13.08.1959
Efri deild: 9. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

3. mál, kosningar til Alþingis

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þó að það sé búið að gera á þessu lagafrv. margar breyt., sem breyta því ákaflega mikið, eru samt nokkur atriði í því enn, sem ég hefði gjarnan viljað óska eftir að nefndin tæki til meðferðar og athugaði milli 2. og 3. umr.

Ég skal leyfa mér að benda á þessi atriði, sem ég tel helzt ástæðu til þess að athuga nánar. 2. gr. frv. mælir svo fyrir, að enginn, sem telst hafa óflekkað mannorð, sem er sekur eftir dómi um verk, sem svívirðilegt er að almenningsáliti, hafi kosningarrétt, nema hann hafi fengið uppreisn sinnar æru. Þetta er í samræmi við 4. lið í 1. gr. og í samræmi við stjórnarskrána. Nú er þetta svo, að Reykjavík er eina kjördæmið á landinu, sem framfylgir þessu, þegar kjörskrá er samin. Þegar búið er að gera að henni fyrstu nafnaskrá skriflega, er farið til sakadómara og fengið að sjá, hvaða nöfn eru hjá honum, sem hafa verið svipt kosningarrétti og ekki eiga að standa á kjörskrá og þau strikuð út. Hvergi annars staðar á landinu er þetta gert. Við síðustu hreppsnefndarkosningar mun hafa skapazt meiri hluti í einum hreppi hér á landi með svona atkvæðum, sem alls ekki áttu á kjörskrá að vera. Og þegar talað var um að kæra það, varð eftir nokkurt stapp samkomulag um að gera það ekki, en sveitarstjórinn var tekinn úr minni hlutanum. Meiri hluti hreppsnefndar, sem varð til á atkvæði manns, sem atkvæðisréttur hafði verið dæmdur af, réð sveitarstjóra, sem var á móti henni. Það varð sættin. Við alþingiskosningar 1956 voru þar a.m.k. tveir menn, sem kosningarréttur hafði verið dæmdur af, látnir kjósa.

Nú er náttúrlega hægt að hugsa sér, að þetta sé lagað á tvo ólíka vegu: annars vegar með því, að þess sé gætt í framkvæmdinni, að þessir menn standi ekki á kjörskrá, en svo er líka hægt að hugsa sér það með því að láta þessa menn hafa kosningarrétt eins og aðra. Alþ. hefur sett þyngingu á refsingu til einstakra manna viðvíkjandi einstaka brotum. En til hvers er Alþingi að setja slík lög, sem ekki eru framkvæmd nema þá af sumum? Það getur vel verið, að menn sjái sér ekki fært að eiga við þetta núna, en ég vil þá beina þessu alvarlega til þeirra manna, sem koma til með, áður en langt um liður, að reyna að gera vit úr stjórnarskránni, sem nú gildir, því þó að þessi breyt. sé komin á hana, sem hér er verið að samþykkja, er hún jafnvitlaus fyrir það og milli 20 og 30 ákvæði í henni, sem allir eru sammála um að þurfi að breyta. Þetta var fyrst af því, sem ég vildi benda á.

