23.07.1959
Neðri deild: 3. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, þá samþykkti síðasta þing frv. til l. um breyting á stjórnskipunarlögum landsins. Að þessari breyt. stóðu þá 3 flokkar þingsins af 4 með samtals 35 þm. að baki, en einn flokkur með 17 þm. var á móti.

Efnislega skal ég ekki fara út í að rekja þá breyt., sem í frv. fólst. Hún er öllum hv. þm. svo kunn, bæði frá umr. hér á Alþ., útvarpsumræðum, blaðaskrifum og umræðum sennilega á flestum eða öllum kosningafundum, sem síðan hafa verið haldnir, að ég tel óþarft að fara út í að rekja það frekar.

Eftir að frv. hafði verið samþykkt, var þingið rofið og efnt til nýrra kosninga, eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Þessar kosningar fóru fram 28. f.m. Niðurstaða þessara kosninga varð sú, að þeir þrír flokkar, sem að breyt. stóðu, fengu samtals rúmlega 70% greiddra atkvæða og 33 þm. kjörna. Andstæðingar breyt. fengu rúmlega 27% greiddra atkvæða og 19 menn kjörna. Þjóðvarnarflokkurinn, sem ekki hafði átt mann á Alþ., þegar þetta mál var afgreitt, fékk 21/2 % greiddra atkvæða og engan mann kjörinn. Má því með sanni segja, að þjóðin hafi látið vilja sinn í ljós um þessa breyt. á mjög ótvíræðan hátt. Þar sem andstæðingar breyt. hafa aðeins fengið stuðning rúmlega 1/4 hluta þjóðarinnar, þó að þeir í krafti hinnar úreltu og ranglátu kjördæmaskipunar hafi fengið kjörna nærri 38 af 100 af heildartölu allra þingmanna. Eftir er þá aðeins, til þess að breyt. öðlist fullt lagagildi, að hið nýkjörna Alþingi gjaldi breyt. samþykki sitt. Í því skyni er frv. lagt þér fram á ný, óbreytt vitaskuld, eins og síðasta Alþ. gekk frá því.

Ég vil leyfa mér að vænta þess, að málið fái hér skjóta og góða afgreiðslu hjá hv. þd., svo að þinghald þurfi ekki að verða langt að þessu sinni. Við teljum, sem að málinu stöndum, að með afgreiðslu þess á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, sé mikil bót fengin á því ranglæti, sem íslenzka þjóðin hefur átt við að búa um val fulltrúa til Alþingis, — úrbót, sem lengi hefur verið stefnt að að ná og að vísu nokkuð hefur þokað í áttina með fyrri breytingum, en þó nú mest með þeirri breyt., sem hér er ætlað að gera.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til sérstakrar n., er d. kjósi í því skyni, að hún fjalli um mál þetta sérstaklega og verði n. skipuð 7 mönnum, eins og var síðast, þegar málið var til umræðu í þessari hv. deild.