29.07.1959
Neðri deild: 6. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Stjórnarskrárnefnd þessarar hv. d. hefur haldið tvo fundi um þetta mál og á síðara fundinum var málið afgreitt. Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram og getið er í nál. þess nefndarhluta, mælir meiri hl. með því, að frv. sé samþykkt. Við hv. þm. A-Sk., sem stöndum að áliti minni hl., sem útbýtt hefur verið nú í fundarbyrjun á þskj. 10, gerum sérstaka till. um meðferð málsins, sem prentuð er í því nál. á bls. 3.

Ég ætla ekki að svo stöddu að gera aths. við þau ummæli, sem hv. frsm. meiri hl. lét falla varðandi úrslit kosninganna, en ég mun koma að því efni síðar.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er eitt þeirra þingmála, sem mesta andúð hafa vakið í landinu. Sú andúð á sér djúpar rætur. Ég hygg, að upphafsmenn frv. hafi enn ekki gert sér grein fyrir því til fullnustu, hve vinsældir þess eru litlar með þjóðinni. Meðal almennings á það sér hlutfallslega fáa formælendur, miðað við fylgi þeirra flokka, sem að því standa. Það var athyglisvert fyrir kosningarnar, a.m.k. víða, hvað fylgismenn Sjálfstfl., Alþfl. og Alþb. margir hverjir voru tregir til að tala um þetta mál. Um flest annað vildu þeir fremur tala. Af hálfu formælenda málsins hefur verið reynt að túlka það sem mannréttindamál. En þetta mannréttindamál, sem svo er nefnt, er að því leyti ólíkt öðrum mannréttindamálum, að það virðist enga hrifningu hafa vakið hjá neinum. Þeir, sem mannréttindanna áttu að njóta, hafa ekki gefið sig fram til að halda sína frelsishátíð. Það er eins og enginn taki það til sín, að aukin mannréttindi séu í boði. Nú mætti að vísu vænta þess, að fólkið fagnaði því, þar sem það á að fá fleiri fulltrúa, en áður á löggjafarþinginu. En sennilega er mönnum það ljóst á þeim stöðum, að þessa aukningu á fulltrúatölu þar var hægt að fá, að um það gat orðið samkomulag og ánægjan yfir þessari réttarbót, ef svo mætti að orði komast, hefur áreiðanlega minnkað hjá mörgum, þegar það kom í ljós, að hún var að nauðsynjalausu tengd réttarsviptingu hjá öðrum landsins börnum, sem vissulega standa ekki of vel að vígi í lífsbaráttunni.

En jafnskjótt sem þetta frv. kom fram á Alþ. í vetur og raunar fyrr, um leið og fréttir tóku að berast um samtök þau, er að því stóðu og hvers efnis það mundi verða í aðalatriðum, þá tóku að streyma til Alþingis mótmæli víða að af landinu. Að þessum mótmælum stóð fólk úr öllum stjórnmálaflokkum. Fjöldi manna kvaddi sér hljóðs á opinberum vettvangi, héraðskunnir menn og þjóðkunnir, ég held úr flestum eða öllum kjördæmum landsins, til að mótmæla því, sem til stóð. Þarna komu fram í íslenzkum blöðum mótmælagreinar, sem voru svo snjallar eða af svo ríkum sannfæringarkrafti fram bornar, að þeirra mun lengi verða minnzt. Blaðagreinar af þessu tagi verða ekki til nema á stórum stundum í lífi þjóðarinnar, í sjálfstæðisbaráttu, í baráttu fyrir frelsi, í baráttu gegn yfirgangi og valdníðslu. Slíkar greinar geta menn lesið í blöðum frá fyrsta áratug þessarar aldar. Þannig var Íslendingum innanbrjósts eftir þjóðfundinn fyrrum og þannig var þeim innanbrjósts, sem nú tóku upp baráttu heima í héruðunum gegn framgangi þessa máls, sem hér er til umr. í dag í þessari hv. d.