Annað, sem ég vildi benda á er, að það er ætlazt til þess, að kjörstjórnir séu kosnar á Alþingi, eftir því sem l. hljóða núna, en af sýslunefndum í kjördæmunum, eins og brtt. þeirra eru um, þm. S-Þ. og þm. Str. Nú er ekki nein borgaraleg skylda mér vitanlega að taka við kosningu í kjörstjórn. Það er hvergi stafur um það. Maður, sem Alþingi kýs til að vera í kjörstjórn einhvers staðar eftir frv., eins og það er núna, er alls ekki skyldur til að taka við því. Ég þekki það a.m.k. ekki. Hann veit ekki heldur, hvað hann á að fá fyrir það borgað. Það er ekki stafur um það í l., hvað á að borga fyrir það að vera í kjörstjórn. Það er bara sagt, hvernig kostnaði eigi að skipta niður, og það mun hafa verið svo, að kjörstjórnir hafa sett mjög misjafnt upp fyrir að sitja í kjörstjórn. Þarf ekki að setja inn einhver ákvæði um það, að þeir, sem kosnir eru í kjörstjórn, séu skyldugir að taka við kosningu, gera það að borgaralegri skyldu að taka við kosningu í kjörstjórn og þarf ekki að setja ákvæði um það, hvaða greiðslur þeir eigi að fá fyrir að sitja í kjörstjórn, svo að þeir viti, að hverju þeir ganga og að það sé eins um allt landið fyrir jafnlangan vinnutíma, hvað ekki hefur verið? Ég held, að eigi að setja ákvæði um þetta. Ég vildi biðja n. að athuga það.

Ef verður horfið að því ráði að láta Alþingi kjósa þessa menn, vil ég líka benda á, að það getur farið svo, að kjörstjórn verði alls ekki starfhæf. Við skulum segja, að Alþingi núna kjósi í þessar kjörstjórnir og það eru venjulega kosnir í svona starf menn, sem orðnir eru rosknir, reyndir, skynsamir menn, sem hafa hingað til verið kosnir um allt land án nokkurrar flokkapólitíkur, því að þetta eru nokkurs konar dómendur, sem eru hafnir upp yfir það að láta flokkaágreining ríkja. Nú skal ég t.d. taka Norður-Múlasýsluna. Síðan viku fyrir kosningar hafa dáið fjórir af þeim helztu bændum héraðsins, sem mundu hafa verið settir bæði sem varamenn og aðalmenn, kannske tilviljun, en slík tilviljun getur alltaf komið fyrir. Menn, sem við kjósum núna í þetta, geta dáið, áður en á að fara að kjósa í haust. Það er þú nokkuð þangað til og ekki verður Alþingi kallað saman til að kjósa menn í staðinn, það er útilokað. Sýslumaðurinn hringir í sýslunefndarmennina, þegar á að setja mann í staðinn og þeir koma sér saman um það í síma eða finnast eftir því, hvað sýslan er stór. En það er alveg útilokað, að Alþingi geti fyllt í skörðin í þessu tilfelli. Þess vegna þarf að setja undir þennan leka, ef Alþingi á að kjósa þá. Ég held a.m.k., að það sé alveg nauðsynlegt að gera það. Þetta vildi ég nú biðja n. að athuga.

Ég er ekki ánægður með þessa 15 menn. Mér er kunnugt um, að þetta hefur ekki verið skilið eins og formaður n. vildi láta skilja það hér. Mér er kunnugt um það af því, að við síðustu kosningarnar voru lagðar niður kjördeildir, sem voru komnar niður í 18 menn, en hafa staðið í stað við undanfarnar kosningar margar, lagðar niður af viðkomandi hreppsnefnd, af því að hún taldi, að samgöngur hefðu batnað þar, að ekki væri beint þörf á sérstakri kjördeild lengur. Þeir fengu þess vegna ekki að halda sinni kjördeild. Allra ljósast dæmi er náttúrlega um Möðrudal og Víðidal, tvo bæi í Norður-Múlasýslu, sem liggja í eitthvað 80–100 km fjarlægð frá kjördeildinni, sem þeir ættu að vera í. Þar eru núna 16 kjósendur. Margt af þeim eru unglingar á aldrinum frá því að vera nýbúnir. að fá kosningarrétt og upp í það að vera svona um þrítugt og náttúrlega fara þeir að fljúga úr hreiðrunum mjög fljótlega. Ég get búizt við, að þeir fari niður í 15, kannske 14 mjög fljótlega, það veit náttúrlega enginn um það. En hví í ósköpunum, jafnvel þó að það væru ekki nema sárfáir þarna, þótt það væri komið niður í 8 eða 9, ætti að neyða þessa menn til að fara alla þá vegalengd, sem þeir þurfa að fara niður á Jökuldal, til að kjósa? Hví á ekki að leyfa þeim að vera, a.m.k. þangað til þeir verða orðnir svona 12 eða eitthvað svoleiðis?

