30.05.1960
Neðri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2625 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það, sem hæstv. ráðh. sagði hér, gefur mér tilefni til að taka ýmislegt fram.

Ég vil fyrst leyfa mér að benda á, að hæstv. ráðh. staðfesti með þögninni alveg það, sem ég sagði um Iðnaðarbankann og afskipti ríkisvaldsins af honum. Ríkið á talsvert mikla hlutdeild í Iðnaðarbankanum og ræður þar miklu. Hvernig skyldi standa á því, að iðnmrh. er látinn fara með það vald, sem ríkið hefur á bankanum, en ekki bankamálaráðherrann? Og hvernig ætli standi á því, að það er ekki kosið í þinginu í bankaráð Iðnaðarbankans? Það er vegna þess, að það hefur þótt eðlilegt, af því að hér var um sérbanka að ræða, 'að þau öfl í ríkisstarfrækslunni, sem hefðu þau mál með höndum sérstaklega, iðnaðarmálin, sem bankanum var ætlað að snúa sér að, hefðu þá einnig valdið til þess að ráða áhrifum ríkisins í bankanum. Nákvæmlega sams konar hugsun hefur legið til grundvallar því, að fram að þessu hefur landbn. hv. Alþ. verið ætlað að nefna menn í bankaráð Búnaðarbankans, en ekki Alþingi sem heild, og landbrh. að skipa formann bankaráðs Búnaðarbankans.

Það er auðvitað óhugsandi að mæla í móti því, að með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er um algera stefnubreytingu að ræða í málefnum Búnaðarbankans. Það er meiningin að yfirgefa þá stefnu, að þeim, sem sérstaklega er fenginn trúnaður og yfirráð landbúnaðarmála í ríkiskerfinu, sé ætlað að ráða í bankanum. Þessu á að hætta og það með því að fjarlægja bankann landbúnaðinum alveg hiklaust, og í stað þess á að taka upp sömu skipan og í hinum almennu viðskiptabönkum. Fram hjá því er vitanlega óhugsandi að komast, að það er stefnubreyting í þessu fólgin.

Það er látið í það skína, að það hafi þurft að taka þessa stefnubreytingu vegna þess, að einn flokkur hefði getað haft yfirráð yfir bankanum með hinum hættinum, sem hingað til hefur verið á hafður. En ég hef bent á, að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir það með því að fallast á þá brtt., sem gerð var í hv. Ed., að Stéttarsambandið tilnefndi einn af fulltrúunum í bankaráðið. Þá voru aftur komin þar nokkuð sérstök tengsl við bændastéttina, sem annars verða rofin, og þá var einnig nokkurn veginn víst, að enginn einn flokkur gat orðið alls ráðandi í bankanum. En það virðist ómögulegt að fallast á þetta, og við vitum náttúrlega vel, hver ástæðan er. Ástæðan er náttúrlega fyrst og fremst sú, að með þessu er ekki aðeins verið að koma á skipulagsbreytingu í Búnaðarbankanum, heldur er fyrst og fremst með þessu frv. verið að koma bankanum undir einhliða áhrif stjórnarflokkanna. Þess vegna verður þetta að vera einmitt svona, en má ekki vera öðruvísi, og þess vegna er ekki hægt að taka meira tillit til bændanna og þeirra samtaka en kemur fram í þessu frv. Það samrýmist ekki þeirri meginhugsun, sem á bak við liggur, en hún er sú, að stjórnarflokkarnir verði umfram allt að fá strax meiri hluta í Búnaðarbankanum, ekki til þess að vinna fyrir bændastéttina, það dettur engum í hug, sem þekkir þeirra vinnu, heldur til þess að geta ráðskazt þar, að svo miklu leyti sem þeir treysta sér til, með sitt pólitíska sjónarmið, setja sinn blæ á þá lánastefnu, sem þar verði komið í framkvæmd, t.d. í lánasjóðum landbúnaðarins o.s.frv.