En hvað var það þá í þessu frv., sem reisti þessa mótmælaöldu og hvatti svo marga, sem sjaldan láta til sín heyra, til að tala til þjóðarinnar? Það var ekki ákvæði frv. um að fjölga þingmönnum, þó að sumum finnist að vísu fátt um þá ráðstöfun. Við þá breyt. gátu margir sætt sig sem lausn á erfiðu vandamáli. Það, sem mótmælunum olli, það sem baráttan hefur staðið um og stendur enn, eru ákvæðin í a– og b–lið 1. gr. frv. um það, að héraða- og kaupstaðakjördæmin öll utan Reykjavíkur skuli lögð niður, en í þeirra stað stofnuð 7 stór kjördæmi með hlutfallskosningum. Í öðru lagi töldu menn það glapræði að taka ákvæðin um kjördæmaskipun til fyrri meðferðar samkv. sérsamningi þriggja þingflokka í stað þess að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, eins og heitið hafði verið og búizt var við að gert yrði. Menn höfðu heldur ekki trú á því, að hin fyrirhugaða kjördæmaskipun hefði bætandi áhrif á val og störf þingmanna. Svo stór geta kjördæmin orðið, að þm. verði of smáir, sagði bóndi á Norðurlandi í vor.

Í nál. minni hl. á þskj. 10 er í stuttu máli gerð grein fyrir nokkrum meginatriðum þeirra raka, sem andstæðingar frv. hafa borið fram gegn því á Alþ. og í kosningabaráttunni og þá sérstaklega þeim rökum, sem borin eru fram gegn afnámi kjördæmanna. Ég leyfi mér að vísa til þess, sem í nál. stendur um það efni.

En þetta er ekki í fyrsta sinn, sem utan að komandi vald hefur viljað taka landsréttindi af íslenzkum mönnum. Það var reynt og gert fyrr á tímum, þegar landið í heild var hluti af ríki konunga í Noregi og Danmörk. Nú er komið að réttindum héraðanna og kaupstaðanna. Það er ekki útlent konungsvald, sem nú seilist til réttindanna. Það er flokkavaldið innlenda, vald flokksstjórnanna í höfuðstaðnum. Við erum að vísu ekki stödd á 14. öld. Þó er Ísland allt enn þá byggt afkomendum þeirra manna, er þá vörðu réttinn á Hegranesþingi og víðar. Og enn þóttust menn kenna Hákon hálegg og Álf úr Króki og þeirra svip á þessu máli.

Þessi gerbreyting á kjördæmaskipuninni var á síðasta þingi knúin fram með ofurkappi og furðusterkri trú á það, að hægt sé að bjóða hinum almenna kjósenda hvað sem er, ef ráðamenn í flokki, sem kjósandinn hefur stutt, standa að því, sem gert er. Undirbúningur þessa stórmáls var í rauninni enginn. Það var gengið fram hjá mþn. í stjórnarskrármálinu, sem að sjálfsögðu hefði átt að fjalla um málið, áður en það var lagt fyrir Alþingi. 27 kjördæmi átti að leggja niður, án þess að t.d. forráðamenn sýslu- og bæjarfélaga væru spurðir, landið síðan hólfað sundur í 8 stór kjördæmi, án þess að nokkur ábyrgur aðili úti um land væri spurður, væri t.d. spurður um það, hvar heppilegast væri að setja takmörk þessara 8 kjördæma, ef þau áttu að koma á annað borð. Þessi ráðstöfun byggist m.ö.o. ekki á neinni rannsókn, ekki á samráði við neinn eða neinu eðlilegu samstarfi. Hún byggist á sérsamningi milli þriggja þingflokka, sem vilja fjölga þingmönnum sínum og nota aðstöðu sína til að efla flokkavald á kostnað héraðavalds í landinu.