Ég tek nú þetta dæmi, af því að ég þekki það allra bezt, en það eru dæmi til svipuð víðar, ekki kannske eins, — hvergi kannske eins langt og yfir fjöll að fara eins og í þessu tilfelli, en þó samt mjög afskekkt og mjög einangruð og þar þarf að halda kjördeildinni. Við verðum að gá að því, að þarna getur tvennt komið til greina. Nú er ég ekki að tala um það sérstaklega viðvíkjandi þessari kjördeild. En þarna getur tvennt komið til greina, sem geri það að verkum, að hreppurinn kæri sig ekki um að hafa þessa kjördeild og þess vegna þurfa mennirnir að hafa sinn rétt. Annað er það, að kjördeildin kostar peninga. Hún kostar kjörstjórn þessi kjördeild og ef ég man rétt, þá er það hreppurinn, sem borgar hana. Það getur verið þess vegna hrein sparnaðarráðstöfun hjá hreppnum. Það vil ég ekki hafa, heldur leyfa kjördeildinni að vera áfram. Svo getur hitt líka verið, — ég tek það enn fram, að ég er ekki með því á neinn hátt að segja, að slíkt eigi sér stað þarna, ég get sagt það hér í þd., að allir í Möðrudal eru framsóknarmenn, meiri hlutinn í hreppsnefndinni í Jökuldalnum og það mikill meiri hluti eru sjálfstæðismenn, — þarna er hægt að koma við pólitík, með því að hreppsnefndin bara kalt og rólega segi: Ég verð víst að leggja þessa kjördeild niður. — Þá veit hún, að það geta ekki allir sótt, geta ekki allir farið heiman að, það er útilokað. Þess vegna getur þarna verið til staðar aðstaða, sem hægt er að nota pólitískt og þess vegna er enn síður ástæða til þess að þrengja að því, að svona smástaðir út úr skotnir, liggjandi langt frá öðrum bæjum, geti fengið að vera sérstök kjördeild út af fyrir sig og þess vegna vildi ég mjög ákveðið mælast til þess, að þeir athuguðu það betur, hvort ekki væri rétt að fara a.m.k. niður í töluna 12.

Það eru hér nokkur atriði fleiri, en ég held nú samt sem áður, að ég láti þetta nægja, en það er þetta: Ég held, að það sé nauðsynlegt að taka fram í l. sjálfum, hvað á að borga kjörstjórnunum, svo að þeim verði borgað sambærilegt dagkaup um land allt, og ef það er meiningin að láta Alþingi kjósa þær, þá þarf að búa betur um það, en gert er til að tryggja, að það sé hægt að starfrækja þær, þó að tveir menn deyi samtímis í einni sýslu á t.d. þrem vikum, frá því að Alþ. hefur kosið þá, þangað til á að fara að kjósa, — ég tala nú ekki um, ef það liða 1–2–3 ár á milli. Þær geta orðið gersamlega óstarfhæfar, þegar Alþingi á að skipa menn, þó að það sé einn varamaður fyrir hvern mann.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég vildi benda á þetta. Og ég vil sérstaklega undirstrika það, að ég held, þó að það væri kannske ekki gert núna, að það eigi að hætta að svipta mann kosningarrétti, þó að hann hafi brotið eitthvað af sér, sem kallað er svívirðilegt. En það er ekki hægt að gera það, meðan það stendur í löggjöfinni. Þetta er líkt og var með þeginn sveitarstyrk. Maður, sem hann hafði þegið, hafði ekki kosningarrétt. Þessu var breytt, og eins á að gera hér.