Þetta atriði ræddi hæstv. ráðh. ekki. Hann talaði hér að mestu leyti út í hött. Hann ræddi alls ekki um þá stefnubreytingu, sem felst í frv. og hugsunin er að koma í framkvæmd. Það var raunar kannske ekki heldur von, að hann gæti nefnt þá ástæðu, sem liggur til grundvallar því, að ekki er hægt að fallast á miðlunartillögu eins og þá, að Stéttarsamband bænda tilnefni einn af fimm í bankaráðið. Hann var að tala um, að það væri kannske ekki heppilegt að fallast á þetta, af því að þessu væri ekki þannig komið fyrir í Útvegsbankanum. En eru það nokkur rök? Verður ekki að skoða hvert mál út af fyrir sig, um leið og það kemur upp, og þá í þessu falli að reyna að gera sér grein fyrir því, hvort það er eðlilegt eða óeðlilegt, að Stéttarsamband bænda eigi fulltrúa í stofnun eins og Búnaðarbankanum, og þá t.d., hvort þar á að slíta öll þau sérstöku tengsl, sem við bændastéttina hafa verið í gegnum landbn. Alþingis og landbrn.? Það er stefnan með þessu frv.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það yrði að renna sterkari stoðum undir bankann og gera honum breiðari grundvöll, — eitthvað í þá átt. Það væri eðlilegt, að bankinn hefði takmarkað traust, þar sem framsóknarmenn réðu í bankanum. Hæstv. ráðh. er alveg lifandi lýst með þessum málflutningi. Hvað mundi t.d. vera að segja um stofnun eins óg Iðnaðarbankann? Ætli það væri þá ekki eðlilegt, að sú stofnun hefði takmarkað traust, vegna þess að þar ráða sjálfstæðismenn yfirleitt öllu því, sem þeir vilja? Það er vafalaust alveg ágætt og ekkert við því að segja, vegna þess að það eru sjálfstæðismenn. Það er allt annað mál. Það er auðvitað allt í lagi, að þeir ráði öllum stofnunum, og ekki ástæða til að halda, að það veiki nokkuð traust manna á fyrirtækjum eða stofnunum! Og hvað á að segja um nýja Verzlunarbankann, sem á að setja upp? Af hvaða sauðahúsi halda menn að þeir verði, sem þar munu ráða ríkjum, pólitískt séð? Það verður sjálfsagt mjög blandaður kór þar. Vafalaust verður þar settur undir breiður grundvöllur, og ég man ekki, hvað og hvað það var, sem hæstv. ráðh. minntist á í því sambandi, rennt undir sterkum stoðum úr margs konar efnivið! Það verður víst víða föngum til sópað! Það verða ekki menn úr einum flokki, sem ráða húsum í Verzlunarbankanum! Eða hvað halda menn? Og hvað ætli mundi þá vera hægt að segja um þá stofnun, þegar þar að kemur, frá þessu sjónarmiði hæstv. ráðh.? Ætli það væri þá ekki eðlilegt, að sú stofnun gæti haft takmarkað traust, sem væri þannig byggð upp eins og löggjöfin, sem við vorum að samþykkja hér um daginn um Verzlunarbankann, gerir ráð fyrir? Það er vitað, að þar kemst enginn maður til nokkurra ráða á nokkurn hátt nema vera áður rækilega gegnumlýstur og prófaður pólitískt. Það þarf ekki að vera að tala neina tæpitungu um þetta, þetta vita allir.

Og þannig er hægt að taka hverja stofnunina eftir aðra, m.a. bankastofnanir. Það kemur auðvitað oft fyrir, að þannig stendur á, að það eru menn úr einhverjum sérstökum stjórnmálaflokki, sem þar ráða mestu þá og þá. En að það sé hægt að nota slíkt sem rök á þann hátt, sem hæstv, ráðh. gerði, m.a. að slíkar stofnanir geti ekkert traust haft fyrir það, slíkt er auðvitað fullkomin fjarstæða.

Ég hef bent á, að féllust menn á það sjónarmið, að það væri eðlilegt að koma þannig fyrir bankakerfinu, að enginn flokkur gæti haft hreinan meiri hluta í nokkrum banka, þá þyrfti alls ekki að gera það á þennan hátt, sem þeir nú gera ráð fyrir með Búnaðarbankann. Það þyrfti ekki að slíta þann banka svona úr sambandi við landbúnaðinn, þó að þessu ætti að koma fram. Og það þyrfti ekki heldur að koma því þannig fyrir, ganga þannig frá bankanum, að sú stjórnarklíka, sem nú ræður landinu, hefði þar algerlega hreinan meiri hluta, og sízt ástæða til slíks. Ef það hefur verið til þess fallið, að menn hefðu ekki fullt og almennt traust á bankanum, að framsóknarmenn réðu þar einir, hvað ætli megi þá segja, þegar búið væri að setja bankann undir þá valdasamsteypu, sem stendur að núv. ríkisstj.?