Við framsóknarmenn á Alþ. vildum, að þetta mál fengi sómasamlegan undirbúning milli þinga, til næsta þings. Þegar það fékkst ekki, lögðum við fram samkomulagstill. Við gerðum úrslitatilraun til að bjarga héraðakjördæmunum. Við lögðum fram ákveðnar till. um fjölgun þingmanna í þéttbýlinu, sem telja mátti sanngjarnar, og gerðum jafnframt ráð fyrir, að uppbætur héldust, þannig að þingmannatala yrði allt að 60. Við vorum reiðubúnir til að leggja fram lið okkar til að mynda samstjórn allra þingflokka til að reyna að leysa þetta mál og fleiri með samkomulagi, sem vel virtist hæfa á þeim hættutímum, sem nú eru fyrir þjóðina á ýmsan hátt. En svo mikill var því miður ákafi þeirra manna, sem að þessu máli standa, að við engu slíku var litið. Það sýndust þó vera almenn og einföld rök í þessu máli, að fólki í þéttbýlinu ætti ekki að vera það neitt sérstakt kappsmál að fá fulltrúatölu sína endilega aukna á þann hátt, sem fjölda manns um land allt væri sérstaklega á móti skapi, ef hægt var að fá sömu þingmannatölu á annan hátt með betra samkomulagi. Ég skil satt að segja ekki þá óbilgirni að geta ekki verið til viðtals um annað eins og þetta. En árangur af ábendingum í þessa átt varð enginn. Því var svarað, að óþarft væri að ræða þetta mál, því væri þegar til lykta ráðið og þar yrði engum stafkrók breytt. Með þessu hugarfari var kjördæmabyltingin ráðin á síðasta Alþ.

Þeir, sem að kjördæmabyltingunni standa, kalla hana réttlætismál. Þeir segja, að stjórnarskráin sé ranglát í þessum efnum. Stjórnarskráin byggir á þeirri forsendu, að landið eigi að vera byggt. Hvers vegna? Vegna þess, að ef stórir landshlutar eru lagðir í eyði, er sjálfstæði þjóðarinnar í hættu, og stjórnarskrá verður að vera við það miðuð að tryggja, svo sem unnt er, sjálfstæði ríkisins. Til þess að stuðla að því, að héruðin haldist í byggð, ætlar stjórnarskráin þeim sjálfstæði, takmarkað sjálfstæði innan ríkisheildarinnar. Og þetta takmarkaða sjálfstæði er m.a. í því fólgið að áskilja þeim rétt til sérstakra fulltrúa á Alþ. og það eins þó að sum þeirra séu eitthvað fámennari en önnur. Það er misskilningur, að slíkur réttur fari í bága við almennar lýðræðisreglur. Og við Íslendingar ættum að fara varlega í það að vera með slíkt tal. Eða eigum við að halda því fram t.d., að það sé lýðræðisbrot í samstarfi þjóðanna, sem væntanlega fer vaxandi, að Ísland hafi þar eitthvað meiri atkvæðisrétt, en höfðatalan segir til um? Atkvæðisréttur getur byggzt á höfðatölu og það réttilega, eins og hann gerir nú hér á landi innan hvers kjördæmis. En hann getur líka byggzt á sjálfstæði eða sérstökum landsréttindum innan ríkisheildar. Það er ekkert einsdæmi, að landshlutar hafi sérstök landsréttindi af ýmsu tagi. Með þessum kjörum, þ.e.a.s. með landsréttindunum, eru þessir landshlutar þátttakendur í ríkisheildinni. Svona var það hér á þjóðveldisöld, svona er það enn, meðan kjördæmaskipunin helzt eins og hún hefur verið í meginatriðum, þ.e.a.s. grundvöllur kjördæmaskipunarinnar. Þau landsréttindi eru hefðbundin í augum manna, sem þeirra hafa notið, eitthvað líkt og eignarrétturinn eða mannhelgin eða friðhelgi heimilanna. Ríkisheildin hefur að sjálfsögðu ýmiss konar vald og máske löglegar aðferðir til að afnema hefðbundinn rétt af ýmsu tagi, líka landsréttindi með að takmarka sjálfstæði héraða. En með fullri gát skyldi slíkt gert.

