07.08.1959
Neðri deild: 12. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

Löggæsla á Keflavíkurflugvelli

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er aðeins í tilefni af því, að sú fsp., sem hér hefur komið fram og er mjög eðlileg, kemur hér fram við nokkuð sérstæðar kringumstæður. Enginn af hæstv. ráðh. er hér mættur. Það er þó vitað mál, að a.m.k. tveir ráðh. eru hér staddir í húsinu. Þó að utanrrh. sé að vísu ekki mættur hér, þá er hér mættur í húsinu bæði forsrh. og eins dómsmrh., og mér finnst full ástæða til þess, að þeir séu kvaddir til þess að hlusta á slíkar fsp. og svara því, sem um er spurt, — að þess sé óskað sérstakleg, og það vil ég hér með gera, að hæstv. forseti beiti sér fyrir því, að þeir ráðh., sem staddir eru í húsinu, komi til þess að hlýða á slíka fsp. sem þessa og svara því varðandi þetta mál, sem eðlilegt er að þeir geti svarað. Ég fer því eindregið fram á, að það séu gerðar sérstakar ráðstafanir til þess, að þessir tveir ráðh., sem sannanlega eru í húsinu, verði fengnir til þess að mæta hér á þingfundi og hlýða á fsp. þm. og svara. Ég sé ekki ástæðu til þess, að það sé haldið hér frekar áfram þingfundum, á meðan þeir sjá sér ekki fært að koma og hlýða á fsp. og óska þess, að hæstv. forseti beiti sér fyrir því, að þessir ráðh. komi hér og svari.