera. Og hvað Stéttarsambandið snertir, þá hefur það útreikning á öllum niðurgreiðslunum, sem annars væri allt hjá ríkisstjórninni. Þetta hús verður þess vegna að töluvert miklu leyti óbeint notað af ríkisstj. eða starfsemi, sem hún yrði að gera, ef þessi félagsskapur væri ekki til og væri ekki viðurkenndur og falið að vinna þetta og þetta starf fyrir ríkisstj.

Það er talað um, að þetta hús, sem á að byggja, sé stórt. Það er mikið rétt, en það er Fiskifélagshúsið líka. Það hefur sem sagt byggt það við vöxt og það hefur séð, að það þarf ekki að halda á öllu húsnæðinu fyrr, en eftir a. m. k. 10 ár, því að í 10 ár hefur það leigt 2½ hæð til annarra. Bæði félögin eiga sammerkt í því, annað að hafa byggt húsið sitt við vöxt og fengið til þess fé að þessari leið, nákvæmlega sömu leiðinni og hér er farin og hitt ætlar sér að gera það. Ég sé þess vegna ekki mun á því, sérstaklega ef menn viðurkenna þörfina á því að byggja hús yfir starfsemi Búnaðarfélagsins. En hvort menn viðurkenna það, fer mikið eftir því, hvort menn álíta rétt, að Búnaðarfélagið fari með þau mál, sem það núna fer með eftir sérstökum lögum í umboði ríkisstj. Ég veit vel, að það eru til menn, þó að það hafi ekki komið fram hér í Alþingi, ekki mér vitanlega a. m. k. og ekki í efri deild, en það eru til þeir menn, sem álita að það sé vitleysa að haga þessu svona, það rétta sé að hafa það eins og það er orðið í nágrannalöndum okkar, að fara með það beint í stjórnarráðið og vera ekki að fela Búnaðarfélagi Íslands að fara með þessi störf, gera ráðunautana, sem eru núna hjá Búnaðarfélagi Íslands, beint að ríkisráðunautum, og láta meginið af allri þeirri starfsemi fara fram í gegnum stjórnarráðið og á ríkisstjórnarskrifstofunum. — „Det kongelige Selskab for Danmarks Vel“, sem var á sínum tíma fyrirmynd að Búnaðarfélagi Íslands og starfaði á sínum tíma nákvæmlega eins og Búnaðarfélag Íslands, byrjaði á tilraununum, byrjaði á sýningunum, byrjaði á ráðunautunum o. s. frv. Það stendur núna eftir eins og gamall steingervingur, hefur sína stjórn, sínar litlu tekjur frá félagsmönnunum og ekkert starf úti um landið, það er allt komið beint undir ríkið. Þeir menn, sem vilja þetta skipulag á hlutunum, og ég skal viðurkenna, að ég hef nú töluverðan „tendens“ í þetta skipulag, en það hefur aldrei haft neinn byr, þegar rætt hefur verið um það, neins staðar hjá íslenzkum bændum eða íslenzkum mönnum yfirleitt, og hefur það þó dálítið verið rætt, — en þeir menn, sem vilja láta Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsambandið fara áfram með þau mál, sem í eðli sínu heyra til ríkisstj., þeir geta ekki annað en verið með því að leyfa bændunum að byggja það á þennan hátt, sem þeir nú fara fram á, eins og Fiskifélaginu á sínum tíma.

Þó gætu verið til menn, sem segðu, og það má rökstyðja það sjónarmið töluvert: Ja, Búnaðarfélag Íslands — eftir þess lögum út af fyrir sig — hefur ekkert að gera með þetta húsnæði. Það þarf þetta húsnæði, af því að það vinnur fyrir ríkið, og það er þess vegna eðlilegast, að ríkið byggi húsið og kosti það að öllu leyti. — Þessir menn gætu verið til, og þetta sjónarmið mætti að nokkru leyti réttlæta. En ég held nú ekki, að menn vilji það, og sú krafa er ekki komin fram. Búnaðarfélag Íslands hefur aldrei sett skilyrði fyrir neinu slíku, þegar því hefur verið falið þetta eða þetta starf með sérstökum lögum, sem annars að eðll sínu heyrir undir ríkisstj., og ég held, að það sé ekki ástæða til þess, enda hefur enginn talað fyrir munn þessara manna hér á Alþingi. En það gæti ég þó skilið, svona sjónarmið gæti ég skilið.

Ég held þess vegna, að málið liggi það ljóst fyrir, að það sé alveg, — ja, ég vil nú eiginlega kalla það skyldu Alþingis eftir því, hvernig það hefur snúizt við byggingu Fiskifélagshússins, og eftir því, hvernig það hefur snúizt við að láta önnur félagssamtök hafa húsnæði, þar sem þeim er leyft að taka íbúðarhúsnæði í Reykjavík undir félagsstarfsemi. Ég man ekki betur, en það væri leyft tveimur félögum í fyrra, og ég held það séu annaðhvort ein eða tvenn lög, sem eru hér líka í gangi á þessu þingi, kannske búið að samþykkja þau. Að öllu athuguðu sé ég ekki annað en það sé eiginlega ekki hægt með nokkurri sanngirni að vera á móti því. Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en ég vona, að frv. verði samþykkt óbreytt.