En eins og ég sagði áðan, var málið knúið fram á Alþingi, þingið rofið, af hálfu þeirra, sem að málinu stóðu, ekkert reynt til samkomulags í málinu. Og síðan var efnt til sérstakra kosninga vegna breytinga á stjórnarskránni. Þessum kosningum er nú lokið og frv. hefur verið lagt fyrir Alþingi í annað sinn. Hljóti það nú samþykki, þá er stjórnarskrárbreytingin gengin í gildi og þar með afnám kjördæmanna.

Hæstv. forsrh., sem er nú víst ekki hér staddur á fundinum, sagði í framsöguræðu við 1. umr. þessa máls hér í hv. d. fyrir nokkrum dögum: „Má því með sanni segja, að þjóðin hafi látið vilja sinn í ljós um þessa breytingu á mjög ótvíræðan hátt, þar sem andstæðingar breytingarinnar hafa aðeins fengið stuðning rúmlega fjórða hluta þjóðarinnar.“ Þetta sagði hæstv. forsrh.

Framsfl., sem einn flokka beitti sér gegn afnámi kjördæmanna, mun hafa hlotið 27.2% allra greiddra atkvæða í kosningunum og má að vísu kalla það 1/4 hluta eða rúmlega það. Í kosningunum 1953, sem helzt má nota til samanburðar á fylgi flokka, hlaut hann 21.9%. En af þessum úrslitum dró hæstv. forsrh. þá ályktun, að með sanni mætti segja, að þjóðin hefði látið vilja sinn í ljós um stjórnarskrárbreytinguna á mjög ótvíræðan hátt. Hann er ekki einn í sínum hóp um að halda þessu fram nú eftir kosningarnar. Blöð allra flokkanna þriggja, sem að breytingunni standa, munu hafa sagt eitthvað svipað og mjög áberandi hefur þessi staðhæfing verið í aðalmálgagni Sjálfstfl., Morgunblaðinu. Nú hefur hv. minni hl. stjórnarskrárnefndar hér í hv. d. tekið undir þessar staðhæfingar í áliti sínu á þskj. 7, þó að hv. frsm. meiri hl. gerði sér að vísu nokkurt far um í framsöguræðu sinni að draga úr þessari fullyrðingu í nál., og er það að vonum. Það þarf í raun og veru talsvert mikla óbilgirni til að segja annað eins og þetta og mér kemur það í rauninni á óvart um mæta menn, að þeir skuli ekki hliðra sér hjá að láta sér slíkt um munn fara eða leggja nafn sitt við svona fullyrðingar; því að ég tel alveg þvert á móti, að með sanni megi segja, að mjög mikið og allt of mikið skorti á, að þjóðin hafi látið vilja sinn í ljós um þetta mál í kosningunum. Allir hv. alþm. vita, að ég fer hér með rétt mál. Þúsundir kjósenda munu votta það, a.m.k. fyrir samvizku sinni. Að þessu skal ég nú víkja.

Þegar þetta mál var til meðferðar á síðasta þingi í hv. Ed., var af hálfu framsóknarmanna rætt við fulltrúa frá hinum flokkunum um möguleika til að skilja atkvgr. um stjórnarskrárbreytinguna á einn eða annan hátt frá hinni almennu kosningu alþm., þannig að kjósendur ættu þess kost að láta í ljós á sérstakan hátt afstöðu sína til þessa máls, án þess að sú atkvgr. hefði áhrif á kosningu þm. Af hálfu hinna flokkanna voru þá þau svör veitt, að þeir gætu ekki fallizt á þjóðaratkvgr. í neinni mynd um þetta mál. Þeirra viðhorf var það, að kjósendur gætu látið sér nægja að láta í ljós vilja sinn með kosningu frambjóðendanna eða flokkslistanna.

Vissulega þurfti þó enginn að ganga þess dulinn, að margur flokksmaðurinn hlyti að komast í vanda, ef ekki væri hægt að greiða atkvæði gegn málinu nema með því móti að greiða um leið atkvæði gegn flokki sínum eða frambjóðanda hans og að gera mætti ráð fyrir, að vani og flokkstryggð mætti sín þá mikils við kjörborðið. Síðan flokkaskipun komst í fast horf hér á landi, nær ákvæði 1. málsgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar um sérstakar alþingiskosningar vegna stjórnarskrárbreytinga ekki lengur tilgangi sínum, nema þá helzt því aðeins, að flokkarnir sjálfir stuðli beinlínis að því með því að hvetja menn til að kjósa um stjórnarskrárbreytinguna.