Hæstv. ráðh. var sem sagt að hafa áhyggjur af því, að það kynni að vera, að bankinn hefði ekki nógu víðtækt traust, þegar framsóknarmenn væru þar í meiri hluta. En ég vil spyrja: Heldur hann, að það traust vaxi, þar sem mest á ríður, þegar núverandi valdasamsteypa hefur fengið þar hreinan meiri hl.? Heldur hæstv. ráðh. það? Og ætlar hann að telja okkur trú um, að breyt. eins og þessi sé gerð til að efla almennt traust og áhuga fyrir stofnuninni? Kjarni breytingarinnar er sá, að valdasamsteypan, sem nú er, fái hreinan meiri hluta í bankanum. Og m.a. þess vegna má ekki hlusta á till. um, að Stéttarsambandið komi þar til greina. Það raskar þessu. Það er nefnilega ekki það eitt, sem vakir fyrir hæstv. ríkisstj., að koma því svo fyrir, að framsóknarmenn ráði þarna ekki einir. Þeir vilja taka þar öll ráðin til sín.

Það var dálítið broslegt að heyra hæstv. ráðh. vera að tala um þessi efni á þessa lund, þegar þess er gætt, að hv, sjálfstæðismenn ætluðu alveg að rifna hér á árunum, þegar löggjöfinni um Landsbankann og Útvegsbankann var breytt. Þá ætluðu þeir alveg að rifna, en þó var þannig ástatt um bæði Landsbankann og Útvegsbankann þá, að sjálfstæðismenn voru þar í algerum meirihluta og réðu þessum stofnunum alveg. Þeim fannst það ekkert óviðkunnanlegt, hv. sjálfstæðismönnum þá, af því að það voru þeir, sem áttu í hlut, og þeirra menn. Það var alveg ágætt, að þeir réðu þar öllu, og þá var það ekki líklegt, að það skerti neitt traust eða framgang stofnananna, þó að svo væri. Þeir ætluðu, eins og kunnugt er, alveg að ganga úr bjórnum út af því, að þessu var breytt, þessu var komið þannig fyrir, að enginn einn flokkur réði þar öllu. Þannig fer, þegar menn eru með látalæti, eins og hæstv. ráðh. óneitanlega var í þessu sambandi, í stað þess að tala hreinskilnislega um, hvað á þessari spýtu hangir.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri von, að ég talaði digurbarkalega um Búnaðarbankann eða búnaðarlánastarfið í landinu yfirleitt, eða hitt þó heldur. Og mér skildist á honum, að það væri síður en svo ástæða til þess og ég ætti í raun og veru að hafa mig hægan, því að frammistaða mín og framsóknarmanna þar væri ekki upp á marga fiska. Þetta var tónninn í því, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta. Þetta gefur mér tilefni til að ræða ofur lítið um þessi atriði, sem ég ætlaði mér þó alls ekki að gera, um lánamál. landbúnaðarins og sögu þeirra undanfarið.

Ég vil minna á í þessu sambandi, að 1944 –46 fór Sjálfstfl. með landbúnaðarmálin. Það hefur raunar ekki oft komið fyrir, að hann hafi náð að hrifsa þau mál til sín, en hann fór með landbúnaðarmálin þá. Og á þeim árum var ráðstafað öllum innstæðum þjóðarinnar, sem hún hafði eignazt á stríðsárunum. Ég hygg, að það hafi verið rúmar 600 millj. Það er sjálfsagt óhætt að þrefalda a.m.k. þessa fjárhæð, miðað við núverandi gengisskráningu og peningagildi. Þetta mundi sennilega svara a.m.k. til þess, að það hefðu verið 2400 millj. eða svo, miðað við núverandi verðmæti. Öllum þessum gífurlegu fjármunum, þessum stórkostlegu auðæfum var ráðstafað undir höfuðforustu Sjálfstfl., án þess að lánasjóðir landbúnaðarins fengju grænan eyri. Þeir fengu ekki einn einasta grænan eyri af öllu þessu fjármagni, og þeir voru ekki látnir lána neitt á þessum árum. Þeir voru alveg dauðar stofnanir. Öllum þessum gífurlegu auðæfum var ráðstafað án þess, að lánasjóðir landbúnaðarins fengju nokkur framlög.

