14.08.1959
Efri deild: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

4. mál, almannatryggingar

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Þessi hv. d. neitaði áðan með atkvgr., að þetta mál væri tekið fyrir á þeim fundi d., sem þá stóð yfir og með því sýndi meiri hluti þessarar hv. d. það þegar, að hann vill ekki stuðla að því, að þetta frv., sem þegar hefur náð fullnaðarsamþykki hv. Nd., nái fram að ganga á þessu þingi. Með því hafa þeir hv. þdm., sem að þessari atkvgr. stóðu, þegar sýnt hug sinn til þessa máls, að þeir unna því ekki framgangs á þessu þingi. Mæli ég þetta sérstaklega til þeirra hv. þm. Alþfl., sem hér eiga sæti og stundum hafa látið svo sem þeim væri ljóst, hvílíkt ranglæti felst í þeim ákvæðum almannatryggingal., sem hér er lagt til að fella niður. En þegar á hólminn kemur, kemur það í ljós. Og þegar það er sýnt, að hér getur verið meiri hl. í þessari hv. d. eins og í hv. Nd. fyrir því, að þetta nái fram að ganga og þau ranglátu ákvæði, sem hér er um að ræða, verði úr gildi felld, þá brestur kjark þessara hv. þm. Þá gerir réttlætistilfinningin, sem glamrað er með fyrir kosningar, ekki lengur vart við sig. Hér í þessari hv. d. á sæti hæstv. félmrh., og mæli ég þetta ekki sízt til hans.

Það þarf ekki að hafa mörg orð til þess að gera grein fyrir því, sem felst í því frv., sem hér liggur fyrir, að fella niður þau ákvæði almannatryggingalaganna, sem skerða elli- og örorkulífeyri, sem gömlu fólki er ætlaður til lífsframfæris. Það hefur svo oft hér á hv. Alþ. verið rætt um þessi ákvæði, hve ranglát þau séu, að ég þarf ekki að halda langa ræðu um það. Það er öllum hv. þm., sem átt hafa sæti á undanförnum þingum, kunnugt, að um þetta hefur verið rætt í hvert skipti, sem almannatryggingalög hafa komið fyrir Alþ. til endurskoðunar, en það er nú orðið oft. Á síðasta þingi var flutt hér frv., sem átti að bæta úr ýmsum ágöllum, sem enn felast í almannatryggingalögunum og virtist mér, að hæstv. ríkisstj. stæði að því og léti svo sem hún hefði mikinn áhuga á framgangi þess máls.

Það vita allir, að engir, hvorki einstaklingar né hjón, geta lifað á þeim ellilífeyri, sem almannatryggingalögin nú gera ráð fyrir. En skerðingarákvæðin í 22 gr. l. eru þess efnis, að hinn naumi elli- og örorkulífeyrir samkv. 13. gr. l. er því aðeins greiddur, að aðrar tekjur hlutaðeigandi fólks, en bætur samkv. tryggingal. fari ekki fram úr lífeyri á 1. verðlagssvæði, en skerðist og fellur að síðustu niður, ef tekjur einstaklinga eru þar fram yfir. Ellilífeyrir á 1. verðlagssvæði fyrir einstaklinga er nú 4.680 kr., en 3.510 kr. á 2. verðlagssvæði.

Það er vitanlegt, að þessi skerðingarákvæði verka mjög mismunandi fyrir fólk eftir því, hvernig ástatt er með það. Í sveitum t.d., þar sem gamalt fólk fær ekki greitt kaup í reiðufé, verka þessi skerðingarákvæði ekki. Í bæjum, þar sem gamalt fólk fær kaup greitt, sem kemur fram til skatts, verka þessi skerðingarákvæði til fulls og þá er tekin n af ellilífeyririnn, skertur eða felldur niður með öllu. Þannig eru þess mörg dæmi, þó að ætlazt sé til þess, að fólk fái lífeyri við 67 ára aldur og látið svo heita, að það eigi að vera lífeyrir, sem það getur dregið fram lífið á, þá er svo ekki og þetta fólk verður að vinna fyrir sér, stundum fulla vinnu, löngu eftir að starfskraftar þess eru þrotnir og hið opinbera, þjóðfélagið, kemur því þá ekki á nokkurn hátt til hjálpar, með því að elli- og örorkulífeyririnn er þá með öllu felldur niður.

Eins og ég sagði áðan, veit ég, að öllum hv. þm., sem hafa tekið þátt í umr. um almannatryggingalög, er vel ljóst, hvað hér er um að ræða, að hér er um að ræða fullkomið réttlætismál, sem hins vegar kostar almannatryggingarnar ekkert stórfé, — réttlætismál, sem menn hljóta að viðurkenna með sjálfum sér og viðurkenna rétt fyrir kosningar, en hefur skort kjark til að standa að og nema úr lögum, þegar til þings hefur komið. Svo hefur það verið stundum með hv. þm. Alþfl., sem átt hafa sæti í þessari hv. d. Ég er oft búinn að standa að því hér á þingi að flytja till. um að fella niður þessi skerðingarákvæði eða draga úr þeim, en það hefur skort til fylgi Alþfl.-þm., sem hér hafa átt sæti og það er ljóst, að svo er enn. Nú er þessu máli komið svo, að hv. Nd. hefur samþykkt frv. um að fella niður þessi ranglátu ákvæði að fullu og þannig er þetta mál komið til þessarar hv. d. Það þyrfti því ekki annað en meðferð á tveimur fundum til viðbótar þessum, til þess að þetta réttlætismál næði fram að ganga á þessu þingi.

Ég veit, að þetta mál hefur verið athugað vel í hv. heilbr.- og félmn. Nd. og vafalaust hafa nefndarmenn þar haft samband við Tryggingastofnun ríkisins og gert sér ljóst, hvað kosti að fella niður þessi ranglátu ákvæði. Ég geri því ekki ráð fyrir því, að það þyrfti að tefja lengi störf þessarar hv. þingdeildar að ganga frá þessu máli.

Ég vil enn, þrátt fyrir atkvgr., sem hér fór fram áðan og raunar sýndi, eins og ég áðan sagði, hug vissra hv. þdm. til þessa réttlætismáls, gera mér vonir um það, að hv. þdm. fallist á, að tími sé til kominn að fella þessi ranglátu ákvæði l. úr gildi, og það verði gert hér í hv. þingdeild.