En því fór mjög fjarri, að svo væri í þetta sinn. Frambjóðendur andstöðuflokks frv., þ.e.a.s. Framsfl., gerðu að vísu það, sem í þeirra valdi stóð, til þess að benda kjósendum á tilgang kosninganna og að taka bæri fyrst og fremst afstöðu til kjördæmamálsins og sama gerðu blöð þess flokks. En blöð þeirra flokka, sem að frv. stóðu, flokkanna sem höfðu neitað að fallast á sérstaka atkvgr. um málið samtímis kosningunum, — blöð allra þessara flokka og frambjóðendur þeirra yfirleitt héldu því þvert á móti fast að kjósendum, að stjórnarskrármálið væri ekkert höfuðmál í kosningunum, heldur aðeins eitt af mörgum, sem kjósa bæri um og sumt annað skipti jafnvel miklu meira máli, kosningarnar væru ekki frábrugðnar öðrum kosningum o.s.frv. Þar sem þessir flokkar höfðu margfaldan ræðutíma og blaðakost á við Framsfl., höfðu þeir að sjálfsögðu mjög góða aðstöðu til að koma á framfæri áróðri gegn því að láta kosningarnar snúast um stjórnarskrármálið og sú aðstaða var óspart notuð.

Aðferðin var þá þessi: Fyrst er neitað að fallast á sérstaka atkvgr. samtímis kosningunum og þessi neitun byggð á þeirri forsendu, að kjósendur geti valið milli frambjóðenda eftir afstöðu þeirra til stjórnarskrárbreytingarinnar. Síðan, þegar að kosningum kemur, er svo kjósendum sagt, að einmitt þetta skuli þeir ekki gera. Og svo er endað á því eftir kosningar, að lýsa yfir opinberlega, eins og hæstv. forsrh. gerði og eins og gert er í áliti hv. meiri hl. stjórnarskrárnefndar, að nú megi með sanni segja, að vilji kjósenda í stjórnarskrármálinu hafi komið í ljós á mjög ótvíræðan hátt. Það má segja, að þetta eru kaldir karlar, sem að þessu standa.

Nú mun það þykja sanngjarnt, eftir að ég hef látið svo um mælt, að ég finni orðum mínum stað og það skal ég líka gera, með leyfi hæstv. forseta. Alþýðublaðið, blað hæstv. forsrh., sagði hinn 31. maí s.l.: „Kosningarnar hljóta óhjákvæmilega að snúast fyrst og fremst um þá ríkisstj., sem hefur verið við völd fyrir kosningarnar. Þess vegna hljóta kjósendur nú fyrst og fremst að svara spurningum varðandi stjórn Alþfl.“ Síðan ber Alþýðublaðið fram fjórar slíkar spurningar varðandi stjórn Alþfl. Kjósandinn á að svara því, hvort hann hafi viljað utanþingsstjórn. Hann á í öðru lagi að taka afstöðu til dýrtíðarráðstafana Alþfl. Í þriðja lagi á hann að taka afstöðu til fjárlagaafgreiðslunnar og svo loks í fjórða lagi til kjördæmamálsins. Á eftir þessum fjórum spurningum kemur svo nokkru síðar fimmta spurningin og auðséð er, að blaðið telur hana raunar þýðingarmesta. Kjósandinn á eiginlega umfram allt að svara því, hvort hann ætli Alþfl. vaxandi hlutverk í þjóðlífinu. Ætli hæstv. forsrh. telji ekki, að með sanni megi segja, að þeirri spurningu hafi verið svarað á mjög ótvíræðan hátt?