En 1947 gátu sjálfstæðismenn ekki lengur haldið þessari aðstöðu sinni, og þá kom Framsfl. til, og hann fór með landbúnaðarmálin frá 1947 til 1958. Eitt hið allra fyrsta, sem gert var, — þá var búið að eyða öllum þessum gífurlegu auðæfum, svo að þá var við ramman reip að draga, — í sambandi við samningana um gengislöggjöfina 1950, var að tryggja lánasjóðum landbúnaðarins væn framlög af gengishagnaði þeim, sem þá kom fram. En það þurfti hörkusamninga við sjálfstæðismenn og varð að gera það að skilyrði fyrir stjórnarmyndun, að þessi framlög af gengisgróðanum fengjust. Og það var eitt af því, sem hreinlega var gert að skilyrði fyrir stjórnarmynduninni 1950 og að fallizt væri á gengisbreytinguna. Þá var líka sett löggjöf, sem tryggði ræktunarsjóði nokkurt fjármagn, nokkur framlög næstu árin. En það, sem mestu máli skipti, var, að framsóknarmenn beittu sér siðan í framhaldi af þessu fyrir því, að farið var að leggja stórfé til þessara sjóða á næstu árum með margvíslegu móti. Það var sumpart tekið af Marshallaðstoðinni og sumpart tekið að láni frá Alþjóðabankanum og að nokkru af greiðsluafgangi ríkissjóðs, sem varð á þessum árum. Og þetta fjármagn, sem Framsfl. þannig hefur gengizt fyrir að færi inn í lánadeildir Búnaðarbankans, skiptir hundruðum milljóna, í staðinn fyrir að á þeim tíma, sem sjálfstæðismenn fóru með þessi mál og auðæfunum var ráðstafað frá stríðsárunum, fékkst ekki neitt. Það er þessi munurinn á þeirri stefnu í þessu máli, sem í ramsfl. hefur staðið fyrir, og verkum Sjálfstfl.

Og nú er, eins og allir vita, byrjaður sami leikurinn og áður. Það er byrjað að hækka vextina og stytta lánin, og ætlunin er þar ofan í kaupið að koma á þannig verðlagi í landinu og efnahagsráðstöfunum yfir höfuð, að það verði stöðvun á framkvæmdum í landbúnaðinum, ekki síður en í öðrum greinum. Þannig á að spara lánsfé til landbúnaðarins á næstu árum. Svo kemur þessi hæstv. ráðh. hér og er að tala eitthvað um, að framsóknarmenn ættu að tala stillilega um þessi mál og helzt ekki að vekja máls á þeim.

Hver hefur svo orðið árangurinn af þessari nýju stefnu í landbúnaðarmálunum, sem í ramsfl. beitti sér fyrir 1947? Hver hefur orðið árangurinn? Árangurinn er fyrst og fremst sú stórkostlega uppbygging, sem hefur orðið í sveitunum á þessu tímabili. Hverjum dettur í hug, að þessi stórkostlega uppbygging hefði átt sér stað, ef farið hefði verið með lánamál landbúnaðarins eins og gert var á þeim árum, þegar Sjálfstfl. fór með landbúnaðarmál? Þá hefði orðið alger stöðvun í landbúnaðinum á þessum árum og afleiðingarnar orðið hörmulegar, ekki aðeins fyrir bændastéttina, heldur fyrir þjóðina alla.

Það fer ekkert á milli mála í þessu sambandi, að hér hefur Framsfl. ætíð orðið að sækja á, allan þennan tíma hefur hann orðið að sækja á brekkuna.

