10.11.1958
Neðri deild: 18. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (9)

40. mál, þingsköp Alþingis

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Ekki tekst nú betur fyrir hv. þm. G-K. að reyna að koma sér út úr vandanum. Nú tekur hann það ráð að lesa hér hluta af yfirlýsingu Sjálfstfl., þeirri sem hann birti fyrir forsrh. og fleirum, um stefnu Sjálfstfl. í málinu. Þessi yfirlýsing Sjálfstfl. var um það að meginatriðinu og hann auðvitað kaus að hlaupa yfir að lesa það upp, að Sjálfstfl. legði til, að málinu yrði frestað — eins og þar stóð — í nokkrar vikur og það var þar, sem brast á við Sjálfstfl., að Framsfl. og Alþb. voru andvíg því að fresta málinu á þessu stigl. Sjálfstfl. lagði til, að því yrði frestað, en segir svo, að hann sé andvígur í efnisatriðum og málsmeðferð og segir, að ef málinu væri frestað, þá sé það hans trú, að það mætti skýra það svo út fyrir fulltrúum í NATO, að ef til vill mætti fást nauðsynleg rétting á grunnlínum. En fulltrúi Sjálfstfl. var bæði á undan þessari yfirlýsingu og á eftir og ég fullyrði: daginn áður en gengið var frá reglugerðinni, sem gefin var út, þá var hann spurður að því í nefndinni, hvort hann styðji einhverjar breytingar á grunnlínum og hvaða breytingar hann vilji styðja. Frammi í nefndinni lá till., skrifleg till. um breytingar á grunnlínum. Þá hafði þessi fulltrúi Sjálfstfl. engar tillögur að gera og gat ekki stutt þá till., sem fram hafði verið lögð. Þetta er auðvelt að sanna með framburði allra þeirra manna, sem í nefndinni voru. Nei, sannleikur málsins var sá, að allt tal Sjálfstfl. á þessu stigi málsins og þá fyrst og fremst formanns flokksins um það, að hann vildi breytingar á grunnlínum, var bundið við það, að hann vildi tala um að breyta grunnlínum, vildi ekki segja, í hverju breytingin ætti að vera fólgin, vildi ekki samþykkja með öðrum neina tiltekna breytingu, en vildi fresta málinu um óákveðinn tíma til að tala við okkur fjandsamlega aðila í málinu, m.a. um samninga, sem voru stórhættulegir, varðandi grunnlínurnar og væri málefni út af fyrir sig að skýra frá því. Sjálfstfl. og form. hans fá ekki hlaupizt frá þeirri staðreynd, að fulltrúi flokksins lagði aldrei fram í landhelgismálanefndinni eina einustu tillögu um breytingu á grunnlínum og studdi ekki þá till., sem lögð var fram í nefndinni og aðspurður, daginn áður, en endanlega var gengið frá málinu í landhelgismálanefnd, þegar bæði fulltrúi Alþb. og fulltrúi Framsfl. lýstu því yfir, að þeir væru reiðubúnir, ef það mætti verða til samkomulags, að breyta grunnlínum, þá fékkst fulltrúi Sjálfstfl. ekki til þess að samþykkja slíkt. Frá þessum staðreyndum verður nú ekki hlaupið, hvernig sem menn vilja reyna að vefja það inn í einhverjar yfirlýsingar, sem flokkurinn hafi gefið út, — samtímis því að hann vildi fresta málinu óákveðinn tíma, — um það, að hann vildi reyna að sannfæra einhverja útlendinga um það, að ætti að breyta grunnlínum.

Sá flokkur, sem í fullri alvöru hefði við þessa meðferð málsins haft mótaða stefnu í því, hvernig ætti að breyta grunnlínunum, hefði vitanlega átt að gera einhverjar till. En ég er hræddur um, að hann finni seint þær till., sem fulltrúi flokksins lagði fram í undirbúningi málsins um breytingar á grunnlínum. Ég er hræddur um, að hann finni það heldur seint, svo að hann verður nú að sætta sig við það að hlaupa gersamlega frá þessum stóru orðum sínum í einu og öllu og hafa einnig litla sæmd af því að hafa minnzt hér á grunnlínubreytinguna, — eins og það mál liggur fyrir.