Ég kem þá næst að málgagni Alþb., Þjóðviljanum. Hinn 28. júní birti Þjóðviljinn í forsíðufyrirsögn kjörorð kosninganna, en það var að hans dómi, eins og það er orðað þar: „Aukin framleiðsla. Réttlát skipting auðs. Gegn kaupráni og kjaraskerðingu. Tryggjum sigur í landhelgismálinu. Ísland fyrir Íslendinga.“ Um þetta var fólki sagt að kjósa, þ.e.a.s., um þetta sagði Þjóðviljinn, aðalmálgagn Alþb., fólki að kjósa, þ.e.a.s. um framleiðslu- og launamál, landhelgismál og síðasta setningin á sennilega eitthvað við varnarliðið eða þess háttar, en málið, sem olli því, að Alþingi var rofið, fær ekki rúm í aðalfyrirsögn blaðsins á kjördaginn.

Þetta hafði auðvitað sín áhrif. Ég þekki persónuleg dæmi og skal nefna eitt. Einn af fylgismönnum Alþb. í einu af kjördæmunum, sem á að leggja niður, mætur maður, lýsti í vetur opinberlega andstöðu sinni gegn afnámi kjördæmanna. Á framboðsfundi kvaddi þessi sami maður sér hljóðs. Eins og vænta mátti, þá stóð hann við það, sem hann hafði sagt. Hann var enn á móti afnámi kjördæmanna. En á kjördegi kvaðst hann þó verða að taka meira tillit til annarra mála, hann mundi þá kjósa sinn flokk sem fyrr. Annar fundarmaður benti þá á, að afnám kjördæmanna kynni í framtíðinni að reynast meiri háttar kjaraskerðing fyrir verkafólk þorpanna í dreifbýlinu og því miður er hætt við, að sú athugasemd kunni að hafa við einhver rök að styðjast.

Það er meira af þessu tagi. Í Þjóðviljanum 24. júní, eða nokkrum dögum fyrr, er nokkuð ákveðin leiðbeining varðandi höfuðtilgang kosninganna. Þar er upplýst í fyrirsögn, að á Íslandi séu 600 milljónarar. Síðan segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Kosningarnar á sunnudaginn snúast um það, hvort þeir (þ.e.a.s. þessir 600 milljónarar) eiga að safna meiri gróða á lækkuðu kaupi launþeganna.“ Þær snúast um það. En þetta tal um milljónarana, það minnir mig á atvik, sem gerðist á fundi, sem ég var staddur á rétt fyrir kosningarnar. Þar stóð upp ungur bóndi til að ræða um afnám kjördæmanna. Hann spurði: Hvernig höfum við misnotað okkar rétt, þannig að nauðsyn beri til að svipta okkur þessum rétti? Höfum við notað hann til að létta af okkur störfum eða tryggja okkur óeðlilega góð lífskjör? Eða höfum við notað hann til auðsöfnunar? Eru milljónararnir hér? — Og svo leit hann kringum sig á fundinum, og þar var a.m.k. enginn milljónari. En frambjóðendum þríflokkanna, sem þarna voru, vafðist tunga um tönn. Það var von. Þeir fundu það víst vel, að það voru alveg óskyld mál og raunar andstæð að afnema kjördæmin og kjósa á móti milljónörunum.

Og svo kem ég þá í þessum lestri loks að höfuðmálgagni Sjálfstfl. Morgunblaðinu og boðskap þess fyrir kosningarnar og þar er nú eins og oftar dálitið feitt á stykkinu og athyglisvert. Morgunblaðið sagði 16. júní: „Kjördæmabreytingin er mikið mál, en þó aðeins eitt af mörgum, sem nú er kosið um. Þeir, sem greiða Framsókn atkvæði nú, gera það því ekki vegna kjördæmamálsins, heldur af því, að þeir kjósa yfir sig á ný sams konar stjórnarfar og hér ríkti á vinstristjórnarárunum.“ Hvað segir nú hæstv. forsrh. um þetta og hvað segir t.d. hv. 1. þm. Reykv. (BBen), sem nú er forseti sameinaðs Alþingis? Hvað segir hv. frsm. meiri hl. stjórnarskrárnefndar, sem hér talaði áðan og flokksmenn hans? Þetta eru „þeirra eigin orð“, svo að notað sé heiti á útbreiddum kosningabæklingi frá Sjálfstfl. Var nú ekki von, að a.m.k. sjálfstæðismenn hikuðu við að kjósa um kjördæmamálið eftir þessa lexíu frá aðalmálgagni sínu, sem varaformaður flokksins og núverandi forseti sameinaðs þings stjórnar? Og geta svo sömu mennirnir sagt á eftir, að með sanni megi segja, að þjóðin hafi á ótvíræðan hátt látið vilja sinn í ljós um kjördæmamálið? Nei, það geta þeir ekki sagt og það gerði þjóðin heldur ekki á ótvíræðan hátt. Því miður skorti mjög mikið á, að svo væri og það er eins og ég hef fært rök að í þessari ræðu hér að framan, þar er að mjög miklu leyti áróðri flokkanna sjálfra um að kenna.