Hæstv. ráðh. er að tala um það hér, að sjóðir Búnaðarbankans séu illa staddir fjárhagslega, jafnvel talað um gjaldþrota sjóði í því sambandi. Það þurfti ekki neinar upplýsingar frá hæstv. ráðh. til þess, að mönnum væri ljóst, að það er ekki hægt að lána með þeim lágu vöxtum, sem framsóknarmenn beittu sér fyrir að væru hafðir á landbúnaðarlánum, nema með því að stofnlánadeildirnar fengju veruleg framlög úr ríkissjóði. Og þær hafa líka fengið veruleg framlög úr ríkissjóði. En það, sem fyrst og fremst hefur valdið erfiðleikum hjá stofnlánadeildum landbúnaðarins, eru ráðstafanir núv. ríkisstj. til þess að fella gengi krónunnar jafngífurlega og gert hefur verið. Það eru þessar ráðstafanir, sem hafa í för með sér gífurlegar búsifjar fyrir þessa lánasjóði eins og margar aðrar stofnanir í landinu.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. í þessu sambandi: Ber að skilja þessar slettur hæstv. ráðh. um, að stofnlánadeildir landbúnaðarins standi ekki vel efnalega, þannig, að hann sé með því að deila á Framsfl. fyrir það að hafa staðið fyrir því að taka það lánsfé á undanförnum árum, sem gert hefur verið, og leggja til þessara deilda Búnaðarbankans og lána það út aftur með hinum lágu vöxtum, sem gert hefur verið? Ber að skoða þessar slettur sem gagnrýni hans á þessum ráðstöfunum? Eða er þetta bara markleysa? Annaðhvort er þetta bara markleysa hjá hæstv. ráðh. og eins og hver annar skætingur eða þá að þetta er gagnrýni af hans hendi á Framsfl. fyrir að hafa staðið fyrir því að taka þessi lán og leggja þau inn í stofnlánadeildir landbúnaðarins og gera ráðstafanir til, að féð væri lánað út aftur með hinum lágu vöxtum.

Er hæstv. ráðh. að deila á Framsfl. með þessum slettum fyrir að hafa staðið fyrir þessu? Telur t.d. hæstv. ráðh. það stórkostlega ámælisvert, að bændum hafa ekki verið veitt þessi lán með gengisklásúlu, þannig að þeir þyrftu að borga þau með fleiri krónum, ef hæstv. ráðh. og félögum hans þóknaðist að fella krónuna svo og svo mikið síðar? Er það þetta, sem hæstv. ráðh. á við með þessu skrafi? Eða hvað á hæstv. ráðh. við, þegar hann er að tala um það í ámælistón í garð Framsfl., að hann hafi búið illa að lánasjóðum landbúnaðarins?

Það hefur verið útvegað stórkostlegt fjármagn til þessara lánasjóða, svo ríflega, að þessir lánasjóðir hafa á undanförnum árum getað lánað út á þær framkvæmdir, sem gerðar hafa verið, eftir vissri reglu, ræktunarsjóður og byggingar- og landnámssjóður. Það hefur verið geysilegt átak að útvega þetta fé, vegna þess að framfarirnar hafa verið miklar og vextir hafa verið lágir. Afleiðingarnar eru auðvitað þær, að þessir sjóðir skulda talsvert í erlendri mynt og þar er um nokkurn og vaxandi vaxtahalla að ræða. Og enn spyr ég hæstv. ráðh.: Hvað á hann við með skætingi sínum? Ef ekki ber að skilja hann sem harða ádeilu af hans hendi á þessa pólitík, að útvega þetta lánsfé til landbúnaðarins og lána út með þessum kjörum, þá verða þessi ummæli markleysa. Væri æskilegt að heyra, hvorn kostinn hæstv. ráðh. velur.

Að halda því fram, að sá vaxtahalli, sem kemur fram á þessum sjóðum vegna þessarar stefnu, sé óviðráðanlegur eða óhæfilegur, er ekki frambærilegt og allra sízt í munni þeirra manna, sem eru að beita sér fyrir því á þessu ári að auka álögur til ríkissjóðs um a.m.k. 450 millj. á ári. Það kemur sem sé í ljós, að það er hægt að jafna vaxtahallann á þessum sjóðum, eins og hann er, með fjárhæð, sem verður bara hégómi, þegar hún er borin saman við þær álögur, sem núv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, fjárhæð, sem er eitthvað á milli 10 og 20 millj. kr. Og þar á í hlut einn af þremur höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar. Þetta tal hæstv. ráðh. um illan viðskilnað á lánasjóðum í Búnaðarbankanum er því í hæsta máta óviðeigandi.