30.05.1960
Neðri deild: 95. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2976 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

175. mál, Háskóli Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að láta í ljós óánægju yfir því, hve seint þetta frv. er fram komið, þar sem það er ekki lagt fram á Alþ, fyrr en komið er að þingslitum, þó að það virðist hins vegar, að það hefði verið mjög auðvelt að leggja það fyrr fram. En ég álít, að það séu ekki sízt slík mál eins og þessi, sem Alþ. eigi að fá nægan tíma til þess að athuga, þegar um það er að ræða að stofna ný embætti, og þetta segi ég burt séð frá því, hvort þau embætti, sem hér um ræðir, séu nauðsynleg eða ekki. Ég álít, að við þurfum yfirleitt að stinga þannig við fótum í sambandi við embættismannafjölgun, að þingið eigi að fá nægilegan tíma til að athuga það í hvert skipti, sem farið er fram á fjölgun embættismanna af hálfu ríkisstj., og þess vegna segi ég þetta með tilliti til þess, að ég álít, að það eigi að vera almennt venja, að þegar ríkisstj, leggur til, að embætti séu stofnuð, þá sé það gert svo tímanlega, að þm. geti fengið nægan tíma til að kynna sér alla málavexti.

Því er að vísu haldið fram í grg. frv., að hér sé ekki um ný embætti að ræða. En mér sýnist þó á því, sem kemur fram í áliti landlæknis, að a.m.k. eitt embættið, stofnun prófessorsembættis í geð- og taugasjúkdómafræði, muni innan tíðar eða mjög fljótlega hafa það í för með sér, að stofnað verði annað embætti á eftir. En það kemur fram í áliti landlæknis, að hann telur starf Kleppsspítalans nú orðið slíkt og verkefnið þar svo fjölþætt, að ofviða megi kallast einum manni að sinna öllu í senn án aukinnar læknisaðstoðar frá því, sem nú er, stjórn sjúkrahússins, umönnun sjúklinga með allar tegundir geðsjúkdóma og kennslu í geðsjúkdómafræðum. Þess vegna sýnist mér, þó að það verði ekki kannske beinlínis niðurstaðan á þessu þingi, að þá mundi það mjög fljótlega, ef þetta prófessorsembætti verður stofnað núna og tengt saman við yfirlæknisstöðuna á Kleppi, leiða til þess, að stofnað verði annað yfirlæknisembætti þar. Og þetta er dálítið sýnishorn þess, að þegar verið er að koma á nýjum embættum, er jafnan byrjað á að segja, að þetta muni engan aukakostnað hafa í för með sér og til þeirra útgjalda, sem því fylgi, sé raunverulega búið að stofna áður. En áður en varir er þetta komið í þann farveg, að það þarf að bæta nýju embætti við sem afleiðingu af því, sem áður hefur verið gert og hefur verið fóðrað með því, að ekki yrði um frekari embættismannafjölgun að ræða, enda held ég, að það gefi auga leið, að það að stjórna jafnstórum spítala og Kleppsspítalanum á þann veg, að það fari sæmilega vel úr hendi, hlýtur að vera svo veigamikið starf, að það sé ofvaxið hverjum manni að ætla ofan á það að bæta því á sig að vera prófessor við Háskóla Íslands og gegna því starfi svo, að vel sé.

Hitt dæmið, sem hér liggur fyrir, í sambandi við aukninguna í verkfræðideildinni, sýnir líka, hvernig embætti verða til. Það er byrjað á því að láta ungan mann hafa einhvern styrk til kjarnfræðirannsókna, og áður en varir, er þetta komið inn á þá braut, að það þykir nauðsynlegt að gera þetta að föstu starfi og að prófessorsembætti.

Mér finnst ástæða til að segja þetta hér til þess að vekja athygli á því, hvernig embætti verða yfirleitt til, og ef sú þróun á ekki að halda hér áfram, eins og verið hefur að undanförnu, að embættismannakerfið fari sívaxandi, þarf að fara að stinga betur við fótum. Alþ. þarf að veita þessum málum meiri athygli en það hefur hingað til gert. Yfirleitt hafa störf þess verið fólgin í því að segja já og amen og leggja blessun sína yfir slíkar till., þegar þær koma frá ríkisstj., í stað þess að slík mál ættu að fá sem vandlegasta athugun hér á þinginu, og helzt ætti það að vera alveg sérstök n., sem hefði það til meðferðar að kynna sér till., sem koma fram um embættismannafjölgun hér í þinginu, en ekki verið að fara í eina eða aðra n. eftir því, hvaða málefni eða hvaða starfssvið viðkomandi embætti snertir. En það er lítið dæmi þess, hvað menn hugsa nú lítið um það að stöðva sig á þeirri braut að fjölga embættum, t.d. það frv., sem var til meðferðar hér í þinginu rétt áðan, þar sem lagt var til að bæta við tveimur nýjum bankaráðsmönnum og einum bankastjóra. En það er einmitt athugunarleysi eða gáleysi, vil ég jafnvel segja, bæði ríkisstj. og Alþ., sem á sinn þátt í því, hve embættismannakerfið hefur þanizt ört út á undanförnum árum og heldur áfram að þenjast út, ef ekki verða settar frekari hömlur til þess að sporna á móti því.