Ég hef rakið þetta nokkuð, þennan áróður fyrir kosningarnar, þennan áróður þeirra, sem að stjórnarskrárbreytingunni standa, fyrir því, að menn skyldu ekki láta kosningarnar snúast um það mál, sem var tilefni þingrofsins og kosninganna. Ég hef rakið það til þess að menn geti eða eigi af þeim orsökum enn auðveldara með að gera sér ljóst, að það hlaut að fara svo, að mjög mikið vantaði á, að afstaða yrði tekin til málsins í venjulegum þingkosningum. Ég hef rakið þetta vegna þess, að við minnihlutamenn í stjórnarskrárnefnd berum fram till. — um sérstaka meðferð þessa máls. Minni hl. telur, að úr þessu, sem mistókst í kosningunum, að verulegu leyti fyrir þann áróður, sem ég hef vikið að hér að framan, að úr því sé rétt og skylt að bæta eftir föngum og að enn sé hægt að gera ráðstafanir til þess, að vilji kjósenda komi fram, áður en málið hlýtur afgreiðslu á Alþingi. Minni hl. telur, að hægt sé að koma þessum ráðstöfunum í kring án þess að fella frv. að svo stöddu eða breyta því. Þetta er hægt að gera með því að fresta aukaþinginu nokkurn tíma og láta, á meðan þinghlé er, fara fram almenna atkvgr. í hverju kjördæmi um það meginatriði frv., sem átökum veldur hér á Alþingi og annars staðar, þ.e.a.s. hvort leggja skuli niður kjördæmin öll utan Reykjavíkur og taka upp í þeirra stað stór hlutfallskosningakjördæmi. Slík atkvgr. væri að vísu ekki lagalega bindandi. En þess er að vænta, að þm. tækju eðlilegt tillit til hennar við afgreiðslu málsins og jafnframt væri komið í veg fyrir, að það haldi áfram, sem nú á sér stað, að fjöldi kjósenda um land allt, sem kaus flokka sína eða frambjóðendur þeirra í kosningunum 28. júní, liggur óréttilega undir því ámæli að hafa viljað leggja kjördæmin niður.

Ef till. minni hl. verður samþ. við þessa umr., þá ætti atkvgr., sú almenna atkvgr. í hverju kjördæmi, sem gert er ráð fyrir í tillögunni, að geta farið fram sunnudaginn 23. ágúst n.k. og ef til vill fyrr. Þegar að lokinni talningu í kjördæmunum gæti aukaþingið komið saman og afgreitt frv., hvernig svo sem sú afgreiðsla þá yrði. Kosningar til Alþingis gætu síðan farið fram síðari hluta októbermánaðar, ef þeirra reynist þörf.

Ef till. minni hl. verður samþ., má væntanlega gera ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. aflaði sér heimildar til þingfrestunar, ef á þarf að halda, þar sem málið mundi að öðrum kosti ekki koma til frekari meðferðar á aukaþinginu.

Ég leyfi mér svo að öðru leyti að vísa til nál. minni hl. á þskj. 10 og þeirrar till. til rökstuddrar dagskrár, sem prentuð er á því þskj.